Ragnar Höskuldsson fæddist í Reykjavík 10. maí 1957. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans 19. maí 2012. Hann var sonur Höskuldar Jónssonar f. 1925, d. 1995 frá Tungum í Bolungarvík og Elínar Gísladóttur f. 1927, d. 1993 frá Melhól í V-Skaftafellssýslu. Systkini Ragnars eru Guðný Höskuldsdóttir f. 1953, í sambúð með Magnúsi Einarssyni í Kjarnholtum. Gísli Jón Höskuldsson f. 1955 í sambúð með Sigrúnu Einarsdóttur, synir þeirra eru Sindri Snær og Elías Nökkvi. Ármann Höskuldsson f. 1960 giftur Svölu Rún Sigurðardóttur, Ármann á eina dóttur, Elínu Margot. Elín Höskuldsdóttir f. 1964 gift Gunnari Svan Ágústssyni, börn hennar eru Tinna Dögg, Hildur Ýr og Inga Hanna. Ragnar skilur eftir sig konu, Guðrúnu Gunnarsdóttur, f. 10. júní 1962 og áttu þau saman tvíburana Andra Ragnarsson f. 18. október 1983, d. 22. júlí 2007 og Anitu Ragnarsdóttur f. 18. október 1983, í sambúð með Pétri Erni Péturssyni. Guðrún á son með fyrrum sambýlismanni sem Ragnar ól upp sem sinn eigin son, Ragnar Haraldsson f. 20. febrúar 1981. Hann á eina dóttur, Láru Rún Ragnarsdóttur f. 5. ágúst 2003. Ragnar bjó ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavík og vann hann við hin ýmsu störf yfir ævina, meðal annars sem rútubílstjóri og smiður en undanfarin ár starfaði hann sem verktaki í byggingariðnaðinum. Ragnar var jarðsunginn frá Háteigskirkju 29. maí 2012.
Minning um góðan dreng. Ég kynntist Ragga lítillega í fluginu á leiðini
til Zagreb, en það var ákvörðunarstaðurinn sem við félagarnir stefndum á.
Við lögðum af stað frá Leifsstöð að morgni 29. nóv. 1994. kl. 06.00, 14
vaskir Íslendingar til Zagreb Króatíu, við höfðum allir sótt um vinnu hjá
Sameinuðu þjóðunum og fengið meldingu og farseðil. Á leiðini var meðal
annars lent í Osló, Stokkhólmi, Frankfúrt og síðast áttum við að lenda í
Zagreb en þar var blinda þoka og því ekki hægt að lenda þar, en þá var
snúið til baka og lent í Grats í Austurríki. Þar voru allir farþegar settir
í rútu sem skildi keyra okkur til Sagreb í gegnum Slóvaníu og eftir langt
og strangt ferðalag komum við loks á leiðarenda góðum 22 tímum eftir
brottför. Við fórum í þjálfunarbúðir hjá ameríska hersjúkrahúsinu eða
(MASK) og þar var okkur kennt hvað skyldi forðast og hvað mætti og hvað
mætti ekki. Þar sem við erum ekki herþjóð þurftum við að taka vel eftir
reglunum. Svo tókum við bílpróf þar sem við féllum öll með tölu og nú voru
góð ráð dýr, við þyrftum að standast meiraprófið þar sem við réðum okkur á
meiraprófsbíla, þar sem ekkert okkar hafði keyrt vörubíl með beislisvagni
og er það svolítið öðruvísi en hinn hefbundni trailer sem við vorum öll
vön. Við fengum öll að æfa okkur í 15 mínutur hvort og náðum prófinu með
stæl. Finnarnir höfðu orð á því hversu miklir snillingar væru hér á ferð
eftir aðeins 15 mínútna æfingu sem var aksturinn í prófinu og var
óaðfinnanlegur hjá hverju okkar. Því næst fengum við Sameinuðu þjóða
skírteinin okkar og verkefnin. Við Nonni (Jón Hafsteinsson) áttum að búa í
Bosníu en hinir skyldu búa í Zagreb og Raggi, Siggi, Axel og Eyjólfur
skyldu búa í Hafnarborginni Split. Desembermánuður leið fljótt og nú
skyldum við Nonni halda jólin saman hjá strákunum í Split. Ég kom með farm
til Split og þá máttu menn ekki ferðast einir þegar um einn bíl var að ræða
og ég spurði strákana sem bjuggu í Split hvort einhver þeirra gæti komið
með mér til baka til Bosníu svo að ég gæti haldið með þeim jól, ég var með
mann frá Bosníu og hann skyldi fara til Bosníu með mér og þá þyrfti einn af
strákunum að koma með mér svo að ég gæti komist aftur til Split. Þar sem
þeir voru nú komnir í frí og byrjaðir að drekka og slappa af var Raggi eini
strákurinn sem vildi leggja á sig tæplega 20 stunda bíltur svo að ég gæti
haldið jól og áramót með þeim. Bosnía og UN var æðislegt ævintýr og gerðust
margir skemmtilegir atburðir þar. Við ferðuðumst meðal annars saman til
Vínar í Austurríki á þorrablót til að hitta aðra Íslendinga í Evrópu og svo
fórum við saman á Formúlu 1 kappakstur í San Marínó svo fátt eitt sé nefnt.
Í vinnunni notuðum við talstöfvar og gátum heyrt í hvorum öðrum víðs vegar
um UN svæðið, þannig að við vorum ekki eins einir og við virtumst. Það að
vinna í Bosníu var stundum subbulegt, það var jú stríð hjá þeim og það sem
við sáum var ekki alltaf fallegt, en sumir okkar gátu leitt hörmungarnar
hjá sér og á meðan ég starfaði þarna niður frá tókst mér það líka. Landið
Júgóslavía er mjög fallegt og fólkið yndislegt en stríð eru alltaf
sorgarsaga.
Ég kynntist og trúlofaðist konu frá Bosníu og kom með heim til Íslands að
loknu starfi mínu fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Við vorum flestir eitt ár
þarna og snerum aftur heim til Íslands, það er einn af þessum 14 eftir að
vinna fyrir UN, hann Birgir og býr og starfar í Líberíu. Eftir að heim var
komið sneru flestir til fyrri starfa og árin liðu í miklum vinsap t.d.
ákváðum við Raggi að fara saman í Evrópureisu á bílunum okkar, ég fór á
Subaru-bíl mínum og Raggi, Guðrún, Anita og Andri heitinn sonur þeirra sem
lést 2007. Við tókum Norrænu og heimsóttum Sigga en hann býr á Jótlandi í
Dannmörku og svo kíktum við á Evrópu saman og lentum í allskyns ævintýrum.
Bíllin minn bilaði og ég for fyrr heim og ákvað að kíkja í heimsókn til
vina okkar í Færeyjum sem við kynntumst í Norrænu á leiðini út. Í kjölfarið
leist mér vel á Færeyjar og ég flutti til Færeyja árið 2000 og bjó þar í
eitt ár. Á þessu ári kom Ragnar einn vina minna í heimsókn til mín og
eyddum við skemmtilegri viku saman í Færeyjum. Svo þegar ég flutti aftur
bauð ég Ragga með mér út til að ná í bílana og hann keyrði annan bílinn í
ferjuna og frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Það voru engin takmörk fyrir
örlæti Ragga, hann gaf vinum sínum mikinn tíma. Við stofnuðum bílaklúbb
saman (Fordfélagið) ásamt 9 öðrum strákum og þar á meðal Hannesi heitnum
Helgasyni kenndan við Góu sem lést í águst 2010. Ég gæti skrifað heila bók
um allar þær skemmtilegu ferðir okkar um þetta fallega land okkar Ísland,
margar ferðir að Flúðum, Dalvík og að ógleymdum ferðum okkar í
Laufskálarétt Hólum í Skagafyrði sem ég hef farið í síðan 1998 að frátöldu
ári 2000 og til ársins 2011. Í þær ferðir hafa farið Nonni, Raggi, Emmi,
Bjartur, Aggi litli, Stjáni Píp og Kristján á Akureyri, þessi kjarni og
ýmsir aðrir í gegnum árin á Ford Ekonoline-bílunum mínum. Allar hafa þessar
ferðir verið óborganlegar og verður erfitt að fara í réttir án Ragga okkar.
Í mörgum þessum ferðum átti Raggi það til að versla jafnvel 15-20 Irish
coffee og bjóða þeim sem sátu við borðið okkar eða ferðuðust með okkur. Í
öllum okkar ferðum var Raggi fyrstur á fætur og oftast búinn að fara í sund
og kominn til baka áður en við hinir vöknuðum. Raggi hefur frá því að ég
kynntist honum farið í sund alla morgna og verið mikið hraustmenni.
Það eru margar góðar sögur sem ég gæti sagt um Ragnar Höskuldsson en þær
verða bara að koma síðar. Ég vil þakka fyrir að hafa fengið að kynnast
Ragnari og fjölskyldu hans. Það hefur lengi staðið til að heimsækja Bosníu
og UN svæðið með strákunum en tíminn hefur ekki gefist til þess. Þegar við
svo förum að skoða Bosníu saman síðar er ég viss um að Raggi lætur sig ekki
vanta, hann hafði alltaf gaman af að ferðast í góðra vinahópi. Góða ferð
kæri vinur og takk fyrir allt.
Þinn vinur,
Snorri Vignir Vignisson.