Ástríður Oddbergsdóttir (Ásta) fæddist á Vesturgötu 18 í Reykjavík 21. janúar 1915. Hún lést á Hjúkrunarheimili HSSA á Hornafirði 22. desember 2010. Ásta var dóttir hjónanna Oddbergs Oddssonar, sem var fæddur í Hvammi í Kjós 10.6. 1858, d. 12.7. 1916, og Halldóru Jónsdóttur, sem fædd var á Búrfelli í Hálsasveit 28.9. 1883, d. 21.11. 1918. Oddbergur var umsjónarmaður í Mýrarhúsaskóla og Halldóra var í vinnumennsku. Hálfsystkini Ástu samfeðra voru Guðmundur, Anna Elín og Þorbjörg Guðdís og sammæðra var Hólmfríður Anna. Faðir Ástu lést þegar hún var um eins og hálfs árs og missti hún móður sína úr spænsku veikinni fjögurra ára gömul. Ólst Ásta því upp hjá hálfsystur sinni, Önnu Elínu, og manni hennar, séra Eiríki Helgasyni. Fluttist hún með þeim að Sandfelli í Öræfum, sem þá var prestssetur. Uppeldissystkini (systrabörn) Ástu voru Ingibjörg (sem lést 12 ára gömul), Helgi (látinn), Oddbergur, Kristín og Ingibjörg (yngri). Árið 1931 þegar Ásta var sextán ára gömul fékk Eiríkur brauð í Bjarnanesi í Nesjum í Hornafirði og fluttist fjölskyldan þangað. Ásta fór í Kvennaskólann á Staðarfelli í Dölum veturinn 1934-1935. Hún giftist manni sínum, Marteini Lúther Einarssyni frá Meðalfelli í Nesjum, f. 6.10. 1910, d. 26.3. 1986, 7. september 1937. Byggðu þau nýbýlið Ás út úr landi Bjarnaness, fluttu þangað árið 1938 og bjuggu þar í rúm 20 ár. Hjónin eignuðust fjögur börn, Ásdísi, f. 14.6. 1938, Hrollaug, f. 1.12. 1942, Eirík, f. 2.12. 1943, d. 9.2. 2007, og Önnu Elínu, f. 12.3. 1953. Niðjar Ástu eru alls 48. Ásdís, gift Gísla Eymundi Hermannssyni, á fjögur börn, Jóhönnu Sigríði, Olgu, Ásthildi og Martein Lúther og eru barnabörnin ellefu og barnabarnabörnin fjögur. Hrollaugur, giftur Sigríði Elísu Jónsdóttur, á tvö börn, Oddnýju Jóhönnu og Hlyn Sturlu og eru barnabörnin þrjú. Eiríkur heitinn, var giftur Jónu Sigurbjörgu Sigurðardóttur en þau skildu, eignaðist fjögur börn, Hafdísi, móðir, Halldóra Stefánsdóttir, Kristbjörgu, Ástu Huld og Írisi Sif og eru barnabörnin tíu. Anna Elín, var gift Sæmundi Harðarsyni en þau skildu, maki í dag Árni Sverrisson, á þrjú börn, Sigrúnu, Maren Ástu og Hjördísi Höllu og eru barnabörnin þrjú. Ásta vann ýmis störf um ævina, var mikill dugnaðarforkur og vinnusöm alla tíð. Hún sinnti bústörfum í Ási þar til árið 1962 er þau hjónin fluttu í Brautarholt á Höfn í Hornafirði, vegna heilsubrests Marteins. Eftir það starfaði hún við fiskvinnslu þar til hún lét af störfum um sjötugt. Eftir lát Marteins, árið 1986, fluttist Ásta að Silfurbraut 6 og bjó þar uns hún flutti á Dvalarheimilið Skjólgarð árið 2000. Ásta var virkur félagi í Kvenfélaginu Vöku til margra ára. Hún var ætíð mikil hannyrðakona og stundaði hannyrðir allt þar til hún fór að missa sjón fyrir um ári. Útför Ástu fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 29. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Hún Ásta mín fór héðan á vit minninganna 22. des 2010 en orð mín eru nokkuð seint á ferðinni. Ég man hana í bernskutíð minni einhvern tíma eftir 1931, eða nokkru eftir að ég kom í fyrstu sumarheimsókn mína að Meðalfelli til ömmu minnar Jóhönnu Sigríðar og Þórólfs frænda míns Einarssonar sem þar stýrði búi hennar. Þar bjó líka yngsti bróðir móður minnar, hann Marteinn hár og þrekmikill sem ætíð hafði gaman af því að leika við mig, etja við mig kapphlaupi, eða, ef ég þreyttist, setja mig á háhest og hlaupa með mig austur á tún. En svo er Marteinn hafði kynnt á heimilinu unga fallega stúlku sem var frá Bjarnanesi, systur frú Önnu prestsfrúar og Þorbjargar Oddbergsdætra, fékk lífið á sig annan blæ og fegurri. Ekki þannig að Marteinn hætti að leika við mig, kenna mér ljóð og lög eins og Olli frændi minn sem byrjaður var ásamt ömmu og Oddnýju frænku minni að kenna mér að stafa og lesa sem gerði lífið spennandi heldur bættist hún nú í þennan góða hóp. Á þeim tíma útheimti líf fólks meiri líkamlega vinnu, en þó vinnan væri strangara erfiði en nú til dags þá var hún ekki bara amstur því fólk kunni líka að spauga að viðburðum hins daglega lífs. Hún Ásta var mjög háttprúð og kurteis, sýndi mér umhyggju og var mér afar góð ef ég var uppburðarlítil og feimin en þannig hefir hún alltaf verið.
Ég man er verið var að sá rófum á torfunni niður við Laxána og frændi minn stríddi mér með að ég mætti ekki setja fræin í nefið því þá yxi rófa út úr nefinu á mér! - Svo man ég sólríka daga og busl í tjörninni á Nestorfunni með Ástu. Áður en langt um leið var ég farin að læra útsaum fyrir hennar atbeina og bjó til blómlegg með fagurlitum þræði sem Ásta gaf mér og úr varð hið ótrúlegasta mynstur -allt henni að þakka. Já það er falleg bernskuminningin um hana. Hún hafði líka verið á húsmæðraskólanum á Staðarfelli á Fellsströnd og hélt ætíð seinna góðu sambandi við skólasysturnar þaðan.
Seinna reistu Ásta og Marteinn sér svo bú á hvömmunum í hluta af Bjarnaneslandi og nefndu það Ás. Það gerðu þau af dugnaði sínum og bjartsýni og ræktuðu þar upp tún með rófu- og kartöfluökrum sem teigðu sig í átt að Ketillaugarfjalli. Ekki hafa þau verið verklaus þá - Hún var ætíð svo ötul og vinnusöm og á ég mynd af henni að þvo og skola þvottinn inni við Þveitina (stöðuvatn sem er fyrir innan Stapa og ber þetta sérkennilega líklega gaeliska eða fornenska nafn), og með kartöflu og rófnaakrana í baksýn. Þegar frá leið og börnin voru farin að tínast úr hreiðrinu létu Marteinn og Ásta af búskapnum í Ási fluttu út á Höfn og bjuggu þá í Brautarholti, en unnu samt bæði áfram mikið eins og kraftar leifðu. Hann Marteinn frændi minn lézt 26. marz 1986 eftir erfið veikindi í lungum svo sem hrjáði marga bændur. Hann unni mjög tónlist og ljóðasmíði.
Það var undurfallegt á seinni árum er Ásta dvaldi hér syðra hjá Önnu dóttur sinni um jólaleytið þá kom hún alltaf til okkar á nýársdag og sakna ég hennar nú mjög. Það var gaman að hlusta á hana rifja upp æsku sína í Öræfum, en hún var alin upp hjá systur sinni frú Önnu konu sr. Eiríks Helgasonar, en þau hófu búskap sinn að Sandfelli í Öræfum áður en þau fluttu að Bjarnanesi, og man Ásta þegar þær systur að heimilisfólkinu aðsjáandi gróðursettu reynitréð sem nú stendur eitt til minningar um búskap þar. Gott væri (ef til væri á segulbandi) að hlusta á frásögn hennar, af búskapnum í Sandfelli fyrir 1930 nærveru fólksins við náttúruna og jökulsárnar óbrúaðar og aðeins ferðast yfir þær á hestum. Maður vissi ekki í þá daga þegar einhver var kvaddur á hlaðinu í Sandfelli sem var að fara austur eða vestur - hvort maður sæi hann nokkurn tíma aftur og maður kvaddi fólk ætíð með kveðjunni Guð veri með þér Séra Eiríkur fór oft á ári til Reykjavíkur og austur um. Hún sagði okkur frá því þegar botnlangaskurður var gerður á henni liggjandi á hurð við mjög frumstæðar aðstæður eins og hún hefir sagt frá í viðtali í blaðinu Skaftfellingi. Hún gaf mér fallega mynd af sér sem tekin var á hlaðinu í Sandfelli á fermingardegi hennar, og er skemmtileg sagan af því hvað hún hafði miklar áhyggjur af að sæjust vöðvar á upphandleggjunum svo að víkka hefði þurft ermarnar og er ég spurði hana hvort hún hefði ekki verið höfð til barnapössunar kvað hún nei við því, það hafi verið deild Þorbjargar systur hennar. Hún hafi verið í útiverkum og vanist því snemma, enda hafi það áreiðanlega styrkt hana bæði andlega og líkamlega. Ég kveð hana með trega, en minningin lifir.
Jóhanna Guðmundsdóttir.