Páll Birgir Símonarson fæddist 26. febrúar 1939 í Melbrún, Búðum í Fáskrúðsfirði. Hann lést 13. júní sl. Hann var sonur hjónanna Sigurbjargar Runólfsdóttur frá Fáskrúðsfirði og Símonar Hannessonar frá Keflavík. Systkini Páls Birgis eru Arnheiður, f. 5. nóv. 1942, Kjartan, f. 5. nóv. 1942, d. 26. sept. 2007, Emil, f. 22. júlí 1944. Fyrstu árin ólst Páll Birgir upp á Fáskrúðsfirði. Hann fluttist suður ásamt foreldrum og systkinum um sex ára aldur. Foreldrar hans stunduðu vinnu víða um land og fylgdu börnin þeim til skiptis. Í huga hans var Fáskrúðsfjörður alltaf heima því þar dvaldist hann gjarnan á sumrin hjá afa sínum og ömmu. Páll Birgir stundaði nám í kaþólska skólanum í Hafnarfirði og tvo vetur í Kópavogsskóla. Hann byrjaði í flugnámi en auðnaðist ekki að ljúka því. Páll Birgir byrjaði snemma að taka þátt í atvinnulífinu, fyrst sem vinnumaður í sveit, í frystihúsum og til sjós, m.a. á síðutogara til Grænlands. Voru útilegur oft langar og erfiðar. Síðar vann hann við akstur eigin sendibíls og í framhaldi af því fór hann að vinna við bílkrana sem var hans starf upp frá því. Árið 1957 kynntist Páll Birgir Eyrúnu Jónu Axelsdóttur, f. 27.júní 1937. Hófu þau búskap í Garðshorni í Garðahreppi og hinn 12. desember 1964 gengu þau í hjónaband. Páll Birgir og Eyrún bjuggu í Garðahreppi til ársins 1975 en þá fluttu þau á Selfoss. Eyrún var dóttir Jónínu Árnadóttur úr Rangárvallasýslu og Axels Kristjáns Eyjólfssonar frá Hafnarfirði. Eyrún lést 3. ágúst 1994. Páll Birgir og Eyrún eignuðust sex börn: 1) Axel Kristján, f. 29. ágúst 1958, í sambúð með Ingveldi Birgisdóttur. Þau eignuðust einn son, Jón Birgi, f. 6. ágúst 1981, dáinn 15. mars 1982. Sonur Ingveldar og fóstursonur Axels er Ágúst Óli Hróðmarsson. Hann er kvæntur Kötlu Sif Þorleifsdóttur, þau eiga þrjú börn, Óla Gunnar, Einar Braga og Þóru Ingibjörgu. Ágúst Óli á Ketil Antoníus með Benediktu Ketilsdóttur. 2) Símon Arnar, f. 26. des. 1961, kvæntur Lilju Guðmundsdóttur. Þau eiga eina dóttur, Sigrúnu. 3) Guðmundur Birgir f. 26. feb. 1964. Hann á tvö börn, Bjarna Þór og Eydísi Ósk. 4) Sigurbjörg Pálína, f. 2. apríl 1966, vinur hennar er Jóhann Þorsteinsson. Sigurbjörg á einn son, Eyjólf Birgi Guðnason. 5) Herbert Oddur, f. 7. maí 1971. Unnusta hans er Jóhanna Vilhjálmsdóttir, dóttir þeirra er Elín Eyrún. Fyrir á Herbert tvö börn, Halldór Inga og Birgittu Láru, sonur hennar er Anton Fannar. 6) Stúlka, f. og d. 21. ágúst 1977. Frá árinu 2001 var Páll Birgir búsettur í Hveragerði ásamt dóttur sinni og dóttursyni. Áhugamálin voru á sviði véla og bíla. Hann var félagi í Fornbílaklúbbi Íslands og virkur félagi í Húsvagnafélaginu. Síðari ár hafði hann mikið gaman af því að ferðast um landið í húsbíl, fyrst með eiginkonu sinni Eyrúnu Jónu, sem deildi því áhugamáli með honum, og síðar með börnum og barnabörnum. Páll Birgir lést í útilegu í Fljótshlíð 13. júní sl. Útförin fer fram í Hveragerðiskirkju í dag, 2. júlí 2011, kl. 14. Jarðsett verður í Selfosskirkjugarði.
Til minningar um Pál Birgi Símonarson:
Þegar síminn hringir og á endanum er gamall vinur og grallaraspói frá því á unglingsárum og talar gætilega þá veit maður að það er eitthvað að. Þegar hann tilkynnir svo lát sameiginlegs vinar, þá verður manni það fyrst til að skammast sín. Tíminn var búin, tímanum sem alltaf hafði verið rutt á undan og ætlaður hafði verið til að endurnýja gömul kynni og forvitnast um hagi, hann var allt í einu liðinn.
Það lá aldrei illa á Páli Birgi Símonarsyni í minni grennd og hann var sannur vinur vina sinna. Í gamla vina hópnum var hann á stundum nefndur Biggi stóri því nafni hans, vinnu félagi og sameiginlegur vinur okkar var nokkru lægri. Birgir var lagin, útsjóina samur og gagnið var honum meira virði en útlitið. Ég hafði það á tilfinningunni að Bigga liði alltaf vel þó ekki væri alltaf meðvindur í lífinu.
Einhverju sinni vorum við á Húsafelli og bíllinn bilaði og komumst við að þeirri niðurstöðu að bensíndælan væri ónýt, en þá rétti Birgir úrsér og horfði ofan í vélarhúsið og sagði eins og við sjálfan sig, það þarf enga bensín dælu og svo batt hann Breskan gallonsbrúsa efst á hurðina bílstjóra megin og fyllti hann af bensíni og tróð svo slöngu í stútinn og saug upp í hana bensín og tengdi hana við blöndunginn og setti í gang. Um nóttinna vorum við svo lukkulega komnir til okkar heima í þeim gamla Garða hreppi sem þá var en til.
Í annan tíma vorum við að brasa við einhvern vélbúnað uppi á Setbergi og Birgir sendi mig á bílnum sínum að sækja verkfæri en ekki tókst betur til en svo að ég ók á fullri ferð út í hraun og við það snérist upp á grindina á þessum ágæta Breska bíl, þannig að hann varð svolítið asna legur í framan. Þegar ég var svo að reyna að stama útúr mér lýsingum á atvikum og tjóni, þá greip Birgir frammí og spurði, meiddist einhver? Nei sagði ég og hugsaði um það hvað hefði gerst ef hraundrangurinn hefði brotist upp úr gólfinu. Þá fór Birgir að hlæja og sagði þetta ekki skipta neinu máli, það væri ekkert mál að snú ofan af þessu með skaft talíu, en komstu með verkfærin? Við lukum svo þessu verki og það var komin nótt.
Daginn eftir, sem var Sunnudagur þá fór ég eftir hádegi til Bigga til að kynnast því hvernig hann ætlaði að snúa ofanaf grindinni. Á hlaðinu í Garðshorni stóð Prefektinn og mér létti þegar að ég sá að hann var ekki svo snúin í framan eins og mig mynnti hann hafa verið í gærkvöldi. Birgir kom til dyra og var ljóslega að koma á fætur. Við fengum kaffisopa hjá henni Dúnu og Birgir fór að ræða um Húsafells helluna og sagði það aðalmálið að þekkja hana og kunna á hana þá væri þetta ekkert mál svo sem hann hafði sannað fyrir mér þremur vikum áður.
En mér var ekki Húsafells hellan í huga heldur tjónið sem ég hafði orðið valdur að og spurði hvort ég ætti ekki að sækja skafttalíu og önnur verkfæri til að snúa ofan af grindinni. Blessaður vertu, ég kláraði það í nótt, var búin kl. Fimm. Sástu það ekki? Mér vafðist tunga um tönn og svelgdist á kaffinu og hóstaði því yfir borðið hennar Dúnu og Birgir sló á bak mér og sagði, þolir þú ekki kaffi strákur. Þegar ég var búin að þurrka framan úr mér kaffið og tárin úr augunum, Dúna búin að þurrka af borðinu og hláturs krunkið í Bigga að fjara út þá varð mér skyndilega ljóst hverskonar fólki ég var hjá. Þrátt fyrir hrjúft yfirborð þá var þarna innundir ekkert nema einlægni, velvild og æðruleysi sem var undirstaða þeirra lífshamingju.
Hrólfur Hraundal
Hrolfur Hraundal