Guðrún Ólafía Halldórsdóttir (Olla) fæddist í Súðavík við Álftafjörð 30. mars 1925. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð, Akureyri, 1. mars 2012. Foreldrar hennar voru Sigrún Jensdóttir, f. 29. desember 1892, d. 16. nóvember 1972, og Halldór Guðmundsson, f. 9. febrúar 1885, d. 17. mars 1968. Systkini Ollu eru Elísabet, hálfsystir, f. 1910, d. 1937, Jens Þorkell, f. 1922, d. 1992, Karólína Steinunn, f. 1927, d. 2009, Anna Þorbjörg, f. 1929, Sigrún Sigurdríf, f. 1930, Guðmundur Magnús, f. 1932, d. 1977, Óskar Haraldur, f. 1932, d. 1944. Olla giftist 6. janúar 1945 Stefáni Kristni Snælaugssyni frá Litla-Árskógssandi, f. 27. júní 1916, d. 19. maí 1990. Foreldrar hans voru Kristín Ragnheiður Ágústsdóttir, f. 1892, d. 1932, og Snælaugur Baldvin Stefánsson, f. 1891, d. 1960. Börn Ollu og Stebba eru: 1) Snælaugur Kristinn, f. 1945, d. 1996, 2) Karólína, f. 1947, gift Karli Fr. Magnússyni, f. 1948 3) Ráðhildur, f. 1948, gift Daða Hálfdánssyni, f. 1950, 4) Óskar Jens, f. 1951, kvæntur Sigríði Halldórsdóttur, f. 1957, 5) Anna Árnína, f. 1953, gift Brynleifi G. Siglaugssyni, f. 1953, 6) Sigrún f. 1956, gift Birgi Stefánssyni, f. 1957, 7) Kristín Ragnheiður, f. 1967, í sambúð með Ib Colli, f. 1961. Barnabörn Ollu eru 28 talsins og barnabarnabörnin 39. Olla átti heima á Vestfjörðum til ársins 1940, í Súðavík, Ísafirði og Flateyri. Þaðan flutti hún til Árskógsstrandar og vann þar m.a. í kaupavinnu og línuvinnu. Þar kynntist hún Stebba Snæ, bjuggu þau að Árbakka á Litla-Árskógssandi til haustsins 1967, að undanskildum tveimur árum er þau bjuggu í Reykjavík, en þar hófu þau sinn búskap á Framnesvegi 8. Frá Litla-Árskógssandi fluttu þau til Akureyrar. Eftir komuna þangað vann Olla við ræstingar á Símstöðinni og á Rannsókn FSA þar sem hún lauk sínum starfsferli. Útför Guðrúnar Ólafíu fer fram frá Akureyrarkirkju, í dag, 9. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Mig langar í fáum orðum að minnast móðursystur minnar, Nöfnu. Hún var næstelst sjö alsystkina, en að auki var ein hálfsystir af föðurnum sem var töluvert eldri en þau hin. Systkinin eru öll fædd í Súðavík við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi, sá elsti 1922 og yngstir voru tvíburar fæddir 1932. Hálfsystirin, Elísabet, var fædd 1910. Af öllum þessum hóp eru aðeins tvær yngstu systurnar eftir á lífi. Fjölskyldan bjó í Súðavík allt þar til upp úr 1930 er varð að leysa heimilið upp vegna alvarlegra og langvinnra veikinda móðurinnar og þurfti þá að koma barnahópnum fyrir hingað og þangað, ýmist hjá ættingjum eða vandalausum. Heimilisfaðirinn var mikill baráttujaxl sem beitti sér mjög ákveðið í réttindabaráttu hinna vinnandi stétta og varð raunar fyrsti formaður Verkalýðsfélags Súðavíkur, en kjara- og réttindabarátta launafólks í landinu á kreppuárunum var einstaklega hörð og óvægin. Í allsleysi þessara ára komust systkinin til manns að undanskildum öðrum tvíburanum sem lést úr berklum aðeins tólf ára gamall.

Aðeins elstu systkinin mundu að einhverju marki eftir æskuheimili sínu hjá foreldrum og systkinum. Flest systkinanna þvældust á milli heimila á uppvaxtarárunum. Þau elstu, Keli og Nafna, þó sínu mest. Því miður bjuggu þau ekki alltaf við gott atlæti og á það einkum við um Nöfnu. Leið margra þeirra lá á norðurlandið er þau fóru að stálpast, en á Akureyri bjó móðursystir þeirra, Anna.

Nafna var vel innan við tvítugt er hún hleypti heimdraganum. Hún var um tíma fyrir sunnan en fljótlega settu Nafna og Stebbi Snæ, stóra ástin í lífi Nöfnu, upp sitt heimili í Árbakka á Árskógssandi þar sem þau bjuggu til ársins 1969 er þau fluttu til Akureyrar. Á Sandinum fæddust börnin eitt af öðru og 1956 voru þau orðin sex talsins. Sjöunda barnið kom svo í heiminn 1967, tveimur árum áður en þau fluttu til Akureyrar, nánar tiltekið í Lækjargötu 4, í innbænum. Mínir foreldrar fluttu svo til Akureyrar frá Bolungavík með sinn barnahóp sumarið 1971 og settu sig niður í næsta húsi við Nöfnu og Stebba Snæ. Eðlilega varð mikill samgangur á milli heimilanna og við systkinin fengum nú að kynnast meðlimum móðurfjölskyldu okkar. Í innbænum á Akureyri bjó þá líka Jenný, dóttir Önnu frænku, sem var móðursystir þeirra mömmu og Nöfnu, ásamt maka og fimm börnum.

Ég var á áttunda ári þegar ég kom til Akureyrar og stóð á því fastar en fótunum að Nafna væri meira skyld mér en systkinum mínum af því hún væri nafna mín. Í fyrstu fermingunni á Akureyri varð það deginum ljósara að slíkar veislur var ekki hægt að halda án þess að hafa heimabökuðu flatkökurnar hennar Nöfnu á boðstólum.

Svo liðu árin, börnin urðu að unglingum og unglingarnir að fullorðnu fólki sem hélt út í lífið. Ég man að ég beið þess með mikilli óþreyju að verða nógu gömul til að geta beðið Nöfnu um að lesa fyrir mig í bolla, það var rosalega spennandi.

Nafna var mikil föndurkerling og eftir hana liggja kynstrin öll af alls konar handverki. Sjálf á ég prjónahyrnu frá Nöfnu sem ég held mikið upp á sem hún gaf mér fyrir u.þ.b. 30 árum. Þegar dóttir mín fæddist kættist Nafna mikið og sagði að sig hefði alltaf langað svo til þess að einhver í fjölskyldunni myndi eignast barn þennan tiltekna mánaðardag því þetta var brúðkaupsdagur hennar og Stebba Snæ, en hann var látinn þegar prinsessan mín fæddist. Annars var Nafna dul og lét lítið uppi um langanir sínar og þrár. Kvæði Davíðs Stefánssonar, Konan, sem kyndir ofninn minn, minnir mig svolítið á Nöfnu en hún var vissulega markeruð af mótlæti æskuáranna og því harðræði sem hún sætti á þeim árum. Þá var einnig mikið fátæktarbasl á þeim Nöfnu og Stebba Snæ framan af þeirra hjúskap, einkum meðan börnin voru lítil. Hún var lítil og mjó og lét alla jafna lítið fyrir sér fara. Hún var alltaf boðin og búin að rétta öðrum hjálparhönd sem þess þurftu og hjálp vildu þiggja.

Ég finn það gegnum svefninn,
að einhver læðist inn
með eldhúslampann sinn,
og veit, að það er konan,
sem kyndir ofninn minn,
sem út með ösku fer
og eld að spónum ber
og yljar upp hjá mér,
læðist út úr stofunni
og lokar á eftir sér.

/

Ég veit, að hún á sorgir,
en segir aldrei neitt,
þó sé hún dauðaþreytt,
hendur hennar sótugar
og hárið illa greitt.
Hún fer að engu óð,
er öllum mönnum góð
og vinnur verk sín hljóð.
Sumir skrifa í öskuna
öll sín bestu ljóð.

/

Ég veit, að þessi kona
er vinafá og snauð
af veraldlegum auð,
að launin, sem hún fær,
eru last og daglegt brauð.
En oftast er það sá,
sem allir kvelja og smá,
sem mest af mildi á.
Fáir njóta eldanna,
sem fyrstir kveikja þá.
(Davíð Stefánsson)

Elsku mamma, nú eru bara þú og Anna eftir af systkinahópnum, þið sem búið í sitt hvoru landinu og hvorug ykkar er ferðafær. Elsku frændsystkini, börn Nöfnu og fjölskyldur, missir ykkar allra er sár og ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megi blessun og virðing hvíla yfir minningunni um Nöfnu.

Olla Jónatans.