Edda Sigurðardóttir lífeindafræðingur fæddist í Reykjavík 12. júní 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 28. desember 2010. Foreldrar hennar voru Guðný Jónsdóttir kjólameistari, f. 16. desember 1915, d. 24. desember 1996, og Sigurður Norðdahl starfsmaður í útlendingaeftirliti og kvikmyndagerðarmaður, f. 6. nóvember 1914, d. 11. janúar 1972. Edda var einkabarn Guðnýjar en á eina systur samfeðra, Kristínu Sigurðardóttur, f. 17. september 1947. Uppeldisfaðir Eddu, eiginmaður Guðnýjar, var Kristján Elíasson stjórnarráðsfulltrúi, f. 6. ágúst 1911, d. 12. desember 1988. Edda átti eina dóttur, Guðnýju Einarsdóttur, f. 26. apríl 1969. Faðir hennar er Einar Hákonarson listmálari, f. 14. janúar 1945. Guðný var gift Pascal-Ange Mucchielli, f. 2. júlí 1972, þau skildu. Guðný á tvo bræður samfeðra Hákon Einarsson, f. 31. mars 1971, og Hjálmar Einarsson, f. 5. ágúst 1975. Edda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962. Að stúdentsprófi loknu hóf hún nám í meinatækni og sótti verklega kennslu á rannsóknastofu Landspítalans, því námi lauk hún árið 1964. Edda starfaði á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg í Svíþjóð árið 1966. Eftir að heim kom sneri hún aftur til starfa á rannsóknastofu Landspítalans. Útför Eddu fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 14. janúar 2011, og hefst athöfnin kl. 15.
Edda vinkona mín er látin. Undanfarin ár hefur hún barist við óvæginn,
ömurlegan sjúkdóm. Hélt þó andlegri skerpu og reisn til hinstu stundar. Við
kynntumst sumarið 1962 þegar við fórum til Noregs að loknu stúdentsprófi að
vinna á fjallahóteli í Guðbrandsdalnum. Vorum í hópi átta íslenskra stúlkna
sem héldu á vit ævintýra í útlöndum. Þessi sumardvöl leiddi til ævarandi
vináttu okkar Eddu og Kristínar Erlingsdóttur sem einnig var í hópnum. Við
Edda urðum herbergisfélagar og fljótlega gerði ég mér grein fyrir að hún
var framúrskarandi vel að sér um nær alla hluti og sönn heimskona, þó þetta
hafi verið hennar fyrsta utanlandsferð eins og okkar flestra.
Þegar heim kom urðum við heimagangar hver hjá annarri og kynntumst
foreldrum og vinum. Ég komst að því að Edda hafði alist upp á róttæku,
bóhemísku menningarheimili og bar þess vitni.
Haustið 1962 hóf Edda nám í því sem síðar hét meinatækni og enn síðar
lífeindafræði og starfaði síðan á Landspítalanum nær óslitið þar til hún
neyddist til að hætta vegna veikinda. Um störf hennar þar eru aðrir mér
færari að fjalla, veit þó að hún var virt og mjög vel fær í sínu fagi. Við
störfuðum aldrei saman, þ.e. á sömu deild, þó við værum í sömu fagstétt, nú
lífeindafræði. Það var ákaflega gott að leita til hennar með úrlausnir
ýmissa verkefna/vandamála sem upp gátu komið hjá einyrkjum úti í bæ.
Haustið 1966 fórum við saman til Gautaborgar og störfuðum þar í ár, á
Sahlgrenska sjúkrahúsinu. Okkur fannst nú ekki mikið fjör í Gautaborg og
notuðum hvert tækifæri þegar við áttum frí til að skreppa til
Kaupmannahafnar. Þar voru vinir okkar í námi og hægt að fá gistingu. Svo
voru dansstaðir opnir allan sólarhringinn og jafnvel hægt að fá sér snúning
í morgunsárið. Ógleymanleg er sumarleyfisferð okkar til Búlgaríu og
Istanbúl. Allar ferðir með Eddu voru með menningarlegu ívafi og þegar við
vorum búnar að fá nóg af strandlífinu, ákváðum við að fljúga til Sófíu og
skoða borgina. Mátti muna sinn fífil fegri eins og margar
austantjaldsborgir á þeim tíma. Minnisstæðust er þó flugferðin tilbaka í
afar fornfálegri rússneskri vél. Mikil ókyrrð og hossingur og flugfreyjan
endaði í fanginu á okkur, sturluð af hræðslu. Við vorum alveg kúl, enda
vanar að ferðast með rútu á Íslandi. Istanbúl var annað ævintýri. Í
Gautaborg kynntist Edda Einari Hákonarsyni listmálara, þau bjuggu saman um
tíma og eignuðust Guðnýju sem ólst upp í faðmi Eddu og fjölskyldu hennar.
Þær mæðgur voru einstaklega samrýndar og miklar vinkonur og studdu hvor
aðra í blíðu og stríðu. Margar ferðir fór Edda til Parísar meðan Guðný bjó
þar, og eftir að Guðný flutti heim, fylgdust vinir þeirra af aðdáun með
hvernig þær tókust saman á við nýjar aðstæður vegna þessa grimmilega
sjúkdóms. Þær voru þó ekki einar. Vinir Eddu reyndust henni framúrskarandi
vel, sýndu tryggð sína og vináttu í verki og þó freistandi sé að nefna
nöfn, ætla ég ekki að gera það, listinn yrði langur og eflaust gleymdi ég
einhverjum. Undanfarið ár bjó hún í Sóltúni í eins góðu yfirlæti og hægt er
við þær aðstæður sem forsjónin bjó henni. Undantekning ef hún var ein þegar
maður kom við. Það var enda alltaf gaman og upplýsandi að koma til hennar,
hugurinn skarpur og frjór, engin þörf á að gúgla maður fletti bara upp í
Eddu.
Við ferðuðumst mikið saman, bæði innanlands og utan. Það var auðvitað
samfelld veisla, hvort sem var um söguslóðir fornar eða nýjar, tökustaði,
leikara eða persónur úr bíómyndum, bókmenntir, bardagastaði eða gríska
goðafræði alls staðar var hún heima.
Edda kom til okkar þegar við bjuggum í Michigan í Bandaríkjunum og fórum
við akandi til New Orleans og Flórída. Upplifðum stemmninguna í
suðurríkjunum, þræddum jassbúllurnar og æfðum bragðlaukana á kreóla matnum.
Mér fannst stundum skorta á áræðið hjá Eddu og Jósef heitnum bónda mínum,
augliti til auglitis við framandi sjávarfang, en þau voru ekkert hikandi og
afar samtaka þegar kom að ís og súkkulaði. Ógleymanlegt ferðalag og oft
rifjað upp. Hún sagði mér reyndar síðar að það hafi verið dálítið erfitt að
fara frá Guðnýju, rétt tveggja ára. Síðar var Guðný oftast með í för, þær
heimsóttu okkur til Ólafsfjarðar þegar við bjuggum þar, svo við fengum að
þekkja Guðnýju frá barnsaldri. Eftirminnileg ferðalög voru á æskuslóðir
Kristínar vinkonu okkar í Kelduhverfi. Þá var leigt hús og svipast um í
Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur gengin í áföngum frá Dettifossi.
Ökuferð um Evrópu á 9. áratugnum var vettvangur fræðslu og upplýsinga um
heimsstyrjaldir og sögu austurríska keisaradæmisins. Einnig komumst við að
því, okkur til nokkurrar undrunar, að þýskan sem við lærðum í menntaskóla,
var þarna þegar hún var dregin upp af þolinmóðum Þjóðverjum.
Við fórum saman í fjölmargar borgarferðir, Edda vissi alltaf hvað helst
ætti að gera eða sjá í London, París, Berlín, Búdapest eða Madrid. Þetta
voru ekki verslunarferðir, miklu frekar til að njóta og skoða litríkt
mannlíf, leikhús og listasöfn. Kom þó fyrir, ef ég var að dást að einhverri
flík sem hún var í, að hún sagði Þú lést mig kaupa þetta í London/París.
Ekki furða að mér þætti hún fín! Auðvitað lét ég Eddu ekki gera neitt,
þetta var hennar skemmtilegi húmor en það ráðskaðist enginn með hana. Hún
var einstök vinkona, vitur, töff, trygg og skemmtileg og hver á nú að
leggja drög að leikhúsferðum og öðrum menningarviðburðum? Hennar verður
sárt saknað.
Elín Guðmundsdóttir.