Guðmundur Þórðarson fæddist á Haukafelli á Mýrum 24. nóvember1928. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörkinni í Reykjavík 20. nóvember 2011. Foreldrar hans voru Þórður Jónsson búfræðingur frá Rauðabergi á Mýrum, f. 3.10. 1900, d. 6.3. 1992, og Bergljót Þorsteinsdóttir frá Hvammi í Lóni, f. 23.9. 1903, d. 9.6. 2005. Systkini hans eru Freysteinn Þórðarson vélstjóri, f. 23.11. 1929, Arnór Þórðarson kennari, f. 18.10. 1932, Erla Ásthildur Þórðardóttir tæknir, f. 17.5. 1939, og Kristín Karólína Þórðardóttir, f. 1.12. 1942, d. 23.1. 1957. Guðmundur kvæntist 23.2. 1952 Steinvöru Bjarnheiði Jónsdóttur, f. 24.1. 1928, d. 28.1. 2008. Foreldrar hennar voru hjónin á Álfhól á Seyðisfirði, Jón Þorsteinsson byggingameistari, f. 3.2. 1900, d. 10.6. 1973 og Kristbjörg Bjarnadóttir húsmóðir, f. 1.3. 1902, d. 10.1. 1988. Börn Guðmundar og Steinvarar eru: 1) Þóra Bergný, f. 20.5. 1953, sambýlismaður Þórbergur Torfason. Sonur Þóru og Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar er Dýri, maki Ríkey Kristjánsdóttir. Synir Þeirra eru Rökkvi, Sindri og Álfur. 2) Kristbjörg, f. 27.12. 1954, maki Árni Kjartansson. Börn þeirra eru a) Kjartan, maki Harpa Lind Kristjánsdóttir. Dóttir þeirra er Rán. b) Steinvör Þöll, maki Colin Johnston. Dóttir þeirra er Freyja Kristbjörg. c) Sigurlaug. d) Ragnhildur Eik. 3) Guðmundur Hugi, f. 21.10. 1966, sambýliskona Unnur Agnes Hauksdóttir. Dóttir Huga og Selmu Karlsdóttur er Birta. Guðmundur flutti með foreldrum sínum á öðru aldursári að Hvammi í Lóni, og þaðan í Byggðarholt í sömu sveit er hann var á 8. aldursári (1936). Guðmundur fór í Alþýðuskólann á Eiðum í þrjá vetur 1946-1949 og þaðan í Kennaraskólann, sem hann lauk á tveimur árum 1949-1951. Guðmundur réð sig til kennslu við Barna- og unglingaskóla Seyðisfjarðar og kenndi þar allan sinn starfsaldur utan tvo vetur sem hann kenndi við Digranesskóla í Kópavogi og einn vetur sem hann var við framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Guðmundur gegndi ýmsum ábyrgðarstöfum fyrir samfélagið. Hann var formaður barnaverndarnefndar og áfengisvarnarnefndar um árabil, varafulltrúi í bæjarstjórn 1966-70 og starfaði í ýmsum nefndum kaupstaðarins. Hann tók virkan þátt í kjarabaráttu kennara, sat í fulltrúaráði S.I.B. frá 1972-1974. Auk þess að sinna kennarastarfinu af lífi og sál var Guðmundur mikill og góður smiður og hagleiksmaður. Útför Guðmundar verður gerð frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 3. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 11.

Guðmundur pabbi minn var alinn upp í fegurstu sveit á Íslandi á víðáttumiklum söndum Jökulsár í Lóni, með tignarleg fjöllin Eystra- og Vestra horn sem útverði tilverunnar. Það var ekki auðlegð heima hjá honum í Byggðarholti en nóg að bíta og brenna og hjartarýmið ómælt.

Pilturinn hneigðist ekki til sveitastarfa. Ungur lagði hann í mikið ferðalag austur á land í Alþýðuskólann á Eiðum. Í veganesti hafði hann þá menntun sem Þórður afi hafði miðlaði honum og öðrum börnum í sveitinni í Fundarhúsinu og allt það atlæti sem Begga amma veitti sínu fólki.

Þessi laglegi piltur með hrafnsvart hrokkið hárið, hvítt hátt ennið og örlitlar keltneskar freknur í vöngunum, var bæði lipur námsmaður og ótrúlega laghentur og verksnjall. Hann smíðaði sér bæði stól og borð fyrstu vikurnar á Eiðum, nauðsynlega hluti til frekari skólagöngu

Hann vissi ekki þá,  þegar leið hans lá suður í kennaraskólann eftir Eiðadvölina að handan Fjarðarheiðar í grænum faðmi Seyðisfjarðar beið hans lífið sjálft. Konuefnið hans ólofað og ærslafullt, starfsævin óráðin, óbyggt hús og töluverður ættleggur. Þetta var skrifað í skýin en hlaut að verða.

Hann var 23 ára þegar hann leigði sig inn á pensjónatið á elliheimilinu hjá frú Þorfinnu og hóf kennslu við Seyðisfjarðarskóla. Honum fannst staðurinn fallegur, húsin vinaleg og hvítmáluð stakíttin í kringum velhirta garða snertu fegurðarskyn þessa unga manns. Hann saknaði ekki víðáttunnar í Lóni en leið vel í skjóli og návist hárra fjalla. Hann kynntist unga fólkinu í bænum og fljótlega fangaði athygli hans til lífstíðar heimasætan á Álfhól. Hún var öðruvísi en aðrar stúlkur fannst honum og ögraði honum með kjarki, dugnaði og glaðværð.

Þau hófu búskap á loftinu í Gíslahúsi, fljótlega varð ég til og Kristbjörg systir mín kom hálfu öðru ári seinna. Þessar ungu manneskjur tóku til óspilltra málanna að búa í framtíðarhaginn fyrir sig og okkur. Þau eignuðust lóð í túnfætinum hjá afa og ömmu, tóku djúpan grunn í mýrina og hófu að reisa hús drauma sinna.

Þau fluttu inn í fokhelt en frá fyrstu stundu varð heimilislegt á Byggðarhól.

Allt lék í höndunum á ungu hjónunum. Það voru hvorki tæki né ráð til að kaupa nokkurn hlut. Allt var búið til heima. Á verkstæðinu smíðaði pabbi hvert einasta húsgagn jafnvel lampana á veggina og í vinnuherberginu gekk skyttan ótt og títt í vefstól Steinvarar, út rúlluðu gluggatjöld og gólfteppi, viskustykki og handklæði. Á milli suðaði saumavélin og breytti gömlu í nýtt.

Það var 4 mínútna gangur í skólann, pabbi vaknaði fyrstur og kveikti undir hafragrautnum og kallaði á okkur stelpurnar. Í hádeginu komum við heim í soðningu og sæta grauta í eftirmat og hlustuðum á fréttirnar, pabbi lagði sig og fór svo aftur í skólann. Kom heim seinnipartinn og fór yfir stíla og undirbjó næsta dag. Fór svo á verkstæðið og hélt áfram með smíðisgrip gærdagsins. Við stelpurnar skruppum kannski aftur út í skóla og hjálpuðum mömmu að skúra. Svona liðu dagarnir einn af öðrum, mánuðirnir og árin. Heimurinn var í jafnvægi og aðeins stórslys gátu raskað því. Og það gerðist ekkert óttalegt sem betur fer.

Sumarfrí kennarans voru löng, pabbi notaði þau til að drýgja mögur kennaralaunin, fór á síld og harkaði á leigubíl milli þess sem hann stundaði útilegulíf með okkur í heimasaumuðu hveitipoka tjöldunum eða við fórum á Hornafjörð að hitta afa og ömmu. Fjölskyldan aðhylltist búauðgistefnu svo mikill tími fór í aðdrætti og úrvinnslu, berja og svepptínslu, saft og sultugerð, sláturgerð, skyrgerð, sápugerð, súrsun, söltun og herslu. Í þessu öllu var einhver verkaskipting en í flestu unnu þau hjónin eins og einn maður með liðléttingana okkur systur sér til aðstoðar.

Pabbi var frábærlega natinn og þolinmóður kennari og lagði ótrúlega vinnu og metnað í kennsluna en gerði jafnframt miklar kröfur til nemenda sinna. Í þá daga var ekki búið að skilgreina ýmist það sem nú er viðurkennt sem eðlilega námstefjandi svo sem athyglisbrest og lesblindu. Þetta var hreinlega flokkað sem tregi, leti eða slugs og varð uppspretta óþarfa samskiptavandamála í skólanum sem með tíð tíma og upplýstari tíðaranda og þroska lærifeðranna mildaðist og mýktist.

Ósérhlífni og elskusemi foreldra okkar var við brugðið. Við systur og Hugi litli bróðir sem fæddist þegar við vorum komnar undir fermingu, áttum alltaf vissan stuðning þeirra, sama í hvaða verkefni var ráðist. Pabbi kom í fríunum sínum og gerði í stand allskonar vistarverur sem ég gróf upp til búsetu í Reykjavík. Hann smíðaði innréttingar og húsgögn og breytti oft á undraverðan hátt hreysi í höll. Ekki var tryggð hans og elskusemi minni, þegar barnabörnin komu til. Sonur minn Dýri var mikið hjá ömmu og afa á Seyðisfirði og tengdist þeim ævarandi böndum.

Þessi elskulegu hjón áttu við heilsuleysi að stríða hin síðari ár. Mamma lést úr krabbameini árið 2005 og pabbi mátti glíma við Parkinsonkveiki í áratugi. Sjúkdómurinn kom í veg fyrir að hann nyti þess að sýsla á verkstæðinu sínu eftir að hann hætti að kenna eins og hann hafði hlakkað til. Það var þó yndislegt að sjá hvernig  erfiðleikar og heilsuleysi efldu tengsl pabba og mömmu. Það var eins og í haustverkunum forðum, það var hjálpast að og verkefnin leyst eftir bestu getu.

Eftir að mamma lést bjó pabbi einn ýmist í Reykjavík eða á Byggðarhól þangað til í vor að hann flutti inn á hjúkrunarheimilið Mörk. Þá var heilsu hans svo farið að hraka að hann naut ekki til fulls þess frábæra umhverfis og aðbúnaðar sem þar er í boði. Hjúkrunarfólkinu þar vil ég færa alúðarþakkir fyrir góða umönnun pabba í hans erfiðu lokareisu. Eins vil ég þakka Kristbjörgu systur og Huga bróður fyrir að taka að sér að annast hann pabba af slíkri elsku og fórnfýsi þegar frumburðurinn var í öðrum landshluta og stundum heimshluta.

Nú er hann pabbi búinn að sleppa lyklunum af jarðarbyrlunum og kominn í faðm genginna ástvina. Þau birtust ljóslifandi fyrir hugskotssjónum mínum nóttina sem ég frétti andlát hans; pabbi, mamma, ömmurnar, afarnir og öll hin og mér fannst gæta ákveðins léttis í fasi þeirra og yfirbragði.

Góður drengur var búinn að þjást nóg og var hvíldinni feginn og kominn heim.

Megi ljósið og líknin umvefja  þig elsku besti pabbi minn.

Þóra Bergný.