Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar 1926. Hann andaðist á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund hinn 16. janúar síðastliðinn. Faðir hans var Vilhjálmur Guðmundsson, f. í Hreiðri í Holtum í Rangárvallasýslu 24.9. 1876, d. í Hafnarfirði 24.2. 1962. Móðir Magnúsar var Bergsteinunn Bergsteinsdóttir, f. í Keflavík 4.9. 1888, d. 9.4. 1985. Systkini Magnúsar voru þau Jóhann, f. 1907, d. 1980, Hallbera, f. 1907, d. 1992, Sigurbjartur, f. 1908, d. 1990, Sigurjón, f. 1910, d. 1994, Ingimar Vilbergur, f. 1912, d. 1959, Guðbjörg, f. 1914, d. 1949, Ólafur Tryggvi, f. 1915, d. 1996, Helgi Guðbrandur, f. 1918, Dóróthea, f. 1924, d. 1984. Magnús giftist Guðrúnu Guðlaugsdóttur 14. janúar 1956. Dóttir þeirra er Guðbjörg, maður hennar er Árni Larsson. Magnús lærði húsa- og skipasmíði í Dröfn í Hafnarfirði. Hann vann lengst af í Daníelsslipp. Útför Magnúsar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 26. janúar 2012, kl. 15.

Tengdafaðir, minn Magnús Vilhjálmsson, varð 86 ára 14. jan. Hann lézt 2 dögum síðar. Á afmælisdaginn lá hann í einmenningsherbergi á Grund í lyfjamóki. Þá barst inn í herbergið rödd manns sem var að kyrja rímur.  Atvikið átti sér stað skömmu fyrir 4 síðdegis, einmitt þá stund þegar Magnús fæddist. Ef hann heyrði hljóðin þá hefðu þau glatt hann og svo mikið er víst, að Bergsteinunn móðir hans hefði líka orðið ánægð, enda var hún á sinni tíð heiðursfélagi í Kvæðamannafélaginu Iðunni í Hafnarfirði. Vissulega er áðurgreint atvik  tilviljun en þannig geta vegir skáldskapar líka verið ófyrirsjáanlegir.

Bergsteinunn og maður hennar Vilhjálmur eignuðust 7 drengi og 4 stúlkur. Magnús var yngstur, en Helgi, nú íbúi á Grund, lifir systkini sín. Þau bjuggu í litlu húsi rétt hjá Hellisgerði. Við hliðina pínulítið fjós og hænsnakofi úti  í hrauni. Víða var heyjað handa kúm og nokkrum kindum.  Sá yngsti bar til fólksins mat og kaffi. Fjölskyldan bjó við kröpp kjör, hún sýndi af sér dug og samheldni. Mikið var sungið, einkum ættjarðarkvæði og sögur sagðar. Bergsteinunn hélt vel utan um hópinn sinn og las gjarnan spennandi sögu svo börnin skiluðu sér sjálfviljug í háttinn.

Uppkominn systkinahópurinn og makar urðu að  fá sér rútu þegar þau vildu gera sér dagamun úti í náttúrunni. Þá var sungið af hjartans lyst, tenór- og sópranraddir látnar njóta sín, og þess á milli sagðar skemmtisögur úr Firðinum. Af þessum stóra systkinahópi í Hafnarfirði er komið mikið afreks- og dugnaðarfólk.

Magnús var stoð og stytta foreldra sinna unz hann fór að heiman þrítugur að aldri.  Hann lærði skipa -og húsasmíðar hjá Dröfn í Hafnarfirði, þar hóf hann störf, síðar í Slippnum í Rvík, 1968 í Kochum, en lengst af í Daníelsslipp. Magnús geymdi síðar lúin verkfæri sín í opnum trékassa með haldi. Þar gefur að líta margs konar bitjárn, hnífa, sporjárn, með mörðum endum á handföngum, bora, nafra, hefla, sagir, meitla, hamra og sleggjur.  Ekki grunlaust um að Magnús hafi verið óhress, ef hann var tekinn úr verki.

Magnús var greindur vel og athugull.  Hann lagðist yfir skákir meistaranna, las sér til og keppti á mótum. Einnig hafði hann mikinn áhuga á sögu og bókmenntum. Oft vitnaði hann í Bólu-Hjálmar, Stein  og vin sinn úr Hafnarfirði séra Rögnvald Finnbogason. Margar tækifærisvísur og flökkusögur voru því viðraðar og sumar oftar en einu sinni.

Magnús gekk að eiga Guðrúnu 1956 sama árið og Sovétherinn réðst inn í Ungverjaland. Þar sló hjarta hans alþýðunnar megin og hvort sem það var - solidarnocz - samstaðan 1980 í Póllandi eða Palestína í dag. Magnús ruglaði ekki einnota þjóðhöfðingja og alþýðu saman. Hann var einlægur alþýðusinni og eðalkommi á vinstri vængnum, jafnlítið hrifinn af þrælahaldi í Kína og atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Hann var stéttvís og studdi hag félaga sinna og það kom fyrir að stundum voru heims- og innanlandsmál svo þung að hann lagðist fyrir um stund og sneri til veggjar. Þannig hélt hann kyrru fyrir unz um hægðist, reis þá á fætur og hélt áfram.

Guðrún og Magnús ferðuðust talsvert. Þau fóru til Kanada, Bandaríkjanna, S.-Ameríku og margra Evrópulanda. Og frá skammdegismyrkrinu heima sóttu þau gjarnan suður á bóginn í sólskinið, þegar tök voru á.

Áttræður greinist hann með Parkinson sjúkdóm og bregzt svekktur við: Ég hef aldrei orðið veikur, aldrei farið á spítala. En byrði sína bar hann möglunarlaust í 6 ár með aðstoð eiginkonu og dóttur, hreyfigeta hans minnkaði og hann átti erfitt með að tala og kyngja. Samt tjáði hann sjálfur starfsfólkinu á Grund þakklæti sitt meðan hann naut umhyggju þess síðastliðna 8 mánuði.

Nú sér Guðrún á bak traustum eiginmanni, Guðbjörg góðum föður. Góða nótt, ljúfi prins.

Árni Larsson.