Ásmundur Jónsson fæddist á Fáskrúðsfirði 11. júní 1929. Hann lést á sjúkrahúsi HVE á Akranesi 5. maí 2011. Ásmundur var sonur hjónanna Jóns Ásgrímssonar og Svanhvítar Guðmundsdóttur. Útför Ásmundar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 12. maí 2011, og hefst athöfnin kl. 14.
Þegar ég kynntist Ásmundi eða Ása eins og hann var oftast kallaður sá ég
strax að þar fór traustur og vandaður maður, með ríka réttlætiskennd og bar
mikla umhyggju fyrir fjölskyldu sinni, ættingjum og vinum. Þetta er í
kringum 1975 en þá bjuggu þau Helga ásamt börnum sínum á Vesturgötu 147 á
Akranesi í myndarlegu húsi sem þau höfðu byggt af samheldni og dugnaði.
Ásmundur starfaði þá og til loka starfsævinnar hjá Sementsverksmiðjunni á
Akranesi og sá þar um varahluta og verkfæra lagerinn sem bar honum gott
vitni, allt í röð og reglu, hreint og strokið út úr dyrum. Ási hafði
frábært skopskyn og hefur sjálfsagt verið svolítill grallari á yngri árum
og kannski etthvað fram eftir aldri. Þrátt fyrir erfið veikindi undanfarið,
vottaði enn fyrir skopskyni hjá honum þegar ég spurði hann nýlega hvort
hann væri búnn að fá hádegismat og hann svaraði um hæl með smá glotti já
eina karmellu. Æska Ásmundar austur á Fárskrúðsfirði hefur eflaust verið
erfið, en þegar hann var 7 ára fórst vélbáturinn Kári sem faðir hans Jón
Ásgrímsson var skipstjóri á með allri áhöfn, 4 mönnum. Þetta gerðist fyrir
nákvæmlega 75 árum eða 12. maí 1936 í suðaustan aftakaveðri. Mér er mjög
minnisstætt þegar hann sagði mér frá því að hann hefði farið daglega svo
vikum skipti niður á bryggju að líta eftir bát pabba síns sem aldrei kom.
En Ási átti sem betur fer sterka og umhyggjusama móður Svanhvíti, sem hélt
vel utanum sína fjölskyldu við kröpp kjör eftir missir fyrirvinnunnar.
Svanhvít móðir hans var honum mjög kær og notaði hann hvert tækifæri sem
gafst til að fara austur, en eins og gefur að skilja var það oft þrautin
þyngri að ferðast hinu megin á landið við þær samgöngur sem þá voru í
landinu en það gat tekið 3 daga að keyra austur á land. Ási starfaði
reyndar við akstur á árum áður bæði á flutningabílum og rútum og var því
ýmsu vanur á íslenskum þjóðvegum. Hann fylgdist vel með tækninýungum á
flestum sviðum er varðaði bíla og samgöngur og síðar þegar tölvuöldin hélt
innreið sína var hann strax með á nótunum en það þótti ekki sjálfsagt hjá
hans kynslóð. Ásmundur var einn af þeim sem hægt var að treysta sama hvað á
reyndi, hann var maður orða sinna og skilaði öllu sem hann tók að sér með
miklum sóma og hann gerði jafnframt þá kröfu til síns fólks og annarra sem
hann leitaði til. Þó Ási væri dagsdaglega hæglátur og yfirvegaður gat hann
ef þannig bar við, verið hrókur alls fagnaðar og hafði bæði gaman af að
segja og heyra sögur af skemmtilegum atvikum frá fyrri tíð. Frá fyrsta degi
að ég kom inn í fjölskyldu Ása og Helgu, fyrst sem væntanlegur og síðar
tengdasonur hefur mér ávallt verið vel tekið. Okkar samskipti hafa
einkennst af virðingu og væntum hyggju og hafa þau hjón reynst mér og
fjölskyldu minni einstaklega kærleiksrík.
Kæri tengdapabbi, ég vil þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við
áttum saman, allt sem ég lærði af þér, alla hjálpina sem þú veittir mér og
minni fjölskyldu og að hafa fengið að vera þér samferða á lífsins
braut.
Kveðjustund
Hvar sem ég um haf og hauður fer,
hugur minn skal ætíð fylgja þér.
kveðju til þín blærinn ber,
vegir skiljast burt ég fer.
Nú er komin okkar kveðjustund,
krýp í þessum fagra birkilund.
Þrái okkar endurfund,
við aftanroðaglóð.
(Höfundur ókunnur)
Þór Magnússon.