Kolbeinn Arngrímsson fæddist 17. desember 1960. Hann lést á krabbameinslækningadeild 11-E á LSH 15. mars 2011. Foreldrar Kolbeins eru Unnur Þórðardóttir, f. 4. febrúar 1929, og Arngrímur Guðjónsson, f. 14. maí 1927, d. 24. september 1990. Systkini hins látna eru: 1) Unnur Ragna, látin 10. febrúar 2010, gift Franz Baar. 2) Regína Guðrún, gift Þorgeiri Baldurssyni. 3) Ragnheiður Kristín, gift Magnúsi Óskari Ólafssyni. 4) Arngrímur, kvæntur Sigrúnu Sigríði Svavarsdóttur. 5) Unnur Arna, gift Karli Víkingi Stefánssyni. Systir Kolbeins sammæðra var Guðríður Ása, látin 6. nóvember 2003, gift Sigurvini Kristjónssyni. Bróðir Kolbeins samfeðra er Guðjón Emil, kvæntur Ekaterinu Naryshkina. Kolbeinn kynntist Svanhvíti Óladóttur árið 1975 og giftu þau sig 27. nóvember 1985. Foreldrar Svanhvítar voru Óli Markús Andreasson, f. 27. nóvember 1934, d. 30. mars 1991, og Nína Sveinsdóttir, f. 23. júlí 1936, d. 15. maí 2001. Synir Kolbeins og Svanhvítar eru: 1) Óli Ragnar Kolbeinsson, f. 17. september 1978, kvæntur Kristínu Ástu Ólafsdóttur, þeirra börn eru Daníel Dagur og Svanhvít Eva. 2) Ísak, f. 13. mars 1983, kvæntur Ásdísi Ingvadóttur, þeirra börn eru Anna Kolbrún og Brynjar Óli. 3) Sindri Snær, f. 11. ágúst 1992. Kolbeinn var menntaður framreiðslumeistari. Hann rak söluturninn Kúluna á árunum 1993-2007 ásamt mági sínum Sigurvini Kristjónssyni. Kolbeinn starfaði síðustu árin í veislusalnum Rúbín í Öskjuhlíð. Útför Kolbeins hefur farið fram í kyrrþey.
Kolbeinn vinur minn er fallinn frá, langt um aldur fram, eftir erfitt stríð við illan sjúkdóm.
Hugurinn leitar 35 ár aftur í tímann þegar kynni okkar hófust. Ég hafði brugðið mér í heimsókn til systur minnar og mágs, fallegan sunnudagseftirmiðdag í byrjun sumars 1976, sólin skein og við sátum úti á svölum hjá þeim og ræddum saman. Þau fóru að spyrja mig að því hvað ég hefði fyrir stafni, en ég hafði þá tekið að mér að steypa upp og múra nokkrar byggingar, og enn sem komið var ég einn að brasa við þetta. Systir mín spurði mig hvort ég þyrfti þá ekki á aðstoð að halda. Ég játaði því. Hún sagði mér þá að unnusta Svanhvítar vantaði vinnu og hvort ég vildi ráða hann, en hann væri að vísu ekki nema 15 ára gamall. Ekki hafði ég hugmynd um að Svanhvít frænka mín væri komin með kærasta og býst ég við að forvitni hafið rekið mig til fá Kolbein til starfa með mér.
Morguninn eftir var hann mættur og þar gerðist hann minn fyrsti starfsmaður. Það sem kom mér strax á óvart hve næmur hann var á tilsögn og þurfti ég yfirleitt ekki að útlista nema einu sinni fyrir honum hvernig ætti að framkvæma hlutina, þá var hann búinn að grípa það. Oft þurfti ég að bregða mér frá og vildi Kolli ávallt vita hvað hann ætti að gera á meðan, sem hann framkvæmdi með mikilli samviskusemi og unni sér ekki hvíldar fyrr en hann hafði uppfyllt óskirnar. Einstakt með svo ungan dreng og lítið vanan byggingarvinnu.
Framan af var Kolli frekar fámáll og hlédrægur í okkar samskiptum sem ég hélt að stafaði af feimni, en tók fljótlega eftir að hann íhugaði það vel sem hann tjáði sig um og framkvæmdi, og fyrir það var hann virtur af sínum samstarfsmönnum og félögum. Kolli átti eftir að starfa með mér með námi sínu næstu árin og var ætíð frábær félagi í hópnum. Steypuvinna, járnabindingar, múrverk eða trésmíði, ekkert var honum ómögulegt. Það var alveg sama hvaða verkefni honum voru falin, hann rækti þau alltaf af trúmennsku og vandvirkni. Samviskusemi og þjónustulund voru einkenni Kolla á starfsferli hans hvort sem það var í starfi fyrir aðra eða í eigin atvinnurekstri.
Kolbeinn fylgdist strax frá unga aldri með þjóðfélagsumræðunni og var óragur að tjá sig um þau ýmsu dægurmál sem um var talað. Hann stóð fast á sínum skoðunum en gaf sér góðan tíma að hlusta á álit annarra. Var oft gaman að hlusta á rökræður hans við mig og aðra. Rökstuddi hann sínar skoðanir ófeiminn og af festu, þætti honum ástæða til. Allaf var stutt í glettnina hjá honum og var alltaf gaman að heyra hans sjónarmið á hin ýmsu dægurmál. Hreinskipti hans og einlægni fékk ég að njóta í ríkum mæli, og fyrir það vil ég þakka.
Það kom fljótlega í ljós að samband Kolla og Svanhvítar var ekki byggt á sandi því það þróaðist í trausta, farsæla og innilega sambúð sem varað hefur til þess aðskilnaðs sem orðin er. Ávöxtur þessarar sambúðar eru þrír yndislegir drengir sem hefur verið gaman að sjá vaxa og þroskast í amstri lífsins og fallegum tengdadætrum og barnabörnum sem má þakka fyrir á þessari sorgarstund.
Þau voru strax samhent um að koma sér upp upp fallegu og hlýlegu heimili og þar kom handlagni og dugnaður Kolla vel í ljós og var hann mjög áfram um að byggja þeim gott skjól með hagsýni að leiðarljósi. Margar ánægjustundir er undirritaður búinn að eiga með þeim, gegnum tíðina, í góðu og einlægu spjalli á þeirra heimili og víðar, og vil ég þakka fyrir þær. Þau voru nýlega búin að koma sér fyrir í nýrri og fallegri íbúð sem er innréttuð af smekkvísi þeirra og alúð, og það er dapurt að hugsa til þess að Kolli skyldi ekki fá að njóta þess að búa og una sér þar lengur.
Það hefur alltaf verið gott að eiga Kolla og Svanhvíti sem vini, og greiðvikni þeirra og alúð verið einstök ef þurft hefur að leita ráða og leiðsagnar hjá þeim. Það hefur sýnt sig í stórum og traustum vinahópi þeirra sem rækt þeirra hefur ætíð verið mikil við.
Á þessari kveðjustund, elsku Svanhvít og Sindri, Óli og Ísak og fjölskyldur ykkar, er söknuðurinn sár og mikill, en minningin um góðan fjölskyldufaðir stendur eftir, og hún er góð. Hugur minn er hjá ykkur vinir mínir.
Kolli minn, þjáningarstríðinu er nú lokið og megi almættið umfaðma þig á nýju tilverustigi. Ég þakka þér fyrir allt.
Minningin talar máli hins liðna,
og margt hefur hrunið til grunna ...
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.
(Davíð Stefánsson)
Steini.