Fríða Sigríður Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september 1935. Hún lést á Tenerife 4. júní 2011. Foreldrar hennar voru Magnús Snorrason Welding, f. 1906, d. 1966, og Marie Amalie Welding, f. 1908, d. 1962. Systkini Fríðu eru Elín, f. 1933, Snorri, f. 1934, Theodór, f. 1940, d. 1961, Auður, f. 1942, d. 1998, Karen, f. 1945, Unnur, f. 1948 og María, f. 1951. Hinn 2. júní 1956 giftist Fríða eftirlifandi eiginmanni sínum, Ólafi Reykdal Karlssyni, f. 19. maí 1935. Börn Fríðu og Ólafs eru Sigríður, f. 1954, maki hennar er Jón Þór Gunnarsson. Börn: Gunnar Þór og Ólafur Karl. Fríða Ólöf, f. 1960, maki hennar er Skúli Gunnarsson. Börn: Heiðrún, Davíð Örn og Ingvar. Ólafur Karl, f. 1966, maki hans er Lena Friis Vestergaard. Börn: Björk og Viktor. Anna María, f. 1972, maki hennar er Heimir Jónsson. Börn: Róbert Snær og Heiðný Embla. Auk þess eiga Fríða og Ólafur eitt barnabarnabarn, Helenu Melberg. Fríða og Ólafur hófu búskap í Reykjavík og bjuggu lengst af í Grænuhlíð 3. Fríða starfaði við verslunarstörf en umfram allt helgaði hún líf sitt uppeldi barna sinna og fjölskyldu og annaðist heimilið af alúð. Fríða Sigríður verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 21. júní 2011, kl. 13.

Það er sorglegra en orð fá lýst að kveðja þig, elsku mamma. Að þurfa að horfast í augu við það að þú komir aldrei aftur er svo óraunverulegt. Maður lítur til baka og skoðar hvort maður hefði getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir að svona færi, en líklega hefði maður ekkert getað gert.

Elsku mamma þú varst góð í gegn og vildir allt fyrir okkur börnin þín gera. Ég var yngst og naut án efa góðs af því, örverpið sem fékk allar sínar óskir uppfylltar. Að telja upp allt það sem þú og pabbi gerðuð fyrir mig yrði of langt mál en þó get ég sagt með vissu að án ykkar hefði ég varla náð að klára mitt fyrra háskólanám. Þá bjó ég hjá ykkur í Grænuhlíðinni og um mitt námið fæddist ömmustrákurinn þinn, hann Róbert, sem þú gættir öllum stundum á meðan ég sat yfir lestri skólabóka, og gott betur en það því hann átti alltaf öruggan stað hjá þér, elsku mamma. Þú leist á hann sem þitt eigið barn og mun hann búa að því alla tíð. Hann mun alltaf eiga yndislegar dýrmætar minningar um þig því minningarnar eru svo margar og góðar. Til að mynda öll lögin sem þú söngst fyrir hann þegar hann var lítill, rólóferðirnar og óþrjótandi þolinmæði þín við púsl og aðra leiki sem flestir hefðu orðið þreyttir á, en ekki þú, elsku mamma. Þegar hann eltist og við fluttum úr Grænuhlíðinni átti hann alltaf vísan stað hjá ykkur pabba, enda sótti hann mikið í að vera hjá ykkur, þar átti hann sitt annað heimili. Veiðiferðir voru farnar, fyrst og fremst fyrir hann og ekki var óalgengt að prinsinum væri boðið í mat upp í Grænuhlíð ef á borðum var eitthvað sem þú vissir að honum líkaði. Þú varst alltaf risastór hluti af hans lífi og ef eitthvað markvert gerðist hjá honum var það alltaf fyrsta verkið að hringja í ömmu og segja henni frá. Enda var svo gaman að segja þér frá, þú sýndir öllu sem við tókum okkur fyrir hendur svo mikinn áhuga og hluttekningin var svo mikil. Heiðný Embla, dúllan hennar ömmu var einnig farin að átta sig á þessu og hlakkaði alltaf til að sýna þér ef hún hafði eignast eitthvað nýtt því hún vissi að hún fengi viðbrögðin sem hún vonaðist eftir. Henni fannst alltaf jafn skemmtileg tilhugsunin um að fara til ömmu og afa og var jafnvel sjálf farin að stinga upp á því. Enda vissi hún að þar var alltaf og án undantekninga til ís og kex og jafnvel appelsín. Hún gat einnig gengið að því vísu að amma myndi leika við hana, enda sátuð þið ósjaldan við dótakassann að lita, leika eða púsla. Þetta hafði ekkert breyst frá því Róbert var lítill, þú hafði endalausa þolinmæði og áhuga á barnabörnunum þínum og vildir allt fyrir þau gera.

Mikið eigum við eftir að sakna þess að geta rölt upp í Grænuhlíð að heimsækja ömmu sem ávallt tók komu okkar fagnandi. Þar verður einnig tómlegt í kaffitímanum sem hefur verið venja lengur en ég man, kl. 15 var alltaf hægt að stóla á að heitt væri á könnunni og að þú sætir í stólnum þínum inni í stofu tilbúin í spjall. En það var meira en kaffitíminn sem átti sinn fasta sess í Grænuhlíðinni því að hjá ykkur pabba var alltaf allt í röð og reglu og allt átti sinn tíma. Til dæmis var alltaf kvöldmatur kl 18.30 og að þínu mati var ómögulegt að ætla að fara að skúra eftir hádegi, nei það varð að gerast fyrir hádegi. Það var alltaf svo snyrtilegt og fínt hjá þér að stundum grínuðumst við Óa með það þegar við vissum að von væri á þér í heimsókn að nú væri eftirlitið á leiðinni, eins gott að fara að taka til. Enda áttir þú það til að benda okkur á leiðir til að þrífa og pússa hitt og þetta, ég man t.d. eftir því þegar þú bentir mér á hvernig ég gæti náð kámi af skáp heima hjá mér, kámi sem ég var ekki einu sinni búin að taka eftir. Við gátum hlegið að þessu og getum enn því það eru svo margar skemmtilegar minningar að ylja sér við. Þú áttir til að mynda ófáa ógleymanlega frasa, en þú varst meistari í að afbaka orð og setningar svo úr varð algjör brandari. Til dæmist kallaðir þú lyklaborð mælaborð og ég man líka þegar Heimir ætlaði að tengja hjá þér internetið, þú varst nú ekki par hrifin af því til að byrja með því þú hafðir sko ekkert pláss til þess að geyma þetta internet neins staðar! Allt sem tengdist tækninni áttir þú erfitt með að skilja en þú gerðir grín að þessu sjálf þannig að oft var mikið hlegið og þú hlóst með.

Elsku mamma, þú varst svo brosmild og létt í lund, skapbetri manneskju hef ég ekki kynnst. Ég man aldrei eftir þér reiðri, ekki einu sinni pirraðri. Þú varst með svo hlýtt hjarta og umhyggjusemi þín var mikil. Þú varst alltaf boðin og búin til þess að hjálpa og aðstoð frá þér var auðfengin því þú sagðir aldrei nei. Þú hafðir ómældan áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur og varst meira að segja farin að fylgjast með fótbolta til þess að geta tekið þátt í því. Daginn eftir leik vissir þú alltaf hvort Liverpool eða Manchester hefðu unnið eða tapað. Nú eða liðið hans Skúla, þú varst með þetta allt á hreinu.

Elsku mamma þú varst mér svo góð, betri mömmu hefði ég ekki getað hugsað mér. Þú varst einstök kona og um þig á ég svo margar hlýjar og dýrmætar minningar. Þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig, alltaf verið tilbúin til þess að hjálpa, alltaf tekið þátt í öllu mínu og ég mun sakna þín hvern einasta dag. Líf mitt verður aldrei samt en ég trúi því og treysti að nú sértu komin á þann stað þar sem þú getur horft á dúllurnar þínar vaxa úr grasi og hafir þannig fengið þína hinstu ósk uppfyllta.

Bless í bili, elsku mamma mín.

Anna María Ólafsdóttir.