Erna Björg Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 4. apríl 1968. Hún andaðist á krabbameinsdeild, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, 13. maí 2012. Foreldrar hennar voru Bjarni Ólafsson, framkvæmdastjóri og ráðgjafi, f. í Reykjavík 13. apríl 1941, d. 11. nóvember 2004 og Alda Magnúsdóttir, sjúkraliði, nuddari og jógakennari, f. Í Reykjavík 13. apríl 1943. Erna Björg átti tvo bræður, þeir eru: Ólafur Árni, félagsliði og söngvari, f. í Reykjavík 18. júní 1962, og Markús, tónlistarmaður og nemi, f. í Reykjavík 9. janúar 1979. Erna Björg átti einn son: Andra Frey Halldórsson, athafnamann, f. í Reykjavík 10. febrúar 1987, dóttir hans er Ásdís Freyja, f. 21. desember 2011. Unnusta Andra Freys er Tara Gunnarsdóttir, f. 17. nóvember 1986. Erna Björg var fædd og uppalin í Reykjavík. Fyrstu árin bjó hún ásamt fjölskyldu sinni í Safamýri, síðan í Álftamýri, á Reynimel og Meistaravöllum og seinast á Hagamel, allt í vesturbænum. Erna Björg bjó ásamt syni sínum Andra Frey fyrstu árin í vesturbæ Reykjavíkur, Seltjarnarnesi og Kaupmannahöfn. Hún keypti síðan íbúð í Meðalholti fyrir austan læk þar sem hún bjó sér og syni sínum heimili í mörg ár. Erna Björg bjó seinustu árin á Reynimel. Erna Björg gekk í Melaskóla og Hagaskóla. Hún lærði sjókokkinn og fór í Ferðamálaskólann. Erna kom víða við en starfaði mestmegnis við sölu- og markaðsstörf, aðallega tengt hótelrekstri og ferðamálum. Erna Björg tók meiraprófið fyrir tveimur árum og var í námi þegar hún veiktist. Erna Björg verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag, 24. maí 2012, og hefst athöfnin klukkan 13.
Með trega í hjarta og tár á hvarmi reyni ég að skrifa nokkur minningarorð um systur mína Ernu Björg.
Það kom öllum á óvart að Erna færi svo skyndilega sem raunin varð. Þrátt fyrir að vera búin að berjast við alvarlegt krabbamein í tæpt ár þá var hún á leið til sólarlanda með syni sínum og fjölskyldu hans. Hugur minn er hjá þeim og móður minn á þessum erfiðu tímamótum.
Það er skrýtið hvað kemur upp í hugann þegar ég leiði hugann til baka. Einhverra hluta vegna get ég ekki hætt að hugsa um Högna köttinn hennar Ernu Bjargar sem hún skildi eftir handa mér, vil ég meina, á Hagamelnum forðum daga. Mikið sem við elskuðum þennan högna. Hún hafði fundið hann, ungan kettling, einhversstaðar í garði og komið með heim. Hann lifði í 16 ár og alltaf var hann kötturinn hennar sama hversu mikið ég reyndi að eigna mér hann. Á milli okkar eru 11 ár og systir mín því flutt að heiman þegar ég byrja að muna eftir mér. Alltaf var hún að gera eitthvað spennandi , eins og að keyra mótorhjól, vinna á togara eða á ferðalagi. Hún bjó með okkur aftur um tíma þegar Andri Freyr sonur hennar fæddist en flutti fljótlega til Danmerkur. Hún flakkaði mikið um tíma, en ég man að alltaf voru kettir á heimilum hennar þó svo enginn þeirra kæmist í hálfkvisti við Högna gamla.
Þegar ég varð eldri og var að byrja að fóta mig í lífinu var hún alltaf boðin og búin að leggja til hjálparhönd. Ég bjó til dæmis í kjallaranum í Meðalholti um tíma. Hún leyfði mér alltaf að vera ég og var ekkert að fetta fingur út í það þótt oft væri ég í sitthvorum sokknum. Heima hjá henni var alltaf allt hreint og fínt og allir hlutir á sínum stað. Það var alltaf notalegt og heimilislegt í stofunni hjá systur minni. Hún var áhugasöm og einbeitt móðir sem gerði alltaf sitt besta fyrir son sinn. Alltaf hafði hún mikinn áhuga á því sem ég var að gera í tónlist eða myndlist og safnaði öllum blaðaúrklippum og hengdi upp myndir. Hún mætti á marga tónleika og þreyttist ekki á að hvetja mig til dáða og segja mér hversu mikið hún hlustaði á diskana. Þetta var ómetanlegt sé ég núna.
Þegar ég eignaðist síðar fjölskyldu og son, var hún alltaf að spyrja frétta af Kára mínum og dýrkaði að vera með honum að leika. Við hittumst öll seinast á leikvellinum fyrir utan Reynimelinn þar sem við komum með melónur og gerðum litla lautarferð. Hún átti svo auðvelt með að ná til Kára og ég veit að hann mun sakna hennar. Daginn eftir að ég reyndi að útskýra af veikum mætti fyrir Kára að Erna væri farin upp til himna, spurði hann hvort hún væri hærri en trén. Ég sagðist halda það og hélt áfram og reyndi að útskýra að hún er líka áfram til í huga okkar allra, í minningum og að við getum talað við hana áfram í huganum.
Mér fannst ég alltaf vera að kynnast systur minni betur eftir því sem við urðum eldri því ég man ekki mikið eftir henni í uppvexti mínum. Mitt samband við hana var algjörlega einstakt því ég var hennar eini litli bróðir og hún var mín eina stóra systir. Í þessum ótrúlega erfiðu veikindum, komst ég að því að ég þurfti ekkert að gera heldur bara að vera. Vera hjá systur minni, biðja með henni og reyna að gefa henni allan minn kraft og alla mína von. Í seinustu heimsókn minni á spítalann áttum við góða stund saman. Við fundum bæði frið og kærleika. Hún þakkaði mér fyrir og sagði að það væri alltaf svo gott þegar ég kæmi. Mikið dýrmæti er þessi minning og ég trúi því að Erna Björg sé nú komin á friðsælan og hamingjuríkan stað.
Seinustu árin í hennar lífi varð trú og andlegt líf fyrirferðarmeira og hún sótti mikinn styrk og æðruleysi í bænina. Ég vil þakka öllum þeim sem báðu fyrir systur minni í veikindum hennar og veittu henni styrk. Einnig þeim fjölmörgu sem með félagsskap sínum og nánd hjálpuðu henni í gegnum erfiða tíma í veikindunum.
Erna Björg lifir áfram í syni sínum og barnabarni. Hún lifir áfram í huga mínum og hjarta. Í huga mínum þá er hún lífsglöð og kraftmikil kona sem naut sín best á ferðalagi að skoða nýja staði, læra nýja hluti og kynnast nýju fólki.
Markús Bjarnason.