Júlíus Reynir Ívarsson fæddist á Melanesi á Rauðasandi 23. apríl 1927. Hann lést á endurhæfingardeild Landakotsspítala 23. apríl 2011. Foreldrar hans voru hjónin Ívar Rósinkrans Halldórsson og Ingibjörg Júlíana Júlíusdóttir bændur á Melanesi. Hann var elstur sex barna þeirra. Systkini hans voru Ari Guðmundur, f. 1931, kona hans er Arnfríður (Ásta) Stefánsdóttir, Halldór Bragi, f. 1933, d. 2000, kona hans var Vigdís Þórey Þorvaldsdóttir, Hörður, f. 1935, kona hans er Erla Kristófersdóttir, Rósa Magnfríður Sesselja, f. 1940, maður hennar er Ragnar Guðmundsson, og Erla Fanney, f. 1944, maður hennar er Gísli Kjartansson. Júlíus Reynir ólst upp á Melanesi á heimili þriggja kynslóða eins og þá var algengt, systkina, foreldra, móðurafa og móðurömmu. Hann gekk í farskóla Rauðasandsskólahverfis og fermdist frá Saurbæjarkirkju vorið 1941. Hann gekk til venjulegra sveitastarfa á heimili sínu í uppvextinum. Síðar hleypti hann heimdraganum, var kaupamaður á búi Sigurvins Einarssonar í Saurbæ, vetrarmaður á prestssetrinu í Sauðlauksdal og fór túra á togurum. Einnig vann hann jarðyrkjustörf með vinnuvélum. Um tvítugt verða kaflaskil í ævi hans. Þá fór hann til náms á Bændaskólann á Hvanneyri. Á Hvanneyri kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Gunnlaugsdóttur frá Bakka í Víðidal, sem þá var starfsstúlka á skólasetrinu. Þau gengu í hjónaband árið 1953. Árið 1951 keyptu þau jörðina Móberg á Rauðasandi og settu saman lítið bú, sem jókst og stækkaði í tímans rás. Síðar voru keyptar nágrannajarðirnar Skógur og Kirkjuhvammur. Reynir og Jóhanna eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Haukur, kona hans er Ingibjörg Jónasdóttir, búsett á Hvanneyri í Borgarfirði, þau eiga sex börn. 2) Gunnlaugur Auðunn, kona hans er Sigrún Sveinsdóttir búsett í Reykjavík, þau eiga þrjú börn. 3) Ingibjörg, maður hennar er Bragi Guðjónssson, búsett í Reykjavík, þau eiga tvö börn. 4) Anna Guðrún, búsett í Reykjavík, góðvinur hennar er Hjálmar Axelsson. Á Móbergi bjuggu þau blönduðu og afurðagóðu búi sauðfjár og nautgripa í 44 ár, eða til ársins 1995. Sá erfiði vetur reyndi á krafta þeirra, sem voru þá teknir að þverra og upp úr því tekin ákvörðun um að bregða búi. Við lok búskapar þetta haust fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu sér nýtt heimili, fyrst við Þorragötu en síðar á Fálkagötu 6. Á búskaparárum sínum sinnti Reynir ýmsum félagsstörfum á sviði landbúnaðarins. Hann var formaður búnaðarfélagsins Örlygs í hartnær tvo áratugi. Hann sat einnig marga aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða og Stéttarsambands bænda. Hann sótti námskeið í nautgripasæðingum og vann sem frjótæknir í hlutastarfi. Um skeið starfaði hann við ullar- og gærumat í Vestfirðingafjórðungi. Þau hjónin ferðuðust mikið um landið þessi ár, gjarnan í hópferðum eldri borgara. Jarðarför Júlíusar Reynis verður gerð frá Neskirkju í dag, 6. maí 2011, og hefst athöfnin kl. 15.
Það fellur að og yfir fótspor greypt í sandi,
fuglar dotta í rökkurhjúp.
Og söngvar hljóðna þegar nóttin leggst að landi,
loftin glitra köld og djúp.
Við bakkann hníga bláir straumar,
blika út við sjónhring draumar, eins og þá.
Og meðan vindur voginn gárar,
verð ég einn að setja út árar, eins og þá.
(Jón Örn Marinósson)
Faðir okkar, Reynir á Móbergi hefur nú lagt á djúpið og tekið land á
fjarlægri strönd. Við sem horfðum á eftir honum og sáum hann hverfa, trúum
því að þar eigi hann góða heimkomu. Mest alla ævi sína átti hann heima á
sjávarströnd, við hafið í sínum ólíku myndum, ótal sinnum sá hann falla að
og fjara út. Hann sá aðfallið útmá gengin spor í sandi og heyrði brimgnýinn
þegar vestanbrimið svarraði við Rifið. Ungur lék hann sér í fjörusandinum á
Melanesi, þar sem hann ólst upp við ástríki foreldra sinna. Varðveist hefur
ljósmynd af honum fárra ára gömlum sem sýnir uppáklæddan, broshýran dreng.
Oft minntist hann Júlíusar afa síns, sem hann var samvistum við fram á
unglingsár. Júlíus Halldórsson var annálaður fjármaður og vakti efalaust
þann áhuga dóttursonarins á sauðfénu, sem entist honum allt til æviloka.
Systkinin sex á Melanesi tóku þátt í búskapnum þegar aldur og þroski
leyfði. Til er ljósmynd af systkinahópnum við heysnúning á túninu, pabbi er
elstur og stendur fremst og yngri systkinin í aldurs- og stærðarröð að baki
honum, hvert með sína hrífu. Við upphaf búskapar foreldra okkar á Móbergi
árið 1951 voru nýir tímar að ganga í garð. Skurðgröfur og jarðræktarvélar
fóru um sveitir. Vinnuhestarnir að hverfa, vélaöld að hefjast. Nýir
möguleikar í ræktun og heyskap. Nýjar byggingar risu. Nýjar brautir lagðar.
Hið nýja landnám. Þetta var ævintýri þessarar kynslóðar, sem vissulega
fékkst ekki báráttulaust. Foreldrar okkar voru þar engin undantekning.
Flest árin var spilda ræktuð, bústofn aukinn, ný vél keypt til
afkastaaukningar og vinnuléttis. Fjórum sinnum á níu árum fæddist nýtt
barn! Það segir sína sögu um forgang hlutanna að bíll var fyrst keyptur á
heimilið eftir tuttugu ára búskap. Því var ekki gert víðreist fyrstu
búskaparárin utan nauðsynja- og aðdráttaferða.
Pabbi var greiðvikinn og hjálpsamur við nágranna og naut þess á móti þegar
á reyndi. Nágrennið var gott og menn hjálpuðust að í dagsins önn. Hann var
félagslyndur og naut samskipta við annað fólk. Væri farið í ferðalag,
taldist það ekki fullheppnað nema að hitta fólk að máli, kunnugt eða
ókunnugt. Eitt vorið bauð vinur hans, Ólafur E. Stefánsson ráðunautur honum
með í sýningaferðalag um Vestfirði. Fyrir það vinarbragð var hann afar
þakklátur. Við minnumst einnig tveggja vikna hringferðar um landið sumarið
1974. Á því ferðalagi voru mörg fyrri vinakynni endurnýjuð og stofnað til
nýrra. Á seinni árum gaf hann sauðfé í haga helst gaum á ferðalögum, sem
honum þótti nauðsynlegur og ómissandi þáttur í ásýnd landsins. Síðari árin
þegar þau voru orðin tvö eftir á Móbergi, tóku þau um árabil nokkur börn í
sumardvöl sem af ólíkum ástæðum þurftu aðstoðar við. Einnig voru Hreinn
dóttursonur og Rafn frændi mörg sumur í dvöl hjá þeim. Samvistir og
félagsskapur við þessi börn, sem nú eru fyrir löngu fullorðið fólk,
reyndist þeim afar dýrmætur. Einnig glöddust þau þegar tengdabörn og síðar
lítil barnabörn og barnabarnabörn, komu til sögunnar. Pabbi var annars lítt
fyrir það gefinn að flíka tilfinningum sínum. Hann var jafnlyndur,
hrifnæmur og mildur faðir, sem gaf gott eftirdæmi með breytni sinni. Þegar
við vorum fjarri í skóla eða vinnu skrifaði hann okkur mörg bréf með
fréttum úr búskapnum og nágrenninu, og þótti vænt um þegar svar barst til
baka. Það var ekki auðveld ákvörðun, en þó óumflýjanleg að gefa upp
búskapinn og flytja af þeim slóðum þar sem hann hafði dvalist alla tíð,
utan námsvetranna á Hvanneyri. Eftir það kom hann sjaldan á fornar slóðir,
vildi varðveita minninguna óskerta.
Í Reykjavík átti hann gott ævikvöld og þurfti í engu að kvíða komandi degi.
Fyrstu árin þar geymdi hann jeppann sinn á Hvanneyri og kom stundum með
áætlunarbílnum, vitjaði síns gamla skólastaðar og fór ferðir um nágrennið.
Hann fór fram undir það síðasta allra sinna ferða með strætisvögnum
borgarinnar. Á mælikvarða eilífðarinnar er ein mannsævi sem gára á vatni
eða ljósleiftur. Allt máist út að lokum líkt og fótspor í sandi. Við trúum
því samt að pabbi hafi gengið lífsgönguna til góðs og skilað af sér góðu
dagsverki. Eftir nokkurra vikna veikindi hlaut hann hægt andlát að kvöldi
áttugasta og fjórða afmælisdags síns. Við kveðjum pabba með söknuði og
þökkum honum fyrir allt sem hann var okkur. Við viljum við þessi tímamót
þakka starfsfólki Maríuhúss, Landsspítala og Landakotsspítala fyrir umönnun
hans síðustu misseri og vikur.
Haukur, Gunnlaugur, Ingibjörg og Anna Guðrún.