Helgi Frímann Magnússon efnaverkfræðingur, Krummahólum 6, fæddist á Þórshöfn á Langanesi 14. mars 1939. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. desember sl. Foreldrar hans voru Magnús Jónsson, útvegsbóndi á Þórshöfn f. 23. des. 1894, d. 1. nóv. 1989 og Signý Guðbjörnsdóttir f. 20. okt. 1917, d. 21. jan. 1997. Helgi ólst upp hjá móðurforeldrum sínum að Syðra-Álandi í Þistilfirði, Guðbirni Grímssyni f. 28. mars 1879, d. 26. maí 1943 og Ólöfu Vigfúsdóttur f. 5. apríl 1891, d. 20. apríl 1962. Systkini: Haraldur f. 14. mars 1939, d. 23. jan. 2005; Ólöf f. 15. jan. 1942; Guðbjörn f. 13. feb. 1946; Birgir f. 25. feb 1949, d. 14. des. 1966; Jón f. 20. jan. 1952; Magnús Sigurnýjas f. 26. maí 1956; Matthías f. 11. nóv. 1957. Helgi stundaði nám að Laugum í Reykjadal. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1962. Þaðan fór hann til Þrándheims þar sem hann lauk námi í efnaverkfræði frá Norges Tekniske Högskole 1970. Starfsferill: Sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun iðnaðarins, nú Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 1970. Stundakennari í verklegri efnafræði við Háskóla Íslands í mörg ár. Helgi reisti sér sumarbústað í Skorradal og undi þar hag sínum vel. Helgi Frímann verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 20. desember 2011, og hefst athöfnin kl. 15.
Látinn er Helgi Frímann Magnússon, samstarfsmaður til margra ára. Helgi var efnaverkfræðingur, menntaður í Þrándheimi í Noregi og vann mesta sína starfsævi hjá Rannsóknastofnun iðnaðarins, síðar Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Ég kynntist Helga fyrst í verklegri efnafræði við Háskóla Íslands fyrir rúmum þremur áratugum, Helgi var leiðbeinandi ásamt mörgum öðrum efnafræðingum, sem voru hver öðrum eftirminnilegri. Helgi skar sig samt úr á sinn hátt, hann tók hraustlega í nefið og hafði ekki sjón á öðru auganu, þar sem vinstra augnlokið slútti yfir glerauga. Allir héldu leiðbeinendurnir nokkurri fjarlægð til okkar fyrsta árs nemendanna en andinn var góður og vinsamlegur. Helgi hafði þann háttinn á að segja sem minnst, þó hann væri spurður um eitthvað, heldur kom og leit til með nemandanum, pírði verra augað á nemandann og betra augað á vandamálið og leysti svo úr málinu með æfðu handtaki eða bendingu með fingri.
Síðar kynntumst við Helgi betur þegar ég hóf störf hjá Iðntæknistofnun og þá var eins og við hefðum alltaf þekkst. Helgi var ekki margmáll, en fastur fyrir í skoðunum sínum. Við vinnufélagarnir getum staðfest að Helgi var einn af fáum sem spáði ákveðið fyrir um bankahrunið. Helgi hafði mikla ánægju af að spila brids og spilaði það í hverjum morgunkaffitíma og lét aldrei hjóm hversdagsins trufla sig í því. Allir geta lært að segja, var viðkvæði hans um bridsið, listin er að kunna að spila úr. Helga lá ekki hátt rómur, jafnvel ekki þegar hann brýndi raustina. Þetta gat komið sér illa, því ég á til að vera heyrnardaufur og við þurftum stundum að ræða starfið í hvini stinkskápanna. Hváði ég tvisvar og heyrði ekki hið þriðja sinni mislíkaði Helga og fannst ekki taka því að eyða fleiri orðum á mig í það sinnið. Mér lærðist smám saman að hlusta á Helga með meiru en eyrunum.
Helgi var afburða góður samstarfsmaður, samviskusamur svo af bar, nákvæmur og áreiðanlegur og vissi alltaf sínu viti. Hann var einn af fjölmörgum hæfileikamönnum þeirrar kynslóðar efnafræðinga sem menntaði sig í efnafræði og skyldum greinum um og uppúr miðri síðustu öld. Þeir lögðu grundvöllinn að efnafræði eins og hún er kennd og stunduð á Íslandi, en hafa nú mikið til látið af störfum og er mikill missir að starfskröftum þeirra. Helgi sótti menntun sína af miklu harðfylgi, las upp bekki þrátt fyrir skamma barnaskólagöngu og vann fyrir sér í menntaskóla og háskóla með löngum vinnutörnum meðal annars á rannsóknastofum í síldarverksmiðjum. Helgi var óhemju góður verkmaður í efnafræði, hafði langa reynslu og næmt auga fyrir bestu lausn en lét heldur ekki fyrirhöfn stöðva sig, hann hafði mikið úthald og þrautseigju í endurtekningarsamar mælingar. Hann hafði mikla ánægju af góðu handverki, var góður smiður og eyddi löngum stundum við smíðar síðustu árin í bústað sínum í Skorradal. Hann var líka prýðilegur ljósmyndari og átti afar vönduð tæki og búnað til að stunda ljósmyndun og stækkun mynda með gamla laginu, fyrir tíma stafrænu tækninnar og sinnti hlutverki ljósmyndara Iðntæknistofnunar um árabil. Helgi var maður hinnar hliðrænu tækni, hann tileinkaði sér aldrei tölvutækni og vildi ekki nýta sér hana. Sagan segir reyndar að hann hafi keypt sér tölvu á níunda áratugnum en sett hana í umbúðirnar aftur þegar hann komst að því að tölvur þess tíma voru lítið meira en skjáritvélar. Hann átti bíl að sínum smekk, palltrukk sem leit út eins og hann væri raðsmíðaverkefni frá skipasmíðastöð og hafi hann þurft að tvíkúpla við gírskiptingar var það bónus, Helgi kunni að meta aflfræðilega dynti vélbúnaðar enda alinn upp í sveit.
Á sinn hátt gerði Helgi veröldina betri, hann lét sér annt um vini sína og samstarfsfólk. Mér eru minnisstæðar stundir sem þeir áttu saman efnaverkfræðingarnir Helgi og Hörður sem lifir sinn yngri starfsfélaga þegar Helgi kom með Moggann og færði Herði tóbak í nefið á morgnana. Saman áttu þeir rólega stund þar sem Helgi fyllti vitin af neftóbaki og Hörður meðtók línuna úr leiðaranum með þremur tóbakskornum og svo sátu þeir litla stund á skrafi þar sem ómsterkur barítón Harðar blandaðist lágværu muldri Helga. Dagleg endurtekning þessa hlýlega stefs var sérkennilega nærandi fyrir okkur sem stóðum álengdar og tíminn færði sig yfir í vídd samkenndarinnar sem ekki verður mæld með klukku. Helgi var maður einstæður, giftist aldrei en hafði mikla ánægju af félagsskap og samveru og stóð gjarnan fyrir veislum í bústað sínum þar sem etinn var karlmannlegur kostur, sviðalappir, hangið og saltað ket, magáll.
Spurningin er hvernig Helga spilaðist úr sínum lífsspilum. Helgi spilaði ekki upp á frama eða efnisleg býti, hans ánægja og lífsfylling var í handverki dagsins, samveru yfir gagnlegu starfi eða leik sem krafðist einbeitingar hugans, góðverki dagsins. Hann vildi svo gjarnan halda áfram, lífið var bardús og Helgi tók þátt í því sem að honum sneri af mikilli einurð og sinnti starfi sínu þar til daginn áður en hann lagðist inn á líknardeild vegna síns banvæna sjúkdóms. Víst er að í gröfina fylgir honum einskær væntumþykja okkar samverkamanna hans og söknuður eftir einstökum félaga sem bjó yfir næmari lund, meiri hlýju og umhyggju til mannfólksins en hann hafði not fyrir í daglegu lífi þess sem býr einn.
f.h. samstarfsfólks á Nýsköpunarmiðstöð Íslands,
Hermann Þórðarson.