Jónína Magnúsdóttir fæddist í Másseli í Jökulsárhlíð 5. janúar 1927. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar á Líknardeild LSH 22. mars 2012. Foreldrar hennar voru Magnús Arngrímsson, f. 21.2. 1887, d. 30.6. 1977 og Guðrún Helga Jóhannesdóttir, f. 10.12. 1896. d. 11.6. 1951. Systkini Jónínu voru Guðrún Jóhanna, f. 1917, d. 2002, Kristín, f. 1918, d. 2010, Þorbjörn, f. 1920, d. 1992, Ingimar, f. 1922, d. 2006, Heiðrún Sesselja, f. 1924, d. 1993, Arngrímur, f. 1925, d. 2007, Eiríkur, f. 1928, d. 2012, Valgeir, f. 1932, Hörður Már, f. 1933, d. 1992 og Ásta, f. 1941. Ninna eignaðist eina dóttur, Helgu Hrönn f. 7.11. 1962. Hún er gift Viggó Haraldi Viggóssyni, f. 13.1. 1963. Börn þeirra eru 1) Kristín Helga Viggósdóttir, f. 10.6. 1978, maki Ragnar Árnason. Börn þeirra eru: Birta Lind, f. 28.11. 2003 og Birkir Ingi, f. 3.5. 2007. 2) Viggó Helgi Viggósson, f. 11.10. 1987, sambýliskona Lilja Karen Steinþórsdóttir. 3) Andri Hrafn Viggósson, f. 14.6. 1996. Ninna fæddist í Másseli í Jökulsárhlíð og bjó þar fyrstu 6 ár ævi sinnar. Hún fór þá í fóstur í Sleðbrjótssel í sömu sveit þar sem hún var að mestu þar til að hún fór í húsmæðraskóla. Ninna var í farskóla í Jökulsárhlíðinni og 2 ár í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Foreldrar Ninnu fluttu í nýbýlið Hólmatungu árið 1948 og þegar móðir hennar lést flutti Ninna aftur heim og annaðist um föður sinn og yngri systkini um 6 ára skeið. Ninna starfaði meirihluta starfsævi sinnar sem matráðskona og lengst af á leikskólanum Selásborg sem síðar varð Rofaborg. Hún flutti í Árbæinn í Reykjavík 1972 og bjó þar til æviloka. Ninna verður jarðsungin frá Árbæjarkirkju í dag, 28. mars 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku besta amma mín það er svo ótrúlega erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um þig. Ég er svo heppin að eiga óteljandi yndislegar og góðar minningar um þig og ekki eina slæma. Ég man ekki eftir því að þú hafir reiðst mér, eða nokkrum öðrum. Þú bjóst yfir ótrúlegu jafnaðargeði og æðruleysi, þú tókst bara hlutunum eins og þeir komu. Ninna amma var besta fyrirmynd sem hugsast getur, heilsteyptari og fallegri sál er ekki hægt að finna.

Þú varst mér svo miklu miklu meira heldur en bara amma, þú varst eiginlega hin mamma mín. Þú kenndir mér svo margt og þér þótti svo óendanlega vænt um mig, eins og mér þykir óendanlega vænt um þig. Þú hefur alltaf verið svo stór og mikilvægur hluti af mínu lífi. Ég er svo þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum saman. Og þó að það hafi verið ofboðslega sárt að horfa á þig veikjast og finna til þá er ég samt svo þakklát fyrir að hafa fengið að kveðja þig vel.

Þrjár síðustu næturnar þínar gistum við mamma til skiptis hjá þér. Fyrstu nóttina var ég hjá þér og þegar ég sagði þér að ég ætlaði að fara að sofa þá mjakaðir þú þér til í rúminu þínu til að búa til pláss fyrir mig , þú sem varst svo ofsalega lasin og þróttlaus fannst kraft til að búa til pláss fyrir mig, það lýsir þér svo vel. Ég lagðist við hliðina á þér og hélt í höndina þína. Þú varst með mikla verki og ég vildi fara og ná í verkjalyf fyrir þig, þú tókst þétt í höndina mína og sagðir nei við skulum bara fara að sofa.

Ég gisti oftast hjá ömmu, alveg þar til ég var að verða tvítug. Ég átti mitt rúm í herberginu hennar. Á morgnanna um helgar gerði amma alltaf alvöru kakó og gaf mér kökur og kleinur með. Kleinurnar hennar og hjónabandssælan voru bestar í heimi.

Eftir að amma greindist aftur með krabbameinið, sem nú var búið að dreifa sér í beinin, tókst hún á við sjúkdóminn af einstöku æðruleysi, dugnaði og hugrekki. Hún var svo ánægð að ég, hjúkrunarfræðineminn, gæti lært eitthvað af þessu öllu. Ég fékk að fara með í læknisviðtöl og allskyns rannsóknir og alltaf kynnti hún mig sem ömmustelpuna sína sem er að læra hjúkrun. Þú varst svo stolt af mér elsku amma og ég ætla að halda áfram að gera þig stolta. Ég er búin að læra svo mikið af því að fylgjast með þér og þínum veikindum. Þú varst svo svakalega sterk og kveinkaðir þér aldrei, ég held að stundum hafir þú verið of sterk. Þín veikindi voru mitt stærsta verknám, eins og það er nú sárt að hugsa um það þá veit ég að þú varst ánægð með að ég gat lært eitthvað.

Elsku amma mín allir vettlingarnir, ullarsokkarnir og lopapeysan sem þú prjónaðir á mig munu ylja mér í framtíðinni. En það munu líka allar yndislegu, fallegu og góðu minningarnar sem ég á um þig gera um ókomna tíð og mun ég geyma þær á sérstökum stað í hjartanu mínu.

Ég segi nú eins og við sögðum alltaf við hvora aðra. Góða nótt elsku besta amma mín, Guð og englarnir geymi þig, dreymi þig vel og sömuleiðis.
Takk fyrir allt.
Þín ömmustelpa,

Kristín Helga.