Jónas Helgason fæddist 18. nóvember 1947 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu í Æðey 20. janúar 2011. Foreldrar hans voru Guðrún Lárusdóttir húsfreyja í Æðey, f. 11. september 1918, d. 27. apríl 2001, og Helgi J. Þórarinsson, bóndi í Æðey, f. 15. apríl 1920, d. 1. ágúst 1979. Jónas var elstur sex systkina og eru þau: Þórarinn, Guðmundur Lárus, Einar, Guðjón og Kristín Guðrún. Jónas giftist Katrínu S. Alexíusdóttur 20. mars 1982. Foreldrar hennar eru: Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 10. júlí 1926, og Alexíus Lúthersson, f. 28. september 1921, d. 11. september 1996. Synir þeirra eru: Alexíus, f. 31. ágúst 1982, í sambúð með Eddu Maríu Hagalín og eiga þau eina dóttur, Katrínu Fjólu, Magnús Helgi, f. 16. júlí 1984, í sambúð með Sigrúnu Helgadóttur og eiga þau einn son, óskírðan. Jónas Kristján, f. 1. júní 1990. Jónas ólst upp í Reykjavík þar til á vordögum 1961 að hann fluttist með foreldrum og systkinum til Æðeyjar þar sem þau hófu búskap. Jónas tók þar við rekstri búsins alfarið 1979 er faðir hans lést, en hafði áður, í kringum 1970, hafið búskap á móti þeim. Jónas útskrifast sem búfræðingur frá Hvanneyri 1966 og sest aftur á skólabekk 1970 er hann tekur gagnfræðapróf frá Héraðsskólanum í Reykjanesi. Jónas sest á búnaðarþing 1995, sem fulltrúi fyrir Æðarræktarfélag Íslands og hefur verið fulltrúi þar síðan. Átti sæti í stjórn Æðarræktarfélags Íslands, fyrst sem aðalmaður 1984-1985, varamaður frá 1993-1994 og aftur aðalmaður frá 1994 og tekur við sem formaður Æðarræktarfélags Íslands 1999, til dánardags. Jónas sinnti félagsmálum í nokkrum mæli, sat í hreppsnefnd Snæfjallahrepps, tók þátt í endurvakningu ungmennafélags sveitarinnar, var félagi í Kiwanishreyfingunni. Samhliða búskapnum hóf hann hin síðari ár að ferja ferðamenn um Djúpið, í Jökulfirðina og norður á Hornstrandir. Útför Jónasar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. janúar 2011, og hefst kl. 15.
Skjótt skipast veður í lofti. Það vissi sennilega enginn betur en mágur minn Jónas Helgason bóndi í Æðey, alinn upp við duttlungafullt veðurfar Vestfjarða frá blautu barnsbeini. Engu að síður bar andlát hans að bæði snöggt og sviplega og er mikið reiðarslag fyrir alla sem að honum standa.
Það voru ákveðin tímamót í fjölskyldu minni fyrir röskum þrjátíu árum þegar stóru systur mínar tvær kynntust Æðeyjarfjölskyldunni og örlögin höguðu því þannig að þær giftust elsta og yngsta bróðurnum í þessum stóra og samheldna systkinahópi. Í rauninni breytti það tímatalinu í minni vitund því ekki einungis eignaðist ég tvo hálfgildings bræður sem ég hef alltaf getað reitt mig á, heldur komu til sögunnar á næstu árum sex dásamleg systkinabörn sem flest voru rauðhærð og kraftmikil, með hrokkið hár og freknur eins og þau eiga kyn til. Þar að auki kynntist ég eyjabúskap og lærði eitt og annað um æðardún og veðurskeyti.
Eins og gefur að skilja er búskapur á eyju ekki einfaldur og margt hefur breyst á þessum þrem áratugum. Framfarir á sumum sviðum en afturför á öðrum. Háhraðanettenging hefur tekið við af gamla sveitasímanum. Djúpbáturinn Fagranes og Héraðsskólinn í Reykjanesi hafa hvorutveggja liðið undir lok og gert vetursetu afar erfiða. Fyrir um tuttugu árum einfaldaði Jónas búskapinn og fluttist fjölskyldan suður yfir vetrartímann svo strákarnir gætu sótt skóla en notið sumarsins fyrir vestan. Aðaláherslan er enn á dúntekjuna en þjónusta við ferðamenn sem vilja komast í óbyggðir Hornstranda hefur færst í aukana síðustu ár og tekið við af þeim búskap sem stundaður hefur verið í Æðey síðustu árhundruðin.
Öllum þessum breytingum aðlagaðist Jónas. Þetta var hans heimur og hann naut sín hvergi betur en í þessari hrjóstrugu fegurð. Hann var höfðingi heima að sækja og fátt þótti honum skemmtilegra en að taka á móti gestum. Sigla með þá inn í fallegu höfnina í Æðey sem lætur engan ósnortinn og þar þykir eitt magnaðasta bæjarstæði á Íslandi. Synirnir voru varla vaxnir úr grasi þegar þeir fóru að leiða gesti um eyjuna, sögðu fornar sögur og höfðu yfir örnefni sem eru engu lík og svo voru þegnar konunglegar veitingar hjá Kötu á eftir. Af þessari arfleifð var hann stoltur og skyldi engan undra. Honum var gestrisni í blóð borin og gilti þá einu hvort í hlut ættu heimsfrægar rokkstjörnur eða sauðsvartur almúginn. Allir fengu sama viðurgjörning.
Jónas var mikill fjölskyldumaður og var vakinn og sofinn yfir velferð stórfjölskyldunnar. Hann naut þess að hóa öllum saman á stórhátíðum og njóta afurðanna með sér. Hann var greiðvikinn, mannblendinn og virkur í félagsmálum. Æðarræktarfélag Íslands sér nú á eftir formanni sínum til margra ára.
Jónas þekkti Djúpið eins og lófann á sér og traustari skipstjóri á þeim slóðum er vandfundinn. Fátt haggaði ró hans og hann vissi upp á hár hvenær væri óhætt að leggja á. Mér er minnistætt þegar Fagranesið strandaði á skemmtisiglingu, í blíðskaparveðri, fyrir utan Æðey á Jónsmessunótt 1996. Allar ytri aðstæður voru hagstæðar en hátt í þrjú hundruð manns voru um borð sem þurfti að ferja í eyjuna og koma svo upp á fastalandið. Þarna tók Jónas aðgerðastjórnina eins og hann hefði verið með þrautæfða stórslysaáætlun í handraðanum. Enda gekk allt eins og smurt. Allir farþegarnir voru komnir á fastalandið í morgunsárið heilir á húfi. Að vísu var kaffið í Æðey búið og búrið tómt en það skipti ekki svo miklu. Í þessum aðstæðum sá ég mág minn stærstan.
Lífshlaup Jónasar sýnir okkur glöggt að hvorki verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið. Ungur lenti hann í sjávarháska á Djúpinu en komst giftusamlega af. Hann lifði með erfiðan hjartasjúkdóm frá því á fertugsaldri og síðustu tuttugu árin gat brugðið til beggja vona. Sem það gerði oft. Tíminn og tækniframfarir í læknavísindum og voru honum hliðholl. Það kom sér vel að hafa stáltaugar í þessum raunum og aldrei lét hann á því bera að hann gekk ekki heill til skógar. Fyrir rúmu ári síðan héldum við að hann væri búinn að kveðja en þá var tíminn greinilega ekki kominn og hann náði einu gjöfulu ári enn með fjölskyldunni; tveir synir hans luku prófum í sínum skólum, kærkominn afadrengur leit dagsins ljós og litla Katrín augasteinninn hans var honum ómældur gleðigjafi. Fyrir það ber að þakka.
Það er sjónarsviptir af Jónasi og fráfall hans markar tímamót.
Við Steingrímur og dætur okkar þökkum samfylgdina. Elsku Kata, Jónas, Alli, Maggi, og fjölskyldur, hugur okkar er hjá ykkur.
Kristín K. Alexíusdóttir.