Ingibjörg Jóhannsdóttir fæddist í Reykjavík 31. október 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans 11. febrúar 2011. Foreldrar hennar voru Soffía Bjarnadóttir, f. 8.11. 1924, og Jóhann M. Kjartansson, f. 5.2. 1921, d. 29.4. 1991. Systkini Ingibjargar: Kjartan O. Jóhannsson, Jóhann Egill Jóhannsson og Anna Sigríður Jóhannsdóttir. Árið 1974 giftist Ingibjörg Þóri Gunnarssyni f. 24.8. 1946. Foreldrar hans: Elín Þórðardóttir, f. 28.3. 1922, d. 20.5. 1988, og Gunnar Helgason, f. 30.9. 1922. Systkini Þóris eru: Helgi Gunnarsson, Katrín K. Gunnarsdóttir, Gunnar Örn Gunnarsson og Sæmundur Gunnarsson. Ingibjörg og Þórir eignuðust tvö börn: Gunnar Egil Þórisson, f. 15.12. 1974, maki hans er Bríet Þorsteinsdóttir, dóttir þeirra er Elma Lind, f. 25.10. 2007. Soffíu Rut Þórisdóttur, f. 9.5. 1977, maki hennar er Þorsteinn Már Þorsteinsson, f. 16.11. 1975, sonur þeirra er Þórir Ingi, f. 21.9. 2006. Eftir gagnfræðaskóla starfaði Ingibjörg m.a. hjá Landsbanka Íslands. Hún lagði stund á leiklistarnám við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og útskrifaðist þaðan árið 1972. Hún lék um tíma á fjölum Þjóðleikhússins, enn fremur lék hún í nokkrum sjónvarpsleikritum. Ingibjörg rak um langt árabil veitingastaðinn Matstofu Austurbæjar í Reykjavík ásamt manni sínum. Árið 1991 söðluðu þau um og fluttu til Tékklands þar sem þau ráku veitingastaðinn Restaurant Reykjavík. Útför Ingibjargar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 18. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 15.
Að heilsast og kveðjast er lífsins gangur en þó er alltaf svo sárt að kveðja þá sem manni þykir vænt um. Og það á við í dag, þegar ég kveð mína fallegu æskuvinkonu, hana Íu.
Við kynntumst aðeins 9 ára gamlar þar sem við vorum á leiðinni í skólann. Labbandi eftir hitaveitustokknum, snýr þessi snaggaralega stelpa sér að mér og segir; Vilt þú verða samferða í skólann? Ég játti því og síðan höfum við verið samferða, - í þó nokkra áratugi.
Þetta var á árunum þegar krakkar fóru í útileiki. Það var farið í sto, yfir, brennó, parís, Frímann fór á engjar og mærin fór í dansinn. Það var nú oft gaman þá.
Stundum fórum við á skauta niður á tjörn. Tókum bara strætó; þá voru krakkar ekki keyrðir á milli eins og í dag. Móðuramma Íu vann í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og við fórum stundum í heimsókn til hennar og fengum kók og köku. Mér fannst það algjört ævintýri.
Ía átti þrjár föðursystur sem bjuggu allar saman hjá mömmu sinni, föðurömmu Íu og nöfnu. Þær kepptust allar við að dekra stelpuna. Ein af þeim fór oft til útlanda sem var nú ekki algengt þá, og færði henni alls konar föt og fínerí man ég.
Síðan liðu barnaskólaárin og við tóku unglingsárin. Ía gerðist flugfreyja, fór í leiklistarskóla Þjóðleikhússins og útskrifaðist þaðan. Ég man hversu stolt ég var af vinkonu minni þegar hún bauð mér og mömmu minni á sýningu sem nemendurnir í leiklistarskólanum settu upp á útskriftarárinu sínu. Þau léku verk eftir Halldór Laxness; mig minnir að það hafi verið Salka Valka.
Svo kom að því að við stofnuðum fjölskyldur, en alltaf héldust vináttuböndin tryggu. Ía eignaðist góðan lífsförunaut, hann Þóri, þeim fæddist sonurinn Gunnar Egill og seinna dóttirin Soffía Rut. Þau eru yndislegir krakkar, stolt hennar og yndi. Svo komu tengdabörnin og barnabörnin.
Fyrir rúmum 20 árum, þegar flauelsbyltingin brast á í Tékkóslóvakíu, eins og landið hét þá, flutti hún ásamt manni sínum til Prag. Það var mikið og stórt ævintýri sem þau fóru út í þar. Ég man að pabba hennar leist ekkert á þetta. Fyrstu árin þar úti kenndu þeim margt. Þau settu upp glæsilegan veitingastað, sem þau nefndu Restaurant Reykjavík. Þar var gott að koma og þúsundir Íslendinga hafa komið þar við á ferðalagi sínu um Prag. Ía og Þórir voru líka þekkt fyrir að taka á móti hundruðum Íslendinga á hverju ári. Þau buðu þessu fólki heim til sín í höfðinglegar garðveislur við mikinn fögnuð gesta. Þau réðust í að gera upp búgarð og gerðu hann að glæsihöll sem þau kölluðu Litla-Ísland. Þarna opnuðu þau einnig menningarhús sem heitir Leifsbúð, en þar hafa margir íslenskir listamenn haft aðsetur við listsköpun sína.
Einu sinni fórum við vinkonurnar allar saman út að heimsækja Íu. Það var eitt stórt ævintýri. Það var hattadagur, kampavínsdagur, veisludagur og svo dönsuðum við saman úti í garði hjá henni. Hún kunni svo sannarlega að taka á móti okkur og við kölluðum þetta blúnduferðina.
Við Haukur fórum líka í nokkrar ferðir til hjónanna í Prag og þar vorum við leidd áfram af þeirra höfðinglegu gestrisni. Meðal annars sigldum við með þeim á Moldá í öskrandi rigningu og keyrðum með þeim til Þýskalands. Þetta voru góðir og skemmtilegir dagar og minningar frá þessum ferðum geymi ég í hjarta mínu. Ía og Þórir birtust mér svo alls óvænt í Amsterdam þegar ég var þar ásamt Hauki að halda upp á 50 ára afmæli mitt. Ía var svo mikil heimskona.
Árið 2009 ákváðu þau hjónin að eiga líka heimili á Íslandi. Þau festu kaup á yndislegri íbúð Í Kópavogi, en á þeim tíma hafði Ía greinst með krabbamein. Síðustu tvö árin reyndust henni erfið, en hún var þó alltaf jákvæð og bjartsýn. Þórir og börnin þeirra stóðu þétt við hlið hennar í þessari baráttu og báru hana á höndum sér.
Elsku hjartans, fallega vinkona mín; þakka þér alla tryggð og vináttu í áranna rás. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í nýjum heimkynnum. Ég bið að heilsa Hauk mínum.
Margt ég vildi þakka þér
og þess er gott að minnast
að þú ert ein af þeim sem mér
þótti gott að kynnast.
(ók.höf.)
Ásta Mark vinkona.