Sæunn Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 11.maí 1951. Hún lést á heimili sínu þann 4.apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Unnur Júlíusdóttir f.17.september 1917, d.7.mars 2003 og Ragnar Sigurður Jóhannesson f.4.júlí 1910, d.22.desember 1986. Systkini Sæunnar eru Þorsteinn Karl f.9.ágúst 1936; Guðlaugur Emanúel f.1.janúar 1941, d.23.febrúar 1941; Emanúel Júlíus f.13.desember 1941; Jófríður f.1.desember 1943; Rebekka Oddný f.26.nóvember 1945; Guðlaugur Björn f.11.mars 1948. Börn Sæunnar eru 1) Anna María f.21.september 1971. Faðir hennar er Birgir Stefánsson. Börn hennar eru a) Hlynur Nökkvi Hlynsson b) Sól Guðmundsdóttir. 2) Óli Stefán f.5.maí 1977. Faðir hans er Þröstur Ingólfur Víðisson. Sæunn var í sambúð með Þresti frá 1975 – 1995 og bjuggu þau á Stöðvarfirði, Hafnarfirði, Fljótshlíð og í Reykjavík. Sæunn ól upp syni Þrastar og Jennýjar Sigurbjartsdóttur sem sína eigin, þeir eru 1) Svavar Bergdal f.24.ágúst 1972. Sonur hans er a) Jökull Máni. 2) Víðir Ingólfur f.25.október 1973, maki hans er Halldóra Guðlaug Steindórsdóttir. Börn þeirra eru a) Gabríela Ósk, móðir hennar er Sigríður Halldóra Pálsdóttir b) Kamilla Líf c) Tristan. Sæunn bjó eftir það í nokkur ár með Uffe Baldslev blómaskreytingamanni og tveim dætrum hans frá fyrra hjónabandi. Sæunn var yngst systkina sinna og ólst upp í Reykjavík í faðmi móður sinnar og systkina. Eftir að Sæunn lauk grunnskólaprófi sinnti hún ýmsum störfum, svo sem við verslunarstörf, barnagæslu, umönnun þroskaheftra, umönnun aldraðra og um nokkurt skeið fóstraði hún börn á vegum félagsþjónustunnar. Síðastliðin ár bjó hún í Hvassahrauni við Vatnsleysuströnd. Sæunn var mikill náttúruunnandi og dýravinur, var listfeng og sinnti sínum áhugamálum vel. Útför Sæunnar fer fram frá Fríkirkju Hafnarfjarðar í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður að Kirkjugarðinum í Hafnarfirði.

Elsku amma mín, mig langar að rifja upp þær minningar sem ég man best eftir með þér núna. Amma, þú varst mér alltaf góð og hvattir mig alltaf áfram í lífinu, þú gafst mér hlýju og varst alltaf til staðar fyrir mig.
Ég man alveg frá því að ég var lítil sagðirðu okkur barnabörnunum að þú værir norn og flygir um á nimbusnum þínum, sem var nimbus 2000 á næturnar, með hinum nornunum, svo sagðirðu við okkur að þegar við yrðum 12 ára mættum við fljúga með þér. Okkur fannst þetta alveg rosalega spennandi og  skemmtilegt þegar þú bjóst til svona sögur en við héldum auðvitað að þessi væri sönn. Þú sagðir okkur svo margar sögur að þær eru örugglega óteljandi. þú varst alltaf mjög mikill dýravinur og alltaf gátum við dundað okkur úti í skemmu eða inni, ég man alveg frá því að ég var lítil að þú áttir alltaf einhver dýr og einhvernvegin náðirðu alltaf til þeirra sama hvaða dýr það var.

Mér fannst alltaf gaman að koma til þín, þú hentir alltaf í pönnukökur fyrir okkur og ég man alveg hvað við barnabörnin gátum rifist um þessar víðfrægu pönnsur sem þú gerðir, sem var alltaf beðið um í hvert einasta skipti sem við komum og sama hvað var að angra þig gastu alltaf farið og gert pönnsur með okkur og kjötsúpu sem var uppáhaldið mitt og líka besta kjötsúpa í heiminum! Ég man í fyrra þegar við ákváðum að stofna býflugnabú í sameiningu og safna þá pening upp í það, við ætluðum að láta flytja inn býflugur eftir  sextugsafmælið þitt, þótt ég sjálf væri skíthrædd við þær vildi ég samt vera með ömmu í þessu, líka út af því að þetta var mjög spennandi og hefði verið ákaflega gaman að stofna býflugnabú með ömmu sinni.

Þegar við komum í heimsókn þá man ég alltaf að alveg í hvert einasta skipti vildi ég gista með ömmu, alveg sama hvað ég var orðin gömul, alltaf vildi ég gista með þér og hafa kósýkvöld með þér, borða snakk og horfa á einhverjar myndir sem við tókum af bókasafninu í Hfj. Þeirra kvölda mun ég minnast alla ævi.
Þegar amma var lítil var hún svo góð í handavinnu að hún sagði mér að þegar hún var í handavinnu í skólanum var hún alltaf langfyrst af öllum til að klára verkefnin svo sem að prjóna, hekla eða sauma eitthvað saman og kennarinn skammaði hana alltaf fyrir að vera svona á undan. Amma kunni allar kúnstir og kunni alveg allt frá A til Ö í saumaskap og ég man að eitt kvöldið þegar hún var að vinna að jólasokk vildi ég gera eitthvað svoleiðis líka þannig ég tók fram eitthvað efni og hún leiddi mig í gegnum þetta og þá missti ég alveg þolinmæðina og sá hvað þetta var mikil vinna og gerði mer loksins grein fyrir hvað amma var rosalega þolinmóð og alltaf að vanda sig rosa lengi og vel við þessa jólasokka og setti líka seríur í þá, enda á ég minn ennþá og hengi hann alltaf á hurðina hver jól.
Öll sumrin sem við eyddum saman voru alltaf skemmtileg, ég man alveg síðasta sumar, þá vorum við alltaf að slá og reita grasið frá fallegu blómunum þínum og trjánum sem þú lagðir mikið í að vera með þarna í Hvassahrauninu þótt það væri mjög erfitt út af landslaginu og sjónum, svo þegar við fylltum hjólbörurnar af nýslegnu grasi skokkaði ég með það í sloppnum til hestanna okkar sem við vorum með þarna í Hvassahrauni síðustu tvö sumur. Það var alveg yndislegt að vera með þau þarna því þá gátum við líka alltaf farið að ríða út og amma fylgdist alltaf með okkur Hafdísi útum gluggann, en það er besta vinkona mín sem amma kynntist síðasta sumar.
Þegar ég var u.þ.b. 9-11 ára fæddust tvö got þar á milli af hvolpum og man ég alveg að í hverju kotinu voru alveg 10 stk. af hvolpum. Okkur barnabörnunum fannst þá alveg yndislegt að fara til ömmu og hugsa um þá og ég man alveg að ég og Gabríela Ósk eignuðum okkur tvo hvolpa, það var hennar sem hét Ísar 2 í höfuðið á pabba sínum og ég skírði mína Sýra litla í höfuðið á mömmu sinni. Á þessum tímum var Blíða, gamli hundurinn minn, á lífi og var oft í pössun hjá ömmu sinni og það var svona fiskikar rétt hjá fjárhúsunum gömlu sem er búið að rífa núna en allavega man ég að amma leyfði mér og Blíðu alltaf að hlaupa niður eftir og svo henti Blíða sér ofan í karið og
synti alveg u.þ.b. tíu hringi, alveg hring eftir hring, og kom svo upp úr og ég og amma stóðum stundum og fylgdumst með henni.

Það var alveg yndislegt að vera þarna í Hvassahrauni, frábært útsýni alveg út úr bænum og bara ég og amma stundum, þótt það byggju nokkrir í kringum landið en það truflaði okkur ekki. Amma lagði svo hart á sig til að halda landinu og var algjör dugnaðarforkur, hún sagði mér margar sögur frá því í gamla daga eins og maður segir og svo átti hún alls konar dót og muni sem við tvær vissum einungis af, alls konar dót frá stríðsárunum og kortum og svona dóti.
Aldrei tímdum við að fara með þetta á Árbæjarsafn því að þetta var svo gamalt og dýrmætt að við tímdum því ekki.
Elsku amma mín, þetta voru nokkrar af þeim frábæru minningum sem við áttum saman og ég mun aldrei gleyma þeim. Takk fyrir öll frábæru árin, sögurnar og minningarnar sem við eigum saman ég mun alltaf minnast þín. Ég elska þig af öllu hjarta. Hvíldu í friði elsku besta amma mín, blessuð sé minning þín!

Þín

Sól