Lára Aðalheiður Jónsdóttir fæddist að Svarfhóli í Álftafirði 23. desember 1921. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar 7. janúar 2011. Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Maríu Guðnadóttur, f. 22.7. 1899, d. 7.1. 1977 og Jóns Júlíusar Bentssonar, f. 26.7. 1901, d. 8.5. 1981. Lára var elst fimm barna þeirra hjóna. Systkini hennar eru: Matthías Jónsson, f. 17.7. 1923, d. 25.9. 2001. maki Þórey Þorbergsdóttir, f. 22.9. 1926, d. 21.4. 2008. Guðrún Jónsdóttir, f. 8.11. 1925, maki Elías Þorbergsson, f. 22.9. 1926, d. 11.5. 2005. Friðgeir Bent Jónsson, f. 20.11. 1927, maki Gerður Rafnsdóttir, f. 27.2. 1935, d. 13.7. 1989. Sigurður Guðni Jónsson, f. 21.12. 1935, d. 18.9. 2007. Lára giftist 30.12. 1951 Baldvini Björnssyni, f. 16.8. 1921, d. 9.5. 1988. Foreldrar hans voru Sigfríður Björnsdóttir, fædd í Ólafsfirði 18.2. 1898, d. 3.10. 1978 og Björn Einar Friðbjörnsson, fæddur á Skeggjabrekku 21.2. 1897, d. 22.10. 1924. Lára og Baldvin eignuðust 2 börn, þau eru: 1) Friðgerður Sigfríð Baldvinsdóttir, f. 19.9. 1955. Maki Sverrir Pétursson. Börn þeirra eru a) Orri, f. 5.11. 1983, unnusta Helga Hjálmarsdóttir, f. 7.9. 1984. b) Lára Rán, f. 11.10. 1989. 2) Axel Bessi, f. 13.5. 1962, maki Halldóra Pétursdóttir, f. 19.10. 1966. Börn þeirra eru: a) Aðalsteinn Svanur Grétarsson, f. 14.9. 1986. b) Baldvin Axelsson, f. 24.1. 1991, d. 14.7. 1991. c) Dagný Ósk Axelsdóttir, f. 7.1. 1994. Lára ólst upp hjá foreldrum sínum sem hófu búskap í Meiri-Hattardal 1925 og þar ólst Lára upp til fullorðnisára. Lára naut venjulegrar grunnskólamenntunar þess tíma í barnaskólanum í Súðavík. 1942 fór hún í Húsmæðraskólann á Blönduósi eins og flestar ungar stúlkur gerðu á þeim tíma. Lára ólst upp við venjuleg sveitastörf fram yfir unglingsárin. Síðan lá leiðin í vist á Ísafjörð, vinnu í eldhúsi í Héraðskólanum í Reykjanesi, Lára vann á saumastofu hjá Einari og Kristjáni á Ísafirði. 1945 fer Lára til Keflavíkur og vinnur þá á saumastofu hjá Jóhanni klæðskera. 1947 fer Lára og gerist matráðskona í Hafnarfirði fyrir sjómenn sem komu víðsvegar að af landinu, þá var farið á vertíð sem stóð frá áramótum til vordaga. Þar kynntist Lára Baldvini Björnssyni fá Ólafsfirði sem seinna varð eiginmaður hennar. Um haustið 1948 flytja þau til Ólafsfjarðar og hefja þar búskap. 1954 flytja þau að Meiri-Hattardal og hefja þar búskap ásamt systur Láru, Stellu og manni hennar Elíasi. Árið 1960 er jörðinni skipt og hafinn undirbúningur að því að byggja tvö ný íbúðarhús og útihús. Lára starfaði í kvenfélaginu Ósk í Súðavík, tók þátt í félagsstörfum eins og þorrablótum og álíka viðburðum. Árið 1979 flytjast þau til Súðavíkur og fer Lára þá að vinna í rækju. Árið 1997 flytur Lára inn í nýtt hús í Súðavík eftir að byggðin var færð til. Þar bjó hún til 2004 er hún flytur til dóttur sinnar á Ísafirði en var mikið á sumrin í litla húsinu sínu meðan kraftar leyfðu. Síðustu mánuðina dvaldi hún á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðar. Útför Láru fer fram frá Súðavíkurkirkju í dag, 22. janúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Við höfum nýlega kvatt gamla árið og heilsað nýju ári. Á nýjársdag horfum við á sólina rísa og boða komu nýs árs, gamla árið var liðið í aldanna skaut  með minningum liðins tíma og nýtt tekur við. Hringrás lífsins í allri sinni dýrð. Um áramót lítum við til baka og rifjum upp minningar frá árinu sem er að líða.

Eins  er farið þegar ástvinur fellur frá við lítum til baka yfir farinn veg. Það er ekkert nema dásamlegt  þegar öldruð kona fær hvíld.  En samt situr eftir söknuður. Söknuður þess sem var.

Þannig er mér farið er ég kveð móður mína, ótal minningar renna í gegnum hugann. Móðir mín fékk sama dánardag og móðir hennar, Guðrún Guðnadóttir sem dó 1977.

Mamma bjó í Hattardal ásamt systkinum sínum, 3 bræðrum og einni systur, einnig voru á heimilinu afi hennar og amma, Bent Ekesdal og Friðgerður Þórðardóttir, auk sumarbarna og vinnufólks. Mamma ólst upp við venjuleg sveitastörf fram yfir unglingsár, síðan lá leiðin í vist á Ísafirði. Mamma vann einnig á saumastofu hjá Einari og Kristjáni á Ísafirði. Árið1946 fóru þær systur til Keflavíkur. Þar leigðu þær sér herbergi saman. Þær fengu vinnu á saumastofu hjá Jóhanni klæðskera. Ekki höfðu þær tök á að fara heim um jólin. Ég man að mamma sagði mér frá því er þær systur tóku lán fyrir jólin til að kaupa sér útvarp til að hlusta á yfir hátíðina. Ragna frænka þeirra bauð þeim heim á aðfangadagskvöld. Á gamlárskvöld fóru þær inn í Reykjavík að skoða mannlífið eins og ungum stúlkum sæmir.

Foreldrar mínir hófu búskap á Ólafsfirði 1948. Pabbi var sjómaður og mamma saumakona. Þá fóru flestir sjómenn á vertíðir suður á land og komu ekki heim fyrr en á vordögum, þannig að margar konur voru einar heima með börn og buru.  Árið 1954 fluttu þau frá Ólafsfirði vestur á firði og hófu búskap í Hattardal í Álftafirði. Þau tóku við búinu ásamt Stellu systur mömmu  og eiginmanni hennar Ella, þegar faðir þeirra systra, Jón Bentsson hætti búskap. Fyrstu árin búa þær sameignarbúi í gamla bænum í Hattardal. Í minningunni var alltaf nóg pláss í gamla bænum þó Stella og Elli væru með 4 börn og við systkinin tvö.

Síðan er farið að huga að því að byggja tvö íbúðarhús og útihús. Hattardal var skipt í tvær jarðir, Hattardalur 1 og Hattardalur 2. Stella og Elli fluttu í sitt hús 1961 og mamma og pabbi 1965. Bróðir minn Axel Bessi er kjörsonur, sonur frænku okkar Dóru Arinbjarnardóttur sem er bróðurdóttir ömmu Guðrúnar Guðnadóttur.

Alltaf var mikill samgangur milli bæjanna og leið ekki sá dagur að þær systur hittust ekki og börnin gengu út og inn á báðum heimilum.  Mamma fór oft á veturna til vinnu í Frosta í Súðavík og eins fór hún í rækju til Björgvins á Langeyrinni, þar held ég að hún hafi kunnað vel við sig og þær kellur sem þar unnu oft tekið gott spjall yfir rækjubandið. Þegar þau búa í Hattardal eru níu bæir í byggð í Álftarfirði og húsfreyjurnar allar á besta aldri, stundum man ég eftir því að á kvöldin voru flestar konurnar komnar á línuna, þá var sveitasími til að spjalla saman um menn og málefni, þannig að samskipti voru kannski hvað síst minni en í dag. Mamma og Stella voru alltaf í kvenfélaginu og stundum léku þær á Þorrablótum.

Alltaf man ég eftir börnum í sveit, oftast einn til tveir og stundum fleiri í skamman tíma. Ekki var hlaupið út í bakarí eða búðina til að kaupa í matinn, allt var bakað. Búnar til sultur og kæfa og unninn matur úr fiski og kjöti. Áður en frystikistur urðu almenningseign var farið einu sinni í viku út í Frosta, þar höfðum við frystihólf og sótt til vikunnar, komið var við í kaupfélaginu og verslað inn, þannig að allt varð að skipuleggja. Algengt var að fólk færi í sunnudagsbíltúra inn í Álftafjörð, það var á þeim tíma þegar vegurinn endaði fyrir utan Hattareyrina, oft var þá komið við í Hattardal og drukkið kaffi, spjallað og hlegið, þannig að gestagangur var töluverður.

Árið 1979 bregða þau búi og flytja til Súðavíkur. Mamma fer að vinna í fiski og pabbi fer að stunda rækjuveiðar í Djúpinu. Þau áttu Hattardalinn áfram, pabbi heyjaði á sumrin og seldi hestamönnum hey, þannig að Hattardalurinn var sumarlandið og höll minninganna. Árið 1996 fórum við mamma og börnin mín ásamt  skyldmennum á ættarmót til Noregs, en þaðan var Bent afi mömmu. Þegar hún kom til Haugasunds og ók upp Ekisdalinn rifjuðust upp margar sögur sem Bent afi hafði hafði sagt frá Noregi og fannst henni hún þekkja sig á þessum slóðum. Eftir þessa ferð var mamma alltaf í bréfasambandi við ættingja í Haugasundi, sendi jólakort og myndir. Um 1997 komu hjón frá Kanada, þetta var frænka mömmu. Afi hennar hafði flutt til Kanada og var frænkan komin til að rifja upp ættartengsl sem mamma kunni vel skil á, það vafðist ekkert fyrir henni móður minni að bjóða þessu ágæta fólki gistingu. Henni fannst það ekki koma til greina að fólkið færi að gista á hóteli. Hún talaði íslensku og gestirnir ensku. Allt gekk þetta upp. Síðan hefur mamma alltaf sent Lusillu frænku íslenskt dagatal og skrifað henni bréf fyrir jólin.

Hún móðir mín er kannski ein af þessum kvunndagshetjum úr hópi þess fólks sem fæddist á fyrstu áratugum síðustu aldar. Hún fæddist inn í upphaf umbreytinga í íslensku samfélagi en bjó lengur en flestir hennar jafnaldra við frumstæða búskaparhætti og samgöngur. Ætíð nægjusöm og gerði ekki kröfur til annarra um að þjóna sér, en var ætíð tilbúin að bjóða allt sem hún átti og meira til. Var glöð og sátt við lífshlaupið þrátt fyrir allt.

F.h. barna, tengdabarna og barnabarna,

Friðgerður Baldvinsdóttir.