Guðjón Sigurjón Ólason fæddist í Teigagerði við Reyðarfjörð þann 27. júní 1923. Hann lést á Uppsölum Fáskrúðsfirði 28. febrúar 2012. Sonur hjónanna Óla Sigurðar Bjarnasonar, f. 9.12. 1896 , d. 15.07. 1929 og Hólmfríðar Kristínar Nikulásdóttur f. 3.10. 1896, d. 27.10. 1981. Systkini hans voru Ingvar Ísfeld Ólason f. 13.11. 1918, d. 22.06. 1983 Bjarni Nikulásson Ólason f. 29.08. 1924, d. 03.06. 1957, Þuríður Óladóttir f. 23.04. 1926, d. 26.04. 1943, Sigmar Ólason f. 12.10. 1927 og Sjöfn Kristínardóttir f. 17.05. 1937. Á annan dag jóla 1948 kvæntist Sigurjón Sigríði Eyjólfsdóttur frá Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, f. 28. desember 1924. Foreldrar hennar voru Eyjólfur Benedikt Jónsson f. 09.01. 1896, d. 20.03. 1963 og Þórstína Snjólfsdóttir f. 04.09. 1984, d. 13.06. 1964. Sigurjón og Sigríður eignuðust fjögur börn. Þau eru: Rúnar Viðar f. 19.06.1949. Hann er kvæntur Jórunni Sigurbjörnsdóttur f. 26.08. 1952. Þau eiga þrjú börn og átta barnabörn. Hilmar Smári f. 09.10. 1951. Hann er kvæntur Halldóru Baldursdóttur f. 22.12. 1952. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. Eygló Kristín f. 01.09. 1953. Hún á eina dóttur og tvö barnabörn. Þórstína Hlín f. 27.06. 1964. Sambýlismaður hennar er Ingvi Rafn Guðmundsson f. 22.11. 1963. Hún var áður gift Jóni Gunnarssyni f. 28.02. 1966 og eiga þau fjóra syni. Sigurjón starfaði lengst af sem verkstjóri hjá Vegagerð Ríkisins á Reyðarfirði. Þar hóf hann störf 1953 og starfaði með hléum þar til hann fór á eftirlaun árið 1996. Þar áður vann hann ýmis verkamannastörf á sjó og landi. Árið 1946 fór hann til Reykjavíkur og tók meirapróf. Í kjölfarið starfaði hann svo sem leigubílstjóri í Reykjavík eða allt þar til hann fór aftur á Reyðarfjörð árið 1948 og starfaði þá við bílaviðgerðir hjá Kaupfélagi Héraðsbúa. Á árunum 1966-1969 starfaði hann sem sveitarstjóri Reyðarfjarðarhrepps og verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins 1970-1976. Í aldarfjórðung var Sigurjón meðhjálpari við Reyðarfjarðarkirkju. Síðustu misseri ævi sinnar dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði. Útför Sigurjóns fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju í dag, 9. mars 2012, kl. 14.
Elsku afi minn.
Á erfiðum tímum koma upp í hugann ótal minningar sem hjálpa manni að komast í gegnum daginn. Ég hef ekki verið þekktur fyrir að muna margt frá því ég var lítill en samt virðist ég muna ótrúlegustu hluti sem tengjast þér. Þú kallaðir mig aldrei annað en nafni minn, fyrir þér var ég aldrei Sigurjón eða Sjonni eins og hjá ömmu, ég var alltaf nafni þinn. Eitt af því sem er mér einna minnisstæðast varðandi jólin í æsku eru jólagjafirnar sem við gáfum hvorum öðrum. Það var alltaf ein undir trénu okkar til nafna frá afa og önnur undir ykkar tré sem ég hafði pakkað inn og merkt til afa frá nafna. Ég gaf þér alltaf bók eftir Alistair Maclean og var alltaf jafn spenntur að sjá í jólaboðinu hjá ykkur ömmu á jóladag hvort þú værir byrjaður að lesa. Eitt höfum við alltaf átt sameiginlegt annað en nafnið. Ég hef frá því ég man eftir mér verið mjög stoltur af því að vera örvhentur einfaldlega vegna þess að pabbi er það og þú líka, ekki leiðum að líkjast þar.
Fyrsta minningin sem ég á um þig er reyndar frá því ég var í leikskóla, líklega fimm ára. Þá var mamma ein heima með Guðrúnu innan við eins árs og komst ekki til að sækja mig svo hún brá á það ráð að fá afa til að sækja strákinn. Ég man að ég beið eftir að afi kæmi að ná í mig og var orðinn einn eftir með Möggu fóstru. Það endaði þó með því að Magga dró mig heim á snjóþotunni því aldrei kom afi, þú hafðir steingleymt að þú áttir að sækja. Það er oft búið að brosa að þessu. Annað sem ég man vel eftir er frá því ég var átta ára og kom heim með gullpening af Austurlandsmóti í fótbolta. Ég man hvað ég var rosalega spenntur að sýna afa peninginn. Svo þegar þú komst seinna þann dag og ég sýndi þér hann stoltur, þá sagðir þú að þetta yrði sko alveg örugglega ekki sá síðasti. Í hvert skipti sem bættist við safnið þá hugsaði ég um þessi orð þín. Annað atvik frá því ég var um átta ára aldurinn var þegar þú hringdir og sagðir að ég þyrfti að kíkja til ykkar ömmu niður á Heiðarveg. Ég hljóp niðureftir og þá beið mín standandi á stéttinni rautt og glansandi þriggja gíra hjól, ég var ekki lítið ánægður með fyrsta gírahjólið mitt og það var sko frá afa.
Þér leið sennilega hvergi betur afi minn en úti á firði á litla árabátnum þínum að veiða þorsk á handfæri og ekki skemmdi fyrir ef það slæddist ein og ein ýsa með. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég fór að fara reglulega með þér en ég var ekki mjög hár í loftinu. Þú kenndir mér réttu handbrögðin bæði við veiðarnar og aðgerðina á aflanum og það voru ófá skiptin sem við nafnarnir sátum að skaki tímunum saman. Við höfum nú ekki verið þekktir fyrir að tala af okkur, hvorki ég eða þú, og því voru þessar stundir ekki alltaf stundir margra orða. Það var líka óþarfi því okkur leið báðum vel, í góðu veðri úti á fallega firðinum okkar, í góðum félagsskap. Oft veiddum við mjög vel og man ég að nokkrum sinnum var bátnum lagt undir hafnarkrananum til að landa yfirfullum fiskikassa, það fannst litlum gutta sko ekki leiðinlegt. Ein sjóferð er mér sérstaklega minnisstæð. Þá höfðum við farið út til að vitja um grásleppunet sem lágu út með firðinum að sunnanverðu, ég hef líklega verið um tíu ára. Þegar við vorum að byrja að draga netin var farið að hvessa og þú ákvaðst að við yrðum að hætta við og drífa okkur í land. Þetta var nú ekki mjög löng leið en sóttist hægt á móti rokinu sem alltaf bætti í. Þegar við vorum hálfnaðir í land þá drapst á mótornum og þú reyndir að róa á móti veðrinu. Það var ekki nokkur leið þannig að bátnum var snúið og róið undan veðri, upp í fjöru sunnan við fjörð. Þar var pabbi mættur til að sækja okkur því að fylgst hafði verið með okkur og hann látinn vita að við værum í vandræðum. Það var ekki nóg með að þú færir á sjó og veiddir mikið, heldur verkaðir þú allan aflann í bílskúrnum. Meirihlutann saltaðir þú og sólþurrkaðir. Ég man að svo oft þegar ég kom til ykkar ömmu þá varst þú í bílskúrnum og ég kíkti oft til þín þar sem þú varst að dekstra við fiskinn, annað hvort í skúrnum eða að raða honum á grindur á lóðinni.
Þú varst mjög ákveðinn í flestu því sem þú tókst þér fyrir hendur. Eitt af því var þegar þú komst frá London eftir hjartaaðgerð. Þá tókst þú endurhæfinguna með trompi og hvernig sem viðraði fórst þú á göngu og það enga smá göngu. Eftir það var aldrei vandamál að finna afmælisgjöf handa þér, það var annaðhvort íþróttagalli eða hlaupaskór.
Ég held að það sé ekki hægt að finna þann einstakling sem er meiri Reyðfirðingur en þú afi minn. Þér þótti svo vænt um fjörðinn þinn og byggðina og hafðir mjög sterkar skoðanir varðandi möguleika á uppbyggingu á svæðinu. Sem betur fer náðir þú að verða vitni að og fylgjast með þeirri uppbyggingu sem hefur orðið hér undanfarin ár, áður en heilsan fór að gefa sig. Það leyndi sér ekki hvað það var erfitt fyrir þig þegar þú hættir að geta stundað sjóinn, rúntað um til að fylgjast með uppbyggingu álversins og því sem fram fór í samfélaginu. Svo ekki sé talað um það þegar heyrnin fór að gefa sig þannig að þú náðir ekki að taka fullan þátt í samræðum og fylgjast með því sem fram fór í kringum þig.
Þú hefur nú fengið hvíldina elsku afi minn og held ég að þú sért henni dálítið feginn. Ég sakna þín meira en orð fá lýst en minningarnar lifa og trúin á að þú sért á góðum stað og þér líði nú betur, léttir söknuðinn.
Takk fyrir allt.
Sigurjón "nafni þinn"