Jóhanna Jóhannesdóttir fæddist í Reykjavík 18. mars 1911. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. 1. janúar 2011. Foreldrar hennar voru Jóhannes Guðbjartur Jóhannesson f. 14. maí 1880 d. 10. mars 1967 og Þorbjörg Eleseusdóttir f. 27. júní 1872 d. 12. maí 1967. Bróðir hennar var Kristján Jóhannesson f. 23. september 1909 d. 26. júlí 1985. Systkini sammæðra voru Jóna Guðmunda Bjarney Jónsdóttir f. 1897 d. 1929 og Eleseus Markús Jónsson f. 1895 d. 1921. Þegar Jóhanna var á þriðja ári fluttist hún með foreldrum sínum vestur í Arnarfjörð þar sem hún ólst upp að Svalbarða. Um tvítugt fluttist hún suður til Reykjavíkur. Jóhanna giftist 1938 Páli Pálssyni f. 16. ágúst 1906 d. 1. ágúst 1962. Börn þeirra eru 1) Gréta Pálsdóttir f. 9. desember 1938. Eigimaður hennar var Ragnar Arinbjarnar f. 12. júlí 1929 d. 23. nóvember 1997. Börn þeirra eru a) Arnar Arinbjarnar, f. 27. febrúar 1960, sambýliskona Arnfríður Tómasdóttir, b) Guðrún Arinbjarnar f. 6. september 1964 og c) Halldór Arinbjarnar f. 1. september 1965 sambýliskona Karin Elisabeth Paalsson 2) Páll Pálsson f. 1. nóvember 1946 kvæntur Margréti Yngvadóttur f. 8. september 1946. Börn þeirra eru a) Jóhanna Lára Pálsdóttir f. 10. ágúst 1968 gift Arjan van der Weck f. 14. júní 1967, b) Berglind Pálsdóttir sambýlismaður Sigurjón Ingi Sigurðsson f. 9. maí 1973, c) Páll Ragnar Pálsson f. 28. júlí 1980 3) Jóhannes Haraldur Pálsson f. 6. júní 1952 kvæntur Kristínu Gunnarsdóttur f. 15. mars 1953. Börn þeirra eru a) Páll Ingi Jóhannesson f. 24. maí 1974, b) Hjördís Katla Jóhannesdóttir f. 7. janúar 1980, c) Gunnar Davíð Jóhannesson f. 6.febrúar 1986 og d) Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir f. 8. október 1987. Barnabarnabörn Jóhönnu eru 11 talsins. Jóhanna fluttist til Kópavogs 1947 ásamt eiginmanni og börnum og bjuggu þau á Kársnesbraut 50 (áður nr. 18). Jóhanna bjó á Kársnesbrautinni til 1978 þegar hún fluttist á Kópavogsbraut 85 þar sem hún bjó ein og hélt heimili til 99 ára aldurs eða í 32 ár. Síðustu mánuðina dvaldist hún á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Jóhanna var heimavinnandi húsmóðir þar til maður hennar veiktist og fór hún þá að vinna úti, ýmis störf, lengst af sem saumakona á Landakoti þar sem hún vann þar til hún hætti vegna aldurs. Eftir starfslok var hún mjög virk í starfi aldraðra í Kópavogi fram á tíræðisaldur. Jóhanna verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag 14. janúar 2011 og hefst athöfnin kl. 13.
Mín elskulega tengdamóðir, Jóhanna Jóhannesdóttir, lést á nýársdag sl. tæplega 100 ára að aldri. Jóhanna var gift Páli Pálssyni, bifreiðastjóra, sem lést langt um aldur fram árið 1962.
Jóhanna var afskaplega ljúf, hógvær og yndisleg kona. Aldrei mátti neitt fyrir henni hafa, og hvað sem gert var, fannst henni of mikið. Jóhanna var róleg og yfirveguð sem hvergi tranaði sér fram. Hún var einstaklega þægileg í viðmóti og hafði góða nærveru.Jóhanna eða amma Jó eins og við gjarnan kölluðum hana, var mikil sauma- og hannyrðakona, saumaði fatnað fyrir fólk hér fyrr á árum og hafði einnig mikla ánægju af hvers konar hannyrðum. Snillingur var hún með bæði prjóna og heklunál. Grænir fingur ömmu Jó leyndu sér ekki heldur, garðurinn á Kársnesbrautinni og Kópavogsbrautinni báru þess glögg merki. Annaðist amma Jó garðinn sinn allt til 95 ára aldurs.
Amma Jó tók sér ýmislegt fyrir hendur eftir að hún hætti störfum, m.a. fór hún á námskeið í ensku, bókbandi, sundi og ýmsu fleiru. Amma Jó var aldrei aðgerðarlaus, fann sér alltaf eitthvað til að gera. Amma Jó var mjög virk í starfi aldraðra í Kópavogi og prjónaði og heklaði mikið fyrir hvern basar. Alltaf var boðið í kaffi þegar basar var hjá öldruðum.
Amma Jó hafði sínar skoðanir sem hún fór vel með. Hún fylgdist vel með bæjar- og landsmálum og var ekki alltaf sammála síðasta ræðumanni. Henni þótti vænt um bæinn sinn enda meðal frumbyggja Kópavogs frá 1947. Jóhanna var fyrir nokkru búin að sækja um vistun hjá Kópavogsbæ en þeir sáu sér ekki fært að verða við ósk hennar. Ekki var hún alveg sátt við að kjósa í síðustu kosningu sem Reykvíkingur en sem vistmaður á Grund var hún á kjörskrá í Reykjavík.
Nú eru næstum 39 ár eru síðan við kynntumst og tók hún mér strax mjög vel. Oft höfum við átt gott spjall saman, um lífsins gildi. Aldrei hefur borið skugga á okkar kynni.
Eitt sumar þegar við hjónin bjuggum í Danmörku við nám, kom amma Jó í heimsókn en það var árið 1976 og var það hennar fyrsta utanlandsferð.
Ánægjuleg var ferðin sem við hjónin fórum með ömmu Jó árið 1983 á hennar æskuslóðir eða vestur í Arnarfjörð og að hennar gamla bæjarstæði Svalbarða og síðan í heimsókn til góðrar frænku á Þingeyri.
Margar sögurnar var amma Jó búin að segja frá sinni æsku þegar hún var
fyrir vestan. Þar var lífið ekki alltaf dans á rósum og mikið þurfti að
hafa fyrir að sækja björg í bú. Fór hún í mörg sumur með móður sinni sem
réðst sem kaupakona á bæi við Arnarfjörð.
Þegar amma Jó varð 95 ára, bauð hún öllum ættingjum, vinum, frændsystkinum til veglegrar veislu, og gaman var að sjá hve margir sáu sér fært að mæta. Einnig bauð hún til veglegrar veislu sumarið 2006 til minningar um eiginmann sinn Pál á hans 100 ára afmælisdegi.
Jóhanna bjó ein í sinni íbúð þar til í apríl á síðasta ári þegar hún fluttist á Dvalarheimilið Grund. Hún var svo heppin að samtímis henni fluttist þangað æskuvinkona hennar og frænka Petrína Jóna Elíasdóttir, Peta. Voru þær saman í herbergi síðustu mánuðina enda búnar að vera vinkonur nánast frá fæðingu og þar sem aldrei bar skugga á. Já, það geta eflaust ekki margir sagt að þeir hafi átti vinkonu eða vin í 96 ár, en þannig var það hjá ömmu Jó og Petu.
Ánægjulegt var síðastliðið aðfangadagskvöld, en þá var amma Jó með okkur, og held ég að hún hafið komið meira af vilja en mætti. Kvöldið var stutt en ánægjulegt amma Jó borðaði með okkur og opnaði sína pakka og var henni síðan ekið heim á Grund, var þá orðin lúin og þreytt. Þetta var síðasta ferð sem amma Jó fór utan Grundar og mun varðveitast í minningu okkar.
Ég vil þakka Dvalarheimilinu Grund fyrir hlýlegar móttökur þegar Jóhanna fluttist þangað sem heimilismaður, einnig vil ég þakka starfsfólki á deild V2 fyrir þá góðu umönnun sem hún fékk þar. Á dvalarheimilinu Grund líður öllum vel.
Lækkar lífdaga sól.
Fauk í faranda skjól,
fegin hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þinn frið,
gleddu og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.
(Herdís Andrésdóttir)
Blessuð sé minning þín minningin um þig mun lifa.
Þín tengdadóttir,
Kristín Gunnarsdóttir.