Stefán Magnús Gunnarsson fæddist 6. desember 1933 á Æsustöðum í Langadal, Austur-Húnavatnssýslu. Hann lést á líknardeild Landspítalans Kópavogi 26. september 2011. Foreldrar hans voru sr. Gunnar Árnason, fyrsti sóknarprestur í Kópavogi, f. 1901, d. 1985, og Sigríður Stefánsdóttir húsfreyja, f. 1903, d. 1970. Systkini Stefáns voru Þóra, f. 1929, d. 2008, Árni, f. 1930, Auðólfur, f. 1937, og Hólmfríður Kolbrún, f. 1939. Afi Stefáns í föðurætt var sr. Árni Jónsson, próf. á Skútustöðum í Mývatnssveit í Þingeyjarsýslu, en amma hans var Auður Gísladóttir. Afi Stefáns í móðurætt var sr. Stefán M. Jónsson, prestur á Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu, en amma hans Þóra Jónsdóttir. Síðustu ár sín bjó Þóra á Æsustöðum og var hún Stefáni mjög náin. Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Hertha W. Jónsdóttir, fyrrv. hjúkrunarframkvstj., f. 19. desember 1936 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Jón S. Ólafsson, forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins, f. 1892, d. 1962, og Herþrúður Hermannsdóttir húsfreyja, f. 1897, d. 1978. Börn Stefáns og Herthu eru: Jón Gunnar, f. 1965, og Sigríður Þrúður, f. 1967. Eiginkona Jóns er Tracey E. Stefánsson, f. 1964. Synir þeirra eru Stefán, f. 1997, og Ómar, f. 1998. Eiginmaður Sigríðar er Benjamín Gíslason, f. 1965. Börn þeirra eru Hertha Kristín, f. 2001, Gísli Jón, f. 2002, og Stefanía Agnes, f. 2006. Dóttir Benjamíns og stjúpdóttir Sigríðar Þrúðar er Bergljót Klara, f. 1993. Stefán lauk landsprófi frá Laugarvatni 1951 og útskrifaðist frá framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík 1954. Hann starfaði hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og kaupfélögum á árunum 1954-1960 utan eitt ár sem hann var framkvæmdastjóri UMFÍ, 1956-1957. Hann var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Austfjarða á Seyðisfirði 1958-1959 og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Kópavogs 1959-1960. Stefán var útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Egilsstöðum veturinn 1960-1961. Hann hóf störf hjá Landsbanka Íslands-Seðlabanka í maí 1961 og starfaði í ýmsum deildum Seðlabanka Íslands óslitið til loka maí 1976. Að auki var Stefán fyrsti framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs sem stofnaður var eftir að gos byrjaði í Vestmannaeyjum 1973. Stefán var bankastjóri Alþýðubankans hf. frá 1. júní 1976 til 1. ágúst 1987. Hann réðst á ný til starfa hjá Seðlabanka Íslands 1. febrúar 1988 og var forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans frá 1. maí 1991 til starfsloka 31. des. 1998. Stefán var formaður starfsmannafélags Seðlabankans og í stjórn Sambands ísl. bankamanna um árabil. Hann var formaður sóknarnefndar Kársnesprestakalls 1972-1996 og vann ötullega að málefnum Kópavogskirkju. Útför Stefáns fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.
Haustkaldinn er farinn að gera vart við sig, vætan og vindurinn í bland við litadýrð gróðursins. Trén fella lauf. Lífshlaupi okkar mannanna er oftlega líkt við árstíðirnar. Það var haust í lífi vinar míns Stefáns þegar hann kvaddi en þó svo margt ógert, veturinn ekki skollinn á. En fegurð haustlitanna í náttúrunni endurspeglar svo vel minningarnar um Stefán M. Gunnarsson.
Tæpir þrír áratugir skildu okkur að í aldri en það kom ekki í veg fyrir að við Stefán yrðum góðir vinir. Kannski voru það Húnagenin eða bara um margt líkar lífsskoðanir. Það er sjálfsagt komið vel á fjórða áratug síðan ég man fyrst eftir Stefáni. Hertha, kona Stefáns og Þorbjörg móðir mín voru samstarfsfélagar og góðar vinkonur og náin vinatengsl þeirra hjóna og foreldra minna batt okkur saman. Kynni okkar Stefáns og vinátta hófst þó fyrst að ráði þegar ég hóf störf í Alþýðubankanum í byrjun níunda áratugarins sem sumarstarfsmaður. Ég var þá í háskólanámi og átti því láni að fagna að vera ráðinn til vinnu á þeim góða vinnustað við Laugaveg, einkum í sérstök verkefni sem bankastjórnin þurfti að láta sinna. Ugglaust hefur Stefán í fyrstunni verið óviss um hvort rétt væri að fela mér ungum háskólastúdent umfangsmikil verkefni við að endurskipuleggja skuldir fólks og stofna nýja lánaflokka en allt gekk það þó að óskum og næstu sumur treysti Stefán mér fyrir krefjandi verkefnum, m.a. við að undirbúa ný útibú bankans, sem kölluðu á náið samstarf okkar. Um leið þróaðist góð vinátta og trúnaður sem hefur haldist alla tíð síðan.
Stefán var sérstaklega góður yfirmaður. Hann hikaði ekki við að treysta samstarfsfólki sínu, gefa því ráð og leiðbeina, rétta kúrsinn ef menn voru ekki alveg á réttri braut, en líka að hrósa fyrir það sem honum þótti vel gert. Hann lét sér annt um fólk en gerði líka kröfur, þó mestar til sjálfs sín. Hann tók við bankastjórn í Alþýðubankanum á erfiðum tímum í starfsemi bankans, Seðlabankinn hafði tekið bankann í einskonar gjörgæslu vegna rekstrarerfiðleika og skipaði Stefán sem bankastjóra. Það starf fórst honum einkar vel úr hendi, var sívinnandi og honum tókst að snúa við rekstrinum og koma honum á réttan kjöl. Bankinn jók hlutdeild sína á fjármálamarkaði jafnt og þétt án þess að tefla undirstöðunum í tvísýnu eins og löngu síðar varð lenska í bankaheiminum hér með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Stefán var sérlega grandvar maður og tók enga óþarfa áhættu í bankarekstrinum. Hann var sér vel meðvitaður um hin sterku tengsl bankans við verkalýðshreyfinguna og félagsleg sjónarmið voru höfð að leiðarljósi allan hans starfstíma sem bankastjóri.
Einlægni Stefáns var við brugðið og hann var traustur vinur vina sinna og þá ekki síst sinna allra nákomnustu. Hann lét sér alla tíð annt um mig og mína og prestssonurinn og sóknarnefndarformaðurinn Stefán var sérlega áhugasamur um að koma okkur Sigurbjörgu í hjónaband og þegar við loks létum verða af því eftir tæpa tvo áratugi í óvígðri sambúð, var Stefán sjálfkjörinn svaramaður. Enginn annar en Stefán kom heldur til greina sem skírnarvottur barnanna okkar þriggja og alltaf þegar við hittumst eða töluðum saman spurði hann um hag þeirra. Og það var engin uppgerð, heldur sannur áhugi á velferð og þroska þeirra sem honum þótti vænt um eða hafði tengst vináttuböndum. Fyrir þá umhyggju alla og velvild þökkum við fjölskyldan á kveðjustund.
Við Stefán hittumst í síðasta sinn fyrir um tveimur mánuðum. Hann lá þá inni á Landspítalanum til rannsókna og við áttum gott samtal um lífið og tilveruna og viðfangsefni dagsins. Þeirri rökræðu var þó hvergi nærri lokið og úr því sem komið er verður hún að bíða betri tíma. Stefán hafði alla tíð brennandi áhuga á þjóðmálum og sterkar skoðanir, hvatti mig og studdi í flestu því sem ég var að bjástra við. Jafnan vorum við sammála, en þó ekki alltaf eins og gengur. Ég held að honum hafi þótt á tíðum of mikill óróleiki og agaleysi á mínum pólitísku slóðum og efalaust hefur hann haft rétt fyrir sér í því eins og iðulega. Hann áleit stjórnmálin nefnilega alvörumál og kunni illa hentistefnu og lýðskrumi. Þótt Stefán væri veikur og þjáður nú í sumarlok bar hann sig vel og við göntuðumst með ýmsa hluti en töluðum líka um gildin í lífinu. Þá var stutt í kersknina og fallega brosið sem náði svo vel til augnanna, geislandi hláturinn og ástúðina, umhyggjuna fyrir mér og mínum sem vorum honum þó alls óskyld, ja nema þá andlega.
Fáir óskyldir menn hafa verið mér jafn kærir og Stefán Gunnarsson. Mér finnst að hann hafi átt svo mikið eftir ógert og við átt svo margt eftir að brjóta til mergjar. Það tekur mig sárt að kveðja minn góða vin svo alltof fljótt. En söknuður elsku Herthu, Jóns Gunnars og Siggu Þrúðar og fjölskyldna þeirra er þó mestur. Þau hafa misst lífsförunaut og ástvin sem ég veit að unni þeim heitt en minningarnar ylja og veita styrk, því lífið heldur áfram. Það eru forréttindi að hafa fengið að njóta samvista við öðlinginn Stefán. Í litadýrð haustsins, í lífshlaupi Stefáns Gunnarssonar, ríkir fegurðin ein.
Árni Þór Sigurðsson.