Guðmundur Sigurðsson fæddist að Skjöldólfsstöðum í Breiðdal 28. september 1919. Hann lést á hjúkrunarheimili aldraðra á Höfn í Hornafirði 15. júlí 2011. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Sigurðsson bóndi, f. 25. mars 1879, d. 27. nóvember 1960, frá Kálfafelli í Suðursveit og Arnleif Kristjánsdóttir, ljósmóðir, f. 17. september 1882, d. 31. júlí 1969, frá Löndum í Stöðvarfirði. Systur Guðmundar eru: Margrét, f. 25. janúar 1909, d. 12. september 1989, Bergþóra, f. 31.12. 1922, Helga, f. 3. desember 1923 og Kristbjörg, f. 29. september 1927, d. 16. janúar 2009. Guðmundur ólst upp í foreldrahúsum og tók snemma þátt í bústörfum. Hann gekk í barnaskóla heimafyrir sem þá var farskóli á bæjum í sveitinni. Hann fór til náms í Alþýðuskólann á Eiðum árið 1939 og var þar til vors 1941. Næstu árin sinnti hann bústörfum á Skjöldólfsstöðum. Árið 1946 flutti hann til Breiðdalsvíkur ásamt foreldrum sínum í nýbyggt íbúðarhús sem þau nefndu Arnarhvol. Þar bjó hann alla tíð síðan. Sjósókn og fiskvinnsla voru meginverkefni á 6. áratugnum, að undanskildum vetrinum 1948-1949 þegar hann aflaði sér vélstjórnarréttinda í Vélskólanum í Reykjavík. Guðmundur dvaldi við byggingarstörf í Reykjavík nokkur misseri en flutti austur á Breiðdalsvík árið 1960. Þá hóf hann verslunarstörf við Kaupfélagið á Breiðdalsvík. Sá um skipaafgreiðslu o.fl. Upp úr 1970 snéri hann sér að bústörfum á nýjan leik, er hann tók að sér sauðfjárbúið að Ósi í Breiðdal, sem hann rak allt til ársins 1992. Ásamt bræðrunum Pétri og Svani Sigurðarsonum frá Ósi stofnaði Guðmundur til kaupa og útgerðar á vélbátnum Vin. Þeir þremenningar reistu og ráku Síldarsöltunarstöðina Gullrúnu á árunum 1961-1969 og stofnuðu ásamt öðrum Síldariðjuna á Breiðdalsvík sem var einn stærsti hluthafinn í Hraðfrystihúsi Breiðdælinga sem stofnað var 1946. Guðmundur tók virkan þátt í atvinnuuppbyggingu á Breiðdalsvík og var afar vinnusamur og duglegur maður sem gott var að leita til. Guðmundur var einn helsti hvatamaður að stofnun Verkalýðsfélags Breiðdælinga og var fyrsti formaður þess. Hann starfaði töluvert fyrir Umf. Hrafnkel Freysgoða í Breiðdal og var formaður þess um tíma. Útför Guðmundar fer fram frá Heydalakirkju í dag, 23. júlí 2011, og hefst athöfnin kl. 14.


Sumarið líður.  Sumarið líður.

Það kólnar og kemur haust.

Bylgjurnar byrja að ólga

og brotna við naust.

Af liminu fýkur laufið.

Börnin breyta um svip.

Fuglarnir kveðja.  Í festar toga

hin friðlausu skip...

Ég lýt hinum mikla mætti.

Það leiðir mig hulin hönd,

og hafið, - og hafið kallar.

Það halda mér engin bönd.

Ég er fuglinn, sem flýgur,

skipið, sem bylgjan ber.

Kvæði mín eru kveðjur.

Ég kem, og ég fer.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Þegar ég hugsa til Guðmundar Sigurðssonar móðurbróður míns hugsa ég alltaf um hann sem Gumma frænda.  Hann virtist nokkuð dulur og flókinn persónuleiki. Bókelskur og hrifinn bæði af sögum og kvæðum.  Þetta ljóð eftir Davíð Stefánsson úr ljóðabókinni Kveðjur lýsir nokkuð vel ævi þessa mæta manns.  Hann var mannvinur og unni öllu lífi.  Unni sveitinni sinni en lærði einnig að meta hafið. Vann hin ýmsu störf sem til féllu og fátt var það sem Gumma frænda var óviðkomandi.  Hann, eins og margir af hans kynslóð, unnu ættjörðinni og bar ofur virðingu fyrir stjórnvöldum og mætum mönnum.

Gummi frændi var alla tíð besti frændi í heimi en það er nokkuð erfitt að lýsa honum. Þegar við hugsum til þeirra sem njóta íslenskrar náttúru en kunna einnig að nýta landið og gjafir þess þá tengist hugsunin Gumma.  Hann unni sveitinni sennilega mest á vorin þegar sauðburður var í algleymingi en einnig var gaman að sjá kappið að heimta allt af fjalli.  Ekki var síður gaman að hlusta á veiðisögur Gumma, á sjó og landi,  alltaf sama kappið en einnig sönn virðing fyrir náttúrunni og nýtingu auðlindanna.

Gummi var sögumaður góður og fannst mér fátt skemmtilegra en að hlusta á Gumma segja sögur en það var bæði af  framættum okkar, lifnaðarháttum og aðbúnaði áður fyrr.  Fróðleiksfús krakki kunni að meta þetta og sé ég hann enn fyrir mér að segja þessar sögur því ákafi sögumanns var mikill og hann gerði góða sögu alltaf enn betri.  Þegar hann vildi leggja áherslu á orð sín kom oft segðu það maður".  Hann hafði sérstakt lag á að gera hvern dag að sólskinsdegi.

Þó er ekki svo að allir dagar hafi verið gleðidagar hann fór ekki varhluta af sorg og missi en alltaf bar hann sig vel. Greina mátti þó einsemd seinni ár en það getur verið erfitt fyrir kappsaman göngumann að líta til baka og velta fyrir sér hvort hann valdi réttu leiðina.  Ævinlega vildi Gummi öllum gott gera en eðli málsins samkvæmt vilja þeir einstaklingar sem þannig eru gerðir gefa fullmikið og gleyma að hlaða eigin orku nægilega.  Hann naut ævinlega stuðnings systkina sinna og ekki hvað síst systur sinnar Bergþóru og hennar fjölskyldu.  Það var notalegt að hugsa til þess hversu stutt var á milli heimila þeirra á Breiðdalsvík.  Enda var Gummi alla tíð fastagestur í Helluvík.  Það er þó ekki þannig að hann hafi setið lengi iðjulaus í heimsókn, nei hreint ekki.  Löngum mátti sjá Gumma með kíkirinn á lofti í Helluvík og var hann þá að huga að Ósi hinum megin við víkina nú eða að fylgjast með bátum sem þá voru að koma eða fara.

Margt hefur breyst á síðustu árum, nú er lítið líf við höfnina á Breiðdalsvík, miðað við það sem áður var, og einnig hefur fólkinu fækkað, ætla má að það hafi verið erfitt fyrir mann eins og Gumma að horfa upp á þessa breytingu.  Hann mátti einnig lifa mikla breytingu á mínu æskuheimili en mamma var alltaf mikið eftirlæti Gumma.  Hún var yngst í systkinahópnum frá Skjöldólfstöðum og alla tíð voru þau systkinin dugleg að styðja litlu systir sína.  Ég var afar glöð með þetta enda næst yngst sjálf og vissi hvað það var að eiga systkin sem styðja mann og styrkja.  Gummi var þó mun nánari bróður mínum, sem nú er því miður látinn, en honum reyndist hann ævinlega sem besti faðir.  Enda leit Gummi ævinlega á bróðursyni mína sem sína afastráka og unni þeim mikið.

Aldrei varð Gummi svo gamall að hann vissi ekki nokkurn veginn hvað væri um að vera á Ósi þegar við töluðum saman. Einnig spurði hann ævinlega um þá frændur mína, afastrákana sína, hvað væri af þeim að frétta.  Hann var alla tíð mjög lifandi manneskja og sannur hvetjari.  Ég tel mig heppna að hafa fengið að kynnast Gumma vel.

Vegna skólagöngu þurftu sveitabörn síðustu aldar að dvelja hjá vinum og ættingjum virka daga vikunnar til að sækja skóla fyrir efri bekki grunnskóla. Ég var svo heppin að fá að dvelja hjá Bergþóru frænku og fjölskyldu í Helluvík á Breiðdalsvík. Þá hitti ég Gumma nánast daglega.  Enn í dag er ég mjög þakklát fyrir þessi ár.  Þá eignaðist ég nánast aðra mömmu í Bergþóru og einnig gafst mér færi á að kynnast mjög góðu fólki eins og frændfólki mínu Gumma, Hreini og Lindu frænku.  Gott og gefandi fólk sem hver maður er ríkari að kynnst.

Þó leiðir okkar liggi nú sjaldnar saman er alltaf jafngott að koma til Breiðdalsvíkur og kíkja á fólkið sitt. Góð vinátta fyrnist ekki svo glatt þó hún kannski breytist, eins verður minning um góðan frænda alltaf með okkur öllum til gleði og yndisauka.

Nú er kallið komið og komin kveðjustundin og langri sjúkravist lokið.  Starfsfólki hjúkrunarheimilisins á Höfn þakka ég góða ummönnun Gumma frænda en ekki síður þakka ég frændfólkinu frá Breiðdalsvík hvað það var og er ræktarlegt við minningu um góðan mann.

Blessuð sé minning Gumma frænda.

Siggerður Ólöf Sigurðardóttir.