Guðbjörg Sigurðardóttir fæddist á Akranesi 23. maí 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi 19. apríl 2011. Foreldrar hennar voru Sigurður Jónsson trésmiður, f. 1906, d. 1982, og Þóra Guðjónsdóttir, f. 1902, d. 1992, búsett í Tryggvaskála á Akranesi. Systur Guðbjargar eru Málfríður, f. 1927, d. 2007, bjó á Akranesi. Guðjónína, f. 1934, búsett á Akranesi. Guðbjörg giftist 1947 Grétari Símonarsyni fyrrverandi mjólkurbússtjóra á Selfossi, f. 18.2. 1920, d. 27.5. 2004, foreldrar hans voru Símon Jónsson, f. 1893, d. 1942, kaupmaður á Laugavegi 33 í Reykjavík og kona hans Ása Jóhannsdóttir, f. 1900, d. 1949. Börn Guðbjargar og Grétars sem öll eru búsett á Selfossi eru: 1) Þóra, f. 1947, sonur hennar er Sigurður Fannar, f. 1971, maki Þórunn Elva Bjarkadóttir, þeirra börn eru Guðmundur Bjarki og Þóra Björk. 2) Símon Ásgeir, f. 1950, d. 2002, synir hans eru a) Grétar, f. 1969, kvæntur Signýju Yrsu Pétursdóttur, þeirra börn eru Pétur Geir, unnusta Lára Leifsdóttir, Símon Brynjar og Birta Rún. b) Ásgeir Hrafn, f. 1975, sonur hans er Hlynur Snær, c) Andri Dagur, f. 1987, sambýliskona Arndís H. Bjarnadóttir. d) Sigurður Haukur, f. 1990, unnusta Tinna Snorradóttir. 3) Örn, f. 1951, kvæntur Sesselju Sigurðardóttur, dætur þeirra eru a) Guðbjörg, f. 1976, maki Hreinn Óskarsson, þeirra börn eru Freyr, Ásrún og Örn. b) Elfa, f. 1979, sambýlismaður Guðmundur Freyr Jónasson, barn þeirra er Heiðbjört. Synir Arnar eru c) Kristinn Jón, f. 1973, maki Sif Sumarliðadóttir, börn þeirra eru Salka og Grímur. d) Birgir Örn, f. 1973, dóttir hans er Rakel Ýr. 4) Sigurbjörg, f. 1954, sambýlismaður Steindór Stefánsson, dóttir hennar er a) Ása Ninna, f. 1980, sambýlismaður Guðmundur Hallgrímsson, synir þeirra eru Patrekur Thor og Kormákur Krummi. 5) Sigurður, f. 1958, maki Sólveig Sjöfn Ragnarsdóttir, börn þeirra eru a) Guðbjörg Þóra, f. 1981, sambýlismaður Smári K. Magnússon, barn þeirra er Diljá Dögg. b) Ragnar, f. 1988, sambýliskona Valdís I. Valdimarsdóttir. Kristín Guðmundsdóttir frænka og uppeldissystir Grétars kom inn í heimili þeirra við 12 ára aldur. Guðbjörg ólst upp á Akranesi, lauk þar hefðbundnu skyldunámi, fluttist á Selfoss um 16 ára aldur og hóf störf á skrifstofu Mjólkurbús Flóamanna. Þar kynnist hún Grétari og þar með var hún alflutt á Selfoss utan eitt ár á Akranesi þar sem Grétar veitti forstöðu Mjólkurstöðinni. Hún tók hún virkan þátt í starfsemi Kvenfélags Selfoss, hún söng í kirkjukórnum til margra ára, sat jafnframt í sóknarnefnd Selfosskirkju hér fyrr á árum. Hún var stofnfélagi í Inner Wheel Selfoss 1978. Einnig var hún í sjálfboðavinnu við bókavagninn á Sjúkrahúsi Suðurlands. Hún tók þátt í annasömu starfi Grétars og stóð fyrir móttökum á vegum Mjólkurbúsins. Umfram allt var Guðbjörg húsmóðir og góður uppalandi. Þau hjónin ferðuðust mikið til útlanda bæði í viðskipta- sem skemmtiferðum. Þau reistu sér sumarbústað í Vaðneslandi árið 1973 og dvöldu þar oft. Þau bjuggu lengst af á Hlaðavöllum 12 á Selfossi sem þau reistu árið 1953. Seinasta heimili þeirra var að Seftjörn 6, en tveimur árum eftir að Grétar lést fór hún á Ljósheima, hjúkrunardeild. Guðbjörg verður jarðsungin frá Selfosskirkju í dag, 28. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær,
og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englar tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng,
svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,
svo blaktir síðasti loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt,
og svanur á bláan voginn.
(Davíð Stefánsson)

Í dymbilvikunni og við sumarbyrjun kvaddi hún mamma mín þetta líf orðin þjáð og þreytt eftir ströng veikindi. Að morgni hennar hinsta dags náði sólin stutta stund að senda henni geisla sína og páskahátíðin framundan hátíð sem mamma bar alltaf virðingu fyrir og virti alla tíð. Við áttum góða bernsku á Hlaðavöllunum, líf og fjör á stóru heimili, en allan vanda leysti mamma hún elskaði fólkið sitt takmarkalaust, og mátti ekkert aumt vita hún stóð með okkur og varði okkur ef að var veist, ól okkur upp í trú á Frelsarann. Hún var trúuð kona og kenndi okkur bænir og bað með okkur á kvöldin, það veit ég að hún bað fyrir fólkinu sínu á hverju kvöldi fyrir svefninn. Hún innprentaði okkur góða siði, heiðarleika og sannsögli, var alltaf heima þegar við komum úr skóla nú ef ekki þá var hlaupið út á götu og kallað hátt mamma og auðvitað spratt hún upp og hljóp út úr einhverju húsinu og kom heim. En í hverfinu sem við ólumst upp í var einstakt samfélag þar voru allir sem einn, mikil samhjálp og samkennd. Hún mamma var eins og klettur í þessu samfélagi, eldhúsið hennar og stofur rúmaði allt það sem í dag kallar á margar einingar eins og, kaffihús, félagsmiðstöð, sálfræðiþjónusta, áfallahjálp, útfaraþjónusta, snið- og saumaþjónusta, hár- og snyrtistofa, þegar ferming var í hverfinu barst bökunar- og matarilmur úr hverju húsi, allar að hjálpast að. Það eru dásamlegar minningar sem ég á úr þessu eldhúsi, konurnar komu hlaupandi á morgnana með hárrúllur og toni-permanent í poka, dönsku blöðin, Búrdablöðin, svo var hlegið og talað og þær miðluðu hver annarri sín á milli, mamma hlæjandi við kaffikönnuna, mitt í öllu Camel-kófinu sem enginn amaðist yfir þá. En stundum komu grátandi konur og þá var lokað inn í eldhús og mamma sendi mig út í Ólabúð, bara kaupa eitthvað, ég skildi seinna ástæðuna, vinkonur hennar að missa menn sína, vini eða börn, þá huggaði mamma leiðbeindi um sálma og útfarir, um tíma hélt ég það hún væri sú sem skipulagði allan jarðafarasöng í kirkjunni var það von, hún söng í kórnum. Gjaldmiðillinn í hverfinu og í þessu eldhúsi var ekki beinhörð mynt heldur kærleikur og traust. Þegar ég smástelpa dvaldi sumarlangt hjá ömmu og afa á Akranesi, þá kom mamma stundum í heimsókn, ég var svo montin þegar hún fór út að spássera með mér og ömmu, mamma svo ung og sæt og fallega klædd, faðmaði alla og brosti. Vegna umsvifamikils starfs pabba sem mjólkurbústjóra, þurfti oft að taka á móti gestum erlendis frá og innanlands, hún stóð vel fyrir slíkum móttökum við hlið pabba, veitt var af rausn og allir Danirnir sem voru hér um lengri og skemmri tíma við byggingu nýja mjólkurbúsins  elskuðu allir hana Gúggu sín eins og þeir sögðu, matinn hennar, sönginn og glaðværðina. Foreldrahús mín stóðu öllum opin til lengri eða skemmri dvalar, þegar á þurfti að halda, sem var æði oft í minningunni.
Mamma og pabbi ferðuðust mikið til útlanda í viðskipta- og skemmtiferðir en innst inni var hún fegnust þegar heim var komið vildi vera heima nálægt hópnum sínum og eða í sumarbústaðnum sem þau áttu til margra ára þar leið þeim oftast vel, oft var þar margt um manninn og barnabörnin tekin með óspart og eiga skemmtilegar minningar frá þeim tíma. Mamma var elsk að öllu sínu fólki uppi á Skaga foreldrum, meðan þeirra naut við, frændfólkinu öllu, og mjög kært var með þeim systrum.
Seinustu árin voru mömmu nokkuð erfið, eftir missi Símonar bróður og pabba þá bognaði þessi sterka og góða kona og náði ekki fullri heilsu eftir það. Að leiðarlokum vil ég þakka henni mömmu sem var mín fyrirmynd og klettur alla tíð fyrir allt sem hún var mér og mínum, og nú er tíminn kominn, að sleppa handtakinu, án efa var hennar beðið með óþreyju hinum megin. Farðu sæl mamma mín inn í fegurð himins og vermi þig upprisusólin við himnaborðin.

Þóra.