Hann er eins og næturhafið, þessi
þokukenndi skuggi af titrandi
gömlum kvíðaefnum sem himininn
strýkur og snúa aftur á hverju kvöldi.
Dauðar raddirnar minna á öldur
þess hafs þegar þær brotna.
Mikinn dýrgrip höfum við íslenskt bókmenntafólk nú fengið í hendur með 300 síðum af ljóðaþýðingum gjörðar af meistarahöndum Gyrðis Elíassonar, eins og sjá má af því broti úr ljóði eftir Ítalann Cesare Pavese sem birt er hér fyrir ofan og nefnist Landslag (VIII). Það er kunnara en frá þurfi að segja að fátt virðist erfiðara en að koma ljóðlist þannig á milli tungumála að ekki loði alltaf við þau eitthvert þýðingabragð; öll höfum við hnotið um perlur íslenskrar ljóðlistar í erlendum þýðingum og undrast að þótt orðin séu rétt hefur eitthvað af galdrinum tapast (meira að segja „Deyr fé, deyja frændur“ úr Hávamálum verður ósköp litlaust á tungum nálægra landa; „Cattles die, kinsmen die...“) – en þegar galdurinn lánast fáum við sjaldgæf dæmi um ljóðlist sem ekki getur verið annað en betri í þýðingu en frummáli; allir þekkja „Leika landmunir...“ Óvíds og Sveinbjarnar Egilssonar eða Álfareið Heines og Jónasar. En því nefni ég þetta að oft kom mér þessi þanki í hug við að lesa þetta mikla ljóðasafn Gyrðis.
Ljóðin eru frá einum 15 löndum og eftir 36 skáld, forn og ný, sum frá Austur-Asíu en bróðurparturinn úr okkar heimshluta eins og við er að búast, beggja vegna Atlantshafsins – og skáldin allt frá því að vera heimsþekkt yfir í að vera í lítt kunn öðrum en sjálfum sér. En úr þessum ólíka efniviði spinnur Gyrðir þráð sem heldur gegnum alla bókina – það er einhver ekta lýrískur tregi sem loðir við hvert orð, án þess um einhvern drunga sé endilega að ræða; þarna ólgar kraftur og inni á milli er að finna ljóð sem glitra af grárri gamansemi, samanber þetta eftir Bandaríkjamanninn Donald Justice:
UPPTALNING Á ÞEIM BILUÐU
Þessi var settur í spennitreyju
þessi var sendur heim
þessum var gefið brauð og kjöt,
en hann borðaði ekki neitt,
og þessi hrópaði nei nei nei nei
allan liðlangan daginn.
Þessi starði á gluggann
einsog hann væri veggur,
þessi sá hluti sem voru ekki til,
þessi sá hluti sem voru til,
og þessi hrópaði nei nei nei nei
allan liðlangan daginn.
Þessi hélt sig vera fugl,
þessi að hann væri hundur,
og þessi taldi sig vera mann,
venjulegan mann
og hrópaði og hrópaði nei nei nei nei
allan liðlangan daginn.
Takið eftir því að það var ekki sá sem starði á gluggann „einsog hann væri veggur“ og ekki þessi sem hélt hann væri fugl eða hundur, heldur „þessi sem taldi sig vera mann, venjulegan mann“ sem hrópaði nei nei nei nei allan liðlangan daginn.
Kannski er það sem gerir bókina svo heildstæða að Gyrðir ljær öllum ljóðunum sinn sérstaka og persónulega en áreynslulausa stíl. Þetta er rit til að handfjatla lengi og taka út úr hillu þegar þannig þankar leita á mann um ókomna tíð; eflaust mun maður eignast þar ólík uppáhaldsljóð á mismunandi tímum og skilja eitthvað á nýjan hátt við hvern lestur, en ef ég mætti velja eitt ljóð úr fyrir augnablikið sem ég set þess orð á blað þá væri það þetta, eftir Grikkjann K.P. Kvafis:
EFTIR FREMSTA MEGNI
Jafnvel þó þú getir ekki mótað líf þitt
einsog þú kýst, reyndu í það minnsta
eftir fremsta megni
að lítillækka það ekki
með of mikilli snertingu við veröldina,
með of mikilli athafnasemi og málæði.
Lítillækkaðu það ekki með því að
draga það með þér, fara með það
um allt og láta það daglega verða
vitni að kjánalegum
samkomum og veislum,
þar til það verður ekkert annað en
langdregin leiðindi.
Gyrðir á mikið hrós skilið fyrir þá elju sem hann hefur lagt í að þefa uppi alla þessa ljóðlist og kynna hana fyrir okkur hinum, en þó er hitt mikilvægara: orðfæri hans og næstum óbrigðull lýrískur sans.
Einar Kárason