Bjarni Jónsson fæddist 7. júlí 1922, hann lést í Víðihlíð í Grindavík 20. janúar 2011. Foreldrar: Guðrún Eggertsdóttir (1898 – 1971) og Jón Þorkelsson (1896 – 1986) sem bjuggu í Kothúsum í Garði, þar sem Bjarni átti bernsku- og æskuár. Systkini: Eggert (1921 – 2005), Aðalsteinn (f. og d. 1926), Sveinn (1927 – 1978) og Guðríður Sigurlaug (1932). Bjarni kvæntist Ástu Árnadóttur (1922) frá Landakoti, Sandgerði, þann 2. september 1944. Börn þeirra: Arnar Magnús (1944 – 1947), Arnar (1948) maki Guðrún Eiríksdóttir (1947), Guðrún (1949) maki Hörður Gíslason (1948), Sigríður Júlíana (f. og d. 1956) og Sigríður Júlía (1957) maki Björn Sigurðsson (1956). Barnabörnin eru: Helga (1970), Ásta (1973), Bjarni (1973), Gunnar (1977), Einar Örn (1977), Árný (1992) og Unnur (1996). Barnabarnabörnin eru: Emil (1993), Jón Axel (1997), Einar Árni (2002), Kristjana Júlía (2003), Hilmir Gauti (2005) og Álfrún (2006). Bjarni og Ásta bjuggu í Keflavík, lengst af á Skólavegi 26 og svo á Aðalgötu 1. Bjarni ólst upp í Garði, vann ungur við fiskvinnslu og útgerð. Sat skóla í Garði og síðan á Laugarvatni, stundaði nám í Iðnskóla Keflavíkur og lauk þaðan sveinsprófi 1952 og meistaranámi í húsasmíði 1955. Bjarni vann við umsjón húsnæðis og mannvirkja á Keflavíkurflugvelli 1948-1992, lengst af sem yfirverkstjóri við verklegar framkvæmdir. Bjarni var félagslyndur og jafnréttissinnaður maður. Hann var virkur þátttakandi í fjölmörgum samfélagsverkefnum, sat í sóknarnefnd Keflavíkurkirkju í 14 ár, þar af formaður í fjölda ára. Bjarni var félagi í Karlakór Keflavíkur, var formaður byggingarnefndar félagsheimilis kórsins. Útför Bjarna verður frá Keflavíkurkirkju í dag, 31. janúar 2011 og hefst athöfnin kl. 13.
Hann kynntist fiskvinnslu ungur og útgerð á sama hátt og ungt fólk gerði löngum þar. Á fyrri hluta 20. aldar var í Garðinum blanda útgerðar, fiskvinnslu og landbúnaðar og tók hann þátt í því öllu. Minningar frá góðum uppvaxtarárum urðu honum því kærari sem fram leið. Foreldrarnir voru traustar manneskjur, sem bjuggu á eignarjörð sinni Kothúsum og systkinin ólust upp við það atlæti sem best gerðist þó efnagæðum væri í hóf stillt. Guðrún móðir Bjarna var Garðmaður, mikilvirk húsmóðir. Jón sjómaður og vélstjóri á sínum yngri árum og síðar viðgerðarmaður á Keflavíkurvelli, ættaður úr Reykjavík. Stundaði manna lengst garðyrkju með, eljumaður svo eftir var tekið.
Bjarni lærði húsasmíði í Keflavík hjá Þorsteini Árnasyni, ættuðum úr Garði. Hann lauk meistaranámi 1955 frá Iðnskólanum í Keflavík og kenndi þar síðar um skeið. Hann starfaði frá 1948 hjá verktökum á Keflavíkurvelli og hjá Varnarliðinu frá 1951 er það kom hingað að nýju eftir stríð. Hann var mikilvirkur þrekmaður og úrræðagóður smiður enda valdist hann snemma til forystu, verkstjóri og svo um langt skeið forstöðumaður þeirrar starfsemi og verka er hann vann að. Þau eru mörg mannvirkin af ýmsum toga, sem hann hefur haft meiri og minni afskipti af á vellinum við endurbyggingu, breytingar og viðgerðir. Hann lét af störfum á áttræðisaldri og var þá í hópi þeirra sem lengst unnu hjá Varnarliðinu og forverum þess.
Það er forvitnilegt að líta til samskipta fólksins sem vann hjá varnarliðinu og þess fólks sem byggði vallarsvæðið. Bjarni var hófsamur jafnaðarmaður, og ætla má að hann hafi verið vel sáttur við flugvöllinn í heiðinni og þá möguleika sem hann gaf til framfara í landinu. En lítið var honum um alla hermennsku. Skilja má að ráðamönnum hefur verið ljóst hvað í honum bjó, sendu hann til náms og kynningar til Bandaríkjanna, sem var lærdómsríkt fyrir hann og gerði hann hæfari til að þjóna sínu hlutverki . Honum þótti vænt um þá tæknilegu uppfræðslu sem hann fékk þar. Hann kappkostaði að sýna faglega framgöngu í öllu, en nærri sér hleypti hann aldrei hinum erlendu gestum. Hann var strangheiðarlegur maður og það má ætla með vissu að ekki í nokkurt skipti hafi hann haft í sér spenning þegar farið var um gæsluhlið, sem urðu ekki ófá skipti á langri starfsævi.
Lífsförunautur hans er frá Sandgerði , ekki farið út fyrir Suðurnesin með það, þó kynnin hafi hafist á síldarsumri norðan lands. Það varð löng og farsæl sambúð, þar sem listakonan Ásta Árnadóttir, málari, saumakona og verslunarmaður og hinn trausti hófsemdar- og heiðursmaður mynduðu eina heild, sem öllum sem þeim kynntust þótti vænt um.
Saman voru þau virkir þátttakendur í svo mörgu góðu sem horfði til framfara og styrkingar mannlífi í sinni byggð. Kirkjustarfið, kórastarf og margt annað félagsstarf og vinahópar urðu þeim lífsfylling og ánægja að geta um langt skeið lagt góðu lið. Bjarni gegndi formennsku í sóknarnefnd Keflavíkur lengi, þau bæði mikilvirk og samtaka í stuðningsstarfi við kirkjusamfélagið og félagar hans í Karlakór Keflavíkur fólu honum formennsku í byggingarnefnd er þeir byggðu félagsheimili sitt. Þeim Ástu auðnaðist að ferðast víða um lönd, m.a. með góðum vinum í ferðahópi sem kenndi sig við Eddu.
Og svo var auðvitað heimilið, húsið sitt hönnuðu þau og byggðu sjálf og börnin fengu allt það atlæti sem frekast var á þeirra færi. Bjarni og þau bæði voru reglufólk, þurftu hvorki áfengi eða tóbak, þó afskiptalaus með það gagnvart öðrum. Bjarni reyndar strangtrúr stúkustarfi úr bernsku Garðsins þar sem Una sagði þeim að vel mætti fara um lífsveginn án þeirra efna, þó því gegndu nú ekki allir eins og gengur.
Bjarni var vel á sig kominn og virkur þátttakandi eftir starfsdaginn, þó kom þar hin síðari misseri að minnissjúkdómur lagðist að honum og síðasta spölinn þáði hann frábæra umönnun fagfólks í Víðihlíð í Grindavík, þar sem hann tók við ævikvöldinu af sinni innvígðu rósemi, sáttur og þakklátur fyrir svo margt.
Hér kveður velviljaður friðar- og heiðursmaður og eftirlifandi maka og lífsförunauti er vottuð sérstök samúð.
Hörður Gíslason.