Ragnhildur Jónsdóttir var fædd á Gautlöndum í Mývatnssveit 24. ágúst 1926, dóttir hjónanna Önnu Jakobsdóttur frá Narfastöðum í Reykjadal, f. 1891, d. 1934 og Jóns Gauta Péturssonar frá Gautlöndum í Mývatnssveit f. 1889, d. 1972. Systkini hennar eru Ásgerður f. 1919, Sigríður f. 1922, d. 1993 og Böðvar, f. 1925, d. 2009. Ragnhildur giftist Jóni Sigurgeirssyni frá Helluvaði í Mývatnssveit f. 14. apríl 1909, d. 11. september 2000. Börn þeirra eru: 1) Jón Gauti f. 17. júlí 1952, d. 22. maí 2007. Ekkja hans er Helga Pálína Brynjólfsdóttir. Jón Gauti átti Eirík Gauta f. 6. maí 1975, með Jennýju Karítas Steinþórsdóttur. Með fyrri konu sinni, Lilju Ásgeirsdóttur, átti Jón Gauti þá Jón Ásgeir f. 15. júlí 1983 og Guðmund Karl f. 6. september 1986, sem kvæntur er Þórunni Jensdóttur. Dóttir þeirra er Katla f. 26. ágúst 2009. 2) Geirfinnur f. 5. júní 1955, kvæntur Hlíf Sigurjónsdóttur, synir þeirra eru Jón H. f. 29. nóvember 1991 og Böðvar Ingi H. f. 28. júní 1995. 3) Sólveig Anna f. 21. maí 1959. 4) Herdís Anna f. 11. ágúst 1962, gift Steef van Oosterhout. Synir þeirra eru Jakob f. 16. júlí 1997 og Tómas f. 27. desember 2000. Ragnhildur var alin upp á stóru heimili á Gautlöndum. Hún missti móður sína ung og tengslin við móðurfólkið á Narfastöðum voru sterk og mikilvæg. Hún drakk í sig menningu beggja heimila og bjó að því alla tíð. Almenn sveitastörf og farskóli ásamt ungmennafélagsstarfi voru skólagangan þar til hún fór til náms við Reykholtsskóla í Borgarfirði árið 1945. Ári síðar fór hún til Svíþjóðar á lýðháskóla og dvaldi næstu ár ytra við nám og störf, lengst af í Noregi og lauk þaðan vefnaðarkennaraprófi 1950. Ragnhildur kenndi vefnað við húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði eftir heimkomuna en smám saman tók stórt heimili og mikill gestagangur allan hennar tíma. Ragnhildur og Jón hófu búskap í Aðalstræti 50 á Akureyri en árið 1957 fluttu þau í Spítalaveg 13. Þar bjuggu þau alla sína tíð og Ragnhildur síðan ein eftir lát Jóns þar til hún flutti á Dvalarheimilið Hlíð í byrjun árs 2008. Heimili þeirra hýsti margan gestinn og ætíð var pláss fyrir alla. Ragnhildur vann með hléum á Kristneshæli frá 1968 til ársins 1976 þegar hún hóf störf á Skattstofu Norðurlands, en þar var hún við skrifstofu- og afgreiðslustörf til 71 árs aldurs. Ragnhildur vann mikið að félagsmálum. Hún gekk í kvenfélagið Hlíf 1960 og átti stóran þátt í fjáröflunarstarfsemi fyrir uppbyggingu barnadeildar F.S.A. Hún var lengi í skólanefnd Húsmæðraskólans á Akureyri, sat í stjórn Slysavarnafélagsins og lagði hvarvetna mikið af mörkum. Hún hafði ríka réttlætiskennd og lét sig varða málefni réttlætis og mennsku. Menning og listir voru áhugamál Ragnhildar og hún sótti flestar leik- og myndlistarsýningar og tónleika sem í boði voru og studdi menningarlífið af lífi og sál. Hún var Mývetningur í hjarta en Akureyri var hennar heimabær og hún var stolt af bæjarbúum sem fegruðu bæinn sinn með gróðri og umhirðu og byggðu Hof yfir listirnar. Útför Ragnhildar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin kl 13.30.

Ragnhildur frænka  og Málmfríður móðir mín voru dætur tvíburanna á Gautlöndum, þeirra Jóns Gauta og Sólveigar Hólmfríðar Pétursbarna. Ragnhildur var ári eldri en mamma og á milli þeirra ríkti einlæg vinátta.
Ragnhildur átti afar auðvelt með að kynnast fólki og  rækta samband við það, hún fór ekki í manngreinarálit né skipti kynslóðabilið hana nokkru máli og  átti hún því vini á öllum aldri. Þeir sem vinguðust við börnin hennar urðu líka hennar vinir. Það er ekki lítill hópur. Börn Jóns og Ragnhildar fóru öll í gegn um skóla á Akureyri, luku öll stúdentsprófi frá MA og skólasystkin þeirra mörg hver voru tíðir gestir í Spítalavegi 13 allir sem þangað komu fundu hve gott andrúmsloft ríkti enda þau hjón góð heim að sækja.  En vinirnir komu víðar að. Ég hef ekki hugmynd um hve margir þeir voru sem fengu inni í Spítalavegi um lengri eða skemmri tíma, skólakrakkar sem bjuggu þar heilan vetur eða fólk í öðrum erindagjörðum, ég veit bara að þeir voru fjölmargir. Það virtist alltaf vera nægt húspláss, enda er það gjarnan svo þar sem er stór og hlýr faðmur og gott hjartalag; þar er rými fyrir alla og þannig var það hjá þeim Jóni og Ragnhildi.
Fólk úr sveitunum, líklega mest Þingeyingar, komu mjög gjarnan við í Spítalaveginum  heimilið stóð öllum opið, gestir austan úr sveitum sem þurftu að erinda á Akureyri nutu þar  viðurgjörnings, andlegs og líkamlegs fóðurs og margir fengu þar gistingu. Oft voru þau hjón líka beðin að sinna erindum fyrir sveitafólkið; fara með skó eða úr í viðgerð, snúast og kaupa eitt og annað og ef féll ferð þá var verið að senda til baka það sem erindað var fyrir aðra. Það henti stundum að gleymdist að greiða þeim hjónum fyrir það sem þau höfðu þegar lagt út fyrir. Því brá Ragnhildur á það ráð að skrifa hjá sér allt það sem þau hjón erinduðu fyrir aðra og skráði hjá sér þegar hafði verið greitt  fyrir það. Í þeirri kompu kennir ýmissa grasa; allt frá dráttarvél til trúlofunarhringa. Hér fyrr á árum þegar ekki var pantaður tími hjá augnlækni heldur farið í biðröð þá tóku þau oft að sér að fara fyrir fólk sem ekki hafði aðstæður eða heilsu til að standa klukkutímum saman í biðröðinni. Þá var farið á fætur fyrir allar aldir til að vera kominn í röðina um fimm leytið að morgni, þau hjónin skiptust stundum á um þetta.
Greiðvikin var þeim í blóð borin, þau voru bæði alin upp við það að greiða götu hvers manns ef mögulegt var og það gerðu þau svikalaust. Þess vegna þótti Ragnhildi líka sjálfsagt að leita til annarra ef hún þurfti þess með. Það höfðu samt sem áður ekki allir skilning á því hve eðlilegt henni þótti það.
Aldrei minnist ég þess að hún legði illt til nokkurs manns, í mesta lagi átti hún það til að verða hissa á framkomu fólks. Á heimilinu var aldrei talað um annað fólk í öðrum tilgangi en þeim að ættfæra það, tengja það við einhverja, enda var Ragnhildur ágætlega ættfróð. Hún fylgdist mjög vel með hvað það fólk sem hún þekkti, vinir og ættingjar, lagði fyrir sig; menntun eða vinnu, hverjir tóku saman og hvaða börn fæddust og hvað varð svo um þau. Allt þetta mundi hún fram í andlátið, það var sama um hvern var rætt. Svo þegar hún var að spyrja mig um fólk sem við báðar þekktum og hún vildi vita nánar um þá gat ég kannski ekki svarað. Það þótti henni nú meira en lítið áhugaleysi af minni hálfu. Samt allt vel meint henni var þessi áhugi svo einlægur og hún bar annarra velferð svo fyrir brjósti að það var aðdáunarvert.
Það var einkennandi fyrir hana hve vænt henni þótti um fólk og hún kunni að sýna það. Svo þótti hún líka dálítið stjórnsöm, en ég held að það hafi stundum verið nauðsynlegt. Hún var fróðleiksfús með afbrigðum alla tíð en algerlega hrekklaus. Já, hún var bara afskaplega væn og góð manneskja, sem auðvelt var að þykja vænt um.
Þau nutu þess bæði hjónin að ferðast um landið, ekki síst um þá staði sem voru utan alfaraleiðar og börnin voru með í þessum ferðum og fram á fullorðinsár. Ég veit að þetta var allri fjölskyldunni til gleði og fróðleiks og krökkunum gott veganesti út í lífið.
Slíkar manneskjur skilja eftir sig  nokkuð tómarúm en það er all langt síðan ég var farin að sakna þeirrar Ragnhildar sem ég þekkti áður, svo léleg var hún orðin vegna margskonar sjúkdóma, verst fór þó Parkinson með hana. Jakob og Tómas Dísusynir orðuðu það laglega þegar þeir töluðu um að nú væru álögin komin yfir ömmu, sem mátti til sanns vegar færa.
Síðustu tæp þrjú árin bjó hún á Dvalarheimilinu Hlíð, þar sem vel fór um hana. Hún hafði ætlað sér að eiga nokkur góð ár í ellinni njóta þeirra á sinn hátt; vera þátttakandi, en heilsan kom í veg fyrir að það yrði á þann hátt sem hún sjálf hefði kosið. Án efa hafa uppvaxtarárin í Mývatnssveit í blómstrandi menningar- og  félagslífi mótað hana og átt þátt í þeirri ríku þrá sem hún hafði til að njóta. Ég segi ríka þrá, af því að þannig skynjaði ég áhuga hennar fyrir leikhúsi, myndlistarsýningum, tónleikum og öllu öðru því sem eflir andann. Söngur og tónlist var raunar hluti af heimilislífinu en Jón spilaði á hljóðfæri og öll lærðu börnin þeirra á hljóðfæri. Umhverfi Ragnhildar hefur alltaf ómað af tónlist. En líka töluðu máli; af ákafa stundum svo miklum að þegar hver spurningin rak aðra og manni gafst ekki einu sinni tóm til að svara af því að hún var svo spurul, þá kom fyrir að við skelltum upp úr.  Hún naut þess að hafa félagsskap af öðru fólki og má segja að ein ástæða þess hafi verið sú að henni féll ekki einveran og á stundum fannst mér sem hún kynni ekki að vera ein.
Nú hefur lífsklukkan hennar Ragnhildar frænku minnar hljóðnað og mér finnst eins marrið í stigum og gólfi í Spítalavegi 13 hafi einnig breytt um tón. Líf hennar síðustu mánuði var ekki það líf sem hún kaus að lifa og ég held að engan langi að vera í raun fangi síns krankleika.
Ég trúi því að nú líði frænku minni vel, hún sé á meðal þeirra sem hún hefur saknað svo lengi og hún talaði stundum um við mig. Það er því í rauninni ástæða til að gleðjast, hennar vegna.
Afrek hennar og þeirra hjóna er óþarft að telja þótt listinn gæti í sjálfu sér verið langur og litríkur. Það þarf ekki annað en að hugsa um systkinin úr Spítalavegi 13 til að átta sig á hvílíkar mannkostamanneskjur þau voru bæði tvö, Jón og Ragnhildur.

Að skilnaði held ég að sé við hæfi að nota ferðina eins og Gautum er gjarnt og biðja þig kæra frænka mín að skila kveðju frá mér til ættmenna vorra fyrir handan.


Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir.