Björn H. Hermannsson fæddist á Ísafirði 21. apríl 1947. Hann lést 27. apríl 2012. Hann var sonur hjónanna Hermanns Sigurðar Björnssonar póstafgreiðslumanns, f. 4. desember 1917 á Ísafirði, d. 14. maí 1994, og Sigríðar Áslaugar Jónsdóttur húsmóður, f. 5. janúar 1922 í Hafnarfirði, d. 23. júlí 1994. Björn ólst upp á Ísafirði ásamt systkinum sínum sem öll eru á lífi. Þau eru Erling Þór, f. 1941, Sesselja Áslaug, f. 1943, Ásthildur Inga, f. 1945, Jón Gestur, f. 1948, og Ásdís Sigríður, f. 1949. 30. júní 1967 kvæntist Björn Jensínu S. Guðmundsdóttur, f. 1948, þau skildu. Eignuðust þau fjögur börn: 1) Drengur óskírður, f. 1967, d. sama ár. 2) Hermann Sigurður, f. 1972, giftur Júlíu Rós Atladóttur, f. 1976, börn þeirra eru Hólmfríður, f. 2003, Björn Hermann, f. 2004, Friðgeir, f. 2008, og Berglind, f. 2010, áður átti Hermann börnin Alexander Má, f. 1992, og Irmu Lind, f. 1993. 3) Guðmundur Geir, f. 1975, börn hans eru Ísak Smári, f. 1996, Gunnlaugur Björn, f. 2001, og Elvar Örn, f. 2005. 4) Guðlaug Birna, f. 1981, sambýlismaður hennar er Tryggvi Freyr Elínarson, f. 1976, börn þeirra eru Bríet Hafnfjörð, f. 2009, og Styrmir Hafnfjörð, f. 2011. Kjörsonur Björns og sonur Jensínu er Guðmundur Móses, f. 1966, giftur Karen Anne Björnsson, f. 1968, börn þeirra eru Axel Þór, f. 1992, og Tara Huld, f. 1998. Hinn 25. ágúst 2000 kvæntist Björn Margréti Ásmundsdóttur, f. 1962, þau skildu. Eignuðust þau tvær dætur, Sigríði Áslaugu, f. 1998, og Herdísi Lilju, f. 2000. Björn byrjaði snemma að vinna hjá Landsímanum við útburð símskeyta og síðan alla almenna sumarvinnu eins og unglingar þess tíma voru vanir. Björn lærði rafvirkjun í Pólnum hf., vann þó aðallega við uppsetningu og viðhald kæli- og frystitækja víða um Vestfirði, var hann einn af eigendum þess fyrirtækis. Árið 1986 réðst hann sem skrifstofustjóri Vélsmiðjunnar Þórs hf. og síðar sem framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Vestfjarða hf. Þá rak hann um tíma bókhalds- og umboðsþjónustu á Ísafirði og var um tíma gjaldkeri safnaðar Ísafjarðarkirkju. Árið 1994 flutti hann að Laugarbakka í Miðfirði og starfaði sem sveitarstjóri Ytri-Torfustaðahrepps uns hreppurinn sameinaðist í Húnaþing vestra árið 1998. Þá flutti hann til Hafnarfjarðar og starfaði hjá Tölvumiðlun hf. við þjónustu og ráðgjöf við bókhald sveitarfélaga fram til 2008. Árið 2009 réð hann sig til starfa sem bókari í Dalabyggð. Í lok árs 2011 fluttist hann í Reykjanesbæ þar sem hann starfaði hjá Keili til lokadags. Á Ísafirði var Björn virkur í félagsstarfi var m.a. bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs, sat í mörgum nefndum á vegum bæjarins, þá var hann í stjórn nokkurra fyrirtækja og var stjórnarformaður m.a. í Pólnum og Hótel Ísafirði til margra ára, þá starfaði hann í Rotaryklúbbi Ísafjarðar og í Oddfellowreglunni og gegndi æðstu trúnaðarstörfum í hvorum tveggja þessum félagasamtökum. Útför Björns Hermanns verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. maí 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku tengdapabbi, mikið sakna ég þín. Ég sakna þess að við fáum ekki fleiri símtöl frá þér, ekki fleiri tölvupósta, við munum ekki sjá svarta Volvoinn þinn renna í hlað og heyra krakkana kalla afi er kominn. Við getum ekki heimsótt þig lengur og sumarbústaðaferðirnar verða ekki fleiri hjá okkur. Við höfum farið nokkrum sinnum í íbúðina þína síðan þú kvaddir og þá fannst okkur við vera nær þér. En þetta er allt endanlegt, það verða ekki búnar til fleiri minningarnar, sem nú eru okkur svo dýrmætar og verða að duga.

Frá því við hittumst fyrst náðum við vel saman. Mín fyrsta minning, þegar ég mætti með Hermanni heim til þín að mála íbúðina þína í Álfaskeiðinu. Þú varst svo ánægður með að ég hefði mætt í málningargallanum til að hjálpa til og hitta þig þannig í fyrsta skiptið. Svo fluttum við síðar við hliðina á þér og þá varð sambandið á milli okkar enn sterkara og betra og jókst og batnaði þangað til yfirlauk og það erum við svo þakklát fyrir. Við höfðum sömu sýn á lífið og höfðum gaman af því að rökræða, sérstaklega um pólitík þar sem við vorum á öndverðu meiði. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við höfðum saman en líka leið yfir því að við fáum ekki lengri tíma með þér. Eftir að þú veiktist og skildir styrktust böndin á milli okkar enn frekar. Ég er stolt af Hermanni mínum sem hugsaði svo vel um þig í veikindum þínum, hann er kominn yfir það að vera reiður yfir því að þú veiktist og er þakklátur fyrir þann dýrmæta tíma sem þið hafið átt saman. Það er gott að þið náðuð að tala vel saman og ekkert var eftir ósagt þegar þú kvaddir.

Það hefur verið gaman að hlusta á ykkur Hermann ræða um tímann á Ísafirði. Þið hafið greinilega átt yndislega tíma í Góuholtinu á Ísafirði og öll fjölskyldan talar um þá tíma með stjörnur í augunum, það var alltaf allt best í Góuholtinu. Þú, töffarinn þinn, hefur verið uppá þitt besta á þeim tíma. Virkur í pólitíkinni, Oddfellow, utanlandsferðum og endalausum partíum eða þannig eru allavega sögurnar.

Þegar við Hermann giftum okkur varstu svo stoltur. Þú varst ánægður með konuna sem Hermann þinn valdi sér og framtíðin blasir við okkur. Við Hermann höfum átt góð ár saman og munum halda áfram að rækta samband okkar. Þú sagðir okkur að það væri til mikils að vinna að eiga gott hjónaband og ég veit að þú sást eftir að hafa ekki reynt meira til að bjarga þínu fyrsta hjónabandi. Þú gafst mér líka gott ráð á brúðkaupsdaginn, þú sagðir orðrétt Júlía verður nú samt að hafa í huga að eins og pabbinn þá er Hermann mikill græju karl, ekki minna en fimm fjarstýringar og græjurnar þurfa að vera fínar það dugar ekkert drasl, þá er eins gott að sleppa þeim bara. Svo er hann nú mikill snyrtipinni og dálítið pjattaður með sig.. Þarna hittir þú naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Áhugi ykkar á rafmagnstækjum og bílum voru ykkur sameiginleg og það var gaman að fylgjast með ykkur niðri í bílskúr að laga bílana ykkar. Allir símarnir sem þið eruð búnir að kaupa ykkur að ógleymdum GPS tækjunum sem þið höfðuð báðir kveikt á þegar þið voruð að keyra á milli hvors annars, dásamlegir eruð þið.

Síðan fæddust börnin okkar eitt af öðru og þú varst góður afi, börnin okkar sakna nú afa síns og rifja upp góðar minningar. Björn Hermann, alnafni þinn, er ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar. Hann er reiður og segir bara að hann vilji ekki að þú farir frá okkur. Hann skilur ekki af hverju þú fékkst ekki bara einhver lyf í vinnunni minni. En stundum er því miður engin lausn í boði. Þú ert búinn að vera svo duglegur í þessum ömurlegu veikindum. Þau eru orðin allmörg símtölin þar sem Hermann hefur stappað í þig stálinu þegar baráttan var of erfið, ohh hvað ég skildi þig, þú ert oft búinn að vera svo veikur og líða svo illa. Eftir að þú varst farinn frá okkur var Hermann að sýna Birni Hermanni myndir af þér þegar þú varst lítill og þið eruð svo líkir. Björn Hermann er vel settur með að heita sama nafni og þú og vera líkur þér. Hólmfríður grætur, hún var svo ánægð þegar þú fluttir nær okkur um áramótin því þá yrðum við meira saman, en ekki fékkstu langan tíma eftir að þú komst nær okkur. Hólmfríður var búin að skrifa þér falleg bréf þar sem hún óskaði þess að þú værir ekki lengur veikur. Bréfin sá hún síðan heima hjá þér eftir að þú kvaddir, því miður varð henni ekki að ósk sinni.

Friðgeir litli töffarinn þinn. Þér fannst hann svo skemmtilegur og varst svo hrifinn af því hvað hann vildi alltaf vera fínn til fara eins og afi sinn. Hann vill alltaf vera í skyrtu og helst vesti líka. Litli grallarinn, við verðum að vera dugleg að halda minningunni um þig á lofti svo hann gleymi þér ekki.

Elsku Berglind litla heimsótti þig mest á sjúkrahúsið og alltaf vildi hún fara aftur og aftur til afa síns, hún vissi að þú eða systkini þín sem voru í heimsókn hjá þér, ættu Ópal. Hún er varla farin að segja neitt en rétt áður en þú kvaddir okkur sagði Berglind afa. Þegar þú varst sem veikastur sat Berglind við rúmið þitt og strauk á þér hendina, hún missir af miklu að fá ekki að kynnast þér betur.

Við heimsóttum þig oft í Búðardal, ég er ánægð með að við vorum dugleg að heimsækja þig þangað. Þegar við komum keyrandi heim til þín stóðstu útá hlaði og beiðst eftir okkur, þegar inn var komið varstu búinn að baka köku og síðan grilluðum við saman. Á árunum þínum í Búðardal fannst mér við eiga góða stundir saman, heilsan var nokkuð góð. En það var alltaf mjög erfitt að kveðja þig þegar þú varst í Búðardal því þú varst einmanna þar. Þér fannst þú vera alltof langt frá fólkinu þínu og þú vildir koma nær. Þú ákvaðst því að sækja um vinnu hjá Keili og þegar ég las ferilskrána þína yfir þá sagði ég við þig þú færð þessa vinnu. Ferilskráin þín var glæsileg, enda varst þú bæði klár og hafðir tekist á við mörg krefjandi verkefni í gegnum tíðina. Mér fannst þú algjör töffari í lok síðasta árs þegar þú fékkst vinnuna á Keili, þá með krabbamein og atvinnuleysið á landinu hvergi meira á en á Suðurnesjum.

Þú varst alltaf svo flottur á því og góður maður, ég man þegar þú hringdir í mig í vinnuna og baðst mig um að koma út. Þegar ég kom út réttir þú mér rafmagnsketill og sagðir ég fór og keypti þetta handa ykkur, það er ómögulegt að þið séuð að hita vatn í potti. Þú varst snobbaður, en ekki á neikvæðan hátt, þú hafðir gaman af dýrum og fallegum hlutum. Þegar við Hermann giftum okkur og hann keypti sér jakkaföt í Boss fannst þér ekki annað koma til greina en hann fengi sér Boss sokka líka. Þegar þú varst fluttur á Suðurnesin og varst með alla fjölskylduna þína í heimsókn, varstu meira og minna með tárin í augunum, fjölskyldan þín var þér svo mikilvæg. Þú varst ósáttur við að loksins þegar þú varst kominn nær okkur hafðir þú ekki heilsu til að njóta þess.

Síðustu dagar hafa verið afar erfiðir. Við Hermann erum sammála um að við vissum ekki við hverju var að búast þegar þú myndir kveðja. Við grátum til skiptis og eigum erfitt með að sætta okkur við að þú sért farinn. Ég hef fylgst af aðdáun með Hermanni undirbúa útförina þína, taka á móti vinum þínum í Oddfellow, hringja í alla og halda utan um allt. Á milli ykkar hefur þróast afar fallegt samband, Hermann hefur misst mikið en ber sig vel. Það var góð ákvörðun sem Hermann tók fyrir tveimur árum þegar hann ákvað að segja upp vinnunni til að vera heimavinnandi og hugsa um börnin. Önnur stór ástæða fyrir þessari ákvörðun hans var að geta hugsað betur um þig og það gerði hann svo sannarlega. Ég veit að þú varst stoltur af Hermanni þínum og það máttir þú vera, hann er gull af manni rétt eins og þú.

Elsku tengdapabbi, nú verða leiðir að skilja allavega í bili. Ég þakka þér fyrir að hafa trú á mér, ég þakka þér fyrir að hafa hvatt okkur til dáða, ég þakka þér fyrir að vera stoltur af fjölskyldu þinni, ég þakka þér fyrir að hafa verið frábær pabbi, tengdapabbi og afi, ég þakka þér fyrir að hafa verið duglegur að rækta sambandið við okkur, ég þakka þér fyrir allt. Hvíldu í friði, nú ertu hjá foreldrum þínum sem þú hefur saknað svo mikið, þú áttir góða ævi og eftir þig lifa yndisleg börn og barnabörn. Ég elska þig.

Þín tengdadóttir,

Júlía Rós.

Þegar ég lít yfir farinn veg, koma fram minningar um Bjössa Hermanns nánast frá öllum æviskeiðum. Í frumbernsku áttum við báðir heima í Silfurgötunni, hann á efri hæðinni hjá Guðmundi Guðmundssyni í Silfurgötu 7 og ég hinum megin við götuna í Silfurgötu 8a, þar sem foreldrar mínir leigðu hjá Sigga Ásgeirs bróður pabba. Á þessum tíma var Silfurgatan full af börnum á okkar reki, Ingibjörg Guðmunds, Kolla Sveinbjarnar, Bjössi Gunnars, Nonni Bjartar, Gylfi Ásgeirs og svo stærri krakkar, en allir léku sér saman og við litlu púkarnir fengum oftast að vera með í útileikjunum. Fallegar minningar frá þessum tíma, held að það hafi alltaf verið sól, en samt man ég eftir að við fengum að leika okkur saman  inni, ef veðrið var ekki gott. Ég man að Bjössi var góður í skák,en ég var jafn lesblindur á mannganginn og á stafrófið.

En svo breyttist allt í götunni, Bjössi Hermanns flutti upp á Engjaveg, Bjössi Gunnars flutti upp í Mánagötu, Gylfi flutti til Reykjavíkur og við fluttum niður í Tangagötu. Bjössi var orðinn Engjavegspúki og ég varð Bakkapúki, en þá var það skólinn sem sameinaði okkur aftur, gamli Barnaskólinn með þessa sterku sál og skóla-afa og takka á handriðunum svo að við renndum okkur ekki. Og þá lágu leiðir Bakkapúka, Engjavegs- og Hlíðarvegspúka og jafnvel Brunngötupúka saman og til varð eins konar fjölmenningar klíka. Fyrst voru það Mangi, Þói og Dený sem tóku Bakkapúkann í sátt, og seinn kom Bjössi Hermanns inn í þessa púka-klíku, sem upplifði alls konar ævintýri saman í útilegum, útileikjum og fann upp á ótrúlegustu skemmtilegum uppátækjum, alltaf í gleði og kátínu.

Og svo skildu leiðir aftur þegar ég fór í Menntaskólann á Akureyri en hinir 3 tókust á við fullorðinslegri leiki á Ísafirði og fjörðunum í kring, sem ég fékk svo að kynnast á sumrum í skólafríum.

Bjössi reyndist þroskast hraðar en við hinir og þegar við vorum enn algjörir kálfar, bað Bjössi sér konu og bauð í brúðkaup. Bjössi og Jenný Guðmunds hófu búskap í Sundstrætinu en bjuggu lengst af í Góuholti 2, ásamt 4 börnum sínum.

Að námi loknu fluttum við Lilja uppá Akranes þar sem ég gegndi starfi bæjarritara um 5 ára skeið, eða þangað til mér bauðst vinna við hagrannsóknir hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga til reynslu um eins árs skeið. Það var einmitt þá, þegar reynslutímanum var að ljúka, sem Bjössi Hermanns kom í heimsókn í Sóltún þar sem við bjuggum. Hann hafði verið gerður út af félögum sínum í Pólnum til að kanna hvort ég væri tilkippilegur í starf framkvæmdastjóra Pólsins. Þar með lauk sveitastjórnarstörfunum og við tók ævintýrið í Pólnum, þróun og framleiðsla tölvuvoga fyrir fiskiðnaðinn. Bjössi var lengst af í stjórn Pólsins og við áttum gott samstarf á þeim vettvangi.

En svo skildu leiðir enn um sinn þegar við Lilja fluttum í Mosfellsbæinn og Bjössi réðist til starfa sem sveitarstjóri á Laugabakka. Hann undi hag sínum vel norðan heiða, en um sinn hittumst við varla nema af tilviljun. Þar kynntist hann seinni konu sinni Margréti Ásmundsdóttur og eignuðust þau saman 2 dætur.

Mér er afar minnisstæð sjóferð sem við fórum saman á seglskútunni Alexöndru í júní 2009. Við nutum kyrrðarinnar saman sem fylgir því að sigla, ræddum það sem á dagana hafði drifið frá því við fluttum frá Ísafirði og það voru endurnærðir menn sem stigu aftur á land í Bryggjuhverfishöfninni. Dóttir hans Herdís Lilja var með í þessari ferð ásamt sonum mínum og á þessi sjóferð gullinn sess í minningunni.

Þegar Bjössi kom í bæinn út af lyfjameðferð, eða í uppáhellingu eins og hann kallaði það, kom hann oft við hjá okkur í Ísfirðingahreiðrinu í gamla Morgunblaðshúsinu í Kringlunni, en þar vorum við með skrifstofur í nábýli, Árni Búbba og hans börn Martha og  Arnar Þór, Haraldur Líndal fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði og Skúli sonur Sigga kennara og ég. Hann talaði af æðruleysi um þennan illvíga sjúkdóm, sem að lokum lagði hann að velli langt um aldur fram.

Við Lilja sendum öllum börnum hans og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um Björn Hermannsson lifa með okkur öllum.

Ásgeir Erling og Lilja.

Ja, þessi Björn! var sagt um Björn bróður minn að gefnu tilefni fyrir löngu síðan. Við sögðum þetta alloft, systkinin, þegar við sátum hjá Birni bróður okkar ásamt börnum hans síðustu sólarhringana áður en hann kvaddi, aðfararnótt 27. apríl sl. því hann kom okkur sífellt á óvart með baráttuþreki sínu og óvæntum athugasemdum. Höfðum reyndar sagt þetta oft þau 6 ár sem hann barðist af þrautseigju við krabbameinið.

Það voru forréttindi að alast upp í stórum systkinahópi á Ísafirði og á sumrin inni í Skógi í Tungudal, innst í Skutulsfirði. Við vorum 6 systkinin, fædd á rúmlega 8 árum og hópurinn því þéttur. Inni í Skógi var næstum alltaf sól og blíða og rigningin góð. Þar var kjörlendi barna til alls konar leikja, fjölbreyttrar umgengni við náttúruna og gott samfélag Skógarbúa. Skógurinn hefur alltaf átt í okkur sterk ítök og þangað sótti Björn hugarró á erfiðum stundum. Hann er sá fyrsti til að yfirgefa hópinn.

Björn var fljótur til svars, hnyttinn í tilsvörum og í þeim tamdi hann sér snemma orðaleiki og útúrsnúningsrök. Þegar yngri systir hans vildi ekki sækja stráknum vatnsglas sagði hann við hana: Það stendur í Biblíunni að það sé bannað að neita þyrstum manni um vatn. Björn var glaðsinna og hrókur fagnaðar í hópi, sagði vel sögur, einkum gamansögur og átti ekki langt að sækja það, gat verið stríðinn, henti gaman að fólki og sérstaklega sjálfum sér. Hann stundaði fjölbreytt störf og víða um land og féll alls staðar vel í hópinn.
Björn var mikill barnakall og sinnti börnunum sínum afar vel og lítil frændsystkin sem komu til dvalar hjá ömmu og afa í Skóginum á sumrin áttu í honum skemmtilegan, stríðinn en ekki síst umhyggjusaman frænda sem þau mátu mikils.

Björn hafði yndi af tónlist. Sem unglingur lærði hann á althorn og hélt virðulega eins manns tónleika í stofunni heima á Engjavegi fyrir fjölskylduna! Hann spilaði í lúðrasveit á Ísafirði og söng í karlakórum, bæði á Ísafirði og í Húnavatnssýslum. Árin sem hann bjó í Búðardal þurfti hann æði oft að keyra til Reykjavíkur til lækninga. Eitt sinn að vetrarlagi keyrði hann vestur í leiðindaveðri en var búinn að skipuleggja ferðina eins og sannur Vestfirðingur þannig að hann átti alltaf að vera á undan veðrinu. Bróðir hans hafði þó áhyggjur af því hvernig honum gengi ferðin og reyndi nokkrum sinnum að ná til hans í síma en Björn svaraði ekki fyrr en hann var kominn heim. Aðspurður af hverju hann hefði ekki svarað í símann sagði hann: Nú, ég var að syngja...

Björn var gegnheill Ísfirðingur og hann kunni sögur að vestan sem hæfðu öllum tilefnum. Jafnvel þegar hann var hrjáður af köldu síðustu dagana bar hann líðan sína saman við líðan vörubílstjórans sem þurfti að keðja upp á vestfirskri heiði um vetrarnótt og sagði seinna að sér hefði verið svo kalt að fölsku tennurnar hefðu skolfið uppi á kæliskápnum heima á Ísafirði þar sem hann gleymdi þeim.

Það var svolítið undarleg tilhugsun að Björn skyldi flytja frá Ísafirði. Í mínum huga átti hann bara að vera þar. Alltaf. Þó var það kannski ég sem græddi mest þegar hann flutti með fjölskyldu sína að Laugarbakka í Miðfirði árið 1994 því hann var þá kominn nær Króknum! Á Laugarbakka var hann sveitarstjóri í 4 ár, flutti síðan til Hafnarfjarðar og var þá kominn á æskuslóðir móður okkar en árið 2009 flutti hann til Búðardals og bjó þar til síðustu áramóta þegar hann fékk vinnu við Keili háskólabrú. Við glöddumst öll innilega við það, þá var hann loks kominn nær börnunum sínum og þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann var orðinn svo háður. En hann fékk ekki að njóta þess lengi, því fljótlega gerði krabbameinið hörðustu atlöguna. Hann var lagður inn á deildina sína þann 9. mars og átti ekki afturkvæmt þaðan nema dag og dag þegar hann gat skroppið heim eða út með börnunum sínum, systkinum eða vinum. Þá naut hann þeirra mannkosta sem höfðu aflað honum vina og velvildar gegnum tíðina. Umhyggja vina og þeirra sem sinntu honum í veikindum hans verður aldrei fullþökkuð, hvort sem um er að ræða lækninn hans, hana Hlíf, eða vinkonur hans sem sinntu honum á deildinni, þær voru barasta yndislegar. Allt fram á síðustu dagana fyrir andlát hans var verið að leita leiða til að finna honum lækningu. Hann var með þetta allt á hreinu en einhverju sinni fannst honum þetta vera orðið heldur flókið og að sumir vissu orðið meira en hann sjálfur. Hringdi í systur sína og spurði: Hvað er að frétta af mér...? Ja, þessi Björn...

Einnig ber að þakka nýjum yfirmönnum hans á Keili, sem sýndu honum þá virðingu að halda starfinu fyrir hann, þrátt fyrir þung veikindi.

Björn var tækjamaður og tileinkaði sér tölvufærni og samskiptahætti sem net- og símatækni færði með sér. Eftir fermingu Áslaugar, næst yngstu dóttur hans, þann 1. apríl sl., sendi hann okkur systkinum þessi skilaboð: Sæl systur og bræður. Takk fyrir allt í sambandi við ferminguna. Elska ykkur öll. BH Nú sný ég þessu við: Elsku Björn. Takk fyrir allt, alltaf. Elskum þig öll.

Ásdís S. Hermannsdóttir.