Jónas Jónasson fæddist í Reykjavík 3. maí 1931. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 22. nóvember 2011. Foreldrar hans voru Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri, f. 22. janúar 1885 á Helgastöðum i Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu, d. 6. júní 1968, og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir húsmóðir, f. 30. janúar 1898 í Háagerði, Vindhælishreppi, Húnavatnssýslu, d. 10. janúar 1985. Systir Jónasar er Björg, f. 22. maí 1926. Hálfsystir samfeðra, Kolbrún, f. 9. júní 1921, d. 7. ágúst 1987. Eiginkona Jónasar er Sigrún Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður, f. 18. janúar 1938. Foreldrar hennar voru Guðríður Sigurðardóttir, f. 13. mars 1913, d. 2. mars 1980, og Sigurður Jónsson, f. 30. maí 1913, d. 31. október 1995. Dóttir þeirra er Sigurlaug Margrét útvarpsmaður, f. 12. nóvember 1963. Maki Torfi Hjálmarsson gullsmiður, f. 28. ágúst 1962. Börn þeirra eru: Freyr, f. 1990, Sigrún, f. 1994, og Sólveig, f. 1998. Fyrri eiginkona Jónasar er Auður Steingrímsdóttir, f. 6. janúar 1935. Dætur þeirra: 1) Hjördís Rut hjúkrunarfræðingur, f. 26. ágúst 1954. Maki Hallur Mar Elíson Olsen, f. 1. júní 1956. Börn þeirra eru: Jónas Baldur, f. 1975, unnusta hans Soffía Rúna Lúðvíksdóttir, f. 1983, sonur þeirra Ísak Logi, synir Jónasar, Axel Þór og Gabríel. Sævar Örn, f. 1977, eiginkona hans Anna Dóra Daníelsdóttir, f. 1974, börn þeirra Dagný Rut og Patrekur Almar. Sigrún María, f. 1979, unnusti Arnar Sverrisson, f. 1972, dóttir þeirra Elísabet Harpa, sonur Sigrúnar Baldur Örn. 2) Berglind Björk söngkona, f. 11. febrúar 1959. Maki Jón Haukur Jensson kvikmyndatökumaður, f. 11. janúar 1958. Sonur þeirra er Jökull Ernir, f. 1988, dóttir hennar Auður Harpa, f. 1977, sonur Auðar Róbert Andri. Jónas var gagnfræðingur. Hann stundaði tónlistarnám í Reykjavík og á Ísafirði. Hann lærði leiklist í leiklistarskóla Ævars Kvaran og var síðar kennari þar. Hann kynnti sér kvikmyndagerð og flutning útvarpsleikrita í London 1951, tók námskeið í stjórnun sjónvarpsþátta hjá danska sjónvarpinu 1963. Hann hóf störf á fréttastofu ríkisútvarpsins 17 ára og starfaði hjá útvarpinu nær óslitið til dauðadags. Á ferlinum starfaði hann á flestum deildum útvarpsins. Hann veitti forstöðu ríkisútvarpinu á Akureyri og var upphafsmaður fyrsta svæðisútvarpsins. Hann skrifaði og leikstýrði mörgum útvarpsleikritum og setti upp leiksýningar víða um land. Hann skrifaði greinar í mörg blöð og tímarit. Hann skrifaði nokkrar bækur. Bókin Polli, ég og allir hinir fékk verðlaun sem besta bók ársins 1973. Hann skrifaði revíuna Alvörukrónan, með Gunnari M. Magnúss. Hann gerði mikinn fjölda útvarpsþátta af ýmsum toga en þekktastur var hann fyrir Kvöldgesti, viðtalsþátt sem hefur verið á föstudagskvöldum óslitið í 30 ár. Eftir hann liggur fjöldi laga sem hann samdi. Þekktust þeirra eru Vor í Vaglaskógi og Hagavagninn. Jónas verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 2. desember 2011, kl. 13.
Það er miklu erfiðara að skrifa minningargrein um Jónas Jónasson, útvarpsmann, en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér. Eins og það er margt sem hægt er að tala um, margs að minnast, fer textinn einhvern veginn alltaf að snúast um mann sjálfan. Hvernig Jónas snerti tilveru manns á svo margvíslegan hátt, áratugum saman.
Þegar Jónas veiktist fannst mér eins og ég hefði vitað að þetta væri yfirvofandi, en hefði ekki viljað horfast í augu við það. Það þarf líklega engan sérfræðing til að reikna það út að líkurnar á því að fólk falli frá aukist óneitanlega með aldrinum og Jónas varð áttræður í vor. Hann hafði líka lengi glímt við sykursýki á háu stigi, en þrátt fyrir þetta, aldurinn og undirliggjandi sjúkdóm, held ég að ég hafi, eins og svo margir, ákveðið að líta á að Jónas væri hreinlega stofnun sem hlyti að vera eilíf. Útvarpsmaður með stórum upphafsstaf, tónskáld sem gat samið undurfalleg verk að því er virtist algjörlega fyrirhafnarlaust, rithöfundur og sagnamaður af einstakri gerð, eftirherma og heimspekingur. Hann bjó nefnilega yfir mikilli speki og mér fannst stundum, þegar ég talaði við hann, að svona væri hinn sanni öldungur, eins og það hugtak er notað í virðingarskyni um þá vísustu í ættbálknum.
Og hvers vegna skyldi vera svo erfitt að skrifa grein um Jónas, sem um leið fjallar ekki um mann sjálfan? Næstum öll samtöl við Jónas byrjuðu á: Hvað segir þú, elskan mín? Hann hafði alltaf áhuga á að heyra hvað á daga manns hefði drifið, hvernig vinnan gengi, sálar- og fjölskyldulífið. Og hann hlustaði eins og honum einum var lagið og áður en maður vissi var maður búinn að segja honum alls konar hluti sem maður jafnvel vissi ekki að maður væri að hugsa. Þannig var Jónas. Góður og skilningsríkur hlustandi sem gat gefið manni góð ráð, því hann hafði óendanlegan reynslubrunn að ausa úr. Um starf fjölmiðlamannsins, að vera opinber persóna, samskipti við fólk og einkalífið. Að sálarlífinu og dýpri málefnum ógleymdum. Það var svo gott að ræða við Jónas um margskonar hluti á hátt sem fólk gerir of sjaldan, að ég held að það skarð verði seint fyllt.
Ég man fyrst eftir Jónasi þegar ég var lítil stelpa í heimsókn á Eyrinni hjá ömmu. Hún bjó í Norðurgötu 6b og í næsta húsi fékk svæðisútvarpið á Akureyri inni, þegar útsendingar hófust árið 1982. Ég man eftir að hafa klifrað upp á skúr til að reyna að gægjast inn um gluggana á þessari merkilegu byggingu og ég sá útvarpsmennina í dýrðarljóma. Líklega hefur fyrstu fræjum fjölmiðlaáhuga míns verið sáð þarna í Norðurgötunni. Sá sem þarna stóð í brúnni var enginn annar en Jónas Jónasson, útvarpsmaður. Hann var stórglæsilegur, dökkur á brún og brá og þjóðsagnapersóna á Akureyri. Þannig er myndin sem ég hef í höfðinu af honum, fyrr og síðar. Glæsilegur, með glampa í augunum, ákaflega vel ilmandi og með stórt men í langri festi utan um rúllukragann. Að ógleymdri röddinni, sem á sér enga líka.
Og það var einmitt þessi rödd sem kallaði á mig einhvern tímann, þegar ég gekk eftir ganginum á fyrstu hæð útvarpshússins, og bað mig að ræða aðeins við sig. Ég hafði rekist á Jónas í matsalnum og á göngunum, en gat ekki sagt að ég væri nema rétt málkunnug honum þegar þarna var komið. Erindið var að segja við mig nokkur hlý orð og ráða mér heilt í starfi, en Jónas sagði að ég talaði of hratt. Það yrði til mikilla bóta að draga aðeins úr hraðanum. (Vitaskuld hafði hann rétt fyrir sér og ég hef oft hugsað til hans síðan þegar ég verð of óðamála.) Þetta var á tíma mikilla umróta í mínu lífi og seinna sagði Jónas mér að honum hefði fundist ég þurfa á því að halda að fá svolitla hlýju og stuðning. Það hefði verið raunveruleg ástæða þess að hann kallaði á mig. En þarna hófst vinskapur okkar og af honum hef ég hlotið mikið ríkidæmi.
Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast manni eins og Jónasi, slíkum hæfileikamanni og þátttakanda í jafnstórum hluta af sögu 20. aldar. Þetta var maður sem þekkti alla og gat sagt sögur sem voru svo lifandi að manni fannst eins og maður hefði verið vitni að atburðunum sjálfur. Á góðum stundum leyfði hann mér að hlusta á tónlistina sína með sér, verk sem runnu upp úr honum viðstöðulaust við flygilinn í stúdíói 12, eins og einhver hvíslaði þeim í eyra hans, eins og Jónas sagði sjálfur. Ég veit að hann trúði því að hann hefði hjálparmenn, sem bæði hjálpuðu honum að semja tónlist og skrifa, en í þeirri trú hans fólst líka ákveðin vantrú á eigin hæfileika sem hann hafði ofgnótt af.
Ég held nefnilega að gagnrýni fólks á fyrstu árum Jónasar í útvarpi, þegar hann var óharðnaður unglingur, sonur útvarpsstjórans sem fékk vinnu í stofnun föður síns, hafi merkt hann fyrir lífstíð. Stundum langaði þennan mann, sem hafði viðurværi sitt og yfirleitt mikla ánægju af því að ræða við fólk, ekkert til að eiga samneyti við aðra og það komu tímar þegar lífið lá þungt á Jónasi. En það bráði alltaf af honum og mér fannst að í seinni tíð hefði komum svarta hundsins fækkað.
Hann var ekkert feiminn að segja manni frá þessari andstöðu sem hann hafði stundum mætt, hvorki þeirri sem spratt innra með honum, eða hið ytra. Hann vissi að hann hafði mikið fram að færa, en í honum bjó samt alltaf sautján ára strákur sem efaðist örlítið um eigið ágæti, en fannst hann ekki heldur njóta sannmælis. Þess vegna hafði Jónas líka svo mikinn skilning á því þegar einhver lenti í ólgusjó, varð umtalaður og stundum illa, og vildi gefa fólki tækifæri til að segja sína sögu, vera það sjálft, þótt ekki væri nema í klukkutíma á föstudagskvöldi. Og það tókst honum, ákaflega margir kunna honum þakkir fyrir að hafa leyft þeim að sýna á sér fleiri hliðar en þá sem hefur snúið út í fjölmiðlum eða annars staðar á opinberum vettvangi.
Og Jónas er ekki hættur að gefa. Hann gaf okkur gjöf á síðustu dögum ævi sinnar, sem lifir áfram. Hvernig hann ræddi opinskátt um það að yfirgefa þennan heim og hvað tæki við, er hans framlag til okkar sem eigum þessa ferð eftir. Hann var alla tíð andlega sinnaður, alinn upp við miðilsfundi á æskuheimili sínu og mikinn áhuga föður síns á handanheimum. Jónas virtist líka oft vera í meira sambandi við hið guðlega en flestir og lýsti stundum fyrir mér upplifunum sínum þegar hann kom á fjarlæga staði í fyrsta sinn, þar sem hann þekkti samt hvern krók og kima.
Og nú er hann farinn til Sumarlandsins, þar sem góðir vinir og fjölskylda taka á móti honum. Silli bankastjóri ábyggilega þar einna fremstur í flokki, orðinn ungur, hávaxinn og beinn í baki. Af því að í Sumarlandinu er allt eins og best verður á kosið.
Hann lofaði áður en hann fór að láta vita af sér öðru hverju, það færi ekki á milli mála hvenær hann yrði nærstaddur því þá myndi ilmurinn sem alltaf fylgdi honum flæða yfir huluna milli heimanna tveggja. Mér fannst þetta afar viðeigandi merki, því eins og við Silla höfum oft gantast með, gat maður næstum því sagt til um það í anddyri útvarpshússins hvort Jónas væri mættur í vinnuna.
Ég votta fjölskyldu Jónasar samúð mína og kveð Jónas Jónasson, útvarpsmann, með virðingu og söknuði. Í hans anda hlakka ég líka til endurfundanna.
Svanhildur Hólm Valsdóttir.