Friðrik Axel Þorsteinsson fæddist 23. nóvember 1947. Hann lést á blóðlækningadeild 11G á Landspítalanum 19. nóvember 2011. Foreldrar hans voru Inga Ísaksdóttir, f. 19 júlí 1927, og Þorsteinn E.V. Einarsson, f. 5. júní 1927, d. 27 október 2010. Stjúpfaðir Friðriks var Matthías Jónsson, f. 21 september 1918, d. 20 október 2006. Friðrik fæddist í Ási í Ásahreppi í Rangárvallasýslu og bjó þar til hann fluttist til Reykjavíkur átta ára að aldri árið 1955. Hinn 27. september 1969 kvæntist hann Helgu Þórunni Einarsdóttur, f. 7 júlí 1948, og eignuðust þau þrjú börn: Matthías Örn Friðriksson, f. 18 febrúar 1970, kona hans er Svafa Grönfeldt, f. 29. mars 1965, börn þeirra eru Viktor Grönfeldt Steinþórsson, f. 17. maí 1994, og Tinna Grönfeldt, f. 27.apríl 2002. Bjarki Hrafn Friðriksson, f. 13. apríl 1975, kona hans er Bryndís Guðmundsdóttir, f. 22. apríl 1974, synir þeirra eru Friðrik Örn Bjarkason, f. 31. ágúst 2001, Anton Ari Bjarkason, f. 8. apríl 2004, og Arnar Darri Bjarkason, 24. janúar 2008. Ingibjörg Dröfn Friðriksdóttir f. 7 júlí 1979, eiginmaður hennar er Gunnar Hafsteinsson, f. 20. september 1976, börn þeirra eru Hafsteinn Orri Gunnarsson, f. 18. júlí 2006, og Helga Dögg Gunnarsdóttir, f. 26. maí 2010. Hálfsystkini Friðriks í móðurætt eru Steinunn Jóna Matthíasdóttir, f. 13. júní 1957, og Ísak Jakob Matthíasson, f. 25. júní 1963, kona hans er Hulda Gunnarsdóttir, f. 13. júlí 1962, og eiga þau þrjú börn. Hálfsystkini Friðriks í föðurætt eru átta talsins. Friðrik lærði bifreiðasmíði hjá Sigurði Ísakssyni og Þorsteini Pálssyni hjá Bifreiðabyggingum hf. og lauk sveinsprófi í greininni 21. júní 1969 og meistaraprófi 19. janúar 1975. Hann starfaði hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins frá 16. maí 1971, lengst af sem varðstjóri. Jafnframt starfaði Friðrik sem ökukennari og skólastjóri Ökuskóla Íslands ásamt því að kenna bæði við Sjúkraflutningaskólann og Brunamálaskólann. Útför Friðriks fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 25. nóvember 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar lífið gefur þér hundrað ástæður til að gráta sýndu þá lífinu að þú hefur þúsund ástæður til að gleðjast. Í dag kveðjum við ástkæran föður og einstakan vin. En við grátum ekki því við höfum misst hann. Við gleðjumst því við fengum tækifæri til að vera hluti af lífi hans. Við gleðjumst því hann gaf okkur styrk, hugrekki og von. Við gleðjumst í þeirri von að þrátt fyrir sorgir okkar bíður bjartur dagur því hann kenndi okkur æðruleysi, tryggð og að elska skilyrðislaust. Hann skilur eftir sig birtu, vináttu og þakklæti í hjörtum okkar allra.
Það er sagt að í dauðanum fögnum við lífinu mest. Lífið hefur gefið okkur ríka ástæðu til að gráta í dag en Frikki hefur gefið svo mörgum ástæðu til að gleðjast. Gleðjast með því hvernig hann lifði, hvernig hann kenndi og hvernig hann gerði þennan heim að betri stað.
Hann lifði lífinu af heilindum og hávaðalaust en markaði sín spor fumlaust og óhikað. Fólk gleymir orðum. Fólk gleymir athöfnum. En fólk gleymir aldrei þeim tilfinningum sem við vekjum með þeim og hvernig við látum fólki líða í návist okkar. Það eru raunveruleg spor okkar í sandi tímans. Það var þar sem Frikki markaði spor sín. Hann kom við hjarta allra sem á vegi hans urðu. Háum sem lágum. Nákomnum sem ókunnugum. Ævistarf hans við slökkviliðs- og björgunarstörf var helgað öðrum. Hann miðlaði af þekkingu og reynslu sinni. Hann snerti líf þúsunda. En fjölskyldan var honum allt. Hann var akkeri, sálufélagi og hornsteinn okkar. Hann deildi hamingju sinni með okkur og við getum einungis óskað þess að verða sporgöngumenn hans.
Hann kenndi okkur að lifa og deyja með reisn. Við vitum að hamingja okkar í lífinu markast ekki af því sem á daga okkar drífur heldur af afstöðu okkar og hvernig við tökumst á við lífið. Frikki tókst á við gleði og sorg á sama hátt. Hann var ævinlega þakklátur fyrir það sem hann átti í stað þess að einblína á það sem hann skorti. Hann var þakklátur fyrir hvern dag og tókst á við hið óumflýjanlega af æðruleysi og óendanlegu baráttuþreki. Þegar sá fyrir enda orrustunnar var hann jafn hugrakkur og æðrulaus og í upphafi hennar. Hann hafði ekki einungis kennt okkur að lifa heldur jafnframt hvernig átti að kveðja.
Í langvinnri baráttu við sjúkdóma er það ekki einungis hátækni og fagmennska sem skiptir sköpum. Á stundum sem þessum er það mannúð og hluttekning starfsfólks Blóðlækningadeildar 11G á Landspítalanum og stuðningur þeirra á þessari löngu leið sem verður aldrei að fullu þökkuð.
Hann gerði heiminn betri. En ekki einungis með verkum sínum og samskiptum við annað fólk heldur einnig með viðhorfum sínum og gildum sem endurspeglast nú svo glöggt í fari í sona hans og dóttur. Matti, Bjarki og Ingibjörg búa yfir styrk hans, umhyggju og ósérhlífni. Hann lifir áfram í þeim. Þessi vegferð sýnir glöggt hvað þau hafa að gefa heiminum. Við sem stöndum þeim næst njótum blessunar að fá að vera samferða þeim í gegnum lífið.
Elsku Helga, söknuður þinn er óbærilegur. Þú hefur hundrað ástæður til að gráta en Frikki þinn gaf þúsund gleðistundir. Það skarð sem hann skilur eftir sig er stórt. Við sem fengum að njóta samveru, leiðsagnar og vináttu hans verðum ævarandi þakklát fyrir þann tíma. Tíma sem var alltof stuttur. En minningin lifir áfram í hugrökku afabörnunum sem í dag fylgja honum síðasta spölinn.

Svafa Grönfeldt.