Hafdís Jónsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 22.ágúst 1951. Hún lést á líknardeild Landsspítalans, Kópavogi 23. September 2011. Foreldrar hennar eru Jónsteinn Haraldsson frá Eskifirði f. 04.03.1924 og Halldóra Kristjánsdóttir frá Vopnafirði f. 02.06 1928. Bróðir Hafdísar er Borgar Jónsteinsson f 19.05 1960, kona hans Þórunn Inga Sigurðardóttir f 30.06 1965. Þann 26.01 1974 gekk Hafdís að eiga Ólaf Örn Jónsson. Foreldrar hans eru Jón Gestur Jónsson f 26.09 1926 og Rósamunda Alda Arnórsdóttir f. 30.06 1929. Börn Hafdísar og Ólafs Arnars eru 1) Rósa Ólafsdóttir f 31.07 1973, d. 24.08 1973. 2) Halldóra Ólafsdóttir f 10.11 1974, dóttir hennar er Ísold Braga Halldórudóttir f 11.08 1996. 3) Ólafur Örn Ólafsson f 19.10 1986 í sambúð með Ástrós Ósk Jónsdóttir f. 06.07 1985. Hafdís vann við verslunarstörf hjá bókabúð Máls & Menningar frá 1969 til 1973. Frá árunum 1973 til 1990 vann hún við ýmiss konar skrifstofu- og verslunarstörf og má þar nefna húsgagnaverslunina Línan, verslun föður hennar, Skákhúsið og Leiklistarskóli Íslands. Á árunum 1990 til 1995 bjó hún ásamt fjölskyldu sinni í Växjö, Svíþjóð og stundaði þar nám í vuxen pedagogik við Växjö Universitet. 1995 flyst hún ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur og hefur þá störf sem fjármálastjóri hjá Bókaverslunum fjölskyldunnar.Við sölu á þeim, árið 2000 hóf hún störf hjá íslensku Menntasamtökunum sem skrifstofustjóri og eftir það hjá Félagi Leiðsögumanna þar sem hún starfaði meðan kraftar leifðu. Útför Hafdísar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 4. október 2011, og hefst athöfnin kl. 15.

Hvað er hel?

Öllum líkn, sem lifa vel,

engill, sem til lífsins leiðir.

ljósmóðir sem til hvílu breiðir.

Sólarbros, er birta él,

heitir hel.

(Matthías Jochumsson)

Látin er kær vinkona Hafdís Jónsteinsdóttir eftir erfið veikindi.

Hafdís var mikill fagurkeri, listræn, hlý, ákveðin og stjórnsöm.  Hafdís hafði gott auga fyrir fallegum munum, listaverkum og húsbúnaði. Hún var vel gefin og fljót að greina hismið frá kjarnanum. Heimilið hennar bar þess alltaf merki, réttur hlutur á réttum stað þar sem allt naut sín sem best. Hún var iðin við að breyta til, færa, skipta út. Hún var lífsnautamanneskja og lifði í núinu áður en það var uppgötvað. Hún gerði vel við sig þegar hana langaði til þess og alltaf með Óla sínum. Stundum þótti þetta eyðslusemi  en Hafdís lét það ekki  á sig fá og sagðist  vera að lifa.  Hafdís hafði næmt auga fyrir fegurð náttúrunnar. Hún fékk áhuga á ljósmyndun og sendi náttúrumyndir á sýningar en einnig  tók hún þátt í samsýningum. Hafdís gaf góðar gjafir en kortin sem fylgdu lýstu tilfinningaríkri konu sem elskaði málið sitt og vildi miðla góðum ljóðum eða textum til vina sinna og ættingja. Þetta gladdi þiggjendur og hitti  vel í mark en þetta var líka aðferð Hafdísar til að tjá sig.

Þegar horft er til baka hafa  fjörtíu  ár flogið hjá  á örskotsstundu. Það var mikið um að vera á þessum árum eftir miðja síðustu öld.  Aðal áhugamálið okkar vinanna var  hreiðurgerð. Hafdís og Óli eignuðust fallegt heimili.  Lífið var dásamlegt.  Svo kom fyrsta skýfallið, Rósa fyrsta barn Hafdísar og Óla lést  nokkurra vikna gömul.

Þegar allt grét.

Þá var ég svo ungur, að ég ekki fann,

hver undur í sorginni búa,

og síst vildi sjón minni trúa,

er agndofa sá ég hvern einasta mann

augunum grátnum til himinsins biðjandi snúa.

Fleiri skýföll urðu á vegi Hafdísa og Óla. En þá kom í ljós að þau voru sterk, sterk saman en einnig sem einstaklingar. Hafdís lét ekki bugast og sólskinsdagarnir urðu fleiri hjá Hafdísi.  Hún eignaðist tvö börn þau Halldóru og Óla sem voru henni allt og ekki má gleyma dótturdótturinni  henni Ísold Brögu.  Hafdís var stolt af þeim öllum. Hafdís var fjölskyldumanneskja og  þakklát að geta verið með alla í kringum sig bæði í gleði og sorg.  Hafdís og Óli heimsóttu mig eftir eitt skýfallið til Gautaborgar .  Það var ekki hægt að finna annað en sólin væri þeirra. Þau léku á als oddi, hraust,  falleg og nutu dvalarinnar.  Hafdís og Óli þræddu söfn,  kynntust kínverskri matargerð, Svíþjóð heillaði. Hafdís naut þess að lesa úr Vísnabókinni sem hún hafði með sér fyrir barnið á heimilinu. Eftirminnilegust verður samt ferð í Ikea.  Þar sá hún óendanlega möguleika til að prýða og skreyta heimilið.  Það var upplifun að vera með henni því hún sá alltaf það sem ég sá ekki þannig að þetta var sem fyrsta ferð fyrir mig einnig. Hafdís og Óli  fluttu síðar  til Svíþjóðar og nutu þess sem sænskt samfélag hefur að bjóða.

Hafdís var sérstök kona og á lokagöngu sinni koma það svo vel í ljós. Ég verð alltaf þakklát að hún skildi gefa mér hlutdeild í henni. Við áttum góðar samræður um lífið og tilveruna. Hún tók ekki upp samræður um hvers vegna. Hún gerði bara það sem rétt var,  hélt áfram.  Hafdís tók til í gögnum sínum, skrifaði í fallegu bækurnar sínar, ræddi við fólk, og að loknum kvaddi hún. Hún lét ekki bugast. Hún kvaddi í faðmi fjölskyldunnar á fögru haustkveldi. Perlubandinu hennar lokað. Það eru fallegar perlur á því bandi enda valdi Hafdís perlurnar í sitt perluband og þær skyldu vera fallegar. Þetta perluband skilur hún eftir handa okkur hinum.

Í fuglanna hreimi var harmur sár

og hryggðarsvipur á öllum dýrum

um jörðina dreifðust daggartár

döpur með grátblæ skýrum.

Það var þungt yfir öllum hjörtum

Nema sólin ein hló

svo að heiðríkju sló

frá himninum skínandi björtum

/

Mér hitnaði um hjartarætur

og ég hvíslaði lágt

Nú hlýtur einhver að eiga svo bágt

að allt nema himininn grætur

En eftir atburði slíka

aftur varð sorgin að gleði

þá spurði ég mömmu gramur í geði

því grét ekki himinninn líka?

/

Ég man það víst allaf á meðan ég get,

hvað mamma varð döpur í bragði

Hún þagði.

En loks eftir þögnina þunga og langa,

þrýsti hún mér að sér og sagði:

Við vitum ei hót um þau háleitu fet,

sem himinsins ljósvættir ganga.

En sástu ekki vinur að guðssólin grét

geislum,  sem þerruðu tárin af annarra vanga.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Óla og börnum, barnabarni , tengdadóttur, foreldrum og  öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ég kveð þig einnig vinkona.

Anna Sigríður Pétursdóttir