Ruth Agnete Tryggvason, kaupmaður á Ísafirði, fæddist í Haraldsted á Sjálandi 16. maí 1921. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 16. mars 2011. Foreldrar hennar voru Marie Sophie og Anders Hedeager Pedersen byggingarmeistari í Kaupmannahöfn, sem bæði eru látin. Systkini hennar voru Eivind og Lis, sem bæði eru látin, eftirlifandi er Ajo, sem býr á Jótlandi. Ruth var gift Aðalbirni Tryggvasyni frá Ísafirði, f. 13. júní 1925, d. 20. júlí 1970. Þau gengu í hjónaband 11. febrúar 1950, og bjuggu alla tíð á Ísafirði. Ruth og Aðalbjörn eignuðust þrjú börn. 1) Tryggvi, f. 1950, kvæntur Svövu Oddnýju Ásgeirsdóttur, f. 1954, og eiga þau börnin Aðalbjörn, f. 1977, Ásu Björgu, f. 1981, í sambúð með Helga Eysteinssyni, f. 1976 og eiga þau börnin Eystein Ara, f. 2007, Ásdísi Maríu, f. 2010, og Tryggva Þór f. 1986. 2) Árni, f. 1953, kvæntur Rósu Þorsteinsdóttur, f. 1954, og eiga þau börnin Jóakim, f. 1983, og Bríeti Ruth, f. 1985. 3) María Margrét, f. 1962, gift Pétri Birgissyni, f. 1959, eiga þau synina Birgi Björn, f. 1986, í sambúð með Gerði Guðrúnu Árnadóttur, f. 1986 og Bjarka, f. 1988. Ruth fór ung til náms og vinnu við verslunarstörf hjá Glas- og kunsthandel í Kaupmannahöfn. Hún kynntist Aðalbirni í Tivolí daginn eftir að hann kom til Kaupmannahafnar til náms í verslunarfræðum í Handelsskólanum. Flutti hún til Ísafjarðar í febrúar 1950 og byrjaði strax að afgreiða í Gamla bakaríinu sem þá var í eigu tengdaföður hennar. Ruth og Aðalbjörn stofnuðu árið 1950 húsgagnaverslun sem hún rak til ársins 1987. Gamla bakaríið keyptu þau af tengdaföður hennar árið 1956 og ráku saman þar til Aðalbjörn lést, en eftir það rak hún það með börnum sínum. Ruth tók virkan þátt í mannlífinu á Ísafirði frá fyrstu tíð og tók þátt í stofnun dagheimilis, hún var einnig virk í barnaverndarfélaginu, tók þátt í starfi skógræktarfélagsins, slysavarnafélagsins og kvenfélagi kirkjunnar. Hún tók þátt í stofnun golfklúbbsins og nú síðustu ár var hún meðlimur í Zontaklúbbnum Fjörgyn. Ruth var vararæðismaður Dana frá árinu 1970 til ársins 1991. Árið 2006 var Ruth útnefnd heiðursborgari Ísafjarðarbæjar. Útför Ruthar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 26. mars 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú viku frá vorjafndægrum, kveðjum við okkar kæru og yndislegu, Ruth Tryggvason, systur í Zontaklúbbnum Fjörgyn og heiðursfélaga. Minningar fylla hug okkar og hjarta á skilnaðarstund, ást og söknuð til nærveru hennar, en umfram allt þakklæti og virðingu fyrir að hafa notið vináttu hennar og einstakrar lífsgleði. Hjartans þökk kæra Ruth.
Ruth gekk til liðs við Zontaklúbbinn Fjörgyn, strax við stofnun hans 2. desember 1996, sem stofnfélagi og óslitið síðan var hún öflug félagskona í starfi og verkefnum Zonta. Henni voru ákaflega hugleikin tækifæri kvenna til bættrar líðan, aukinnar velferðar og menntunnar. Þátttaka hennar í Zonta lýsti vel brennandi áhuga á viðfangsefninu og hinu einstaka lífsviðhorfi hennar til málefna kvenna.
Ruth var fædd í Haralsted í Danmörku þann 16. maí 1921. Eiginmanni sínum, Aðalbirni Tryggvasyni, kynntist hún í Kaupmannahöfn sumarið 1946, og flutti hún með honum til Ísafjarðar í febrúar 1950. Tryggvi tengdafaðir Rutar, átti og rak Gamla bakaríið og fór hún fljótlega eftir komuna á Ísafjörð að afgreiða þar. Síðar tóku þau Aðalbjörn við bakaríinu en voru einnig um árabil með margvíslegan annan verslunarrekstur. Aðalbjarnar naut ekki lengi við, en hann lést 1970, aðeins 45 ára. Var Ruth þá orðin ekkja með þrjú börn og bakaríið og verslun. Börn þeirra Ruthar og Aðalbjarnar eru þrjú: Tryggvi sem er kvæntur Svövu Oddnýju Ásgeirsdóttur þau eiga þrjú börn; Árni, sem er kvæntur Rósu Þorsteinsdóttur og eiga þau tvö börn og María Margrét sem er gift Pétri Birgissyni en þau eiga tvo drengi. Sendum við þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ruth bar með sér nýja strauma inn í lítið samfélag. Það hafði vakið athygli hennar að börn höfðu ekki aðgang að barnaheimili og var hún ein þeirra sem beitti sér fyrir stofnun slíks. Ennfremur lagði hún mikið upp úr líkamsrækt og heilsusamlegu fæði og miðlaði slíku til samferðamanna sinna. Hugur hennar lá til ræktunar bæði trjágróðurs og blóma og bar sumarbústaðurinn í Tunguskógi þess glöggt vitni. Zonta konur nutu þess ríkulega að sækja Ruth heim í skóginn, jafnframt var hún vakin og sofin yfir hverskonar þátttöku í skemmtilegum uppákomum félagskvenna. Hún sat í stjórn Zonta og nefndum, var ákaflega tillögugóð og hugmyndarík. Vakti einlægt athygli á nýjum og gömlum ráðum á nýtingu náttúruafurða. Hvernig skógurinn gæti gætt heimilið ilmi og fæði, hvernig hreyfing gerir aldin ungan og hve brosið gerir allt bjartara. Eins voru henni hugleikin málefni erlendra kvenna í okkar samfélagi og fylgdist grannt með hvernig þeim gekk og gantaðist með á sinni yndislegu íslensk-dönsku að hún væri nýbúi eins og þær. Þó hún væri búin að búa lengur hér en í sínu fyrra heimalandi.
Ruth var mikil dama, svona eins og Lady og bar með sér virðingu og vakti eftirtekt hvar sem hún fór, verðugur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, okkur öllum til gleði og sóma. Hún hafði yndi af góðri skemmtun og að klæða sig upp, maður á að nota tækifærin þegar þau gefast, sagði hún og hló.
Ruth stóð vaktina í Gamla bakaríinu alla tíð, gaukaði einhverju góðgæti að börnunum og stakk með kveðju í innkaupapokann til barnanna eða bara til þín svona af því að veðrið var svo gott. Gaf forsetanum heimsins bestu Napóleonskökur, færði börnum brauð og spurði hvenær verður næsti Zonta fundur.
Guð blessi minningu Ruthar Tryggvason, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Fh. Zontaklúbbsins Fjörgyn Ísafirði,


Ragnheiður Hákonardóttir, Anna Lóa Guðmundsdóttir.