Svanur Steinar Rúnarsson fæddist 14. desember 1995. Hann lést 17. mars 2012. Foreldrar hans eru Stefán Rúnar Ásgeirsson, bóndi á Ásunnarstöðum í Breiðdal, f. 18. nóv. 1966, og Guðrún Friðriksdóttir, búsett á Húsavík, f. 13. sept. 1968. Systkini Svans Steinars eru: Aðalheiður Björk, f. 8. apríl 1987, sambýlismaður hennar er Sigurður Már Viðarsson, f. 13. ágúst 1986, Hildur Ellen, f. 7. okt. 1989, Ólöf Rún, f. 4. júlí 2003. Svanur Steinar ólst upp á Ásunnarstöðum í Breiðdal og bjó þar áfram hjá föður sínum eftir sambúðarslit foreldranna árið 2008. Hann lauk grunnskólaprófi frá grunnskólanum á Breiðdalsvík síðastliðið vor og sótti nám við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað frá því í haust. Hann vann að búinu heima fyrir og hafði mikinn áhuga á öllu er tengdist búskapnum, vélum og veiðum. Útför Svans Steinars fer fram frá Heydalakirkju í dag, 24. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 14.
Ásunnarstöðum 19.3.12.
Elsku hjartans fallegi Svanur Steinar minn. Orðin duga lítið núna og tárin streyma mikið. Þú verður ekki ásakaður, þetta var leiðin sem þú valdir. Ef einhver maður getur verið fullkominn þá ert það þú.
Svanur minn þú fylgdir alltaf þinni sannfæringu, réttlæti var þér umfram allt. Þú varst búinn að þola mikið en alltaf barst þú hag litlu systur þinnar fyrir brjósti og barðist fyrir hana eins og þú mögulega gast.
Það er mikið búið að ganga á, þvílík mannvonska. Þér þótti svo vænt um litlu systur þína og þegar verið var að brjóta á rétti hennar þá streymdu tárin niður kinnarnar á þér. Alltaf þegar styttist í að Ólöf kæmi þá spurðir þú oft á dag hvenær kemur Ólöf svo þegar hún var komin þá spurðir þú hvenær þarf Ólöf að fara? Þú vissir að hún vildi aldrei fara en þið fenguð aldrei að ráða neinu.
Þú varst samkvæmur sjálfum þér. Þegar þú vissir að það ætti að fara að minnka umgengni Ólafar hingað þá fékkst þú nóg. Tókst upp símann út í skóla og hringdir í sýslumann og félagsmálastjóra Fjarðabyggðar og sagðir þína skoðun en það var samt ekki hlustað. Félagsmálastjórinn sagði þér að hætta þessu bulli og nánast skellti á þig, sýslumaður hlustaði ekki heldur.
Þú Svanur minn, vissir manna best hvað litlu systur leið vel hér hjá okkur. Þegar við fórum á Fáskrúðsfjörð að sækja hana komum að lokuðum dyrum og fengum engin svör. Við grétum báðir á leiðinni heim og spurðum hvorn annan, afhverju má hún ekki koma til okkar? Hvað er að? Svona er búið að brjóta á ykkur elsku Svanur minn en ég spyr aftur og aftur, af hverju, af hverju, af hverju? Og þetta er komið svona í dag.
Þú fæddist snillingur elsku Svanur minn. Þegar þú fórst fyrst að ganga þá varst þú kominn upp í vélarnar með mér og hefur verið þar meira og minna allar stundir síðan. Strax þegar þú gast ýtt á kúplinguna þá varst þú orðinn besti vélamaður sem til var. Alltaf svo yfirvegaður og gætinn, ekkert raskaði þér. Heyskapur var hápunkturinn hjá þér þú varst gjörsamlega alsæll meðan á honum stóð, varst á vélunum allan daginn, þú gjörsamlega brostir hringinn. Það var alveg sama hvað gekk á þú varst alltaf svo ákveðinn í því að verða bóndi hérna Pabbi, þetta er svo gaman við verðum alltaf hérna! Við skulum fjölga fénu og vera með langstærsta búið.
Þú varst svo bjartsýnn og aldrei sagðir þú nei við því sem þú varst beðinn um. Allir krakkar dýrkuðu þig og allt fólk sem komst í kynni við þig, nærvera þín var alltaf svo notaleg, falleg framkoma og kurteis.
Ég var alltaf svo stoltur af þér, ekki síst þegar við fórum í sparifötin okkar, þú varst svo mikill herramaður og glæsilegur. Það var gaman þegar Hlífar var með okkur. Hann gjörsamlega dýrkaði þig og ekki að ástæðulausu. Þegar þú varst eitthvað að brasa þá horfði hann á þig aðdáunar augum og sagði gjarnan, sjáðu hann og horfðu á hann núna, ég er alveg bet hvað þessi drengur er mikill snillingur. Svo hjálpaði hann þér að kaupa fjórhjólið sem var búið að veita þér svo mikla ánægju.
Öll verk vannstu með glöðu geði, hvort sem það var smalamennska, sauðburður eða hvað annað sem gera þurfti. Alltaf stóð það upp úr ég ætla að vera bóndi hér. Veiðiskapurinn var þér í blóð borinn, þegar við fórum saman á hreindýraveiðar, þú á sexhjólinu með stór dýr á pallinum, þú gjörsamlega blómstraðir.
Það eru gleðistundirnar sem standa upp úr elsku Svanur minn og þær eru óteljandi. Það er mér dýrmætur styrkur að fá kveðjuna frá þér á þinni hinstu stundu, hún er mér ómetanleg. Megir þú hvíla í friði elsku Svanur Steinar minn.
Frá
pabba.