Kolbrún Eggertsdóttir fæddist á Siglufirði 9. nóvember 1936. Hún lést á heimili dóttur sinnar í Reykjavík 10. júlí 2011. Foreldrar hennar voru hjónin Eggert Páll Theódórsson, f. 1. júní 1907, d. 9. mars 1984, og Elsa Sigurbjörg Þorbergsdóttir, f. 29. maí 1914, d. 3. október 1994. Systkini Kolbrúnar eru: Svanhildur Ólöf, f. 28. ágúst 1931, d. 21. mars 2009, Sigríður Þóra, f. 6. maí 1933, Theodór Sævar, f. 18. janúar 1940, Kristín María, f. 10. maí 1945, Svava, f. 2. október 1947, og Guðbjörg Sjöfn, f. 3. október 1949. Þann 15. september 1957 giftist Kolbrún Viðari Magnússyni, f. 9. september 1933, d. 7. febrúar 1977. Foreldrar hans voru Magnús Þorláksson, f. 2. apríl 1903, d. 30. mars 1976, og Guðný Ólöf Stefándóttir, f. 4. apríl 1911, d. 24. september 2000. Kolbrún og Viðar eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Magnús Sævar, f. 2. desember 1953, d. 7. mars 1976; 2) stúlkubarn, andvana fætt 24. mars 1955; 3) Jóna Theodóra, f. 22. júní 1957, var gift Magnúsi Jónatanssyni. Þeirra sonur er Magnús Sævar, f. 3. ágúst 1976. Jóna átti fyrir dóttur, Kolbrúnu Björnsdóttur, f. 9. febrúar 1974. Jóna á sjö barnabörn, sem eru: Sólveig María, Lára Theodóra, Ísak N. Thorberg, Theodóra, Arnór Blær, Matthías Thorberg og Helena; 4) Guðný Ólöf, f. 30. september 1959, gift Gísla Viðari Þórissyni og eru börn þeirra þrjú: Hrafnhildur, f. 15. september 1981, Kolbrún, f. 3. desember 1985, og Gísli Viðar, f. 23. júní 1990. Guðný á tvö barnabörn: Perlu Sól og Lúkas Sean; 5) Vilborg Rut, f. 27. október 1964, gift Aðalsteini Þór Arnarssyni og eiga þau fimm börn. Þau eru: Viðar, f. 8. september 1983, Marteinn Örn, f. 30. apríl 1989, Steinunn Þóra, f. 15. maí 1993, Hjörvar Már, f. 10. október 2000, Bjartmar Ari, f. 2. nóvember 2003; 6) Þóra, f. 8. október 1965, var gift Hólmari Stefánssyni. Þau áttu fjögur börn sem eru: Jóna Dóra, f. 14. janúar 1994, Viðar Magnús, f. 14. apríl 1995, d. 15. apríl 1995, Adda Margrét, f. 4. maí 1996, og Stefán Óskar, f. 15. ágúst 2000. Fyrir átti Þóra einn son, Arnar Inga Reynisson, f. 20. september 1986. Þóra er í fjarbúð með Michael Lund. Kolbrún og Viðar skildu árið 1967. Kolbrún vann á sínum yngri árum heimavið við nælonsokkaviðgerðir og prjónaskap. Hún vann einnig við þrif og ýmis verslunarstörf. Síðar kenndi hún handmennt við Grunnskóla Siglufjarðar og Grunnskólann í Njarðvík. Kolbrún hélt nokkur námskeið í bútasaumi í Njarðvík á meðan hún starfaði þar. Kolbrún bjó um tíma í Reykjavík, Reykjanesbæ og Mosfellsbæ. Hún flutti aftur til Siglufjarðar en dvaldi um vetrartímann hjá dætrum sínum í Reykjavík. Kolbrún átti sæti í Barnaverndarnefnd Siglufjarðar um langt skeið. Hún starfaði með Kvenfélaginu Von og Systrafélagi Siglufjarðarkirku. Meðan Kolbrún bjó sunnan heiða tók hún þátt í starfi eldri borgara í Hlaðhömrum í Mosfellsbæ. Hún var alla tíð dyggur stuðningsmaður og baráttukona Alþýðubandalagsins, síðar Samfylkingarinnar. Útför Kolbrúnar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 23. júlí 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Að kveðja Kollu systir mína er mjög sárt. Að hún skyldi þurfa fá þennan óþverra sjúkdóm er mér alveg óskiljanlegt, var hún ekki búin að fá nóg af erfiðleikum um ævina. En sagt er að mest sé lagt á þá sterku og jú, hún var svo sannarlega sterk. Ég hef alltaf verið mikið í kringum Kollu, fyrst þegar ég var að passa Magnús Sævar og var ég ekki há í loftinu þá enda mátti ég bara keyra hann á Laugaveginum svo mamma gæti fylgst með eða í garðinum hjá þeim Vidda og Kollu að Túngötu 34 þar sem þau bjuggu í tveim herbergjum hjá foreldrum Vidda. Svo fluttu þau á neðri hæðina heima hjá okkur að Suðurgötu 43 og lífið var þá allt annað. Litla fjölskyldan stækkaði og ég líka, nú var fædd Jóna Theodóra þá fékk ég að labba með hana um allan bæ og monta mig. Sumir sögðu við mig: Svava hún er lík þér þessi stelpa og mér fannst það toppurinn á tilverunni því hún var svo sæt. Enn stækkaði fjölskyldan, nú fæddist Guðný Ólöf stór og falleg en ég fékk ekki að passa hana alveg strax. Nú þegar hér var komið var fest kaup á íbúð að Suðurgötu 22 miðhæð í því húsi. Þar fékk ég sko að passa ásamt Línu vinkonu því Kolla og Viddi þurftu að vinna fyrir fimm manna fjölskyldu. Viddi var rafvirki og rafvélavirki og mikið snyrtimenni hann var líka söngvari með hljómsveitinni Gautum um tíma. Hann var einnig mikið á gönguskíðum og var hann flottur í útprjónuðum skíðapeysum eftir konuna sína enda var hún snillingur í höndunum. Hún gerði líka við nælonsokka sem þótti algjör bylting á sínum tíma enda ekki á allra höndum að laga lykkjufall á nælonsokkum.

Enn og aftur stækkaði fjölskyldan, nú fæddist Vilborg Rut falleg eins og hin börnin og ári síðar fæddist svo Þóra falleg lítil og alveg eins og pabbinn. Nú voru erfiðleikar orðnir miklir eins og þar sem bakkus sest að. Fallegi eiginmaðurinn féll fyrir hendi bakkusar sem endaði með því að bakkus leiddi Vidda í burtu frá fjölskyldu sinni. Ekki hvarlaði að systir minni að taka niður giftingarhringinn, hún bar hann allt sitt líf. Það segir allt um það hve heitt hún elskaði hann.

Nú var Kolla orðin ein með fimm börn, yngsta ársgamalt og elsta fjórtán ára. Hún bætti nú við vinnuna, fór að skúra í skólanum ásamt því að prjóna húfur og vettlinga á börn og við Lína fórum með það til þeirra sem höfðu pantað hjá henni og gleðin skein úr augum okkar þegar við komum með peninginn til baka. Kolla var listamaður af guðs náð, alltaf voru jólagjafirnar frá henni flottar og handgerðar og margir öfunduðu okkur af þeim.

Seinna var Magnús Sævar kominn út á vinnumarkaðinn og hjálpaði hann mömmu sinni og þá fór að rofa til smávegis fjárhagslega en ekki mörgum árum seinna kom stórt högg á elsku systir mína, Magnús Sævar lést í hörmulegu slysi. Eftir þetta varð Kolla aldrei söm en samt alltaf þessi duglega kona.

Hún flutti suður seinna en alltaf langaði hana heim aftur og það gerði hún, keypti sér hús að Túngötu 33 og tók þar allt í gegn. Þar er allt svo vandað og flott enda var allt svo vandað sem hún kom nálægt. Hún kom oft með okkur Lúlla upp í sumarbústað og um daginn þegar hún var svo mikið veik, hringdi hún í Sjöfn systir sem var með okkur þar og spurði hvar Lúlli ætlaði að setja vinnuskúrinn sem við vorum að kaupa, Sjöfn sagði henni að hann yrði settur á bak við húsið og Kolla sagði: jæja, ég sé þetta bara að ofan, hún vissi hvert stefndi og tók því eins og öðru mótlæti sem hún gekk í gegnum í sínu lífi, með einstöku og miklu æðruleysi.

En Kolla var líka handavinnukennari á Siglufirði og seinna í Njarðvík, þar leið henni vel og hún átti góða vini þar. Eftir Kollu liggja ótrúlega falleg og vel gerð handverk á mörgum sviðum. Ég er svo heppin að eiga margt eftir hana en það fallegasta sem ég á eftir hana er minning mín um hversu kærleiksrík og umhyggjusöm hún var við mig og mína fjölskyldu.

En nú er þessi duglega systir mín orðin stór og fallegur engill. Mamma og pabbi taka fagnandi á móti henni ásamt öllum hinum ástvinum okkar, hlýjast þykir mér þó að hugsa til hennar nú þar sem hún er komin í faðminn á Vidda og Magnúsi Sævari. Við Lúlli vottum Viðari barnabarni Kollu, fallegu dætrum hennar og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Missir ykkar er mikill og stór.

Yndislega systir mín og mágkona, þú varst einstök og við söknum þín mikið.

Svava og Lúlli.