Jón Ólafsson fæddist í Ólafsfirði 25. desember 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku 12. október 2011. Foreldrar hans voru Ólafur Guðmundssson sjómaður, f. 30. maí 1891, d. 1. mars 1977, og kona hans Sóley Stefánsdóttir, f. 8. maí 1897, d. 8. jan. 1973. Systkini hans eru: Stefán, f. 8. okt. 1920, d. 29. feb. 2004, Stefanía, f. 23. ág. 1922, d. 9. feb. 1923, Guðmundur, f. 18. des. 1923, Sigurrós Þórleif, f. 11. júlí 1929, d. 6. júní 1939, Aðalsteinn Sæmundur, f. 2. júní 1932, Sveinn Helgi, f. 2. júní 1932, d. 9. nóv. 1934, og Kristín, f. 5. júlí 1935. Þá ólst upp á heimilinu myndlistarkonan Sigurrós Þórleif Stefánsdóttir, f. 30. nóv. 1950. Jón ólst upp í foreldrahúsum á Ólafsfirði og stundaði þar nám, og einnig lauk hann námi frá héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði. Jón stundaði margvísleg störf um ævina. Hann var árum saman til sjós, bæði á fiski- og millilandaskipum. Þá vann hann í mörg ár við verslunarstörf bæði í Reykjavík og heima í Ólafsfirði. Hann var deildarstjóri í Kaupfélagi Ólafsfjarðar um árabil og allt til þess tíma að kaupfélaginu var lokað. Þá vann hann um nokkurra ára skeið hjá fiskverkun Sæunnar í Ólafsfirði. Árið 1950 keyptu bræðurnir húsið Tjörn í Ólafsfirði og þar bjó hann ásamt Kristínu systur sinni fram á síðasta ár. Óhætt er að segja að Jón hafi alla tíð borið einstaka virðingu fyrir þessu húsi, enda er það enn í dag eitt glæsilegasta húsið í bænum. Síðustu árunum eyddi hann í að mála og lagfæra húsið og fannst honum aldrei nóg að gert. Jón tók mikinn þátt í starfsemi Leikfélags Ólafsfjarðar og lék þar í fjölda leikrita. Hann var góður leikari og sýndi oft snilldartakta á fjölunum. Margir Ólafsfirðingar minnast hans með þakklæti fyrir túlkanir hans í hinum ýmsu verkum, eins og t.d. Þrem skálkum, Ólympíuhlauparanum og Tobaco Road, svo einhver séu nefnd. Útför Jóns fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 22. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.
Það er skrýtið til þess að hugsa að við munum ekki hitta Nonna frænda aftur þegar við förum til Ólafsfjarðar. Það er samtenging á milli hans og heimsóknar á Tjörn til Stínu og Nonna. Nonni er hluti af mörgum minningum sem við eigum allt frá barnæsku og þar til nú og sem betur fer þá hafa börn okkar systkina líka fengið að kynnast honum.
Tjaldferðalög, sumarbústaðarferðir, stórafmæli (sérstaklega sjötugsafmælið sem hann hélt uppá heima hjá okkur) og góð samvera með systkinunum Nonna og Stínu og stundum Sæma og Gunnu koma upp í hugann og þá var nú fjör. Þegar þeir bræður Nonni og Sæmi komu saman þá hélt maður um magann og grét af hlátri.
Í huga okkar kemur ferð með Stínu frænku, Nonna, Sæma og Gunnu í Vatnahverfið við Blönduós. Þar sem þeir bræður mönuðu hvor annan að fara út í vatn að sækja fótbolta sem hafnað hafði í því miðju eftir góðan fótbolta í móunum. Mikið var hlegið. Það fór samt svo að Sibbi fórnaði sér og sótti boltann með viðardrumb sem þeir bræður vildu að hann hefði með sér sem lífsbjörg ef hann yrði þreyttur á sundinu.
Nonni þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar hann heimsótti fjölskylduna þegar við vorum börn, sérstaklega þegar hann kom til okkar til Blönduóss eða Sauðárkróks, þar sem foreldrar okkur byggðu sér hús, þá varð hann að dytta að einhverju. Það kom sér afskaplega vel fyrir stórfjölskylduna því allt var þetta gert af mikilli alúð, vandvirkni og kunnáttu auk þess sem hann hafði ráð undir rifi hverju. Þetta lýsti sér einnig í því hvernig hann hugsaði um Tjörn sem er að okkar mati fallegasta hús í Ólafsfirði og þótt víðar væri leitað. Hann lagði líf og sál í húsið. Fór upp stiga til að að skrapa, mála og dytta að öllu allt þar til fyrir mjög stuttu. Hann vílaði ekkert fyrir sér þrátt fyrir háan aldur og var kannski farinn að færast aðeins of mikið í fang á stundum. Hann og Daddi frændi keyptu sér lyftara sem hann var afar ánægður með því þá var ekkert vandamál að dytta að húsinu hátt sem lágt hvenær sem var. Hann var alltaf að inni sem útivið; uppá þaki, uppí stiga, með skóflu, hrífu eða sláttuvél í hönd á milli þess sem hann skrapp í snarpa göngutúra.
Upp í hugann koma líka góð ráð og aðferðir við það hvernig við skyldum veiða síli í tjörninni, ófáar ferðir til andanna með brauð og nokkur samtölin, nú seinna meir við börnin okkar, um bölvaðan varginn sem bæði át egg andanna og brauðið sem við köstuðum til þeirra.
Í okkar augum var Nonni frændi heimsborgari því hann sigldi landa á milli og sá margt og hafði frá mörgu að segja. Samtvinnaðar minningum um Nonna frænda eru minningar um skip og siglingar. Þegar Nonni var vaktmaður í skipunum við höfnina í Ólafsfirði tók hann nafna sinn eitt sinn sem oftar með sér á Ólaf bekk en um leið vaktaði hann laxeldið þarna í nágrenninu. Þetta voru miklar ævintýraferðir fyrir nafna hans ekki síst sú þegar maður með veiðistöng uppgötvast hjá laxeldinu. Nonni rauk til og lýsti með sterkum kastara á hann - aldrei hvorki fyrr né síðar hefur Nonni nafni hans séð nokkurn hlaupa eins hratt og þann sem í allt í einu stóð baðaður í ljósinu.
Í ófá skipti fór fjölskyldan og hitti Nonna við Dísarfellið og í eitt þeirra fékk Sibbi að sigla með Nonna frænda frá Blönduósi til Akureyrar. Það var mikil og góð upplifun fyrir ungan landkrabba. Þar kenndi Nonni honum að dorga með spýtu og nagla. Hann sýndi honum með stolti allar vinnustöðvarnar á skipinu (sem í minningunni var RISAstórt), gaf sér tíma til að spjalla og segja frá ýmsum ævintýrum. Frásagnir hans af ferðum hans í útlöndum hafa án efa haft áhrif á okkur öll hvað varðar þrá okkar til að ferðast , kanna heiminn og lifa í útlöndum. Útlenskt nammi, góðar, óvenjulegar og skemmtilegar gjafir frá útlöndum komu alltaf frá Nonna hvort sem það voru afmælis-, fermingar- eða jólagjafir og þeim fylgdu iðulega lystilega fallega skrifuð kort.
Nonni var leikari af guðs náð og því alltaf stutt í sprellið hjá honum. Hann hafði skemmtilega frásagnargáfu og átti það til að flytja part úr einhverju hlutverkinu sem hann hafði leikið með Leikfélagi Ólafsfjarðar til að leggja áherslu á orð sín okkur fjölskyldunni til skemmtunar. Nonni og Stína Sóley deildu áhuga á leiklistinni. Oft rötuðu ævisögur leikara í jólapakkann og eftir að hún flutti til Akureyrar var ávallt tekin umræða um það hvað Leikfélag Akureyrar væri með á leikskrá ársins. Minnisstæð er leikhúsferð systkinanna Nonna, Stínu, Sæma og Munda á Óvitana hjá LA með Stínu Sóleyju og Dadda. Lengi á eftir var talað um þá ferð og upplifunina sem henni fylgdi.
Nonni frændi fylgdist alltaf vel með hvað við systkinin vorum að gera í lífinu. Stolt hans leyndi sér ekki þegar Elsa bjó hjá þeim systkinum á Tjörn þann tíma sem hún vann á Hornbrekku sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur. Hann hafði mikla trú á frænku sinni og leitaði síðar oft ráða hjá henni þegar heilsan fór að gefa sig.
Systkinakærleikurinn sem ríkir og hefur ríkt á milli þeirra systkina allra á Tjörn er einstakur og eitthvað sem við höfum reynt að taka okkur til fyrirmyndar.
Elsku besta Stína frænka, Sæmi, Mundi og mamma, megi minning um góðan mann, bróður og frænda lifa með okkur öllum. Við hugsum til ykkar!
Daddi frændi, Guðrún og Viljar við viljum þakka ykkur fyrir að vera til staðar og hugsa svona vel um frændfólk okkar. Starfsfólkinu á Hornbrekku viljum við einnig þakka fyrir að hugsa vel um Nonna frænda þann tíma sem hann var þar.
Takk fyrir allt elsku Nonni frændi.
Stína Sóley, Sibbi, Elsa og Nonni.