Elínóra Hjördís Harðardóttir fæddist á Akureyri 7. september 1953. Hún lést á heimili sínu á Dalvík hinn 5. apríl 2011. Foreldrar hennar eru hjónin Sigurbjörg Edda Óskarsdóttir, f. 1935, og Hörður Gíslason, f. 1933, til heimilis í Kringlumýri 19, Akureyri. Systir Hjördísar er Halla Björk Harðardóttir, f. 1958, hennar maki er Haukur Vésteinsson, f. 1952, börn Gauti Valur, f. 1976, Edda Elvý, f. 1980, og Breki Snær, f. 1997. Eftirlifandi eiginmaður Hjördísar er Pétur Stefánsson, f. 1951, þau giftu sig 1975. Börn þeirra eru: 1) Berglind, f. 1971, hennar maður er Örvar Þór Sveinsson f. 1970, börn þeirra eru Bergþór Atli, f. 1996, og Magnea Ósk, f. 1994. 2) Hörður, f. 1976, maki Johanna Engström, f. 1982, þeirra börn eru Elísa, f. 2005, og Linné Hjördís, f. 2010. 3) María Rakel, f. 1981, maður hennar er Guðmundur Helgason, f. 1976, börn þeirra eru Mjalldís Ósk, f. 2001, Viktoría Fönn, f. 2004, og Karitas Lind, f. 2008. Útför Hjördísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 14. apríl 2011, og hefst athöfnin kl. 10.30.

Elsku elsku besta mamma okkar er farin... ég er búin að ætla setjast niður ótal ótal sinnum til að skrifa til þín, en hef aldrei komið mér í gang því það hefur verið of sárt, og þetta er ennþá svo óraunverulegt og ég skil ekki ennþá eða vil ekki skilja að þú sért horfin frá okkur. Ég veit samt að þú ert ekki alveg farin, við getum bara ekki séð þig en finnum svo mikið fyrir nærveru þinni elsku mamma mín. Mér finnst það vera svo ótrúlega stutt síðan, en samt er liðið eitt og hálft ár síðan að við fjölskyldan sátum inni á aðstandenda herberginu á sjúkrahúsinu þar sem að okkur voru sagðar verstu fréttir sem við höfum fengið á ævinni, að þú værir með krabbamein og ættir nokkra mánuði eftir ólifaða, við trúðum því ekki og ég leit á þig og þú varst svo falleg og hraustleg  eins og þú hefur alltaf verið. Ég  hugsaði að þetta væri bara einhver vitleysa sem ætti bara eftir að leiðrétta, því að manneskjur eins og þú deyja bara ekki. En þú varst svo ákveðin frá fyrsta degi í að sigrast á veikindunum það var hreint ótrúlegt að sjá þig berjast í gegnum þetta, sennilega er það þess vegna sem við fengum að hafa þig lengur hjá okkur en hvað í raun var búist við, því alltaf hélstu áfram og alltaf hélstu áfram að vera þú, alltaf varstu svo jákvæð og bjartsýn. Við börðumst með þér elsku mamma á allan þann hátt sem við mögulega gátum, alveg þangað til að þú gast ekki meira. Við erum svo stolt af þér og þakklát fyrir að hafa fengið að vera börnin þín, og fyrir að börnin okkar fengu að eiga þig sem ömmu, besta mamma og amma, vinur og eiginkona sem við gátum hugsað okkur. Þú hafðir endalausa þolinmæði í að gera og sinna ömmubörnunum, að lita með þeim, kenna þeim að prjóna, hekla, horfa á sjónvarpið með þeim, flétta og greiða hár hvort sem að þær voru að greiða þér eða þú þeim, þú gafst þér alltaf tíma til að spjalla við þau og hlusta á hvað þau hefðu að segja, enda sáu börnin ekki sólina fyrir þér elsku mamma. Ég hef alltaf dáðst að þér fyrir hvað þú varst góð mamma og amma og reyni mitt besta til að feta í þín spor. Enda naut ég þess að sitja til hliðar og fylgjast með þegar að þú varst að græjast með börunum, að sjá allan kærleikann sem var á milli ykkar og reyndi að læra af þér til að ég gæti orðið jafn góð mamma og þú varst okkur.

Elsku mamma, við hugsum til þín hverja einustu sekúndu alla daga. Það er ekki liðinn nema einn mánuður síðan að þú kvaddir, en að sumu leyti er það eins og að við höfum setið bara í gær við eldhúsborðið og spjallað saman - en að öðru leyti er það eins og það sé liðin heil eilífð síðan og ég fæ hnút í magann við tilhugsunina um að þú munir ekki koma aftur, að eiga eftir að lifa restina af lífinu án þess að hafa þig hjá okkur. Svo ótal margt kemur upp í hugann eins og hvað það var gaman að sjá þig þegar að fór að líða að Svíþjóðar ferðunum ykkar pabba, þú ljómaðir alltaf löngu áður en ferðalagið byrjaði og naust þess að vera dúllast við að pakka niður í gáminn þinn og koma öllu haglega fyrir í litlu pokunum þínum. Þér leið alltaf svo vel í Svíþjóðinni þinni, heima hjá Bróa og hans fjölskyldu. Sérstaklega leið þér sem allra best þegar þú lást á ströndinni heilu og hálfu dagana í steikjandi hita og fannst ekki fyrir því, annað hvort á Östrastranden eða á þínum uppáhaldsstað sem var Laxviken. En þessir 2-3 mánuðir sem þið voruð yfirleitt úti var eins og heil öld fyrir mér að líða en þá saknaði ég ykkar óheyrilega mikið þó að við værum alltaf í símasambandi. Með þetta í huga  velti ég því fyrir mér hvernig hægt verður að  fara að því að lifa heila æfi án þín, en ég veit að þú ert alltaf hjá okkur og það hjálpar mikið. Pabbi heldur áfram að standa sig eins og klettur eins og hann hefur alltaf gert, og er okkur mikill styrkur, við hjálpumst öll að til að okkur geti liðið betur. Sagt er að tíminn lækni öll sár, en ég held að það sé bara alls ekki rétt, en aftur á móti lærir maður kannski að lifa með söknuðinum með tímanum, þó það virðist erfitt að skilja það núna.

Það er svo ótrúlega margt sem er óskiljanlegt og svo ósanngjarnt í þessu lífi og okkur er greinilega  alls ekki ætlað að skilja allt. Ég mun aldrei koma til með að skilja af hverju við gátum ekki fengið meiri tíma saman, af hverju þurfti svona yndisleg manneskja eins og þú að hljóta þessi örlög? En bestu rökin  sem ég hef heyrt fyrir því eru að þú hafir hreinlega verið of góð fyrir þennan heim og kannski er það satt sem sagt er - þeir deyja ungir sem guðirnir elska mest? Það er ekkert eins hérna án þín elsku mamma, við söknum þín svo ólýsanlega mikið og tómarúmið sem þú skildir eftir þegar þú kvaddir er svo mikið, það er svo sárt að geta ekki hringt í þig jafnvel bara til að segja hæ, eða til að spyrja hvernig að sjóða sagó-graut eins og ég gerði bara vikunni áður en þú kvaddir, það er svo sárt að geta ekki komið í heimsókn til ykkar, hitt þig, kysst og knúsað. Ég sakna svo mikið allra yndislegu stundanna okkar sem við áttum saman, hvort sem það var þegar að við sátum við eldhúsboðið heima hjá ykkur á morgnana með kaffibollann og rettuna og spjölluðum um alla heima og geima, hlógum mikið eiginlega út af fáránlegum hlutum, þegar að við vorum að fíflast um allt og hvað við vorum ótrúlega bright saman, eða þegar við töluðum á alvarlegum nótum og grétum saman. Ég sakna þess líka þegar við vorum bara saman og sögðum ekki neitt, því eins og þú sagðir alltaf að það er ekki minna virði að geta þagað saman eins og að geta talað saman. Ég sakna meira að segja að heyra þig vera skammast í pabba æji Pjétuur eins og þú sagðir alltaf og pabbi hló bara, þó að hann vissi að hann væri búinn að gera eitthvað af sér en vissi bara ekki hvað það var sem hann gerði af sér. Ég sakna allra stundanna okkar saman í Vaglaskóginum á sumrin sem voru svo yndislegar, hjólhýsið ykkar og fellihýsið okkar hlið við hlið og börnin flakkandi um á milli í tíma og ótíma og ef það var eitthvað að, eða eitthvað sem vantaði þá gat amma alltaf reddað því. Þó það verði yndislegt að komast aftur í skóginn í sumar þá verður það samt aldrei það sama án þín, en við munum reyna eftir okkar allra bestu getu að halda ótrauð áfram og halda áfram að gera þig stolta af okkur, því þú varst alltaf svo stolt af okkur systkinum og  varst dugleg að segja okkur það og hvetja okkur áfram. Það var alveg sama hvað maður gerði af sér, þú dæmdir aldrei, sama hvaða mistök fólki varð á að gera því að þitt mottó var að það eru jú allir mannlegir og öll gerum við mistök. Þú tókst alltaf á móti öllum með opnum örmum og tókst fólki bara eins og það er.

Við hefðum viljað fá endalausan, endalausan tíma með þér og þú áttir það svo sannarlega skilið að fá að njóta gulláranna, ferðast um, fylgjast með barnabörnunum stækka og verða sterkir einstaklingar og verða gömul gráhærð kona með tvær fléttur eins og sagðir alltaf sjálf. En þrátt fyrir alla ósanngirnina þá erum við samt svo endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa öll þessi yndislegu ár með þér þó að við hefðum viljað geta fengið að hafa þig hér hjá okkur um alla eilífð en ef maður horfir í kringum sig þá eru það alls ekki allir sem eru svona lánsamir að fá þetta mikinn tíma með þeim sem þeir elska eins og við fengum með þér. Við erum líka svo endalaust þakklát þér elsku mamma fyrir allt sem þú hefur kennt okkur, allt sem þú hefur gert fyrir mig og okkur öll, fyrir alla þá ást, umhyggju og hlýju sem þú gafst okkur, því það var ekkert sem þú hefðir ekki gert fyrir okkur. Við værum alls ekki sömu einstaklingar og við erum í dag í dag ef það hefði ekki verið fyrir þig og svo að sjálf sögðu pabba líka. Það hvernig þið pabbi unnuð ykkur  saman í gegnum lífið, saman í gegnum súrt og sætt. Það var alveg sama hvað kom uppá og alveg sama hversu svart útlitið var þá gáfust þið aldrei upp og funduð alltaf nýjar, aðrar og betri leiðir til að komast yfir hindranirnar sem stundum átti að vera ómögulegt að komast yfir. Jafnvel þegar að við vorum að flytja í annað sinn til Svíþjóðar og komumst að því eftir að við vorum sest um borð í flugvélina að við værum ekki að fara þangað sem þið hélduð að við værum að fara, þannig að við lentum vissulega í Danmörku en bara hinum megin á landinu, í kjölfarið fylgdi því 2 daga auka ferðalag þvert í gegnum alla Danmörk sem varð að ævintýri sem við höfum svo oft hlegið að í gegnum tíðina. Allir flutningarnir hafa kennt okkur að aðlagast nýjum aðstæðum og kynnast nýju fólki. Svo áttirðu auðvitað líka bláu kerruna með hönkunum 2 sem reddaði miklu, og þá sérstaklega í sláturtíð þegar þú þurftir að ná í  hráefni niður á eyri og labba með það alla leið uppá brekku í kerrunni með hönkunum tveimur. Allt svona kenndi okkur svo margt um lífið og gerði okkur að sterkari einstaklingum, en það sem stendur uppúr af því sem við höfum lært er að gefast aldrei upp, standa alltaf saman og að vera alltaf góð við og virða hvort annað. Núna er það í okkar höndum að sjá til þess að lifa eftir því sem þú ert búin leggja þig fram við að kenna okkur  og við munum halda áfram að kenna okkar börnum það svo að þau verði góðir, sjálfstæðir og sterkir einstaklingar.

Ég gæti skrifað heila bók um þig elsku mamma fyrir hvað þú varst yndisleg, allt það sem þú skildir eftir í hjörtum okkar  sem mun lifa í okkur alla tíð, um allt sem við höfum gert  og upplifað saman, því það er ævintýri líkast. Mér finnst eins og það séu engin orð til sem eru nægilega falleg eða nógu öflug sem lýsa þér og hversu yndisleg persóna þú varst að innan sem að utan - mér dettur samt í hug það sem Didda sagði við þig að þú værir algjör perla, því að perlur eru mjög sjaldgæfar og þegar þú hefur einu sinni eignast perlu þá passarðu alltaf uppá hana, það er engin perla eins og þú - perlur eru fallega hvítar og glansandi að innan sem að utan, heilsteyptar í gegn, alveg eins og þú varst. Fyrir okkur varstu kraftaverka engill að öllu leyti, en greinilega engill sem Guð var farinn að sakna og vildi fá aftur heim til sín.

Takk elsku mamma fyrir að hafa verið mamma okkar og fyrir að gera okkur að þeirri fjölskyldu sem við erum í dag, sem stendur saman í gegnum allt, sama hvaðan á blæs, við munum aldrei víkja frá eða bregðast hvort öðru. Við treystum á að við munum hittast aftur og sameinast þegar okkar tími hérna á jörðinni er komin og ég veit að þú munt bíða þá og taka vel á móti okkur eins og þú hefur alltaf gert.

Þúsund kossar og knús frá okkur til þín elsku mamma!

Megi þú hvíla ó friði og Guð veri með þér.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum,
hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta.
Ég er svo nærri, að hvert ykkar tár
snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.
En þegar þið hlægið og syngið með glöðum hug,
sál mín lyftist upp í mót til ljóssins.

Þín einlæga fjölskylda

Pétur Stefánsson, Berglind og Örvar, Hörður og Hanna, María Rakel og Gummi og ömmubörnin sjö.