Pálína Þórólfsdóttir frá Finnbogastöðum í Árneshreppi á Ströndum fæddist 21. febrúar 1921. Hún lést 6. janúar 2012. Foreldrar hennar voru Þórólfur Jónsson frá Kjós, f. 11. september 1890, d. 21. apríl 1964 og Jóhanna Guðbjörg Jónsdóttir frá Litlu-Ávík, f. 1897, d. 5. október 1928. Pálína og hennar systkini í aldursröð: Jón Ólafur, Pálína Jenný, Hannes, Guðrún Lilja, Guðfinnur Ragnar og Magnús. Móðir þeirra, Jóhanna Guðbjörg, deyr af barnsförum þegar Pálína er aðeins 7 ára gömul. Barnið fæðist andvana. Við móðurmissinn fara þau systkin í fóstur sitt á hvað um sveitina. Ólafur fer í Árnes, Hannes fer í Litlu-Ávík, Lilja flytur í Finnbogastaðaskóla, Guðfinnur fer á Kjörvog, Magnús í Bæ og Pálína að Finnbogastöðum til hjónanna Þuríðar Eiríksdóttur og Guðmundar Guðmundssonar. Þar elst hún upp með verðandi manni sínum Þorsteini Guðmundsyni, f. 21. mars 1905. Þau fella hugi saman og gifta sig árið 1941. Börn þeirra eru: Guðmundur Magnús, f. 13. mars 1943 og Jóhanna Guðbjörg, f. 16. mars 1948. Börn Guðmundar eru: Guðbrandur (stjúpsonur), Linda Björk og Þorsteinn. Börn Guðbjargar eru: Jensína Guðrún, Pálína, Birna og Þorsteinn. Pálína lauk barnaskólanámi sem þá var venjuleg skólaskylda. Hún kennir síðar handavinnu í barnaskólanum á Finnbogastöðum meðfram húsmóðurstörfunum. Seinna á ævinni sinnti hún einnig póstinum og símavörslu á símstöðinni á Finnbogastöðum. Þann 13. janúar árið 1983 deyr Þorsteinn maður hennar og Pálína flytur til Akureyrar 1986. Þar fer hún að vinna við skúringar á Dvalarheimilinu Hlíð til sjötugsaldurs. Árið 2006 gerist hún fastur vistmaður á Hlíð og dvelur þar til dauðadags. Pálína var ein eftirlifandi systkina sinna. Útför Pálínu fer fram frá Árneskirkju hinni eldri í dag, 13. janúar 2012, kl. 14.
Mín ágæta frænka, hjálparhella og vinkona, Pálína Þórólfsdóttir er
látin. Hennar er gott að minnast og þær eru margar minningarnar sem koma
upp í hugann, nú þegar leiðir skilja, allavega í bili. Fyrir utan að ég er
búinn að þekkja Pöllu á Finnbogastöðum, eins og hún var jafnan nefnd, í
meira en 60 ár þá var mikill og góður samgangur á milli foreldra minna og
fjölskyldunnar á Finnbogastöðum alla tíð. Það kemur vel fram í
minningargrein sem móðir mín, Regína Thorarensen, skrifaði í Morgunblaðið í
tilefni af 70 ára afmæli Pöllu. Þar segir m.a. Þorsteinn og Pálína báru
djúpa virðingu hvort fyrir öðru, Þorsteinn skemmtilegur og ræðinn og Pálína
mikil húsmóðir og myndarleg í öllum verkum og ekki síst í matargerð sem var
alltaf vel fram borin. Pálína og Þorsteinn voru skemmtileg hjón. Hún á sér
fáa líka, kemur allsstaðar fram sem manngæskukona og hefur alltaf það besta
úr fólki.
Maður Pöllu var Þorsteinn Guðmundsson, jafnan nefndur Steini á
Finnbogastöðum, en hann dó eftir erfið veikindi þann 13. janúar 1983. Það
var svo sannarlega innstæða fyrir þakklæti frá foreldrum mínum til Pöllu og
Steina. Nefni hér þrjú dæmi:
Á útmánuðum 1948 eða 1949 sendi framkvæmdastjóri síldarverksmiðjunnar í
Djúpuvík föður mínum, Karli F. Thorarensen, símskeyti þar sem sagði að ekki
væri þörf á starfskröftum hans við rekstur verksmiðjunnar á komandi sumri.
Sem sagt pabbi var rekinn. Símskeytið fór frá símstöðinni á Djúpuvík til
símstöðvarinnar á Finnbogastöðum. Viðbrögð Steina voru þau að hann kom á
hesti sínum með skeytið til pabba út á Gjögur, um 10 km leið. Þetta var
mikið vinarbragð, að gera þetta svona, í stað þess að lesa skeytið upp í
sveitasímann og senda það svo með næstu póstferð.
Á gamlársdag 1953 þurfti að kalla á Jensínu Óladóttur, ljósmóður í Bæ til
móður minnar sem var að nálgast fæðingu löngu fyrir tímann. Þetta bar brátt
að. En það þurfti ekki lengi að bíða því Steini á Finnbogastöðum og Jensína
voru mætt á gæðingum Steina á Gjögri svo fljótt að undrun sætti. Um kvöldið
var svo barátta upp á líf og dauða hjá konu í barnsnauð. M.a. kom Hercules
sjóflugvél frá ameríska hernum, sem átti að ná í mömmu og flytja til
Reykjavíkur. Hún flaug yfir Gjögur en varð frá að hverfa vegna hvassrar
suð-vestan áttar. Allt fór þó vel, konu og barni var bjargað. Þarna fæddist
Emil Thorarensen, þegar um 10 mínútur voru liðnar af 1. janúar 1954.
Síðsumars 1955 var pabbi fenginn til að setja upp olíukyndingu og lagfæra
miðstöðvarlagnir í heimavistarskólanum á Finnbogastöðum. Hann fékk að taka
mig með sem handlangara og höfðum við fæði og húsnæði á Finnbogastöðum.
Held að þetta hafi verið meira en viku vinna. Hreppurinn átti að borga fæði
og húsnæði fyrir pabba en ég átti að borga fyrir mig. Þegar kom að því að
gera upp við Pöllu og Steina á Finnbogastöðum, fæði og húsnæði fyrir mig þá
var ekki við það komandi. Gekk þó pabbi fast fram í að borga fyrir mig en
það kom ekki til nokkurra mála. Þetta var stór greiði við mig og þá
sérstaklega í ljósi þess að ég var að fara á Reykjaskóla í Hrútafirði um
haustið og fjármunir af skornum skammti. Kostnaður vegna vetrardvalar
minnar þar var áætlaður kr. 4.500 til kr. 5.000 og fór ég með kr. 3.000 með
mér sem settar voru í brjóstvasann á jakkanum mínum og saumað fyrir. Það
var svo ekki fyrr en ég hitti skólastjórann, heiðursmanninn séra Þorgrím
Sigurðsson, sem ég spretti upp saumnum og greiddi inn á skólagjöld mín og
var mér það mikill léttir. Hitt er svo annað mál að verðæti krónunnar hefur
heldur betur rýrnað á þessum árum því nú eru þessi fjármunir aðeins um 30
kr.!
Það er með miklum ólíkindum hversu mikill gestagangur var á
Finnbogastaðaheimilinu. Það upplifði ég svo sannarlega þann tíma sem ég var
þar, svo sem að framan er getið. Þetta var oft líkara hóteli en heimili og
allir alltaf velkomnir, enginn mannamunur gerður á því hverja bar að garði.
Það þótti svo sjálfsagður hlutur að allir gestir þæðu veitingar. Hinsvegar
var vinnudagurinn oft langur og húsbændurnir þurftu mikið á sig að leggja
til að halda búi og heimilishaldi gangandi. Þess var ég áskynja þegar ég
dvaldi á heimili þeirra. Hjá Pöllu og Steina á Finnbogastöðum áttu því
margir athvarf og skjól sem annars hefði nætt um í lífinu.
Palla starfaði sem handavinnukennari við Finnbogastaðaskóla á árunum
1966-1985 við góðan orðstír. Nemendur hennar voru á þessu tímabili um 50
talsins, aðallega stúlkur, en þó kom fyrir að drengir sætu tíma og lærðu að
prjóna og sauma út. Sl. sumar stóð Jóna Ingibjörg Bjarnadóttir fyrir
sýningu á hannyrðum Pöllu og nemenda hennar á Hótel Djúpuvík. Sýningin var
opnuð þann 5. júní og vorum við hjónin þeirrar ánægju aðnjótandi að vera
þar viðstödd. Þarna var fjölmennt, nánast allir hreppsbúar mættir, eins og
jafnan við slík tækifæri. Þetta var mikið og merkilegt framtak hjá Jónu
Ingibjörgu og sýnir á hvern veg hún mat Pöllu. Það hefur kallað á mörg
símtöl, tölvupósta, heimsóknir o.fl. að koma þessu í kring. Hinsvegar fór
ekki á milli mála að þetta tókst mjög vel í alla staði, hannyrðir skreyttu
híbýli hótelsins í Djúpavík sl. sumar, gestum og gangandi til ánægju og
umhugsunar um hverju hugur og hönd fær áorkað. Það varð mér hinsvegar
umhugsunarefni, við þetta tækifæri, hvernig á því gat staðið að Pöllu minni
var vikið frá sem hannyrðakennara haustið 1985. Hún sagði mér frá þessum
vonbrigðum sínum og jafnframt að hún hefði þá verið búin að kaupa efni til
kennslunnar fyrir næsta vetur en ekki getað losnað við þær birgðir samhliða
starfslokum sínum. En Palla var mikill friðarsinni og mannvinur og mat því
meir að þola órétt en að beita samferðamenn sína órétti.
Frá árinu 1988 hafði Palla vetursetu á Akureyri en kom svo heim að
Finnbogastöðum fyrir sauðburðinn og dvaldi þar á sumrin. Hún hagaði svo
ferðinni til Akureyrar að hún kæmi við í Reykjavík og sæti þar aðalfund
Félags Árneshreppsbúa sem ávallt var haldinn fyrsta sunnudag í nóvember.
Þar naut hún þess að hitta vini og samferðamenn, því maður er manns gaman.
Sumarið 2007 var hennar síðasta á Finnbogastöðum. Þá var heilsu hennar
farið að hraka og hún mat það svo hún næði ekki lengur að gagnast heimilinu
á Finnbogastöðum og því átti hún ekki lengur erindi þangað. Palla upplifði
því ekki að sjá nýja húsið sem risið er á Finnbogastöðum eftir að
íbúðarhúsið þar brann þann 16. júní 2008.
Við Inga mín sendum börnum Pöllu, Guðmundi og Guðbjörgu og fjölskyldum
þeirra einlægar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Pálínu Þórólfsdóttur.
Hilmar F. Thorarensen