Haukur Pálsson fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1919. Hann lést á Landspítala, Landakoti, 12. febrúar 2012. Foreldrar hans voru Júlíana Sigurðardóttir frá Deild í Bessastaðahreppi, Álftanesi, f. 18.1. 1891, d. 16.2. 1935, og Páll Jónsson frá Tröð í Bessastaðahreppi, Álftanesi, f. 5.1. 1890, d. 15.2. 1968. Systkini Hauks voru Sigurbjörg, f. 11.10. 1914, d. 11.7. 1935, Gunnar, f. 9.8. 1916, d. 22.2. 1942, Hulda, f. 18.9. 1917, d. 30.8. 1999, Guðmundur, f. 19.11. 1918, d. 2.12. 1975, Matthías, f. 3.6. 1924, d. 21.8. 1992. Haukur var kvæntur Guðríði Þórhallsdóttur, f. 17.7. 1925, d. 25.4. 1989. Börn þeirra eru Guðrún Helga, f. 8.10. 1943, gift Jóhanni Erni Guðmundssyni, Gunnar Haraldur, f. 29.10. 1946, kvæntur Kristínu Jónu Guðjónsdóttur, Sigurjón Páll, f. 20.2. 1948, í sambúð með Sigríði Valdísi Karlsdóttur, Kristín Hulda, f. 1.12. 1951, í sambúð með Gylfa Jónassyni, Haukur, f. 16.9. 1953, í sambúð með Dögg Jónsdóttur, Unnur Erna, f. 31.1. 1955, gift Ólafi Erni Valdimarssyni, Jónas Guðgeir, f. 14.2. 1958, í sambúð með Sigrúnu Guðmundsdóttur, Júlíana, f. 1.4. 1962, gift Lofti Ólafi Leifssyni, Guðfinna, f. 24.4. 1964, gift Hafliða Halldórssyni. Haukur á 26 afabörn, 26 langafabörn og tvö langalangafabörn. Haukur var fæddur og uppalinn í Reykjavík og þótti mjög vænt um borgina sína. Í æsku stundaði hann íþróttir, meðal annars fimleika og sund. Hann sótti fundi hjá Friðriki Friðrikssyni í KFUM og var hann mikill Valsari í hjarta sínu. Hann lærði húsasmíði og vann við það allt til 72 ára aldurs. Hann starfaði lengst af hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Haukur og Guðríður hófu búskap á æskuheimili hans á Haðarstíg 16. Haukur byggði framtíðarheimili fjölskyldunnar í Akurgerði 33 þar sem þau ólu upp börnin sín. Eftir fráfall Guðríðar fluttist hann á Sléttuveg 15 og átti þar ánægjulegt ævikvöld. Haukur var annálaður dansari og höfðu þau Guðríður yndi af dansi. Haukur hugsaði vel um heilsuna og gekk gjarnan frá Sléttuveginum í Sundhöll Reykjavíkur þar sem hann stundaði sund meðan heilsan leyfði. Útför Hauks fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. febrúar 2012, kl. 15.
Mig langar hér til að minnast Hauks Pálssonar tengdaföður míns í nokkrum orðum.
Fyrstu kynni mín af Hauki voru þegar ég fór að venja komur mínar í Akurgerði 33 til þess að hitta dóttur hans Júlíönu og var það í kringum 1980. Ég fór að venja komur mínar þangað meira en góðu hófi gegndi og varð fastagestur þar fljótlega og dvaldi þar oft á tíðum næturlangt. Sérstaklega minnisstæð eru mér öll sunnudagshádegin þegar allir voru ræstir upp í hádegismatinn, sem var oftar en ekki lambalæri eða lambahryggur. Þar lærði ég mín fyrstu handtök í matseld undir dyggri leiðsögn Gauju tengdamóður minnar. Ég hafði oft reynt að komast að pottunum heima hjá mér en var ávallt rekinn frá en þarna fékk ég að valsa um eins og ég væri heima hjá mér og ekki amast neitt við mér þó ég væri með nefið niðri í pottunum. Þau hjónin Haukur og Gauja voru mjög gestrisin eins og allir vita sem þekktu þau og var ég velkominn frá fyrstu stundu. Hús þeirra var ávallt opið öllum gestum og gangandi og minnti þetta einna helst á félagsheimili um helgar svo mikill var gestagangurinn. Haukur var einstaklega hlýr og góður maður og aldrei sá ég hann skipta skapi, alltaf léttur í lund og kátur og ávallt tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd þegar eitthvað þurfti að dytta að. Haukur var mjög laghentur og duglegur til verka og naut ég oft góðs af því. Ég gat því ávallt leitað til Hauks með mín mál og fengið hans aðstoð til góðra verka. Mitt helsta afrek um ævina var þegar ég lagði parket á gólfið í íbúð minni í Veghúsum ásamt Hauki. Þegar við vorum búnir með þetta verk þá sagði Haukur mér að ég skyldi segja öllum sem heyra vildu að ég hefði gert þetta aleinn og ekkert meira um það að segja. Þetta var lýsandi dæmi um hann og hvernig hann var. Alltaf þegar eitthvað þurfti að gera heima hjá mér þá var Haukur mættur fyrstur með tommustokkinn og allar græjurnar oft fullsnemma að mér fannst og meira að segja án þess að hann væri beðinn um að mæta. Hann mætti bara og sá til þess að verkið yrði nú örugglega gert rétt og kann ég honum miklar þakkir fyrir.
Þegar við Júlíana fluttum í Grafarvoginn þá urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að skjóta skjólshúsi yfir Hauk á meðan hann var að bíða eftir því að flytja á Sléttuveginn, þá nýbúinn að selja ættaróðalið í Akurgerði sem hann byggði aleinn og handmokaði hann meðal annars grunninn. Geri aðrir betur. Haukur bjó þarna hjá okkur í nokkra mánuði og var það góður tími hjá okkur fjölskyldunni að hafa afa inni á heimilinu og nutu börnin okkar góðs af því og fannst það meiriháttar að hafa afa til þess að dekra við sig. Svo fluttist hann á Sléttuveginn og þá bjó hann að sjálfsögðu í flottustu blokkinni með flottasta útsýninu í bænum til að byrja með, sem síðar varð á landinu og enn seinna í Evrópu og gott ef ekki í öllum heiminum. Um jólin þá var það engin spurning um hver væri með flottasta og best skreytta gluggann, hver annar en Haukur Pálsson. Þetta var lýsandi dæmi um lífsviðhorf og lífsgleði Hauks, alltaf ánægður með sitt og sína. Stoltur var hann af öllum sínum afkomendum og þegar hann heyrði eitthvað gott um einhvern í fjölskyldunni mátti oft heyra hann hvísla Og á ekki langt að sækja það. Það voru ávallt miklar ánægjustundir þegar hann kom til okkar í mat eða heimsókn og ekki þótti dætrum mínum leiðinlegt að spjalla við hann um heima og geima og heyra brandarana hans sem hann sagði oft. Hann var líka mjög duglegur við að kenna þeim að spila og leggja kapal og þá sérstöku kúnst að láta kapalinn ganga alltaf upp. Lífsglaðari mann var vart hægt að hugsa sér og var hann ávallt kátur og glaður þótt heilsan væri aðeins farin að bila í lokin og líðan hans kannski ekki sem best. Haukur var Reykvíkingur í húð og hár og mjög stoltur af því og ekkert fannst honum skemmtilegra hin seinni ár en að labba um gamla hverfið sitt eða borgina ef því var að skipta. Við fjölskyldan fórum oft með honum svokallaðan Týsgötuhringog keyrðum við um borgina og þuldi hann þá upp öll götuheitin eins og ekkert væri, ekki bara í Þingholtunum heldur líka í vesturbænum þar sem ég hélt nú að ég væri á heimavelli en hann reyndist ekki síður glöggur þar en í sínu hverfi.
Haukur var mikill Valsari og vorum við oft að gantast með það hvorir væru betri Valur eða erkifjendurnir KR sem ég tilheyri. Við horfðum oft á leiki saman og hélt hann ávallt með rauða liðinu á vellinum og gilti þá einu hvort það var Valur eða eitthvað annað lið og fékk ég oft og iðulega að heyra hvort liðið var betra. Að sjálfsögðu það rauða! Ég fór með honum góðan rúnt um vesturbæinn í desember síðastliðnum og sýndi honum aðalknattspyrnuleikvanginn í bænum sem stendur að sjálfsögðu við Meistaravelli, honum fannst nú lítið koma til þessa litla leikvallar, það væri nú miklu flottari leikvangur austar í bænum nálægt Öskjuhlíðinni og þar spilaði liðið í rauðum búningum en ekki einhverjum röndóttum fangabúningum.
Ég vil bara í lokin þakka Hauki fyrir öll þau góðu ár sem ég fékk að njóta með honum. Það er heiður að hafa kynnst svona heiðvirðum og góðum manni sem var ávallt glaður og léttur í lund og gaf mér og fjölskyldu minni mikið með nærveru sinni. Mér finnst við fjölskyldan vera fátækari við þennan mikla missi en ég veit að þetta er bara gangur lífsins og að við kveðjum öll einhvern tíma. Ég veit að Haukur vinur minn og félagi fer á góðan stað og þar mun hann hitta Gauju sína sem er búin að bíða lengi eftir honum.
Hvíl í friði.
Loftur.