María Pálsdóttir fæddist á Akureyri 26. maí 1928. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 21. ágúst 2011. Foreldrar hennar voru hjónin Páll Einarsson, f. 30.6. 1893, d. 5.1. 1983, og Þóra Hólmfríður Steingrímsdóttir, f. 17.10. 1897, d. 1.5. 1982. Systkini Maríu eru: Guðný, f. 1924, d. 2007; Einar, f. 1926; Steingrímur, f. 1927; Sólveig, f. 1930. Hinn 29. september 1951 giftist María Jóni Árna Jónssyni menntaskólakennara, f. 16.12. 1925, d. 7.1. 1999. Foreldrar hans voru hjónin Jón Björn Kristjánsson, f. 16.11. 1890, d. 22.11. 1962, og Lovísa Jónsdóttir, f. 7.6. 1892, d. 23.2. 1974. Börn Maríu og Jóns Árna eru: 1) Páll, f. 1954, eiginkona Kolbrún Björk Ragnarsdóttir, f. 1954. Þau eiga þrjú börn. 2) Lovísa, f. 1956, eiginmaður Óskar Þór Halldórsson, f. 1961. Þau eiga þrjú börn. 3) Steingrímur, f. 1957, eiginkona Árún Kristín Sigurðardóttir, f. 1957. Þau eiga tvö börn. 4) Jón Árni, f. 1962, eiginkona Sigríður Stefánsdóttir, f. 1958. Hún á tvo syni sem eiga fjögur börn. 5) Stefán, f. 1964, eiginkona Yean Fee Quay, f. 1969. Þau eiga tvö börn. 6) Þóra, f. 1969, eiginmaður Björn Halldórsson, f. 1969. Þau eiga þrjú börn. María lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946. Hún stundaði nám í eitt ár í húsmæðraskóla í Noregi. Að aðalstarfi var hún húsmóðir en upp úr 1970 byrjaði hún að vinna á Edduhótelinu á Akureyri á sumrin og síðar starfaði hún um árabil sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri uns hún fór á eftirlaun 67 ára gömul. Útför Maríu Pálsdóttur fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. september 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Nú er hún Maja frænka farin frá okkur. Við vorum systkinadætur, pabbi minn var litli bróðir mömmu hennar. Maja fæddist á Akureyri á heimili foreldra sinna í húsi afa okkar og ömmu, þeirra Steingríms Jónssonar og Guðnýjar Jónsdóttur að Hafnarstræti 49.  Þar héldu foreldrar hennar Páll og Lóla heimili með afa okkar og ömmu í tæp 30 ár. Fjölskyldusambandið var mikið og sterkt. Þó langt væri að fara og börnin mörg, stóð það ekki í veginum fyrir foreldrum mínum að fara í sumarheimsóknir norður. Á stórfjölskyldumynd sem tekin er á Akureyri þegar ég er á öðru ári er ég í fanginu á Maju og held þéttingsfast um hálsinn á henni. Sambandið sem myndaðist á milli okkar þarna rofnað aldrei.

Heimilið að Hafnarstræti 49 var stórt og gestkvæmt, rekið með mikilli reisn og umfangi. Þar var ég sumarbarn í miklu ástríki bernskuárin. Þar var alltaf skemmtilegt að vera, fjöldi fólks á öllum aldri, heimilisfólk, gestir og gangandi, ættingjar víða að og minnisstæðar veislur voru haldnar.

Samt var þetta ekki eins og Maja hefði helst viljað hafa það, hennar draumur var

mamma, pabbi og börn og ekkert meira. Samt held ég að þessar aðstæður hafi átt þátt í að móta þann sterka karakter sem Maja hafði til að bera, viljastyrkinn, dugnaðinn, þrautseigjuna, æðruleysið, ættræknina og fjölskyldusamheldnina. Það stóðu að henni sterkir stofnar og hún fékk góða eiginleika úr báðum ættum, útlitið meira úr móðurættinni en skaphöfnina frekar úr föðurætt.

Í þessu umhverfi óx hún úr grasi ásamt systkinum Gullýju (Guðnýju), Einari og Steingrími, sem voru fædd á Húsavík og Sólveig yngsta systirin. Fimm systkini fædd á rétt tæpum sex árum. Á heimilinu voru ekki líka bara afi og amma heldur Solla yngsta dóttir þeirra rúmliggjandi spastíker og þá var heldur ekki allt talið  því heimilið þurfti fjölda vinnufólks, þar var Stebba, sem var til dauðadags og varð ein af fjölskyldunni og aðrar vinnukonur tímabundið. Strúna (Kristrún) kom til að sauma og gera við og Bensi sem ekki bjó á heimilinu en sinnti ýmsu verklegu svo sem að kynda miðstöðina, flytja heim mjólk, slá og moka snjó. Ættingjar ýmsir bjuggu þarna tímabundið ýmist vegna skólagöngu eða sem sumarbörn fyrir utan að þarna dvaldi fólk tímabundið sem var að leita sér lækninga og sjálfsagt var að ferðalangar væru í gistingu, margt úr Mývatnssveitinni og aðrir víðsvegar að á leiðinni þangað.

Auk þessa voru daglega gestir og gangandi sem stungu inn nefinu. Þetta var mikill rekstur sem hvíldi á föðursystur minni og börnin þurftu að taka til hendinni og var það einkum endalaust uppvask sem lenti á þeim Maju og Sólveigu. Maja eignaðist því mjög fljótt uppþvottavél því hún mátti ekki til þess hugsa að börnin hennar einkum dóttirin upplifðu það sama.

Hafnarstrætið var skemmtilegt umhverfi og þar voru fleiri fjölskyldur og eignuðust þær systur góðar vinkonur þar í grenndinni og oft var glatt á hjalla.

Þegar ég var sumarbarn á þessu heimili þá voru systkini öll um það bil að festa ráð sitt og flytja að heiman. Gullý, sem hafði verið trúlofuð Ingvari Björnssyni frá Brún menntaskólakennara sem dó úr berklum, giftist frænda sínum Þóroddi Jónasyni lækni frá Grænavatni í Mývatnssveit og þau fluttu í Breiðumýri í Reykjadal. Einar var að ljúka læknisfræði og kom með konu, Halldóru Bernharðsdóttur hjúkrunarkonu og barn þegar hann tók kandidatsárið við Sjúkrahús Akureyrar. Steingrímur sem lagt hafði stund á verkfræði í Kaupmannahöfn var í vatnamælingum á hálendinu á sumrin og kom bara sem gestur. Maja var í húsmæðraskóla í Noregi og heitbundin Jóni Árna. Sólveig var heimasætan en flutti svo til Reykjavíkur og vann þar til hún giftist og flutti fyrst til Vestmannaeyja og síðan til Akureyrar.  Maja þá 23ja ára lagleg, glaðsinna og mittisgrönn giftist svo Jóni Árna menntaskólakennara 1951 og stofnuðu þau heimili sitt að Þingvallastræti 20 í húsi fjölskyldu Jóns. Eftir það eru þau í einni mynd.

Það fór ekkert á milli mála að Maja var drottning drauma Jóns. Hann kallaði hana oftast Maríu þegar hann talaði um hana en ávarpaði hana: Maja mín. Þarna fékk Maja uppfyllta ósk  sína um litla heimilið. Þau Jón voru barnlaus fyrstu þrjú hjónabandsárin og mér fannst litla heimili þeirra ótrúlega spennandi og var þar tíður gestur og oft næturgestur. Mér eru minnisstæðar máltíðirnar í litla snyrtilega eldhúsinu og þar var maturinn betri en nokkurs staðar fannst mér og oft á borðum uxahalasúpa frá Knorr sem þekktist óvíða annars staðar.

Á stórheimilinu hafði ekki bara Maja fest ráð sitt heldur hin systkinin líka og  eftir því sem ég stækkaði og barnabörnin komu til fékk sumarbarnið það hlutverk að vera barnfóstra. Þegar þeim Jóni Árna og Maju fæddist frumburðurinn Páll var það sjálfsagt að ég yrði barnfóstran komin með reynslu. Síðasta sumarið mitt á Akureyri bjó ég því hjá þeim og við vorum lítil fjögurra manna fjölskylda sem fór í heimsóknir niður í hús.

Fjölskylda þeirra Jóns og Maju óx hratt og börnin komu hvert af öðru, Lovísa fljótlega á eftir Páli og svo strákarnir þrír Steingrímur, Jón Árni og Stefán. Enda fluttu þau fljótlega í eigið húsnæði í Löngumýri og svo þaðan í stærra hús í Ásabyggð. og en hún og eldri sonur minn, sem deildi afmælisdegi með Maju, eru jafnaldra. Þó ekki væri nema rúmlega þrettán ára aldursmunur á okkur var ég alltaf barnið þar til sjötta og yngsta barnið Þóra fæddist en hún og eldri sonur minn, sem deildi afmælisdegi með Maju eru eru jafnaldra.

Maja varð heimavinnandi þegar hún gifti sig eins og siður var í þá daga og létti hún þá oft undir með móður sinni. Hún hafði svo nóg að gera eftir að börnin fæddust og bjó þeim og manni sínum gott og fallegt heimili. Þau hjón voru samtaka í uppeldi barnanna sem bera foreldrum sínum gott vitni. Þau höfðu þann háttinn á hjónin að skiptast á að vakna og fara á fætur á sunnudagsmorgnum að sinna heimili og börnum og  þótti það framúrstefnulegt á þeim tíma.

Börnum var afskaplega vel tekið á heimili þeirra og nutu systkinabörn Maju þess og mörg fleiri börn. Maja skapaði þeim öryggi og Jón Árni fékk þau til að upplifa sig sem miðpunkt alheimsins. Þau hlupu undir bagga með gæslu sonar míns þegar ég var í vanda stödd vegna vinnu.

Það varð eðlilegur hluti af lífi fjölskyldu minnar að koma í sumarheimsókn á heimili þeirra.

Við áttum alla tíð margar ánægjulegar stundir saman á heimili þeirra hjóna og eins í Englandi þar sem mér hlotnaðist sá heiður að vera gestgjafinn þegar þau voru á ferð með yngstu dóttur sína barn að aldri. Þau höfðu þann háttin á við fermingu barna sinna að fara með þau í menningarferð til útlanda og skiptust á við það. Einnig ferðuðust þau víða saman en Maja fór ein í hálendis og óbyggðaferðir með Ferðafélagi Akureyrar.

Jón féll frá of snemma og Maja hélt eftir það ein heimili með nánum samgangi við börn sín og barnabörn.

Við áttum áfram skemmtilegar stundir saman tvær, í Kaupmannahöfn, á heimili hennar og í stuttum ferðum norðanlands, á heimili mínu í Reykjavík þar sem við fórum saman út að borða, í bíó og leikhús.

Hún naut sinnar sterku skapgerðar þegar syrti að vegna sjúkdóms þá kom reglusemin, róin, sjálfstæðið og æðruleysið henni vel og hún bjó ein á heimili sínu með reisn allt fram undir það síðasta.

Hún var Akureyringur í húð og hár, og þó hún hefði ferðast mikið innanlands og utan varð hún aldrei handgengin Reykjavík.

Að leiðarlokum er ég þakklát fyrir allar okkar samverustundir.

Sjöfn Kristjánsdóttir.