Dr. Philos. Hjálmar Vilhjálmsson fæddist á Brekku í Mjóafirði 25. september 1937. Hann lést á Landspítalanum 20. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans eru Vilhjálmur Hjálmarsson, fv. alþingismaður og ráðherra, f. 20.9. 1914, og Anna Margrét Þorkelsdóttir, húsfreyja, f. 15.2. 1914, d. 21.4. 2008. Systkini Hjálmars eru Páll, f. 23.5. 1940, Sigfús Mar, f. 28.11. 1944, Stefán, f. 11.9. 1949, og Anna, f. 7.3. 1954. Eiginkona Hjálmars er Kolbrún Sigurðardóttir, f. 2.3. 1940. Þau eignuðust fjögur börn: 1) Sigurður Stefán, f. 2.4. 1961, m. Jóhanna Erlingsdóttir, f. 14.12. 1962. Börn þeirra: A) Tómas, f. 24.1. 1987, B) Hjálmar, f. 25.8. 1988, og C) Marteinn f. 15.7. 1990. 2) Kristín Anna, f. 23.9. 1962, m. Jón Þór Geirsson, f. 9.2. 1962. Börn þeirra: A) Þórhildur Ögn, f. 21.12. 1981. Sonur hennar er Úlfur Ægir Halldórsson, f. 4.7. 2006. B) Kolfinna, f. 6.12. 1995, 3) Ína Björg, f. 28.11. 1963, m. Sigurður Þór Jónsson, f. 25. 4. 1963. Börn þeirra: A) Kolbrún, f. 23.2.1988, B) Jón, f. 26.11. 1993, og C) Stefanía Helga, f. 2.12. 1998. 4) Vilhjálmur, f. 1.2. 1967. Hjálmar ólst upp á Brekku. Hann gekk í Barnaskóla Mjóafjarðar og Alþýðuskólann á Eiðum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 1957. Síðan lagði hann í fyrstu stund á heimspeki við Háskóla Íslands. Þaðan lá leiðin í Háskólann í Glasgow í dýrafræðinám, með áherslu á fiskifræði, sem hann lauk 1965. Á námsárum sínum, sumrin 1957-1959, var Hjálmar vegaverkstjóri í Mjóafirði þegar gert var akfært yfir Mjóafjarðarheiði til Héraðs. Að námi loknu vann Hjálmar hjá Hafrannsóknastofnuninni alla sína starfsævi. Viðfangsefni hans á löngum starfsferli voru fjölbreytt en voru einkum rannsóknir á útbreiðslu uppsjávarfiska, mælingar á stofnstærð, viðkomu og veiðanleika tegundanna og tengslum þeirra við umhverfisþætti í lífkerfi sjávar. Veturinn 1989-1990 var Hjálmar í rannsóknaleyfi við hafrannsóknastofnunina í St. John's á Nýfundnalandi og varði í kjölfarið doktorsritgerð sína um loðnustofninn við Ísland við Háskólann í Bergen 1994. Auk starfa á Hafrannsóknastofnuninni sinnti Hjálmar ýmsum verkefnum bæði innan lands og utan í tengslum við vísindastörf sín. Hann sat í ýmsum sérfræðinganefndum Alþjóða-hafrannsóknaráðsins (ICES) og nefndum á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Hjálmar var félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1994. Hann var einn höfunda og ritstjóra kafla um fiskveiðar og fiskeldi í skýrslu vinnuhóps (ACIA) um áhrif veðurfarsbreytinga á Norðurheimsskautssvæðinu. Hann var ennfremur einn af aðalhöfundum og ritstjórum kaflans um fiskveiðar á norðurslóðum í fjórðu skýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC) sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 2007. Hjálmar fékk sérstaka viðurkenningu Nóbelsnefndarinnar fyrir framlag sitt. Í janúar 2010 var Hjálmar sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknir í fiskifræði og hafvísindum. Útför Hjálmars fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, mánudaginn 29. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl.13.
Það var haustið 1953, fyrir 58 árum, sem leiðir okkar lágu saman. Við vorum 32 að tölu, 16 ára flest okkar og komum víða að af landinu. Við vorum að setjast í heimavistarskóla, flest í fyrsta sinn. Það lá eftirvænting í loftinu, enda staðurinn Laugarvatn, sveipaður rómantík í sunnlenskum sveitum. Vorið áður hafði Menntaskólinn að Laugarvatni verið formlega stofnaður og við vorum fyrsti hópurinn sem hóf nám í skólanum eftir stofnun hans. Það fannst sumum merkingarþrungið. Einn í hópnum var Hjálmar Vilhjálmsson frá Brekku í Mjóafirði. Hann skar sig ekki úr hópnum nema fyrir það að hann stamaði á þessum árum. Ekki lét Hjálmar það hindra sig og ekki man ég eftir að hann yrði fyrir stríðni þess vegna, sem er til vitnis um hans látlausu framkomu, frekar en göfugmennsku okkar bekkjarsystkinanna. Hjálmar kom þá eins og alltaf til dyranna eins og hann var klæddur, varð strax allra. Og þannig var það alla tíð, Hjálmar var allra. Hann hafði enga þörf fyrir að þröngva sínum gildum upp á aðra, þó hann væri síður en svo skoðanalaus, leiddi dægurþrasið hjá sér. Á menntaskólaárunum var Hjálmar prýðilegur námsmaður, var þó ekki í flokki afburða námsmanna. Að loknu stúdentsprófi nam hann fiskifræði við háskóla í Glasgow og kom heim til starfa hjá Hafró að námi loknu. Hann óx stöðugt sem vísindamaður í fiskifræðum og varð doktor í þeim fræðum frá háskólanum í Bergen. En frami hans sem fræðimanns stöðvaðist ekki við það og hann náði þeim glæsilega árangri að verða einn af fremstu vísindamönnum á heimsvísu í sinni fræðigrein. Til vitnis um það er þátttaka hans í mörgum innlendum og alþjóðlegum nefndum sem fjölluðu um vistkerfi hafsins, auk annarra vísindalegra viðfangsefna. En sennilega náði frami hans sem fræðimanns hæst með þátttöku hans og forystu í milliríkjanefndinni um loftlagsbreytingar sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 2007. Fyrir utan Finsen er Hjálmar einn Íslendinga sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun vegna fræðastarfa sinna. Og m.a. þess vegna var hann að verðleikum sæmdur hinni íslensku fálkaorðu á sl. ári. Það er satt að segja umhugsunarefni hvers vegna þessi frami Hjálmars á heimsvísu hefur ekki náð til þjóðarinnar, allavega hefur árangri hans ekki verið hampað í fjölmiðlum. Þetta er því meira áberandi þegar hugsað er til fjölmiðlafársins í kringum margskonar froðu sem hampað er sem heimsviðburðum.Er það e.t.v. vegna þess að nafntoguðustu menntastofnanir landsins gátu ekki speglað sig í frama hans? Hins vegar var hógværð Hjálmars slík að hann hampaði ekki frama sínum, sussaði jafnvel á þá sem vildu halda afreki hans á lofti. Frami hans steig honum aldrei til höfuðs. Hjálmar var gæfumaður í einkalífi, jafnlyndur og greiðvikinn með afbrigðum. Hann var alltaf sami gamli, góði félaginn þegar hópur ML stúdenta frá 1957 hittist. Alltaf með glens og gamanyrði, naut þess að segja sögur, einn af þeim sem sá það skoplega í okkar daglega amstri, sannkallaður sagnameistari. Hann var forfallinn djassisti alla tíð, átti heilu hilluraðirnar af djasstónlist. Sennilega arfur frá Þóri heitnum Guðmundssyni bekkjarbróður okkar, sem á sinni tíð breiddi út blessun djasstónlistarinnar á Laugarvatni af mikilli ástríðu.
Sífellt fækkar í hópnum okkar sem útskrifaðist frá Laugarvatni 1957, en Hjálmar er sá 11. af 27 sem kveður. Og eftir því sem fleiri fara verður erfiðara að kveðja. Við hin yljum okkur við minningarnar og speglum okkur í frama genginna félaga og trúum því að það hafi verið merkingarþrungið að vera fyrsti hópurinn sem settist í nýstofnaðan menntaskóla á Laugarvatni 1953. Hjálmar var einn merkisberi þeirrar hugljómunar. Við vottum Kolbrúnu og börnum þeirra, Vilhjálmi föður Hjálmars og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd bekkjarsystkina,
Gísli G. Auðunsson.