Gunnar Auðunsson fæddist á Minni-Vatnsleysu 8. júní 1921. Hann lést á dvalarheimilinu Grund 2. mars 2012. Foreldrar hans voru Auðun Sæmundsson og Vilhelmína Þorsteinsdóttir. Systkini: Ólafía, Elín, Kristín, Sæmundur, Þorsteinn, Halldór, Gísli, Auðun, Pétur Guðjón, Guðrún og Steinunn. Gunnar kvæntist árið 1949 Gróu Eyjólfsdóttur. Börn þeirra: Sigríður Rósa (lést 2000) og Pétur Guðjón. Jarðarför Gunnars fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, föstudaginn 9. mars 2012, kl. 11.
Pabbi er dáinn - síðasti skipstjórinn úr Auðunsættinni fór í sína síðustu sjóferð Föstudaginn 2. mars 2012.
Pabbi varð níræður og heilsu hans hafði hrakað hægt og rólega síðustu árin. Þrátt fyrir það var hann eftir efnum glaðlyndur og ánægður fram á síðustu stund. Pabbi giftist mömmu (Gróu Eyjólfsdóttur) sumarið 1949 og þau studdu hvort annað í gegnum lífið og ekki minnst var amma óslitið við hlið hans þegar heilsunni fór að hraka og sat hjá honum fram á síðustu stund.
Það eru margir hlutir úr lífi pabba sem mig langar til að minnast á, en það er erfitt að lýsa heilu lífi í fáum orðum.
Gunnar Auðunsson fæddist á Minni Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd 8. júní 1921, sjötta barn þeirra hjóna Auðuns Sæmundssonar og Vilhelmínu Þorsteinsdóttur af í allt tólf börnum. Auðun afi stundaði búskap, veiði og sjómennsku á Vatnsleysuströnd þangað til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Pabbi og öll hans systkini ólust upp í nánd við náttúruna, sem þau höfðu ætíð virðingu fyrir.
Sagan um flutninginn frá Minni Vatnsleysu er einstök. Auðunni afa hafði verið boðið skip frá Akranesi og vildi flytja til Akraness með alla fjölskylduna, en bæjarstjórn Akranesbæjar vildi ekki taka við hópnum. Þeir voru hræddir um að öll fjölskyldan færi á bæinn. Við vitum þó öll að ekki varð sú raunin með þessa fjölskyldu!
Pabbi byrjaði að hjálpa til heima, eins og öll systkini hans, strax og hann gat. Búskapur, veiði og sjómennska. Pabbi (Auðun afi) tók þá elstu af okkur strákunum með á skitterí. Þeir elstu lengst og síðan styttra eftir aldri& sagði pabbi mér einu sinni. Einn frændi minn hafði eftir móðir sinni að oft hefði verið rifist um að komast með Auðunni afi í róður og þeir sem eftir sátu áttu jafnvel til að grýta bátinn úr fjörunni.
Pabbi var 14 ára þegar hann byrjaði sem háseti á Otri frá Reykjavík og stundaði sjómennsku allt sit líf þangað til að hann settist í helgan stein rúmlega sjötugur. Hann gat þó ekki sleppt sjónum alveg og réri í mörg ár með Gísla bróður sínum úr litlu vörinni á Seltjarnarnesi.
Nokkur atriði eru mér minnisstæð frá þessu tímabili. Eitt sinn bilaði vélin hjá þeim bræðrum fyrir utan Gróttu, en harkan var svo mikil hjá gömlu mönnunum að þeir réru heim í vör í stað þess að hringja eftir hjálp. Okkur er þetta minnisstætt því Björn sonur minn var með. Heima í bílskúr saltaði pabbi fisk sem bræðurnir veiddu og hengdi síðan út á snúru til þurrkunar. Margir nutu góðs af þessum saltfiski (og öðrum afla þeirra bræðra), þar á meðal ég. Þetta er besti saltfiskur sem ég hef nokkurn tíma smakkað og hef ekki borðað saltfisk síðan.
Af Otri fór pabbi yfir á stærri skip og að lokum á togara. Hann kláraði Stýrimannaskólann 1943. Varð stýrimaður stuttu seinna (mest hjá eldri bræðrum sínum) og að lokum skipstjóri. Þetta lá allt beint fyrir, allir bræðurnir (Halldór og Pétur Guðjón dóu þó ungir, en voru báðir á sömu leið) voru miklir skipstjórar og aflamenn, einnig eiginmenn Elínar (Friðgeir Eyjólfsson bróðir mömmu) og Ólavíu (Þórður Sigurðsson) enda enginn kvóti.
Öll Auðuns fjölskyldan stritaði allt lífið og var með til byggja landið í og eftir aðra heimsstyrjöld, saman með sinni kynslóð. Ísland væri kannski ekki það sama í dag án dugnaðar þessarar kynslóðar. Aflaverðmætið sem bræðurnir báru að landi á sínum skipum var mikið og saman með öðrum harðduglegum sjómönnum á öðrum skipum, varð þetta að gífurlegum verðmætum fyrir land og þjóð.
Pabbi hóf sinn skipstjóraferil 1949 á Goðanesinu frá Neskaupstað, síðan Kaldbak á Akureyri. Fleiri af bræðrunum bjuggu einnig á Akureyri og voru með skip þaðan.
Pabbi og mamma fluttu til Reykjavíkur 1956 og pabbi tók þar við Geir, seinna Fylki og síðan Narfa í mörg ár, meðal annars á móti Auðunni bróðir sínum. Síðasti togarinn sem pabbi var með var skuttogarinn Otur frá Hafnarfirði og þannig endaði hringurinn hjá skipstjóranum Gunnari Auðunssyni, frá Otri til Oturs.
Eftir að pabbi hætti fiskimennsku var hann skipstjóri á hafrannsóknarskipinu Hafþór og vann ýmis önnur störf sem tengdust sjó og sjávarútvegi. Var hann ekki að vinna, þá var hann örugglega niður við höfn að tala við nýja og gamla vini og kunningja. Fyrirgefðu Gróa mín að ég er seinn á því, ég lenti á kjaftatörn&.
Eins og margir af mínum frændum var ég með pabba á sjó og þannig kynntumst við frændurnir í raun og veru feðrum okkar. Það rann seinna upp fyrir okkur hvers vegna þeir vildu að við værum með, þeir voru aldrei heima og vildu vera með okkur. Við frændurnir eigum margar góðar minningar frá þessum árum á sjó með feðrum okkar.
Heiðursmaður og öðlingur. Það eru þau orð sem ég hef heyrt mest um pabba frá þeim sem þekktu hann. Vel liðinn af fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum. Flestir þeirra sjómanna og annarra sem ég hef hitt og/eða unnið með þekktu pabba og naut ég ævinlega góðs af því. Jæja, ertu sonur hans Gunnars Auðunssonar. Þú verður á vakt með mér&. Heiðursmaður sögðu þeir (og bættu stundum við &og reif lítið), hvort sem þeir höfðu verið með pabba til sjós eða kynnst honum á annan hátt.
Pabbi var einstaklega lítillátur og hógvær og miklaði sig aldrei yfir sínum gjörðum. Eitt dæmi þess er sölumetið með Narfa í Grimsby í Englandi um páska 1974. Það var ísað fyrir siglingu og fullhlaðið skip af þorski frá Austur Grænlandi var á leið til Englands. Komið var við í Keflavík, mamma kom um borð, stór hluti áhafnarinnar fékk siglingarfrí og síðan var haldið út. Skipið var losað aðfaranótt fyrsta vinnudags eftir páska og þetta var nær því eini fiskurinn á markaðnum morguninn eftir og verðið fór upp úr öllu valdi. Pabbi minntist aldrei á þetta að fyrra bragði, sem og annað úr lífi sínu sem var sérstakt á einhvern hátt eða honum til heiðurs. Við synir Gunnars, Auðuns og Þorsteins vitum þó að bræðrunum hitnaði um hjartarætur þegar þeir fengu gullpening á sjómannadegi Akureyrar 2003.
Ég bað pabba á hans eldri árum að fella á blað skipin sem hann hefði verið á, en fékk alltaf sama svarið: Þetta skiptir engu máli núna&
&og nú er síðasti skipsstjórinn úr þessari stóru fjölskyldu dáinn.
Hafið, bláa hafið, hugann dregur.
Hvað er bak við ystu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Bíða mín þar æskudrauma lönd.
Beggja skauta byr
bauðst mér aldrei fyrr.
Bruna þú nú, bátur minn.
Svífðu seglum þöndum,
svífðu burt frá ströndum.
Fyrir stafni haf og himinninn.
(Örn Arnarson.)
Bless Pabbi&
Við óskum þér góðs byrs þangað sem þú ert að fara.
Fjölskylda og ættingjar. (Pétur Guðjón Gunnarsson.)