Sigurður Freyr Gunnarsson var Fæddur 31. mars 1967 . Hann lést í faðmi fjölskyldu og vina á heimili sínu þann 22. mars 2012. Móðir Sigurðar Freys er Jófríður Guðjónsdóttir f.28.10.1946. Móðir Jófríðar var Sigríður Guðbjörg Steinþórsdóttir fædd 23.9.1917 d.4.4.2001. Faðir Guðjón J. Brynjólfsson f.16.12.1916 d.4.9.1992 Faðir Sigurðar Freys er Gunnar Randver Ingvarsson f. 31.3.1944. Hans móðir var Guðný Fjóla Gísladóttir f.4.2.1917 d. 7.10.1967. Faðir Ólafur Ingvar Guðfinnsson f. 4.11.1908 d.9.7.1993. Bræður Sigurðar Freys eru, 1)Guðni Þór f. 7.3.1968. Hans kona er Bjarnþóra Íris Eiríksdóttir, Guðni á tvö börn. 2)Frosti Viðar f.5.3.1972. Hans kona er Kristín Halla Hannesdóttir, þau eiga þrjú börn. 3)Gunnar Hrafn f.20.12.1983 Eiginkona Sigurðar Freys er Rakel Óskarsdóttir fædd 29.3.1966. Móðir Ingibjörg Andersen f. 14.12.1939, faðir Óskar Þórarinsson f. 24.5.1940 Börn Sigurðar Freys og Rakelar eru; Andrea Þórey f.23.7.2001 og Sindri Aron f. 20.09.2004. Fyrir átti Sigurður Freyr, Egil Frey f. 25.1.1991 hans móðir er Guðrún Glódís Gunnarsdóttir. Sigurður Freyr ólst upp í Hraunbænum til 7 ára aldurs en þá flutti fjölskylda hans í Kópavogin og gekk hann í Snælandsskóla. Sigurður hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík sem sumarafleysingamaður árið 1988 og með lögregluskólanum var hann í Lögreglunni í Kópavogi. Hann útskrifaðist úr lögregluskólanum árið 1990 Hann starfaði í Sérsveit Ríkislögreglustjóra frá 1999. Útför Sigurðar Freys fer fram frá Háteigskirkju í dag 28.mars 2012 og hefst athöfnin kl.15.

Mars 2012.
Elsku bróðir okkar er fallinn frá eftir erfiða baráttu við krabbamein. Sigurður, sem var svo ákveðinn og harður af sér, laut í lægra haldi fyrir þessum óvini sem fellir svo marga.
Margar minningar koma upp í hugann þegar maður hugsar til baka, eins og þegar við vorum litlir og lékum okkur saman í fótboltaspili á gólfinu í herberginu okkar í Hraunbænum, þá var keppnisskapið svo mikið að þegar einn okkar skoraði þá þurfti að rífa litlu stálkúluna, sem notuð var í spilinu, út úr markinu og hefja strax stórsókn og jafna leikinn. Í einni atlögunni hafði Sigurður skorað og hló innilega og gladdist yfir því að vera að vinna en kúlan var tekin úr markinu, henni stillt upp fyrir framan einn fótboltakallinn á borðinu og skotið að marki hans. Ekki vildi betur til en svo að kúlan fór í háum boga beint uppí Sigurð og rann hún þaðan beint niður í maga. Það var ekki spilað meira þann daginn.
Sigurður var mikill knattspyrnumaður þegar hann var unglingur og náði þar góðum árangri eins og til dæmist Íslandsmeistari með Þrótti í innanhúsbolta árið 1984, en það var annað og meira honum hugfangið sem tók við eftir unglingsárin. Lög og regla áttu hug hans allan og sterkt í minningunni er þegar hann klæddist lögreglubúningnum í fyrsta sinn eftir að hafa lokið lögregluskólanum. Hann var mjög stoltur af þessum árangri sem hann náði en lét það ekki duga því hann vildi ná lengra sem hann og gerði. Að ganga í gegnum það erfiða ferli að gerast sérsveitarmaður er ekki fyrir hvern sem er, en það kom okkur bræðrunum ekkert á óvart þegar hann kláraði það með stæl.
Dugnaðurinn og krafturinn í Sigurði var það mikill að það nægði honum ekki að vera sérsveitarmaður, heldur var næsta markmið að ganga á fjallstinda. Hæstu fjöll Íslands dugðu ekki til heldur þurfti að fara út í heim til að finna nægilega krefjandi áskorun og Mont Blanc var sigrað. Ef heilsan hefði ekki brostið erum við vissir um að Everest hefði verið næst.
Við bræðurnir og pabbi kepptum árlega í golfmóti sem móðir okkar kom á og kallaðist það Fríða open. Þar var gleðin og léttleikinn í fyrirrúmi, mikil keppni í gangi og ekkert gefið eftir. Sigurður sýndi mikið keppnisskap í golfinu og nennti ekki að vera að neinu drolli og ef ljóst var að holan var töpuð þá átti að rjúka á næsta teig og halda áfram. Eitt sinn þegar við hinir vorum eitthvað lengi að slá okkar bolta og hann hafði slegið sinn út í skurð rauk Sigurður af stað á undan okkur og stillti upp á næsta palli og beið þar eftir okkur drollurunum. Hann vildi alltaf vinna og lagðist í stífar æfingar til að bæta sinn leik og tókst að vinna síðasta golfmótið sem við spiluðum saman áður en veikindin tóku þróttinn.
Þrátt fyrir harða skel og mikið keppnisskap var Sigurður mikill húmoristi og var oft mikið hlegið og grínast þegar við allir bræðurnir komum saman á hátíðisdögum.
Ef Sigurður hefði getað séð þennan óvin sinn og barist við hann í heiðarlegum bardaga þá er ekki nokkur vafi á að hann hefði sigrað, hann var það ákveðinn og mikill keppnismaður og gafst ekki upp þótt staðan væri vonlítil.
Við minnumst Sigurðar fyrir það sem hann stóð. Alltaf traustur vinum sínum og ættingjum. Farðu í friði elsku besti stóri bróðir og við vitum að þú verður búinn að byggja handa okkur stórt hús þegar við hittumst hinum megin. Við elskum þig og munum ávallt minnast þín með gleði í hjarta.
Þínir bræður,

Guðni Þór, Frosti Viðar og Gunnar Hrafn.