Fjóla Benediktsdóttir fæddist á Þórkötlustöðum í Grindavík 17. janúar 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi þann 27. september síðastliðinn. Hún var dóttir Benedikts Benónýssonar frá Þórkötlustöðum í Grindavík, f. 21. júlí 1894, d. 29. júní 1953 og Magnúsu Aðalveigar Ólafsdóttur úr Grindavík, f. 23. september 1902, d. 26. október 1987. Systkini Fjólu eru: Þórlaug, f. 25 apríl 1923, látin 19. september 2001, Ólöf f. 14. mars 1927, látin 24. september 2007, Benóný, f. 28. maí 1928, Jóhann Ragnar, f. 14. nóvember 1930, Ólöf Sigurrós, f. 3. október 1934 og Elsa, f. 20 mars 1938. Foreldrar hennar voru bæði með búskap og útróðra ásamt Guðmundi bróður Benedikts og Sigríði systur Magnúsu og bjuggu þau alla tíð í sama húsi á Þórkötlustöðum og átti hún góða æsku með þeim. Fjóla vandist allri vinnu frá unga aldri og fór í vist til Reykjavíkur. Hún lauk barnaskólaprófi og fór síðan að læra matreiðslu á hótel Skjaldbreið í Reykjavík. Hún giftist Ingólfi Eyjólfssyni, þau slitu samvistir. Fjóla eignaðist eina dóttur, Ingibjörgu fædd 26. nóvember 1940, maki Pétur Þórarinn Þórarinsson fæddur 28. júlí 1933, þau eignuðust fjögur börn. Fjóla fluttist til Keflavíkur 1941 og bjó þar alla tíð síðan. Hún vann alla almenna vinnu í fiski, síld og saltfiski. Hún vann við afgreiðslustörf stærstan hluta ævi sinnar, mest í versluninni Eddu í Keflavík. Hún starfaði með öldruðum í mörg ár þangað til heilsan fór að gefa sig og tómstundastarfið fluttist á Nesvelli. Fjóla eignaðist fjögur barnabörn og sjö barnabarnabörn sem hún lifði fyrir. Þau eru: Fjóla fædd 20. nóvember 1959. Þórarinn fæddur 25. febrúar 1965. Maki Þóra Hafsteinsdóttir, börn þeirra eru Ingibjörg Þóra og Klara Lind. Benedikta fædd 16. desember 1966. Maki Haukur Ingi Jónsson, börn þeirra eru Pétur Ingi og Helga Ósk. Ólafur fæddur 7. febrúar 1972. Maki Lára Sif Jónsdóttir, börn þeirra eru Jón Smári, Ólöf Rut og Viktoría Fjóla. Útför Fjólu Benediktsdóttur fer fram frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 7. október klukkan 13:00.
Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann nú þegar mín elskulega amma, amma Fjóla, kveður þennan heim. Hann var einstaklega fallegur og sólríkur haustdagurinn sem hún amma valdi til þess að fara í langferðina miklu.
Ég var svo heppinn að alast upp við að hafa ömmu Fjólu á æskuheimili mínu fyrstu 15 ár ævi minnar í Baugholtinu. Þar naut ég góðs af henni og þær voru nú ófáar brauðsneiðarnar með kæfunni og heitu kakóbollarnir sem hún gerði handa mér enda gerði hún langbesta kakó í heimi. Oft sátum við saman og horfðum á sjónvarp, lásum í bók eða hlustuðum á útvarp og hún sagði mér oft skemmtilegar sögur úr æsku sinni í Grindavík.
Amma Fjóla ferðaðist mikið með okkur og fór með mér í margar útilegur í bláa tjaldvagninum okkar sem lifa í minningunni. Við fórum einnig saman til útlanda. Sérstaklega er mér minnisstæð ferð okkar fjölskyldunnar til Benidorm árið 1978 þegar ég var 6 ára og ég sé ömmu enn fyrir mér þegar hún var að kenna mér að synda í lauginni á hótelinu okkar.
Þegar amma flutti svo á Ásabrautina árið 1987 kom ég til hennar nánast daglega og fékk alltaf eitthvað gott að borða hjá henni eins og góðri ömmu sæmir. Fyrst um sinn kom ég einn, svo bættist unnusta mín, Lára Sif, í hópinn árið 1993 og svo barnabarnabörnin Jón Smári, Ólöf Rut og Viktoría Fjóla. Við Lára Sif fluttum í Kópavoginn árið 1997 og reyndum við að koma eins oft og við gátum að heimsækja ömmu enda ómissandi að fá kakóbolla og brauð með kæfu hjá henni ásamt öðru góðgæti.
Ég hef alla tíð stundað íþróttir, sérstaklega knattspyrnu og fylgdist amma Fjóla vel með mér og safnaði í úrklippubækur úr öllum blöðum þar sem fjallað var um leiki mína og færði mér svo til eignar þegar ég hætti að spila. Þetta segir meira en mörg orð um hugulsemi og væntumþykju hennar í minn garð.
Eftir að amma Fjóla hætti að vinna sat hún löngum stundum og föndraði og stundaði starf eldri borgara í Reykjanesbæ af miklum áhuga og naut sín þar vel í góðra vina hópi.
Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og það vissi hún og gerði hún því handa mér og fjölskyldu minni og systkinum marga fallega jólalampa og ýmislegt jólaskraut sem skreytir heimili okkar um hver jól. Ég hef alltaf verið stoltur af og þótt vænt um verk hennar og munu þau halda á lofti minningu hennar um ókomna tíð.
Þann 3. febrúar 2010 fæddist okkur Láru Sif dóttir sem fékk nafnið Viktoría Fjóla í höfuðið á langömmu sinni. Amma Fjóla var yfir sig stolt af litlu nöfnu sinni og að sjálfsögðu mætti hún í skírnina þrátt fyrir háan aldur og eigum við fallegar myndir af Fjólunum okkar þremur á þessum fallega degi.
Amma Fjóla átti fjögur barnabörn og sjö barnabarnabörn sem hún fylgdist vel með og var mjög stolt af og voru þær ófáar myndirnar af þeim sem prýddu íbúðina hennar á Ásabrautinni.
Amma lenti í alvarlegu bílslysi árið 1997 og var marga mánuði á spítala en hún hristi það af sér enda líkamlega vel á sig komin. Hún varð þó aldrei alveg söm og fyrir slysið.
Amma Fjóla hélt fullri heilsu lengstan hluta ævi sinnar og bjó ein á Ásabrautinni þar til fyrir rúmlega ári síðan að hún flutti á hjúkrunarheimilið Garðvang þá 89 ára gömul. Þann 17. janúar 2011 hélt hún upp á 90 ára afmælið sitt með allri fjölskyldu sinni og áttum við góða stund saman.
Ég verð alltaf þakklátur fyrir mánudaginn 26. september þegar ég kom til ömmu og átti með henni notalega stund og kvaddi hana, morguninn eftir hringdi mamma svo í mig og sagði að hún hefði kvatt þennan heim á hljóðlegan og kyrrlátan hátt.
Að leiðarlokum langar mig til að þakka ömmu Fjólu fyrir allar þær góðu og yndislegu stundir sem ég og mín fjölskylda áttum með henni. Minning um góða konu mun ávallt lifa með mér. Blessuð sé minning hennar. Guð blessi þig amma mín.
Elsku mamma, pabbi, Fjóla, Tóti, Benný og fjölskyldur megi Guð styrkja ykkur og hugga á þessum erfiðu tímum. Missir okkar er mikill.
Þinn dóttursonur
Ólafur Pétursson.