Hallberg Hallmundsson fæddist að Brú í Stokkseyrarhreppi 29. október 1930. Hann lést 28. janúar 2011. Faðir hans var Hallmundur Einarsson frá Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, bóndi, sjómaður og smiður og móðir hans var Ingibjörg Bjarnadóttir, saumakona, frá Túni í Hraungerðishreppi. Hallberg var yngstur átta systkina; elst var Ingveldur, síðan Andrés, Þórunn, Agnes Helga, Magnea (eftirlifandi), Einar (eftirlifandi) og Bjarni. Hallberg ólst upp í Reykjavík frá fjögurra ára aldri og gekk í Austurbæjarskólann og síðan í Menntaskólann í Reykjavík. Lauk B.A. prófi í sögu og landafræði við Háskóla Íslands 1954. Las spænsku við Háskólann í Barcelona. Blaðamaður við Frjálsa þjóð á árunum 1954-1960. Starfaði jafnframt við bókaútgáfuna Iðunni, las þar prófarkir, þýddi barnabækur og hannaði bókakápur. Kvæntist bandarískri konu, May Newman, fæddri Schechner, árið 1960 og fluttist sama ár vestur um haf. Hallberg starfaði í New York í rúma tvo áratugi við ritstjórn alfræðibóka og ritaði jafnframt og bjó til prentunar hundruð greina, bæði nafngreindra og ónafngreindra, fyrir önnur alfræðirit. Lokaritstjóri í hálfu starfi við vikuritið Business Week frá 1984 til 2002, en þá flutti hann til Íslands. Hallberg skrifaði umsagnir um íslenskar bækur fyrir World Literature Today og var einn af ráðgjöfum þess um val bóka til umsagnar. Hallberg stundaði þýðingarstörf, bæði af og á íslensku, allt frá því hann flutti utan. Ritverk: 15 ljóðabækur, tvö smásagnasöfn. Ljóðaþýðingar (1992-2010), meðal annars: 100 kvæði (Emily Dickinson), Ariel (Sylvia Plath), Þistlar (Ted Hughes), Líttu niður ljósa tungl (Walt Whitman), Snjókarlinn (Wallace Stevens), Að kveikja sér í vindli (Charles Bukowski), Þögnin (García Lorca, 2010). Umsjón með útgáfum: Anthology of Scandinavian Literature, ritstjóri, veljandi og þýðandi, 1966; Icelandic Folk and Fairy Tales, meðritstjóri og þýðandi, Reykjavík, 1987. Mörg ljóða sinna þýddi Hallberg á enska tungu og birti í bandarískum tímaritum og safnritum. Hallberg þýddi einnig fjölda bóka á og af íslensku og öðrum Norðurlandamálum (barnabækur, listaverkabækur, skáldsögur, ljóðabækur, fræðibækur og fleira) sem gefnar voru út á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kanada; dæmi: Undir kalstjörnu eftir Sigurð A. Magnússon (1985), Orðabók andskotans eftir Ambrose Bierce (2000), Einhvers konar ég eftir Þráin Bertelsson (2004). Hallberg skrifaði margar greinar, langar og stuttar, á ensku um íslensk og norræn málefni og einnig fjölda greina um bókmenntaleg og sagnfræðileg efni. Á árunum 1971-89 þýddu May og Hallberg þrettán bækur á ensku fyrir Iceland Review, meðal annars verk um Ásmund Sveinsson og Nínu Tryggvadóttur; fyrst í þeirri röð var Norðan við stríð eftir Indriða G. Þorsteinsson. Hallberg gaf út ritröðina Bandarísk skáld, alls átta bækur. Minna þekkt hér á landi eru kverin sem hann kallaði Chapbooks en þau komu öll, fjórtán talsins, út árið 2005; það fyrsta var On Gnita Heath (Snorri Hjartarson), það síðasta The Firstborn of Light (Baldur Óskarsson.) Útför Hallbergs fór fram í kyrrþey.
Þremur mánuðum áður en Hallberg dó, færði ég honum ljóðabókina Á barmi næturinnar, sem er úrval úr ljóðum hans en hann hafði valið ljóðin í bókina sjálfur. Vegna heilsubrests höfðu honum fallist hendur áður en hann kom verkinu á prent, en Jóhann Páll Valdimarsson hjá Forlaginu tók að sér að gefa verkið út, án þess að Hallberg frétti nokkuð af því, fyrr en á áttræðisafmælinu hans í október síðastliðnum. Þetta gerði Jóhann Páll ekki síst vegna vináttu föður hans og Hallbergs, en Hallberg var fyrsti starfmaður bókaútgáfunnar Iðunnar og sá fyrsti sem þýddi bækur Enyd Blyton á íslensku, það er að segja Baldintátu bækurnar sem Valdimar gaf út. Síðasta ósk Hallbergs var sú að óbirtar ljóðaþýðingar hans yrðu gefnar út. Þetta eru verk sem hann hafði lagt til hliðar þegar lífslöngun hans brast eftir að hann missti May og nokkru seinna eigin heilsu. Sonnetturnar í ljóða-bókinni Á barmi næturinnar eru tileinkaðar May og Birthday Letters munu koma út í þýðingu Hallbergs síðar á dánarári hans.
Fulbright styrknum sem ég fékk á Íslandi fylgdi sú ljúfa skylda að nema bandarískar bókmenntir í Bandaríkjunum. Ekki grunaði mig þá hver örlagavaldur í lífi mínu og Hallbergs væri falinn í þessu verkefni. Einn af kennurum mínum í New York háskólanum hélt mikið upp á bandarísku skáldkonuna Emily Dickinson. Ég bað Hallberg að þýða nokkur ljóð efir þetta snilldarskáld og gerði síðan þátt um skáldkonuna fyrir Ríkisútvarpið. Á eftir fylgdu ljóð Sylviu Plath og Ann Sexton og útvarpsþættir um þær, svo og útvarps-ljóðaleikritið Þrjár konur eftir Sylviu Plath sem ég leikstýrði í Ríkisútvarpinu; þar með var Hallberg kominn á fullan skrið við ljóðaþýðingar og á næstu mánuðum kemur út bók þar sem fjögur bandarísk skáld eru kynnt í seríunni sem Hallberg setti af stað fyrir 13 árum og kallaði Ljóðakver; þar er um að ræða ljóð eftir Anne Sexton, William Carlos Williams, Carl Sandburg og Alan Dugan.
Hallberg þýddi bók Sigurðar A. Magnússonar Undir kalstjörnu á ensku. Þegar Sigurður A. Magnússon sendi Hallberg eintak af þýðingu sinni á ljóðabálki Walts Whitman, Söngurinn um sjálfan mig, skrifaði Sigurður í bókina: [Þakkir ...] og vitanlega líka fyrir hana Emily á íslensku! Mörg íslensk ljóðskáld halda mikið upp á þessar þýðingar Hallbergs sem hann gaf nafnið 100 kvæði (1994). Hallberg bauð mér að vera viðstaddur þegar hann var útnefndur til verðlauna fyrir þýðingar sínar úr ensku á íslensku; áður hafði hann fengið verðlaun fyrir að þýða af íslensku yfir á ensku. Athöfnin fór fram að Gljúfrasteini. Eftir athöfnina vatt Sigurður A. Magnússon sér að Hallberg og sagði eitthvað á þessa leið: Ég tók eftir því þegar Snorri Hjartarson var heiðraður með sýningu í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem meðal annars eitt ljóða hans var sýnt í mörgum erlendum þýðingum, að á einum stað höfðu allir þýðendurnir gert mistök út af einu orði nema þú. Hallberg kannaðist við þetta, hafði séð sýninguna, en ekki minnst á þessi mistök starfsbræðra sinna við neinn. Vandinn snerist um eitt orð sem getur búið yfir fornri merkingu, en er notað á allt annan hátt í nútímamáli. Þetta var einmitt eitt af því sem ég hef alltaf haft mjög gaman af í textavinnu föðurbróður míns, að hann sem bjó hálfa ævina í New York, vegna þess að falleg gyðingastúlka fékk Fulbright styrk til að koma til Íslands, kunni betur íslensku en aðrir sem ég hef kynnst.
Árni Blandon Einarsson