Write fyrirsögn Klemens Baldvin Sigtryggsson Write ævi Klemens B. Sigtryggsson var fæddur 12.3. 1935 í Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað 2. apríl 2012. Foreldrar hans voru Páll Sigtryggur Björnsson frá Gilsárteigi í Eiðaþinghá, fæddur 22.5. 1902, d. 11.12. 1991 og María Ólafsdóttir frá Hvassafelli í Borgarfirði syðri, fædd 28.10. 1905, d. 21.8. 1979. Systkini Klemensar eru; Guðborg Björk f. 28.7. 1931, Björn Jón f. 5.5. 1937, Kristinn Reynir f. 13.4. 1943, Arndís Sveinlaug f. 28.4. 1945, og Sigurbjörn f. 16.2. 1948, d. 9.7. 2009. Eiginkona Klemensar er Sigríður Björgvinsdóttir fædd 12.9. 1940 á Akureyri. Hún ólst upp í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Björgvin Sigmar Stefánsson, fæddur 4.10. 1910, dáinn 9.11. 1972 og Kristín Böðvarsdóttir fædd 15.6. 1920, dáin 30.3. 1949. Fósturmóðir Sigríðar er Selma Böðvarsdóttir fædd 17.4. 1918, sem dvelur á Hrafnistu í Hafnarfirði. Börn Klemensar og Sigríðar eru; 1) Kristín Guðný Klemensdóttir f. 28.9. 1959. Börn hennar og fyrrum eiginmanns, Hallgríms Harðarsonar eru a) Klemens f. 5.2. 1980. b) Sigfríð f. 14.11. 1986. 2) María Björg Klemensdóttir f. 4.10. 1961. Börn hennar og fyrrum sambýlismanns, Jóhanns Hlíðar Harðarsonar eru a) Sindri f. 8.2.1989. b) Lára Rut f. 5.11. 1992. 3) Selma Ragnheiður Klemensdóttir f. 9.11. 1965, gift Birni Hallgrímssyni f. 18.6. 1963. Börn þeirra eru a) Guðrún Ljósbrá f. 2.9. 1989, b) Egill Örn f. 17.3. 1991 c) Ester Sif f. 14.3.1996. 4) Ólöf Birna Klemensdóttir f. 1.5. 1967 gift, Sigurði Bjarna Richardssyni f. 26.6. 1967, börn þeirra eru a) Richard Sæþór f. 27.9. 1997 b) Sigríður Lilja f. 10.7. 2001 c) Thelma Lind f. 3.3. 2004. 5)Arnar Ágúst Klemensson f. 21.10. 1970. Í sambúð með Bryndísi Guðjónsdóttir f. 16.3. 1973, börn hennar eru Guðmundur Smári f. 31.10. 1991, Eva f. 23.3. 2002, Sóley f. 19.4. 2005 og Anna Marín 10.10.2008. Klemens flutti fjögurra mánaða gamall til Seyðisfjarðar og ólst þar upp. Hann gekk í Seyðisfjarðarskóla, síðan lá leiðin í Alþýðuskólann á Eiðum. Klemens fór síðan til Keflavíkur og starfaði á Keflavíkurflugvelli þar til hann fór í nám í rafvirkjun. Klemens lauk sveinsprófi í júní 1960, fékk síðan meistararéttindi 1964. Hann vann lengst hjá Leifi Haraldssyni rafvirkjameistara á Seyðisfirði. Um tíma vann hann sjálfstætt og starfaði síðar hjá Rafver í Reykjavík og hjá Jóhanni Jóhannssyni á Stöðvarfirði. Klemens stundaði ýmsar íþróttir á sínum yngri árum þ.ám. skíði og fimleika hjá Birni Jónssyni. Hann hafði gaman af tónlist og söng í samkórnum Bjarma á Seyðisfirði. Leiðin lá til Hafnarfjarðar þar sem hann bjó hjá Guðborgu systur sinni um tíma, þar kynntist hann Sigríði, eftirlifandi eiginkonu sinni. Sigríður og Klemens gengu í hjónaband 19. apríl árið 1959. Þau bjuggu fyrstu hjúskaparárin í Hafnarfirði en fluttu síðan til Seyðisfjarðar árið 1963 og bjuggu þar alla tíð síðan. Þau hjónin áttu hlýtt og traust heimili sem alltaf var gott að koma á og oft gestkvæmt og glatt á hjalla. Klemens naut sín vel þegar börnin, tengdabörnin og barnabörnin voru öll saman komin á Bakkanum. Klemens hafði mikinn áhuga á tréútskurði sem hann dundaði við á seinni árum og má sjá víða á heimili þeirra hjóna og barna þeirra. Hann var flinkur með blýantinn og gerði margar blýantsteikningar á sínum yngri árum, elskaði garðinn sinn og var þar löngum stundum og Perla hundurinn okkar aldrei langt undan. Hann verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju í dag, 14. apríl 2012 kl. 14.

Klemens móðurbróðir okkar hefur ávallt verið okkur mjög kær og tengsl milli fjölskyldna okkar sterk. Það er sárt að kveðja Mensa, einn af þessum stoðum í grunninum og erfitt að sjá fyrir sér að standi ekki lengur.

Árið 1935 komu þau systkinin til Seyðisfjarðar ásamt foreldrum sínum. Fjölskyldan var að flytja frá Eiðaþinghá þar sem þessi elstu systkini tvö voru fædd. Móðir okkar hefur oft talað um þessa minningu sína þar sem þau fengu far í bíl með opnum palli en fengu að sitja inní bílhúsinu.

Hún var 4 ára en Klemens 4 mánaða og amma María sat með hann vafinn inn í sæng á leiðinni. Ætíð síðan hefur strengurinn tengt þau saman og við börnin í þessum fjölskyldum alist upp við það.

Á tímabili bjuggu fjölskyldurnar saman á Bjólfsgötu 6 á Seyðisfirði og síðar í sitt hvorri götunni inn á bökkum. Öll þessi nálægð gerði það auðvitað að verkum að ótal minningar barnæsku okkar virðast vera samofnar Mensa og fjölskyldu hans. Börnin í báðum fjölskyldum voru á svipuðum aldri og vináttubönd mynduðust milli þeirra. Mamma átti ekki bara þetta samband og órjúfanlegu tengsl við bróður sinn heldur var svo heppin að þegar Mensi eignaðist sinn lífsförunaut, hana Siggu sína þá sömuleiðis eignaðist mamma vinkonu sem treysti þessi bönd enn frekar. Mesta lukkan í lífi Mensa var án efa að finna hana Siggu, þessa einstöku, hjartahlýju konu sem hefur hvatt hann áfram í blíðu og stríðu með óþrjótandi ást og umhyggju sem allir í kringum fá líka endalaust notið af. Ekki nokkur maður gæti eignast betri samferðamann í lífinu en hana Siggu.

Fyrir lítil börn var Mensi sá sem þau tóku eftir. Hann vann þau á sitt band þótt þau ættu það sum til að verða skelkuð við þennan skeggjaða karl. En hann náði þeim alltaf á sitt band. Ef hann náði þeim ekki með stríðnispúkahætti sínum var öruggt að óþrjótandi birgðar af súkkulaði voru vísar með að fá þau til að elska Mensa og ekki að ástæðulausu að sum börnin í fjölskyldunni kölluðu hann súkkulaðikarlinn. Við upplifðum þetta sem börn og seinna meir horfðum við á þetta gerast með hverju nýju barni sem kom í heimsókn til Mensa og Siggu. Athyglin hjá Mensa var alltaf fyrst á börnin sem komu. Við sáum börnin knúsa Mensa, rétt eins og við höfðum alltaf gert og sáum þau flissa þegar skeggið kitlaði litlu kinnarnar. Það er líka eins og hlýja hans og faðmlag hafi stækkað með árunum, eins og gjarnan gerir með svona menn sem eru gerðir til að vera afar.

Þau voru líka sannarlega fjársjóður hans, fjölskyldan. Enda talaði hann um demantana sína, börnin og barnabörnin.

Einhver uppáhalds barnæskuminning okkar er Mensagjöfin. Einhvern tíma á yngri árum ákváðu pabbi okkar og Mensi að vera ekki að gefa hvor öðrum eiginlega jólagjafir eins og mamma og Sigga gerðu alltaf. Þeir ákváðu að gjöfin yrði eitthvað sprell sem átti ekki að kosta mikið. Það gat verið pínulítill hlutur sem var vafið endalaust utan um af dagblöðum og endaði í risastórum kassa. Innpökkunin og jólakortið var oftast aðalmálið og pabbi sat stundum og teiknaði og ljósritaði myndir til að búa til rétta útlitið á gjöfina handa jólasveininum á Ljósafelli.

Öll hersing heimilisins rölti yfir til Mensa og Siggu þegar leið á aðfangadagskvöld með Mensagjöfina og svo öfugt, Mensa-hersingin kom yfir til með gjöf til pabba. Í báðum tilfellum upphófst mikið leikrit hjá þeim við að opna dularfullu gjöfina sem var það sem við hlökkuðum mest til. Gjöfin var heilt leikrit og leyfði þeim að vera sprellikarlar kvöldsins og við krakkarnir veittum þeim það sem þeir vildu, veltumst um af hlátri af þessu öllu. Við systur vorum svo byrjaðar að safna hugmyndum í janúar fyrir pabba að Mensagjöf fyrir næstu jól.

Við erum ákaflega þakklátar fyrir allar þær minningar sem samveran með Mensa hefur gefið okkur. Ekki síst eru síðustu minningarnar dýrmætar, að hafa hist þessa daga, knúsað hann og kysst á skeggjaðan vangann og fá að finna hlýju hans í síðasta sinn.

Við, ásamt fjölskyldum okkar, systkinum og mömmu, sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til þín, elsku Sigga, sem og til frændsystkina okkar Stínu, Mæju, Selmu, Ólöfu, Arnari og fjölskyldum ykkar. Við þekkjum hvernig er að upplifa skarðið sem verður eftir í svona fjölskyldu, vitum að ekkert sem neinn segir bætir neinu í þetta skarð, það er og verður. Með tímanum lærir maður að lifa með því þó að söknuðurinn verði ávallt til staðar. Hugur okkar allra er með ykkur.

Guðrún og Sigurveig Gísladætur