Einar Þórðarson fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð 7. júní 1923. Hann andaðist á Hrafnistu í Reykjavík 12. júlí 2011. Foreldrar hans voru Þórður Ingimar Jónasson frá Arnórsstöðum, Barðastrandarsýslu og Guðlaug Jónsdóttir frá Skarði á Snæfellsnesi. Systkini Einars voru Ingibjörg Guðlaug f. 1909, Bogi Geir f. 1911, Bríet f. 1913, Bergþóra f. 1915, Jón og Jónas Pétur f. 1917, Magnús f. 1919. Þau eru öll látin. Einar kvæntist 23. desember 1945 eftirlifandi eiginkonu sinni Jensínu Ólafíu Sigurðardóttur, f. 26.9. 1921 á Suðureyri við Súgandafjörð. Fósturforeldrar hennar voru Sigurður Samsonarson og Rósinkransa Sveinbjarnardóttir, Selárdal, V-Ísafjarðarsýslu. Einar og Jensína hófu búskap á Vatneyri við Patreksfjörð en fluttu til Reykjavíkur árið 1949 og hafa búið þar síðan. Börn þeirra eru 1) Guðlaug Þóra, sonur hennar og Barry Lockton er Pétur Jens. 2) Auðunn Sæberg, kvæntur Svanborgu Sigursteinsdóttur, börn þeirra eru, Helga, Þóra Guðrún, Fanney og Einar Sæberg. 3) Bríet, gift Reyni Einarssyni, börn þeirra eru, Ásdís, Brynjólfur Helgi, og Bragi. Barnabarnabörnin eru orðin 12 og eitt í fjórða ættlið. Sem ungur maður vann hann í vegavinnu við lagningu Kleifaheiðarvegar. Hann tók bílpróf árið 1943 og gerði akstur að ævistarfi sínu. Byrjaði hann að keyra vörubíla á Patreksfirði. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur hóf hann störf hjá Olíufélaginu Shell og vann þar um tíma. Síðan starfaði hann hjá Lýsi hf. og í framhaldi af því vann hann sem langferðabílstjóri, bæði hjá Steindóri hf. og síðar Landleiðum. Um miðjan aldur hóf hann leigubílaakstur á BSR og lauk þar sínum starfsferli 70 ára gamall. Útför Einars hefur farið fram í kyrrþey.
Einar stundaði bifreiðaakstur alla sína starfsævi. Byrjaði með gamla
Ford pallbíl á Patreksfirði, en eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur ók
hann tankbílum hjá Lýsi h.f. og áætlunarbílum milli Reykjavíkur og
Keflavíkur, uns hann gerðist leigubílstjóri og ók lengst af eigin bílum.
Einar þurfti á ungum aldri að dveljast nokkuð lengi á Vifilsstöðum vegna
berkla og mörgum árum síðar varð hann að gangast undir mikla lungnaaðgerð
af þeim sökum. Ýmislegt fleira fylgdi í kjölfarið og um tíma var honum vart
hugað líf. En alltaf hjarnaði Einar við og hann tamdi sér snemma að taka
öllum sínum veikindum með þrautseigju og jafnaðargeði. En þau hjón áttu
líka góða daga. Þau óku vítt og breitt um landið með tjaldvagn í
eftirdragi, skruppu stundum vestur á firði og síðari árin fóru þau margar
eftirminnilegar ferðir til útlanda með öðrum eldri borgurum, auk þess að
heimsækja son sinn í Ameríku. Þau fóru margar ferðir með Bændaferðum, m.a.
til Kanada, Norðurlandanna, Finnlands, Færeyja, Þýskalands, Póllands og
Hollands. Þau héldu mikið upp á Gardavatnið á Ítalíu og fóru oftar en einu
sinni þangað. Árum saman fóru þau snemma vors til mánaðardvalar á hlýjum
ströndum Spánar. Kona Einars og fóstursystir mín var glæsileg ung stúlka,
létt í spori, lífsglöð og hörkudugleg. Síðar á ævinni sótti hún gömlu
dansana og söng í kór aldraðra, hlúði að barnabörnunum og vann lengi utan
heimilisins, bæði á Elliheimilinu Grund og síðar í eldhúsi Landsspítalans.
En heilsan brást henni of snemma. Einar vann ötullega að því að koma henni
í umönnun á Hrafnistu og að liðnum tveimur döprum árum, einsamall í
fallegri, nýrri íbúð þeirra á Klapparstígnum, ákvað hann að reyna að komast
þangað sjálfur, enda ýmsir kvillar farnir að gera alvarlega vart við sig.
Jensína lifir mann sinn, mjög farin að heilsu.
Það var eins og Einar hefði tileinkað sér einkunnarorð skátanna: VERTU
VIÐBÚINN. Ég hygg að þessi lyndiseinkenni hafi verið hans drýgsta
veganesti: að vera við öllu búinn, taka því sem að höndum bar hverju sinni,
hafa allt á hreinu. Hluti af undirbúningi hans til að komast sjálfur inn á
Hrafnistu var að sjá um að selja íbúðina og ganga löglega frá öllum málum,
áður en það væri of seint. Það hefur löngum verið notalegt að eiga þau hjón
að, ekki síst þann tíma sem ég hef dvalið samfleytt erlendis og skroppið
heim af og til, þau alltaf reiðubúin að stjana við þennan farandsvein, elda
handa honum saltkjöt og baunir, sviðakjamma og rófustöppu og Einar ólatur
við að aka og gera þessar ferðir eftirminnilegar.
Fyrir nokkrum vikum áttum við Einar síðasta símaspjallið. Ég talaði um
að skreppa heim og endurnýja ökuskírteinið mitt. Ég þyrfti að taka nokkrar
myndir í viðbót. Hann gerði mér grein fyrir því með sínum hætti, að mér
væri hollast að gleyma öllum draumórum um að aka bíl á Íslandi eftir tólf
ára fjarveru, ásamt nánari lýsingum á umferðinni og öllu sem því fylgir að
eiga, eða aka þar bíl. Þannig var Einar, sannur vinur og verndari. Dagana
fyrir andlátið ræddi hann við dóttur sína um eigin útför og fól henni m.a.
að hringja í valda vini, þar á meðal undirritaðan, þegar hann væri allur.
Hann var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk. En eftir stendur, að bíllaus
maður á Íslandi er bjargarlaus, nema sér bróður eigi. Það syrtir að, er
sumir kveðja.
Ég lýk þessum orðum með kæru þakklæti til alls þess fórnfúsa starfsfólks
Hrafnistu, sem af alúð og stakri umhyggju hefur hlúð að þessum hjónum og
öðrum mér nákomnum, sem þar hafa notið umönnunar sína síðustu
daga.
Guðbjartur Gunnarsson, Filippseyjum.