Guðrún Rebekka Kristinsdóttir fæddist í Ólafsvík 16. október 1944. Hún lést á líknardeild Landspítalans 12. október 2011. Foreldrar hennar voru Guðrún Þorsteinsdóttir frá Fögruvöllum, Hellissandi, f. 23. mars 1912, d. 24. júlí 1987 og Kristinn Jóhannsson frá Ósi í Kálfshamarsvík, f. 13. júní 1922, d. 9. nóvember 2002. Systkini Guðrúnar Rebekku samfeðra eru: Guðrún Hrönn, Ingibjörg Elfa, Óskar Þór, Finnur Sigvaldi og Guðbjörg Vera. Árið 1970 giftist Guðrún Rebekka Höskuldi Eyþóri Höskuldssyni bifreiðarstjóra, f. 30. ágúst 1942. Foreldrar hans voru Höskuldur Pálsson frá Höskuldsey, f. 15. ágúst 1911, d. 28. apríl 1982 og Kristín Guðrún Níelsdóttir frá Sellátri, f. 16. mars 1910, d. 25. maí 1986. Dætur Guðrúnar og Höskuldar eru 1) Brimrún, grunnskólakennari, f. 24. október 1966, gift Ragnari Arnarsyni flugstjóra, f. 5. febrúar 1964. Dætur þeirra eru: Kristrún Heiða, f. 29. september 1992, Hugrún Lilja, f. 29. apríl 1997 og Guðrún Rebekka, f. 14. nóvember 2001. 2) Heiðrún, deildarritari, f. 30. janúar 1970, gift Guðjóni P. Hjaltalín, verslunarstjóra, f. 2. mars 1969. Börn þeirra eru: Rebekka Sóley, f. 27. mars 1989, unnusti hennar er Kristján Lár Gunnarsson, f. 30. september 1983, Höskuldur Páll, f. 9. júní 1993, Gunnar Kári, f. 18. júní 2001 og Rakel Birta, f. 12. október 2010. 3) Kristín, leikskólakennari, f. 5. nóvember 1971, gift Sverri Erni Björnssyni, lögfræðingi, f. 27. júní 1971. Börn þeirra eru: Agnes Lára, f. 9. október 2002, Kristófer Helgi, f. 30. apríl 2005, Snæbjörn Atli, f. 13. september 2009. Guðrún Rebekka og Höskuldur Eyþór skildu árið 1984. Guðrún Rebekka ólst upp hjá móður sinni, á heimili ömmu sinnar og afa, Pétrúnar og Þorsteins á Fögruvöllum á Hellissandi. Auk þeirra voru þar til heimilis Jóhanna móðursystir hennar með son sinn Anton. Ólust Guðrún Rebekka og Anton upp saman sem systkini. Eftir landspróf frá skólanum í Stykkishólmi stundaði Guðrún Rebekka aðallega verslunarstörf, en vann einnig sem talsímakona bæði á Hellissandi og í Stykkishólmi. Haustið 1963 fór hún til Danmerkur á húsmæðraskólann Als Husholdningsskole og vann síðan í Danmörku í nokkurn tíma eftir það. Fljótlega eftir heimkomuna fluttist hún, ásamt móður sinni, til Stykkishólms þar sem hún hóf búskap með Höskuldi Eyþóri. Guðrún Rebekka hóf störf í Búnaðarbankanum í Stykkishólmi árið 1985 og síðar í Reykjavík eftir að hún fluttist þangað árið 1993. Hún starfaði síðustu ár sem þjónustufulltrúi hjá Arion banka þar til hún varð að láta af störfum vegna veikinda í byrjun árs 2010. Guðrún Rebekka var virk í félagsmálum í Stykkishólmi. Hún starfaði í mörg ár með Rauða krossdeildinni og var ein af stofnendum Aftanskins félags eldri borgara á staðnum. Þá tók hún þátt í nokkrum sýningum leikfélagsins Grímnis og var félagi í JC. Hún var mikil áhugakona um garðrækt og hafði yndi af hvers kyns ræktun. Útför Guðrúnar Rebekku fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 22. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.
Ferja hefur festar losað
farþegi er einn um borð.
Mér er ljúft af mætti veikum
mæla nokkur kveðjuorð.
Þakkir fyrir hlýjan huga,
handtak þétt og gleðibrag,
þakkir fyrir þúsund hlátra,
þakkir fyrir liðinn dag.
(Jón Har.)
Elskuleg æskuvinkona mín, Guðrún Rebekka Kristinsdóttir sem fjölskylda og vinir kölluðu ævinlega Gógó, er í dag kvödd með sárum söknuði. Síðustu þrjú árin háði hún harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Uppgjöf var ekki til í hennar huga og hún barðist fyrir lífi sínu til hinstu stundar, af hetjuskap sem aðdáun vakti. Andlegt þrek hennar og bjartsýni gaf okkur sem nálægt henni stóðum von um að þessi harða barátta endaði með sigri lífsins en sú von brást.
Gógó var alin upp á Hellissandi hjá móður sinni Guðrúnu og ömmu sinni, Pétrúnu á Fögruvöllum. Mér er í barnsminni hve notalegt var í litla eldhúsinu á Fögruvöllum. Þangað lögðu líka margir leið sína á uppvaxtarárum okkar. Pétrún var fróð kona og fór með vísur og gamlar sögur. Gunna var glaðsinna, hallmælti engum heldur lagði gott til allra. Gógó var mótuð af góðu uppeldi og notalegum heimilisanda sem fylgdi henni alla tíð síðan, bæði á heimili hennar í Stykkishólmi og í Reykjavík.
Snemma kom í ljós hversu dugleg og fylgin sér hún var, bæði í námi og starfi. Hún fór ekki um með hávaða og erfiðleikar uxu henni ekki í augum heldur tókst hún af skynsemi og heiðarleika á við þau verkefni sem lífið lagði henni á herðar.
Hún tók landspróf frá skólanum í Stykkishólmi og hugur hennar stóð til frekara náms sem aðstæður leyfðu ekki á þeim tíma. Hún vann í Kaupfélaginu á Hellissandi og á símstöðinni þar sem hún svaraði í símann með orðinu miðstöðog gaf síðan samband við þann sem viðkomandi óskaði eftir að tala við. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið nokkuð frumstætt ef litið er til tækninnar í dag en Gógó hafði mjög gaman af starfinu og rifjaði oft upp skemmtileg atvik frá þessum tíma.
Síðar lá leið hennar í húsmæðraskóla í Danmörku. Þar eignaðist hún vini og náði góðum tökum á dönskunni og brá henni fyrir sig alla ævi síðan. Hún naut dvalarinnar út í ystu æsar, kynntist nýjum siðum og lærði margt er nýttist henni vel sem húsmóður á stóru og gestrisnu heimili síðar meir. Ég man hvað mér þótti líf hennar spennandi eins og hún lýsti því í bréfunum til mín.
Fljótlega eftir heimkomuna giftist Gógó fyrrverandi eiginmanni sínum og fluttist, ásamt móður sinni, til Stykkishólms þar sem ungu hjónin reistu sér heimili. Brátt fæddust dæturnar þrjár hver af annarri, yndislegar dætur sem voru móður sinni miklir gleðigjafar og reyndust henni ákaflega vel í erfiðum veikindum. Sama má segja um tengdasynina þrjá sem hún dáði, raunar sá hún ekki sólina fyrir barnabörnum sínum, dætrum og tengdasonum. Þau voru henni allt.
Í Stykkishólmi átti fjölskyldan myndarlegt heimili. Engum var í kot vísað sem þangað lagði leið sína, standandi veisluborð og Gunna amma stóð í eldhúsinu og hellti upp á könnuna.
Þáttaskil urðu í lífi Gógóar þegar hún hóf störf í Búnaðarbankanum í Stykkishólmi og síðar í Reykjavík eftir að hún fluttist þangað ásamt Kristínu dóttur sinni. Hún kunni mjög vel við sig í bankanum og eignaðist þar góða vini. Ekki var alltaf auðvelt að vera þjónusturáðgjafi í stórum banka á umbrotatímum en hún var fljót að setja sig inn í nýtt starfsumhverfi og ná tökum á þeim verkefnum sem henni var trúað fyrir. Ég veit að hún öðlaðist traust og vináttu margra viðskiptavina sinna og var samviskusamur og góður starfsmaður.
Á unglingsárum deildum við vinkonurnar herbergi og kynntumst því vel og bundumst ævilöngum vináttuböndum sem aldrei rofnuðu þrátt fyrir vík milli vina um árabil.
Að leiðarlokum er mér þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir vináttu, tryggð og stuðning á ævinnar vegi. Þakklæti fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar innan lands og utan, ekki síst hin síðari ár þegar við vorum báðar búsettar í Reykjavík. Ég mun sakna sárt minnar góðu vinkonu.
Dætrum hennar, fjölskyldum þeirra og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þau hafa misst mikið.
Ég dái runna
sem roðna undir haust
og standa réttir
þótt stormana herði
uns tími er kominn
að láta laust
lauf sitt og fella
höfuð að sverði.
(Einar Bragi)
Megi hún Gógó mín hvíla í friði.
Minnie Eggertsdóttir