Ingvar Anton Antonsson fæddist á Ísafirði 5. ágúst 1940. Hann lést á heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði 26. janúar 2011. Foreldrar hans voru Guðmundína Kristín Vilhjálmsdóttir, f. 21. september 1915 á Ingjaldssandi, d. 23. janúar 2009, og Anton Halldór Ingibjartsson, f. 20. maí 1907 á Ísafirði, d. 15. febrúar 1992. Systkini Ingvars eru Guðný Debóra, f. 1934, Gerður, f. 1936, Ingibjartur, f. 1945, d. 2005, og Vilhjálmur Gísli, f. 1949. Eftirlifandi eiginkona Ingvars er Erla Gerður Pálsdóttir, f. 24. september 1941 á Bólstað, Kaldrananeshreppi, Strandasýslu. Þau giftu sig 24. desember 1961. Foreldrar hennar eru Ása Guðríður Loftsdóttir, f. 16. júní 1919 á Bólstað, og Páll Áskelsson, f. 12. júlí 1918 á Kaldrananesi, Strandas., d. 10. maí 1993. Börn þeirra eru: 1) Ragnheiður Ása, f. 20. ágúst 1960, maki Ketill Elíasson, f. 1956. Ása á 4 börn og 3 barnabörn, þau eru: a) Alexía Nótt, f. 1976, á dótturina Ásdísi Rún, b) Guðrún Ósk, f. 1980, á dótturina Rebekku Lind, c) Iðunn Ýr, f. 1986, á soninn Björn Daníel, d) Ásmundur Gunnar, f. 1988. Ketill á 2 börn og 7 barnabörn; 2) Ingibjartur Anton, f. 3. október 1961, maki Auður Bjarnadóttir, f. 1963, og eiga þau þrjú börn: a) Anton Bjarni, f. 1987, b) Hugrún Ösp, f. 1989, maki Magni Rafn Jónsson, f. 1987, c) Haukur, f. 1995; 3) Hrönn, f. 2. september 1963; 4) Sædís, f. 11. mars 1965, maki Þorbergur Guðmundur Jóhannesson, f. 1946, þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn: a) Ingvar Þór, f. 1987, maki Fríða Ástdís Steingrímsdóttir, f. 1990, þau eiga einn son, óskírðan, b) Fannar Freyr, f. 1989, c) Tinna Dögg, f. 2000; 5) Páll, f. 27. júní 1969, á eina dóttur, a) Erla Guðný, f. 1994; 6) Gerður Sif, f. 8. júlí 1976, maki Eyvindur Gauti Vilmundarson, f. 1977, þau eiga tvær dætur, a) Anna Sigyn, f. 2004, b) Agnes Sunnefa, f. 2006. Ingi Toni fór ungur til sjós. Fyrstu sjóferðina fór hann níu ára en byrjaði fyrir alvöru 15 ára gamall á síðutogara, um tvítugt reri hann á netavertíð úr Keflavík. Þess utan var hann alla tíð á skipum frá Ísafirði og Súðavík og var þá mest róið með línu. Skipstjórnarpróf tók hann 1958. Ingi Toni var skipstjóri um tíma á línu en oftast var hann stýrimaður eða bátsmaður. Hann reyndi líka ýmis önnur veiðarfæri, var á síldarvertíð, handfærabátum og einnig rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi. Sjómannsferli Inga Tona lauk svo eftir 20 ár á togaranum Guðbjarti ÍS-16 Fram til starfsloka vann hann hjá Netagerð Vestfjarða. Ingvar verður jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju í dag, 5. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi.
Það er ekki hægt að lýsa þér með örfáum línum og því ætlum við ekki að reyna það. Þú varst sá besti pabbi sem nokkrir óþekktarangar gátu hugsað sér og allt  of sjaldan sögðum við þér hversu mikilvægur þú varst okkur.

Við huggum okkur við það núna að við nýttum okkur tækifærið og sungum það til þín í sjötugsafmælinu þínu í sumar. Tár þín og bros voru bestu viðbrögð sem við gátum óskað okkur.

Nú ætlum við saman
að syngja eitt lag
því sjötíu árum
er fagnað í dag,
við Inga Tona heiðrum
þennan indæla mann
en ýmislegt mætti nú
segja um hann.

Barnsskónum sleit hann
með pompi og pragt
en prúður og stilltur...
væri einum of mikið sagt,
hann var óþægðarpúki
með ísfirskum brag
og ofvirkur væri
hann talinn í dag.

Níu ára kappinn
varð kokkur á sjó
en kjarkinn þar
fljótlega úr honum dró,
þegar viðbrenndan
hafragraut bar hann á borð
það borðuðu hann allir,
en sögðu ekki orð.

Þegar Erlu hann kynntist
fór Amor á stjá
og örinni tafarlaust
skaut hann þau á,
ástin í brjóstunum
blossaði þá
hann bað hana að giftast sér,
hún sagði já.

Ísfirskt er blóðið
í æðunum hans
allur hann ljómar
þegar stígur hann dans,
með Erlu í fanginu
flýgur hann um
og fögnuð það vekur
hjá afkomendum.

Börnin svo hafa þau
búið til sex
og býsna hratt
kringum þau hópurinn vex,
hann afi er svo góður,
þau elska hann öll
og afi kann sögur
um dverga og tröll.

Toni af ástríðu
í ferðalög fer
og fjölskyldu sína
þá tekur með sér,
á Dýrfirskum kvöldum
rís dásemdin hæst
hann dreymir í húsbíl
að gista þar næst.

Á skíðum hann arkaði
um fjöllin blá
á undan sér göngumenn
nokkra þá sá,
loks er hann þeim náði
uppgefinn var
við æfingu landsliðsmenn
hitti hann þar.

Ýmislegt fyrir sér
ennþá hann kann
en árin þau sett hafa
mark sitt á hann,
en karlinn gott húsráðið
kunni við því
hann keypti sér rúm
sem er titringur í.

Þó karlinn sé harður
eitt sinn haltur þó gekk
og hnjálið og mjaðmarlið
nýja þá fékk,
en kúra þá
vild´ann ei konunni hjá
hann kvaðst alveg gagnslaus,
það hlyti hún að sjá.

Fjölmörg ár Toni
hjá Tanganum vann
þeir töldu sig eiga
þennan duglega mann,
samt kom nú að því
hann út þaðan gekk
og afsalið Magni
í Netagerð fékk.

Sko alla tíð
hafði hann unnið á sjó
að endingu fannst honum
samt komið nóg,
í netagerð letruð
var lífssaga hans
þar lifir á spjöldunum
orðbragð þess manns.

Garðinn sinn hafa þau
skrautblómum skreytt
Skemmtun og gleði
það báðum fær veitt,
Þar Toni oft syngur
með hugljúfum hljóm
Sko helvítis arfinn
hann er líka blóm.

Toni og Erla
þau elskast mjög heitt
Árin þau hafa því
hreint ekki breytt,
Þau svífa í dansi
svo dillandi létt
Og dreymandi faðmast þau
brosandi og þétt.

Kæri pabbi, þú veist
að við elskum þig öll
Þú öryggi veitir
líkt og stórbrotin fjöll,
Hér endum við svo
þennan afmælisbrag
Það er indælt
að vera hér saman í dag.

(G.G.)

Við elskum þig pabbi.


Ása, Ingibjartur, Hrönn, Sædís, Páll og Gerður Sif.