Ólöf P. Hraunfjörð bókavörður, Lækjasmára 4, 201 Kópavogi, fæddist 10. júlí 1932 í Selbúðum í Reykjavík. Hún andaðist á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 6. desember 2011. Foreldrar: Kristjánsína Sigurást Kristjánsdóttir (Ásta) fiskverkakona, f. 6. júní 1891 að Stekkjartröð í Eyrarsveit, d. 27. júlí 1980 í Reykjavík, og Jóhann Pétur Jónsson Hraunfjörð, skipstjóri og verkamaður, f. 14. maí 1885 í Helgafellssveit, d. 5. mars 1957. Pétur var sonur Jóns Jóhannessonar, bónda á Berserkjaeyri í Eyrarsveit, og Guðlaugar Bjarnadóttur frá Hraunholtum í Kolbeinsstaðahreppi, systur Vigdísar, móður Sveins Bjarnasonar (Edgar Holger Cahill) listfræðings í Bandaríkjunum. Bróðir Bjarna í Hraunholtum var Vísinda-Kobbi, langafi Guðbergs Bergssonar rithöfundar. Systkini Ólafar: Yngvi, f. 29.10. 1914, d. 8.10. 1955, Pétur Kristinn, f. 1.12. 1916, d. 29.7. 1917, Hugi, f. 17.7. 1918, d. 23.2. 1989, Hulda, f. 24. apríl 1921, d. 14.11 1995, Pétur, f. 4.9. 1922, d. 3.10 1999, Unnur, f. 26.2. 1927, Ásta María, f. 30.6. 1928, d. 27.12. 1929, Guðlaug, f. 20.4. 1930. Ólöf giftist 14. maí 1955 Karli Árnasyni, f. 2.5. 1932, forstjóra Strætisvagna Kópavogs. Karl er sonur Árna Jóhannessonar bifvélavirkjameistara og Ásdísar Kristinsdóttur verkakonu af Bólu-Hjálmarsætt. Börn Ólafar og Karls: 1) Petrína Rós, f. 9.11. 1955, frönskukennari og þýðandi, börn hennar: Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, gift Arnari Eggerti Thoroddsen og eiga þau 2 dætur. Júlían Jóhann Karl Jóhannsson. 2) Jóhannes, f. 25.11. 1959 hagsögufræðingur, giftur Ólöfu Pétursdóttur keltneskufræðingi. Börn þeirra eru Baldur, maki Ásdís María Elfarsdóttir, Stella Soffía gift Kristjáni R. Kristánssyni og eiga þau 2 dætur. 3) Pétur, f. 14.4. 1962, bifvélavirkjameistari og fv. bóndi, giftur Valeryju framkvæmdastjóra, börn hans eru: Elía, Karl Ólafur og Pétur Smári. Pétur missti tvö ung börn: Karl (1985) og Kristínu Jónu (1990). Ólöf ólst upp í Sogamýrinni og stundaði nám í Laugarnesskólanum. Hún varð gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Hveragerðis 1948 og var í Húsmæðraskólanum á Löngumýri 1949-1950. Hún stundaði nám við Menntaskólann við Hamrahlíð 1986-1990 þar sem hún lauk stúdentsprófi í íslensku, dönsku, frönsku og þýsku. Ólöf lauk prófi sem bókavörður 1995. Hún fékkst við margvísleg störf, vann m.a. í bókabúð KRON, RARIK, hjá Strætisvögnum Kópavogs og var sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands sem bókavörður. Hún var virk í félagsmálum, lét sig jafnréttismál varða, sat í stjórn MFÍK 1973-76 og var um tíma varabæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Kópavogi þar sem hún bjó frá árinu 1955. Hún var í stjórn Vináttufélags Íslands og Rúmeníu. Ólöf gaf út á eigin kostnað dagbækur föður síns, Spánarferð, verk systur sinnar, Huldu, og bróður síns Péturs, æviminningar tengdaföður síns, auk ljóðabóka eftir Aðalheiði Kristinsdóttur. Ólöf hlaut Þýskalandsferð í verðlaun fyrir sölu Landnemans árið 1952 þar sem hún aðstoðaði við uppbyggingu í Berlín og Dresden eftir stríð. Einnig hlaut hún Búkarestferð í verðlaun fyrir áskriftasöfnun að Þjóðviljanum árið 1953. Þá hlaut hún verðlaun í hugmyndasamkeppni Kópavogsbæjar fyrir nafnið „Hamraborg“ á samnefndu hverfi í Kópavogi. Ólöf reisti nöfnu sinni Ólöfu frá Hlöðum bautastein í Hólavallakirkjugarði 6. ágúst 2002. Útför Ólafar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 20. desember 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku hjartans Ólöf mín er það hart að líða kvað pabbi við elsku stúlkuna sína.

Ólöf var yngst systkina, hæglát og ljúf bar alltaf sáttaorð milli fólks. Fæddist á Landspítalanum sem þá var ný tekinn til starfa, stolt þjóðarinnar. Móðirin hafði staðið í stórþvotti deginum áður, fæðingin var erfið. Móðir okkar þurfti að þvo í eldhúsinu, sjóða vatnið á lítilli eldavél, nudda tauið á bretti og skola í kari úti. Vinda þvottinn upp úr ísköldu vatni, ganga drjúgan spöl og hengja á snúrur.

Þau bjuggu í Selbúðum 6 v/vesturgötu, húsnæðið var reist fyrir verkafólk, á þriðja tug síðustu aldar. Húsið var úr steini þiljað með timbri, pappa og strigi í lofti. Þrjú herbergi, eldhús og útikamar. Rafmagn, vatn og frárennsli var í húsinu. Skásta íbúð sem þau höfðu búið í frá því flutt var til Reykjavíkur, 1924.

Ólöf var alltaf stolt af nafninu sínu. Faðir hennar hafði kynnst Ólöfu Sigurðardóttur skáldkonu frá Hlöðum í Guðspekifélaginu. Skáldkonan hafði mikinn áhuga fyrir barninu, enda ljósmóðir. Hún bað um að fá að ráða nafninu, það var auðsótt. Ólöf litla fékk ýmsar góðar gjafir frá nöfnu sinni. Þegar hún var tveggja ára, festu foreldrarnir kaup á húsi í Sogamýri, þar ólst hún upp við ástríki foreldra og frjálsa náttúru. Hún varð fljótt vinnusöm, gætti barna bæði systkina sinna og annarra.

Laugarnesskóli var hverfisskóli barna í Sogamýrinni. Skólinn var nýr og margt góðra starfskrafta. Það eimdi samt eftir af afturhaldssemi gagnvart örvhentum. Börn fengu ekki að skrifa með vinstri hendi. Ólöf lék nú á kennarann í handavinnu, saumaði með hendur undir borði. Varð mjög flink í höndunum og dugleg að synda. Hún lék sér alltaf á rólegum nótum.

Ólöf fór í gagnfræðiskóla í Hveragerði, bjó hjá indælu  fólki og eignaðist vinkonur til lífstíðar. Haustið 1949 fórum við systur í Húsmæðraskólann að Löngumýri í Skagafirði. Þar bundust mörg vináttubönd. Matreiðslukennarinn, Lilja Sigurðardóttir, tók ástfóstri við Ólöfu, þegar hún giftist nokkrum árum seinna bauðst Lilja til þess að sjá um veisluna, sem var frábær.

Friður var uppáhalds orðið hennar Ólafar, hún gekk í M.F.Í.K. og starfaði þar af krafti. Allt hernaðarbrölt var eitur í hennar beinum. Þó hún væri hlédræg, var hún félagslynd og eftirsótt í félagsstörf. Breytingar voru í miklu uppáhaldi hjá henni, ekki bara að færa húsgögn heldur stundum flutti hún veggi. Eitt sinn datt henni í hug að við þyrftum að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum okkar. Við gætum farið í tjaldútileigu austur í Þjórsársand en við áttum ekki nógu mörg börn, bara níu samtals og tvö gátu ekki farið, þannig að við leituðum til ættingja. Þar voru sko engin þurrð á börnum, fengum sex í viðbót og Karl fékk lánaða rútu.

Við keyptum mat mest í dósum, lögðum af stað austur með börnin með þrjú tjöld (tvö voru garmar). Þurftum að sofa þröngt og vorum þarna í 10 daga í sól og sunnanvindi. Buslað var í Rauðá, gengið á Dímon, skoðaðir Hjálparfossar, hoppað, hlaupið og hlegið. Þetta var fyrir tíma sjónvarps og tölvu, algjör ævintýraferð. Ólöf bauð krökkum systkina sína í bíó, sund og berjaferðir. Hún hafði mjög gaman af fjallgöngum, gekk á Keili, Snæfellsjökul, Tindastól og mörg önnur fjöll.

Ólöf hafði mikinn áhuga fyrir réttindum kvenna og hélt erindi á ráðstefnu í Rostock um þátttöku kvenna í landbúnaði. Hún skrifaði sjálf grein í Þjóðviljann 1972 um matreiðslukennslu í skólum og hvernig þetta fag var sett út í horn og gert lítið úr því, þessi grein vakti mikið umtal. Við fórum saman til Póllands í hópferð fyrir nokkrum árum og höfðum ánægju af. Árið 2010 fórum við einnig í ferð með Kvenfélagi Kópavogs til Færeyja. Það var yndisleg ferð og við höfðum ánægju af að vera saman bara tvær.

Móðir okkar bjó hjá þeim hjónum Karli og Ólöfu í 19 ár. Hún var þeim stoð á meðan Ólöf var útivinnandi. Síðustu 2-3 árin var móðir okkar mikill sjúklingur, það þurfti að snúa henni á tveggja tíma fresti allan sólarhringinn. Þetta gerði hún Ólöf og kvartaði aldrei. Karl var tengdamóður sinni hlýr og góður. Hjónaband þeirra Ólafar og Karls var ástríkt og þau sýndu hvort öðru alltaf virðingu og tillitsemi. Barnabarn þeirra, Pétur Smári, átti alltaf sérstakan sess í hjarta hennar.

Ég og fjölskyldan mín vottum Karli og börnum samúð okkar.

Elskuleg systir, þakka þér allt.

Guðlaug Hraunfjörð.