Sigurður Njálsson fæddist á Siglufirði 27. mars 1922. Hann lést á Landspítalanum 23. janúar 2012. Foreldrar hans voru Njáll Jónasson, f. 5.2. 1891, d. 25.11. 1976, og Ólöf Þorkelsdóttir, f. 25.11. 1889, d. 2.11. 1925. Bróðir hans var Guðjón Njálsson, f. 1917, d. 1989, kvæntur Heiðdísi Eysteinsdóttur, f. 1921, d. 2006 og systir hans var Sigurlaug Njálsdóttir, f. 1924, d. 2008, gift Óskari Friðjóni Jónssyni, f. 1921, d. 1991. Sigurður missti móður sína þegar hann var þriggja ára og leystist fjölskyldan þá upp og var systkinum hans komið fyrir á Akureyri en hann varð eftir á Siglufirði og ólst upp hjá föður sínum. Sigurður kvæntist árið 1948 Guðnýju Þorsteinsdóttur, f. 1925. Guðný er einnig Siglfirðingur, dóttir Halldóru Sigurðardóttur og Þorsteins Péturssonar. Þau eignuðust þrjú börn, Halldóru, f. 1949, Önnu Sjöfn, f. 1952 og Ólaf Njál, f. 1958. Halldóra er gift Viðari Símonarsyni, f. 1945. Þeirra börn eru Sigurður, f. 1976 og Dóra, f. 1981. Sigurður er kvæntur Sigurbjörgu Ólafsdóttur og eru börn þeirra Ólafur Viðar og Halldóra Sól. Anna Sjöfn er gift Guðmundi Páli Ásgeirssyni, f. 1947, og eiga þau dótturina Guðnýju, f. 1980. Ólafur Njáll er kvæntur Birnu Hildi Bergsdóttur, f. 1959, og eiga þau börnin Signýju, f. 1984, Kristínu, f. 1988, og Daníel, f. 1993. Signý er í sambúð með Leon Má Hafsteinssyni og eiga þau dæturnar Natalíu Rán og Emilíu Brá. Sigurður brautskráðist frá Verslunarskóla Íslands 1941. Hann var bókari og gjaldkeri útibús Útvegsbanka Íslands hf., Siglufirði, 1941-44, aðalbókari og gjaldkeri Síldarverksmiðja ríkisins, Siglufirði 1944 og skrifstofustjóri sama fyrirtækis 1945-1958. Hann var framkvæmdastjóri fyrir Hafskip hf. frá stofnun 1959 til 1970 og var einnig stjórnarformaður í Verslunarfélagi Siglufjarðar hf. um árabil. Árið 1970 keypti hann Alþjóða líftryggingarfélagið og var forstjóri þess til 1989. Í mörg ár flutti hann inn stál frá Póllandi og aðstoðaði Pólverja á margan hátt á Íslandi. Var hann sæmdur heiðursorðu Póllands árið 1988. Hann hlaut ennfremur Melvin Jones viðurkenningu frá Lionshreyfingunni en hann var félagi í Lionsklúbbnum Ægi. Fyrir utan Verslunarskólaárin átti hann heima á Siglufirði uns fjölskyldan flutti suður 1958 og settist að á Rauðalæk í Laugarneshverfi í Reykjavík. Árið 1966 fluttu þau í Mávanes í Garðabæ og þaðan 1992 í Efstaleiti. Útför Sigurðar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. janúar 2012, kl. 15.

Þegar kær fjölskylduvinur okkar er kvaddur koma upp í hugann ótal góðar minningar um samskipti við Sigurð Njálsson frá því að hann giftist Guðnýju Þorsteinsdóttur föðursystur okkar í Siglufirði fyrir rúmum 60 árum síðan, en miklir kærleikar hafa verið með þeim frá fyrstu tíð og góð samheldni innan þeirra  fjölskyldu svo að eftir var tekið.

Sigurður og Guðný ferðuðust mikið sem var ekki algengt í lok heimstyrjaldarinnar 1939-1945 nema hvað togarasjómenn sigldu með aflann til Evrópu og komu heim með björg í bú.

Þau hjón fóru fljótlega í sín ferðalög til útlanda og nutum við systkinin í æsku góðs af því, en þau tóku ávallt glaðning með  fyrir okkur eins og aðra.

Þegar Sigurður var á Siglufirði vann hann hjá Óla Tynes síldarsaltanda og kunni hann margar skemmtilegar sögur af samskiptum Óla og starfsmanna hans, en Óli var norskur og talaði bjagaða íslensku og var auk þess fljótmæltur, svo menn skildu hann illa og komu þeir því oft til Sigurðar sem túlkaði fyrir þá tilskipanir Óla þannig að menn vissu hvað átti að gera. Hafði Sigurður mikinn húmor fyrir þessu og hermdi vel eftir Óla Tynes þegar hann sagði frá.

Þegar ég byrjaði minn togaraferil 14 ára með föður mínum, var Sigurður byrjaður að vinna á skrifstofu sem hafði með útgerð togaranna Elliða og Hafliða að gera auk síldarverksmiðjanna. Þegar togararnir voru í landi komu allir togarakarlarnir í einu á skrifstofuna til að fá aura fyrir hressingu, og gekk á ýmsu á milli sjómannanna og skrifstofumannanna, sem sjómennirnir höfðu ekki mikið álit á. Þó var á þessu góð undantekning, Sigurður var einstakt prúðmenni og bar virðingu fyrir þessum mönnum og leysti vel úr þeirra málum með bros á vör, enda báru þeir mikla virðingu fyrir honum. Ekki síst Pétur faðir minn enda voru þeir mjög góðir vinir alla tíð og á milli fjölskyldna þeirra var einstaklega gott samband. Naut ég svo sannarlega góðs af því þegar að ég gekk í Stýrimannaskólann í Reykjavík á árunum 1962-1965, en þá voru Sigurður og Guðný flutt til Reykjavíkur og kom ég oft til þeirra í mat á sunnudögum í hádegis lambakjötið en einnig til annarra föðurbræðra minna en þau vildu öll fylgjast með mér fyrir foreldra mína og gefa þeim reglulega skýrslu um skóladrenginn, enda á þessum árum ekki komnir farsímar til að fylgjast með eins og í dag. Kann ég öllu þessu góða fólki miklar þakkir fyrir góðar móttökur á þeirra heimili alla tíð, sérstakar þakkir til Sigurðar fyrir að vera á fyrsta skólaári mínu fjárgæslumaður fyrir mig.

Sigurður reyndist góður og gegn maður og duglegur að koma sér áfram, en var hann ráðinn fyrsti forstjóri skipafélagsins Hafskips og óx félagið undir hans stjórn hægt og bítandi þar til hann lét af störfum til að stofna eigið fyrirtæki -  Alþjóða líftryggingafélagið, sem hann lagði alla krafta sína í og gekk það félag mjög vel. Ég minnist þess þegar að ég átti leið fram hjá skrifstofu hans og datt í hug að heimsækja hann og var hann ekki við, þá hringdi starfsmaður hans í hann og tilkynnti honum komu mína, kom þá Sigurður eins og skot þar sem hann var að sinna málum úti í bæ, bara til að hitta mig þó erindi mitt væri bara að spjalla við hann. Þannig virtist Sigurður hafa ótakmarkaðan tíma fyrir vini sína og fjölskyldu þó að mikið væri hjá honum að gera. Þannig var þessi maður, háttprúður í alla staði, kurteis og orðvar, það held ég að komi frá föður hans Njáli, sem var grandvar og strangheiðarlegur maður.

Móður sína missti Sigurður í frumbernsku. Sigurður var íþróttamaður í æsku og bar sig alla tíð vel, og hélt sér ávalt vel í klæðaburði svo að af bar.

Á stóru ættarmóti í Siglufirði í júlí 2011, sást vel að elli kerling var byrjuð að ná honum niður á annað hnéð en með þrautseigju og hörku fór hann ásamt Guðnýju á alla þá staði sem planað var, nema að ganga allan Héðinsfjörðinn að Vík, en þau létu sér nægja að fara að Vatnsenda.

Við hin gengum að Vík en þar ólst upp Halldóra tengdamóðir Sigurðar, en ættarmótið var haldið í minningu hennar og Þorsteins Péturssonar.

Fór þetta mót ákaflega vel fram og var vel heppnað í alla staði, og sérstaklega var gaman að eldri kynslóðin gat mætt og notið samskipta við alla afkomendur Halldóru og Þorsteins.

Guðný og Sigurður áttu barnaláni að fagna og er fjölskyldan ákaflega samrýmd og ferðuðust þau öll mikið saman og nutu náttúru og veiðiskaps, og þegar barnabörnin komu fóru þau ekki varhluta af gæðum afa og ömmu, öll elskuð og virt af þeim.

Voru þau hjón einstaklega gestrisin og eru fjölskyldu og vina veislur þeirra  sérstaklega eftirminnilegar fyrir frábærar móttökur og var létt yfir þeim svo að allir nutu sín vel, eldri sem yngri enda hjónin spaugsöm og glaðlynd.

Með Sigurði er genginn heilsteyptur maður og vinsæll og er ég ekki í neinum vafa um að vel sé tekið á móti honum í æðri heimi af látnum vinum og ættingjum.

Honum fylgja góðar fyrirbænir frá okkur öllum í fjölskyldu Péturs mágs hans og Sigríðar ekkju hans og börnum þeirra og barnabörnum.

Við biðjum góðan guð að blessa Sigurð og fjölskyldu hans, sem hann lifði og starfaði fyrir af mikilli væntumþykju.

Far þú í eilífðina kæri vinur í guðs friði.

Fyrir hönd fjölskyldu Péturs og Sigríðar,

Ásgeir Pétursson.

Það er fyrst og fremst mikið þakklæti sem er okkur bræðrum efst í huga þegar við kveðjum Sigurð Njálsson. Þakklæti fyrir einstakan hlýhug í garð fjölskyldu okkar.

Sigurður var glæsimenni á velli, virðulegur, hógvær og glaðlyndur. Sannur herramaður með fágaða framkomu og afar velviljaður þeim sem voru honum kærir.

Liðlega 60 ára hjónaband þeirra Guðnýjar, föðursystur okkar, var okkur fyrirmynd. Þar var ástin, gagnkvæm virðing og tillitsemi í forgrunni alla tíð.  Návist þeirra var einkar notaleg og ávallt skemmtileg, stutt í húmorinn. Einkar samrýmd hjón sem  áttu farsælt hjónaband á langri og viðburðaríkri æfi.

Sterkt í minningunni  á uppvaxtarárum okkar eru jólaboðin þar sem stórfjölskyldan kom saman svo og fjölmargar heimsóknir í sumarbústað þeirra hjóna við Þingvallavatn.  Bátsferðir, veiði, sólbað, spil við arininn og aðrar skemmtilegar stundir með þeim hjónum og börnunum eru góðar minningar sem fylgja okkur. Á heimilinu var gestrisnin í fyrirrúmi, áhugi fyrir öllu því sem snerti velferð okkar, glaðbeittar samræður um menn, málefni og fjármál, en þar var Sigurður svo sannarlega á heimavelli.

Stórfjölskyldan skipti Sigurð miklu máli og lagði hann mikið á sig til að fyrir hana.  Síðasta sumar var ættarmót á Siglufirði hjá fjölskyldu Guðnýjar. Þar voru hjónin geislandi af gleði og með nærveru sinni gerðu ættarmótið ógleymanlegt. Dagana á undan hafði heilsa Sigurðar ekki verið góð en norður fór hann til að vera með. Mikið þrekvirki fyrir mann á hans aldri þar sem einbeittur vilji skipti sköpum.

Á skilnaðarstundu dvelur hugur okkar með Guðnýju, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum. Biðjum Guð að vernda þau og styrkja í sorg og söknuði.

Þorsteinn Skúli og Guðmundur Ingi Ásmundssynir.