Erlingur Kristinn Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1946. Hann lést 24. júlí 2011. Erlingur var sonur hjónanna Stefáns Viktors Guðmundssonar sjómanns, f. 3. febrúar 1912, d. 25. janúar 1993, og Jónu Erlingsdóttur, f. 21. október 1914, d. 20. júní 1997. Systkini Erlings eru fjögur; Sólveig Helga, f. 15. apríl 1933, gift Friðgeiri Gunnarssyni; Stella, f. 22. júlí 1936, gift Aðalsteini J. Þorbergssyni; Guðmundur Kristján, f. 1. maí 1943; Albert, f. 9. apríl 1949, kvæntur Vigdísi Björnsdóttur. Erlingur var kvæntur Guðrúnu Erlu Hrafnhildi Ottósdóttur móttökuritara, f. 6. apríl 1945, d. 28. nóvember 2010, dóttur Ottós Guðjónssonar klæðskera, f. 1. ágúst 1898, d. 20. febrúar 1993, og Guðbrandínu Tómasdóttur, f. 31. ágúst 1899, d. 24. mars 1981. Erlingur og Erla eiga tvo syni: 1) Andrés, f. 6. mars 1968, kvæntur Gyðu Sigurlaugsdóttur, f. 7. desember 1972, og eiga þau tvær dætur, Þorgerði Erlu, f. 1995, og Hrafnhildi Lilju, f. 2001. 2) Guðbrandur, f. 23. nóvember 1972, í sambúð með Jessiku Larsson, f. 4. september 1976, og eiga þau fjögur börn, Tíbrá Lilju, f. 1996, Alex Baldvin, f. 1999, Davíð Frey, f. 2003, og Kristian Gimli, f. 2007. Erlingur ólst upp í Reykjavík, lengst af á Skúlagötu. Hann lærði hjá Sindrastáli og var útskrifaður vélvirki en starfaði alla tíð við járnsmíðar. Hann starfaði við smíði Álversins í Straumsvík og í Essen í Þýskalandi en lengst af í eigin fyrirtæki, Vélsmiðjunni Járnverk. Útför Erlings er gerð frá Bústaðakirkju í dag, 3. ágúst 2011, kl. 13.

Við kveðjum hér með miklum söknuði kæran bróður, mág og frænda.  Það eru aðeins nokkrir mánuðir síðan Erla kona hans féll frá, og ætluðum við að minnast hennar með síðbúnum minningarorðum, þegar fregnin um andlát Ella barst.  Bæði voru burtu kvödd alltof fljótt, en góðar minningar og orðstír þeirra munu þess í stað lengi lifa og ylja okkur um ókomin ár.  Í upphafi voru kynni okkar mest af Ella og kom þar Helga eldri systir hans lengst af við sögu.  Hún eignaðist lítinn bróður, Ella, á unglingsárum og tók þátt í að gæta hans fyrstu árin.  Mynduðust strax með þeim góð tengsl og vinátta, og minnist Helga ætíð ljúfs og góðs drengs, sem snemma lærði að þurfa að koma ár sinni fyrir borð.  Hann fór í járnsmíðina og stundaði nám í Iðnskólanum, og kom þá oft í heimsókn til systur sinnar og Friðgeirs manns hennar.  Minnast þau og synir þeirra áhuga Ella á þessum árum á bíómyndum, þar á meðal vestra- og styrjaldamyndum.  Kom hann oft við í hádegismat á skólaárunum til Helgu og spruttu þá oft upp fjörugar umræður við matarborðið við syni hennar um íþróttir, stjórn- og skólamál.  Fengu synirnir á unglingsárunum oft góða fræðslupistla frá Ella í þeim efnum, sem alltaf enduðu með gamanseminni þó rökrætt væri á stundum.

Elli var mikill Framari og hélt merki félags síns hátt á lofti við okkur og studdi sína menn í blíðu og stríðu á vellinum, þegar tími gafst.   Það var í mörg horn að líta fyrir Ella, fjölskyldan, vinnan og önnur verkefni, sem hann tók að sér utan þessa.  Studdur af eiginkonunni Erlu voru þau alltaf sem eitt í huga okkar.  Eftir að synirnir Addi og Baddi voru komnir í heiminn kom fjölskyldan oft í heimsókn, og tókum við stundum að okkur barnagæsluna. Frændunum var þá oft falið það hlutverk að gæta þeirra, sem tókst með svo miklum ágætum að jafnvel Ella rak í rogastans hversu rólegir fjörkálfarnir hans voru orðnir eftir dvölina.

Það var alltaf gaman að hitta þau hjónin og synina, og tóku þau oft þátt í gleðistundum með okkur hér áður fyrr. Minnumst við með mikilli ánægju, þegar fyrstu barnabörn Helgu voru komin í heiminn, og þau hjónin komu með jólagjafir eins og um börnin sín væri að ræða. Stóðu þau álengdar með ánægjublik í augum og fylgdust með gleði barnanna, þegar pakkarnir voru opnaðir.

Dugnaður og vinnusemi fylgdi þeim hjónum ætíð í huga okkar. Elli var oft önnum kafinn við vinnu sína, þegar við heyrðum í honum, eða þá að hann var að greiða götu annarra utan hennar. Lýsti þetta vel þeim hjónum báðum. Hann var eins og klettur fyrir marga og reyndi að leysa margan hnútinn með dyggum stuðningi konu sinnar. Erla var ráðagóð og kom oft með hnyttnar ábendingar ef svo bar undir. Hún var ætíð mjög ljúf og falleg manneskja með rólega nærveru, sem hugsaði vel um strákana sína alla.

Gleðina, hláturinn og dugnaðinn smitaði Elli út frá sér. Hann var máttarstólpi í ættinni og hrókur alls fagnaðar, og skemmtilegur var hann, þegar hann tók sig til og lýsti atburðum líðandi stundar á gamansaman hátt eða sagði sögur af ættingjunum. Alltaf var hlegið og enda ekki annað hægt en að vera í góðu skapi nálægt þeim hjónum. Það er mikill sjónarsviptir af þeim, og það hefði verið gaman að eiga með þeim góðar stundir um ókomin ár.  Minningarnar munu þess í stað ylja okkur, minningar um gleðina í nálægð þeirra, hláturinn og dugnaðinn í lífinu. Verði það sem bergmál í huga okkar allra er þekktu þau, og í hjörtum, sem arfleifð til framtíðar.

Við kveðjum með sárum söknuði yndisleg hjón og tökum spjallið við þau um gamla og góða tíma kannski síðar.  Elli var góður maður var það fyrsta, sem Friðgeir mágur hans sagði eftir að hafa fengið fregnina um fráfall hans, og eiga þau orð svo sannarlega við þau bæði. Járnsmiðurinn er horfinn á braut og vekur gleði og bros á nýjum stað.  Ég bið að heilsa eftir Inga T. var oft kveðja hans til okkar á gamansaman hátt, og vitnaði þar í gamalt lag eftir viðkomandi.  Sama segjum við til kærra hjóna, sem hafi innilega þökk fyrir góðar stundir alla tíð.  Adda og Badda og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur og megi góður Guð styrkja þau á sorgarstundu.

Helga, Friðgeir, Steinar og Stefán.